Lögreglan í Norðurlandi eystra hefur ákveðið að hætta rannsókn vegna símamáls Páls Steingrímssonar skipstjóra. Sex sakborningar úr fjölmiðlastétt hafa verið leystir undan grun og geta um frjálst höfuð strokið. Ólíklegt er þó að málinu sé lokið þar sem Páll Steingrímsson íhugar að vísa málinu til ríkissaksóknara sem getur fyrirskipað lögreglunni að halda áfram með málið. Samkvæmt heimildum Mannlífs mun Páll beina spjótum sínum sérstaklega að Ríkisútvarpinu og þætti þess í framhaldinu.
Forsaga málsins er sú að fyrrverandi eiginkona Páls var í samráði við fjölmiðlafólk um að afhenda því síma fyrrverandi eiginmanns síns sem lá á sjúkrahúsi alvarlega veikur. Síminn var afhentur í höfuðstöðvum Ríkisútvarpins að Þóru Arnórsdóttur, þáverandi ritstjóra fréttaskýringaþátarins Kveiks, og Arnari Þórissyni, aðalframleiðanda þáttarins viðstöddum. Þriðji Ríkisútvarpsmaðurinn var kallaður til og hann tók við símanum og hvarf á braut. Líklegt er talið að hann hafi brotið símann upp. Konan hefur staðfastlega neitað að vita hver tæknimaðurinn í bakherberginu er og hvorki Þóra né Arnar hafa fengist til að upplýsa um nafn þess manns. Þarna strandar málið.
Gögn úr símanum bárust síðan til Stundarinnar og Kjarnans sem birtu fréttir af því sem kallað var skæruliðadeild Samherja. Yfirlýst var að hvorugur fjölmiðillinn hefði átt þátt í að sækja gögnin á sjúkabeð Páls. Athygli vekur að fréttamenn og tæknimenn Ríkisútvarpsins nýttu sér gögnin ekki í eigin þágu heldur framvísuðu þeim annað. Þeir komu því ekki að málum sem fjölmiðlafólk. Eftir að fréttir birtust á miðlunum tveimur þá tók Ríkisútvarpið þær upp og vitnaði til Kjarnans og Stundarinnar.
Fjölmiðlafólkið fagnaði í gær niðurstöðunni en harmaði jafnframt að hafa verið til rannsóknar allan þann tíma ssem um ræðir. Blaðamannafélag Íslands tók undir með þeim og fordæmdi framgöngu lögreglunnar og þá ekki síst langorða tilkynningu lögreglunnar á Facebook þar sem líklegt er talið að sök sé til staðar hjá einhverjum úr hópi hinna grunuðu. Páll Steingrímsson tekur í sama streng og íhugar nú næstu skref í málinu. Hann hefur tvo valkosti til að sækja málið áfram. Hann getur leitað til ríkissaksóknara eða farið í einkamál við Ríkisútvarpið og eftir atvikum aðra. Hann harmaði í gær niðurstöðu lögreglunnar.
„Það er erfitt að lýsa þeim tilfinningum sem bærast með manni eftir að hafa verið brotaþoli í lögreglurannsókn sem tekið hefur ríflega þrjú ár og lýkur núna með tilkynningu lögreglunnar um að hún hafi ákveðið að hætta rannsókn málsins. Þó að ég hafi haft það á tilfinningunni um nokkurt skeið að svona gæti farið er þessi ákvörðun lögreglunnar talsvert áfall. Ekki síst vegna þess að hún sýnir að sú taktík sakborninga að tefja, blekkja og afvegaleiða rannsókn málsins hefur gengið upp. Í það minnsta um sinn, því ég neita að gefast upp við að sækja réttlæti vegna þeirra árásar sem hópur fjölmiðlamanna gerði á fjölskyldu mína, því slík vinnubrögði mega aldrei verða endurtekin af þessum hóp …,“ skrifar Páll.
Sú spurning sem eftir stendur er sú hvenær réttlætanlegt sé að brjóta upp farsíma fólks í því skyni að birta opinberlega upplýsingar. Þá er því velt upp af þolanda málsins hvort hægt sé að skilgreina Ríkisútvarpið sem fjölmiðil í því samhengi að gögnum var komið áfram til annarra fjölmiðla. Ekki þykir leika vafi á því að blaðamenn miðlanna sem birtu fréttirnar eiga að njóta þeirrar stöðu sem felst í lagavernd fyrir fjölmiðla.
Allt þetta mál þykir fela í sér áfellisdóm yfir lögreglunni á Norðurlandi sem árum saman hefur verið að rannsaka mál sem gufar síðan upp. Þóra Arnórsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Kveiks og talsmaður Landsvirkjunnar, sagði við Mannlíf fyrr í vikunni að eðlilegt væri að lögreglan bæðist afsökunar á framgöngu sinni. Það kann að eiga við gagnvart fórnarlambinu ekki síður en blaðamönnunum sem birtu fréttirnar upp úr farsímanum.