„Elsku dýrmæti pabbi minn er fallinn frá eftir stutt veikindi,“ skrifar Edda Björgvinsdóttir leikona og minnist föður síns, Björgvins Magnússonar, á Facebook-síðu sinni. Björgvin lést nýlega eftir stutt veikindi, 98 ára að aldri, fæddur 234. september 1923.
Björgvin starfaði sem kennari, skólastjóri og leiðbeinandi. Hann starfaði lengi sem skáti og naut mikillar virðingar og uppskar væntumþykju fyrir framlag sitt þar.
„Kennarinn, skólastjórinn, leiðbeinandinn, skátinn og líknarinn snerti hjörtu og breytti lífum svo margra. Hann var örlátur með eindæmum á kærleika og umhyggju hvar sem hann kom. Allir sem kynntust honum elskuðu hann skilyrðislaust og dáðu þennan öðling. Pabbi var mín helsta fyrirmynd í einu og öllu og ég get ekki fullþakkað að hafa fengið að alast upp hjá þessu dýrmæta eintaki af manni,“ skrifar Edda.
Hér er færsla Eddu í heild sinni:
„Gleðigjafinn Björgvin Magnússon lifði í 98 ár, hvorki meira né minna og var fullur af lífsgleði fram á síðasta dag. Pabbi var einstakur maður í alla staði og hafði djúpstæð áhrif á óendanlega stóran hóp fólks, sem minnist hans nú með ást og endalausu þakklæti. Kennarinn, skólastjórinn, leiðbeinandinn, skátinn og líknarinn snerti hjörtu og breytti lífum svo margra. Hann var örlátur með eindæmum á kærleika og umhyggju hvar sem hann kom. Allir sem kynntust honum elskuðu hann skilyrðislaust og dáðu þennan öðling. Pabbi var mín helsta fyrirmynd í einu og öllu og ég get ekki fullþakkað að hafa fengið að alast upp hjá þessu dýrmæta eintaki af manni. Hvíl í friði elsku hjartans pabbi minn og leiktu þér nú með englunum á himnum – mömmu, Gísla Rúnari og öllum hinum sem við elskum svo mikið. Þau hafa örugglega tekið þér fagnandi í ljósheimum.“