Forseti ASÍ segir að ákvörðun Icelandair, um að segja upp flugfreyjum og láta flugmenn tímabundið starfa sem öryggisliða um borð í vélum sínum, verði mætti með hörku.
„Þeir eru að sýna starfsfólki sínu fullkomna lítilsvirðingu og þetta verður ekki látið viðgangast. Það er verið að leita allra leiða til að bregðast harkalega við þessu,“ segir Drífa Snædal, forseti ASI, í samtali við mbl.is.
Eins og fram hefur komið hefur Icelandair ákveðið að slíta kjaraviðræðum við Flugreyjufélag Íslands. Sér Icelandair sig ennfremur knúið til að segja upp þeim flugfreyjum og flugþjónum sem starfa hjá félaginu og ætlar að hefja viðræður við annan samningsaðila á hinum íslenska vinnumarkaði, um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu.
„Þetta horfir þannig við okkur að Icelandair er að fara í undirboð – fara gegn þeim leikreglum sem hafa gilt á vinnumarkaði hingað til,“ segir Drífa við mbl.is um ákvörðun félagsins að segja upp flugfreyjum og láta flugmenn tímabundið starfa sem öryggisliða um borð í flugvélum.