- Auglýsing -
Undanfarið hafa íbúar í Innri-Njarðvík orðið varir við skuggalegar mannaferðir við hús sín eftir að skyggja tekur. Umræddur aðili eða aðilar læðast að húsum og taka í hurðarhúna til að athuga hvort ólæst sé. Strax og íbúar fara á kreik hverfur skuggabaldurinn.
Lögreglu hafa borist tilkynningar um einhver atvik af þessu tagi. Einn íbúi sem Mannlíf ræddi við sagðist hafa hrokkið við í gærkvöld þegar tekið var í hurðarhún á heimili hans og reynt að opna. Sá var horfinn eins og jörðin hefði gleypt hann þegar íbúarnir svipuðust um eftir honum utan við hús sitt. Lögreglan skráði viðburðinn en er engu nær.
Á íbúasíðu Innri-Njarðvíkinga hefur fólk lýst áhyggjum af þessum Náttfara sem læðist um og er að reyna að komast inn í íbúðarhús.
„Eitthvað hefur verið um það að verið sé að taka í hurðarhúna í hverfinu okkar síðustu kvöld. Hvet alla sem verða varir við eitthvað óeðlilegt að hafa samband við 1-1-2.
Þið sem eruð með dyrabjöllur með myndavél eða eftirlitsmyndavélar við húsin ykkar megið endilega renna yfir efnið og koma því á lögreglu ef eitthvað er,“ skrifar áhyggjufullur íbúi og minnir fólk á að læsa húsum sínum og huga að húsum nágranna sinna.
Ráðgátan um Náttfara í Njarðvík er enn óleyst en fólk er á varðbergi.