Lögregla handtók í gærkvöldi þrjá erlenda einsaklinga sem grunaðir eru um að hafa dvalið í landinu ólöglega. Telur lögregla að þeir hafi verið of lengi í landinu en verða mál þeirra rannsökuð í dag. Lögregla hafði afskipti af tveimur mönnum í miðbæ Reykjavíkur vegna gruns um vörslu fíkniefna.
Skömmu síðar barst lögreglu tilkynning um innbrot í Hlíðunum en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort þjófarnir hafi haft eitthvað á brott með sér. Í Kópavogi kviknaði eldur í skúr en óvíst er um tjón. Þá voru þrír ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Einn þeirra reyndist hafa verið sviptur ökuréttindum vegna fyrri afskipta lögreglu.