Föstudagur 15. nóvember, 2024
-2 C
Reykjavik

Drög lögð að tveimur seríum til viðbótar af Verbúð: „Það er enginn góður eða vondur í þessari sögu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við erum með hugmyndir að tveimur seríum í viðbót,“ segir Björn Hlynur Haraldsson, leikari og einn af handritshöfundum Verbúðarinnar sem sýnd er á RÚV þessar vikurnar. Þættirnir hafa slegið rækilega í gegn og fékk Reynir Traustason, ritstjóri Björn Hlyn til að fara yfir það hvernig hugmyndin af þáttunum hafi byrjað og hvort þau hafi íhugað framhaldsþætti.

Björn segir að ekkert sé borðleggjandi. „Þetta er alltaf sama peningamálið. Það þarf nokkur hundruð milljónir í svona eins og er með ,næstum því hverja einustu kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu á Íslandi, en þá leggi þeir sem að þeim standa allt í sölurnar: Tíma, pening og feril. „Það er alltaf þannig.“

Hvað með áhuga erlendis? „Það er byrjað nú þegar. Það er búinn að vera áhugi á Verbúðinni síðan þátturinn var á handritsstigi.“

Hugmyndin að Verbúðinni er bún að vera lengi í vinnslu.

„Við vorum með hugmynd að smábæjarsögu en það verður að vera grunnur að öllum sögum. Einhver rót. Við ætluðum að gera persónugallerí sem gerðist jafnvel í smábæ á Íslandi, en svo nefndi við okkur norskur handritshöfundur, kunningi Gísla (Gísla Arnar Garðarssonar), að það væri sniðugt að tengja þetta við kvótamálið. Við fórum að skoða hvort það gæti verið partur af því og svo með tímanum tók það yfir. Við erum alltaf með fullt af hugmyndum, alls konar sögur, en stundum fer það ekki af stað af því að það vantar oft lykilinn að einhverju; það gætu verið áhugaverðar persónur og einhver framvinda en það vantar oft lykilinn að einhverju.“

Þau sem standa að Verbúðinni fóru síðan að skoða þessa sögu. Þennan tíma. „Við áttuðum okkur á að við vissum ekki baun í bala hvernig þetta gerðist.“

- Auglýsing -

Þau töluðu þess vegna við ýmsa aðila. „Við þurftum náttúrlega að rannsaka þetta vel. Við vissum ekkert um þetta og þess vegna fórum við af stað. Við vissum hvað hafði gerst en við vissum ekki hvernig það gerðist og af hverju það gerðist. Allavega ekki hvernig það gerðist.“

Við erum að segja sögu en þetta er byggt á hlutum sem gerðust

Björn Hlynur segir að Verbúðin sé skáldskapur byggður á raunverulegum atburðum. „Við verðum að leyfa okkur að fara svolítið frjálslega með staðreyndir. Við erum að segja sögu en þetta er byggt á hlutum sem gerðust.

Gísli Örn Garðarsson og Björn Hlynur Haraldsson á tökustað á Suðureyri.
Mynd: Reynir Traustason

Við skoðuðum líka hvernig fólk hefur verið að gera þetta í gegnum tíðina við að segja sögur. Oliver Stone kvikmyndagerðarmaður fór mjög frjálslega með þegar hann gerði John G. Kennedy-myndina eða Nixon; þú ert alltaf með þitt perspektív á hlutina. Hann er með mjög skýran fókus og myndirnar hans eru eins og honum finnst sagan vera hvernig Kennedy var drepinn og hvernig Watergate var í kringum Nixon. Við erum reyndar ekki alveg að fara þangað; við erum eiginlega að segja „þetta finnst okkur“ á mjög hlutlausan hátt.

- Auglýsing -

Við erum að leggja upp að það er komið vandamál, ofveiði og það þurfi eitthvað að gera. Það er sett upp eitthvað kerfi sem er svo endurskoðað á hverju ári. Svo er fínt að geta horft til baka, en það eru ca. 40 ár síðan menn byrjuðu að tala um þessa hluti. Eins og það er talað í þáttunum um þessa frægu svörtu skýrslu sem kom út. Ég veit ekki hvort það hefði verið hægt að gera þessa seríu 1986 eða 1991. En það er fínt að geta horft til baka og séð hvernig þetta er núna, hvernig þetta gerðist og hvernig þetta hefur stigmagnast í gegnum árin þannig að ég held að það sé fullkominn tími núna til að segja þessa sögu.

Þetta er eins og að fara í nám í máli eins og kvótamálinu

Það sem er ánægjulegt við það að búa til sögur er að fara í svona rannsóknarvinnu og skoða hvað raunverulega gerðist. Þetta er eins og að fara í nám í máli eins og kvótamálinu. Við vildum búa til sjónvarpsseríu þar sem fólk myndi fá þau áhrif sem við vorum að fá þegar við vorum að skoða hvað raunverulega gerðist. Og vonandi verður það þegar við verðum búin að sýna alla seríuna að fólk hugsi „já, svona var þetta“.“

 

Dramatík á skemmtilegan hátt

Björn Hlynur segir að þau hafi vitað að ef það átti að fjalla um kvótakerfið eða kjarabaráttu fiskverkafólks á Vestfjörðum árið 1984 þá yrði að hafa þetta 50/50.

„Það verður að vera einhver þungi og vikt í því, dramatík, en það verður að vera sagt á skemmtilegan hátt. Þannig er okkar smekkur kannski líka,“ segir hann; það verði einhver skemmtilegheit að vega upp á móti dramatík og pólitík. „Þess vegna heitir þetta Verbúðin. Þetta er ekki um Verbúðina; við höfum talað um að verbúðin sé grunnurinn að kraftinum í sögunni. Þar er einhver orka sem er skemmtilegt og þegar farið er inn í verbúðina þá er alltaf eitthvað kraumandi og skemmtilegt í gangi. Fólk talar í mikilli rómantík um verbúðirnar.

Ég var of ungur til að upplifa það sjálfur á þessum tíma en þetta hafa verið svakalegir staðir. Þetta hefur verið erfitt líf og helvítis keyrsla en það er samt alltaf talað um þetta verbúðarlíf í fortíðardýrðarljóma. En það er helst þessi orka, grunnorka Íslendinga, sem er þessi fíflalega of mikla keyrsla sem oft keyrir okkur um koll oftast á endanum. Þar er þessi grunn íslenska orka þar sem sagan er sögð. Svo eru sögur úr þessum verbúðum; við segjum mest þessar jákvæðu og skemmtilegu sögur. Það var mikið fyllerí og mikið djamm og djús og fólk vann mikið og fékk kannski góðan pening. En þaðan er orkustöðin okkar; verbúðin.“

Það er enginn góður eða vondur í þessari sögu

Þetta er bara venjulegt íslenskt alþýðufólk sem er að reyna að gera gott fyrir sig eða samfélag sitt. Þetta gera þær til þess að lifa af? Það er enginn góður eða vondur í þessari sögu. Þetta er bara venjulegt íslenskt alþýðufólk sem er að reyna að gera gott fyrir samfélagið sitt og sig sjálft. Svo mætir það alltaf einhverjum hindrunum; og hvenær förum við að beygja aðeins reglurnar og taka ekki mark á reglunum af því að þær eru alltaf að breytast? Þetta eru þessar sögur sem við heyrðum þannig að við settum þetta þarna inn. Við búum til heim og heimurinn er þetta tímabil en heimurinn er eins og minning okkar um tímabilið.“

Björn Hlynur segir að það sé verið að tvinna saman pólitíska sögu og fjölskyldusögu. Sögu af venjulegu fólki. Íslensku alþýðufólki, eins og þegar hefur komið fram, sem er að búa sér til einhverja framtíð.

„Það verður að vera einhver tenging alltaf til dæmis við aðalpersónuna, Hörpu, sem Nína Dögg leikur. Við þurfum alltaf að sjá hvar hún er stödd. Við heyrðum fullt af sögum og hvaða áhrif höfðu þessar sögur á okkar aðalpersónu? Það verður alltaf að vera út frá henni af því að við erum alltaf að upplifa allt með henni. Það verður alltaf að vera saga aðalpersónunnar sem skiptir öllu máli. Þessar sögur sem við erum með inni í okkar seríu eru skemmtilegt krydd og við nýtum okkur ýmsa atburði; jú, það var visst brennivínsmál í gangi og við skautum aðeins inn í það bara til að tengja það við eina af aðalpersónunum.

Það var verið að setja aðra fiskitegund ofan á það sem raunverulega var verið að veiða; það er ekkert aðalatriði í seríunni en það er bara til að varpa ljósi á hvað aðalpersónan okkar er að gera núna. Hún sendir strákana út til Bretlands í miðju verkfalli. Ég man ekki hvort það hafi gerst raunverulega, en við allavega búum þetta til af því að við erum alltaf að vinna með alpersónuna okkar; hvað hún er að gera, hvað hún þarf að gera til að lifa af. Svo hittir maður fólk úti á götu sem segir að menn hafi aldrei fengið peninga í töskur; segist hafa verið í þessum bransa og það hafi aldrei verið þannig eða þá að sjómenn hafi ekki fengið afmetamín frá útgerðinni til þess að halda áfram að vinna. En við heyrðum samt sögur af því; við nýtum það bara sem skáldskap í okkar skálduðu persónur.“

Ótrúlega ánægjulegt

Björn Hlynur segir að Verbúðin sé það verk sem hann hefur komið að sem hafi fengið mestu viðbrögðin.

Á tökustað Verbúðarinnar á Suðureyri.

„Stundum gefur maður allt í eitthvað og svo fuðrar það upp og maður hugsar hvers vegna í ósköpunum það náði ekki í gegn.“ En svo er það Verbúðin. „RÚV á sunnudagskvöldi í Covid klukkan níu þar sem allir eru svolítið lokaðir inni; það eru margir að horfa á sjónvarpið þá. Svo einhvern veginn hitti þetta strax með fyrsta þætti.“ Og margir mynduðu sér skoðun á þættinum. „Það eru allir að tala um þetta. Það er ótrúlega ánægjulegt.“

Það er mikilvægt að segja sögur af okkur sjálfum; stórar, íslenskar sögur úr okkar samtíma

Björn Hlynur talar um í hvað eigi að setja peningana.

„Ég er ekki að segja að við eigum að setja peninga í kvikmyndagerð frekar en til dæmis heilbrigðiskerfið, leikskólana eða skólana; ég er ekki að meina það. En hve nauðsynlegt er þetta fyrir okkur? Ég held að það sanni sig svolítið eins og núna; þetta er ansi mikilvægt. Það er mikilvægt að segja sögur af okkur sjálfum; stórar, íslenskar sögur úr okkar samtíma. Það er ekki upp á líf og dauða að búa til kvikmyndir og sjónvarp, en áhrifin eru ansi mikil inn í samfélagið núna og það er ótrúlega gaman að fylgjast með því.“

 

 

Viðtalið við Björn Hlyn er að finna hér.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -