Eitt af kennileitum fjallsins Hlöðufells er stöðumælir sem er kyrfilega festur niður á toppi fjallsins sem er 1188 metra hátt. Hlöðufell erá hálendinu ofan við Laugarvatn. Fjallið er ekki auðvelt uppgöngu um snarbrattar skriður og kletta. Aðeins er ein leið talin fær þangað upp án búnaðar til klifurs. Þegar komið er efst á fjallið blasir við þetta fræga en jafnframt dularfulla kennileiti, tvöfaldur stöðumælir sem ætlaður er fyrir mynt. Mannlíf átti leið um Hlöðufell á fimmtudag í liðinni viku og komst þá í návígi við stöðumælinn, sem hefur staðið af sér frost og storma á einu af hæstu fjöllum landsins í 13 ár. Hann haggaðist ekki þegar tekið var á honum og frágangurinn greinilega til fyrirmyndar.
Sigurður Harðarson rafeindavirki er sá sem vakti fyrst athygli á stöðumælinum. Hann segir í samtali við Mannlíf að mælirinn hafi ekki verið á fjallinu árið 2008 þegar hann átti leið um vegna fjarskiptasendis sem hann og félagar hans settu upp þar fyrir björgunarsveitirnar og jeppaklúbbinn 4×4.
Það er líklegt að þyrla hafi verið notuð
„Hann var kominn þangað upp þann 4. ágúst 2010 þegar ég kom á Hlöðufell. Mér virðist sem borað hafi verið fyrir honum. Það var hvergi að sjá neitt jarðvegsrask í kringum hann og það er mjög fast undir á þessum stað, við reyndum það þegar við komum endurvarpanum fyrir. Ég get varla ímyndað mér að menn hafi borið hann þangað upp á bakinu ásamt búnaði til að koma honum fyrir. Það er líklegt að þyrla hafi verið notuð,“ segir Sigurður sem féllst þó á að mögulegt hefði verið að rogast upp með flykkið.
Umræddur stöðumælir er tvíhöfða. Þannig mæla var að sjá í Reykjavík á árum áður. Til dæmis við Lækjargötu. Þeir voru aflagðir áður en mælinum var komið fyrir á Hlöðufelli og því víst að menn hafi tekið hann sér til handagagns án þess að valda tjóni.
Sigurður segist ekki hafa hugmynd um það hverjir voru þarna að verki en ljóst sé að þar voru gárungar á ferð. „Ég veit ekkert um það en það er forvitnilegt að vita hvernig þetta gerðist,“ segir Sigurður sem reglulega fer með þyrlu á Hlöðufell til að fylgjast með endurvarpanum.
Hvergi er að finna skráðar heimildir um það hver kom stöðumælinum fyrir á fjallinu og í hvaða tilgangi menn lögðu á sig vinnu við að festa hann niður. Mannlíf spurðist fyrir um málið og fékk þær upplýsingar hjá einum göngugarpi að líklega hefðu þarna hefpu verið á ferð námsmenn frá Laugarvatni. Annar taldið að gárungar frá Selfossi hefðu staðið fyrir þessum gjörningi.
Þeir sem þekkja svarið við ráðgátunni mega gjarnan senda upplýsingar á [email protected].