Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Dýrkeyptur svikahrappur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fölsuð rannsókn breska læknisins Andrew Wakefield, sem birtist í læknatímaritinu Lancet árið 1998, er einhver afdrifaríkasta og lífseigasta svikamylla nútímalæknisfræði.

Í þeirri rannsókn var haldið fram að tengsl væru á milli bóluefna gegn mislingum (MMR) og einhverfu. Þrátt fyrir að rannsóknin hafi margoft verið hrakin, Wakefield fundinn sekur um að falsa niðurstöður rannsóknarinnar og hann sviptur læknaleyfi árið 2011, er mýtan sem hann setti fram afar lífseig á meðal andstæðinga bólusetninga.

Síðan greinin var birt hafa vísindamenn gert tugi rannsókna til að sannreyna niðurstöður Wakefields og engin þeirra hefur sýnt sömu niðurstöðu. Nú síðast í þessari viku birtust niðurstöður danskrar rannsóknar sem er ein sú umfangsmesta til þessa og náði til yfir 650 þúsund barna sem voru fædd á árunum 1999 til 2010.

Þær sýna svart á hvítu að ekki fundust nein tengsl á milli bóluefna (MMR) og einhverfu. Þvert á móti voru óbólusett börn 17 prósent líklegri til að greinast með einhverfu en bólusett börn. „Foreldrar ættu ekki að sleppa því að bólusetja börnin sín af ótta við einhverfu. Hættan er sú að mislingar láti aftur á sér kræla og við sjáum nú þegar merki þess með faröldrum víðs vegar um heiminn,“ segir Dr. Anders Hviid hjá Statens Serum Institut í Kaupmannahöfn og aðalhöfundur rannsóknarinnar.

En Wakefield er ekki af baki dottinn og heldur áfram að reyna að græða á svikamyllu sinni. Árið 2016 sendi hann frá sér heimildamyndina „Vaxxed: From Cover Up to Catastrophe“ þar sem enn er alið á mýtunni um einhverfu.

Þar er ekki í einu orði minnst á að niðurstöðurnar hafi verið falsaðar og þær ítrekað verið hraktar. Amazon fjarlægði í vikunni myndina úr streymisþjónustu sinni eftir að hafa verið gagnrýnt fyrir að dreifa fölsuðum boðskap. Önnur tæknifyrirtæki á borð við Facebook, Pinterest og YouTube hafa heitið því að koma böndum á andróður gegn bólusetningum sem byggður er á blekkingum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -