Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

„Tantrafræðin lýsa kynlífi sem einni af grunnþörfum mannsins“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Kynorkan knýr okkur áfram, ýtir undir langanir og gerir okkur forvitin um heiminn. Kynorkan kveikir í okkur og fær okkur til að uppgötva nýjar hliðar á tilverunni, sérstaklega ef þær lofa nautn og vellíðan. Ef þessi orka er í ójafnvægi getur það framkallað allskyns fíkn, langanir eða sjúkdóma sem geta dregið okkur til dauða.“

Blaðamaður Mannlífs ræddi við Serafim Arnar Hólm, einn af eigendum Natha Yogacenter sem er til húsa í smiðjuhverfinu í Kópavogi. Natha Yogacenter kennir jóga og tantra á grunni shaivisma, heimspekistefnu sem einnig er kennd við trika. Tantra er sá hluti jógaiðkunar sem byggður er á svokölluðum Veda-fræðum Indverja sem miðast að því að hraða á þroska og þróun manneskjunnar.

Það kemur Serafim stöðugt á óvart hversu auðvelt það er að umbreyta lífi okkar til hins betra. Nemendur koma til hans á námskeiðin í Natha Yogacenter með alls kyns vandamál en komast oft fljótt að því hversu lítilvæg vandamál þeirra voru í raun og veru.

Það er Serafim hjartans mál að nemendur hans öðlist nýjan skilning:

„… að það verði til einhver skilningur hjá nemendunum okkar þar sem þau fara að upplifa vandamál sín á annan hátt, jafnvel að þau séu ekki eins stór og þeim fannst áður og brosi í dag að því sem þeim fannst vera vandamál.“

Eigendur Natha Yogacernter. Magdalena og Serafim Arnar

Kynntumst tveimur árum seinna
Serafim kynntist Natha Yogacenter í Danmörku árið 1993, þegar vinkona hans sagði honum frá tantranámskeiði á Købmagergade 26 í Kaupmannahöfn.

„Þar sem ég hafði mikinn áhuga á tantra, sexual tao og þess háttar þá sló ég til og fór ásamt þáverandi kærustu minni á námskeiðið. Við fórum fljótlega að stunda Hatha-jóga í skólanum þar sem ég kynntist svo núverandi konu minni. Við hófum námið sama ár en kynntumst ekki fyrr en tveimur árum seinna.“

Natha Yogacenter er hluti af ATMAN – International Federation of Yoga and Meditation. Allir jógakennarar sambandsins þurfa að taka þátt í jóganámskeiðum skólans og hafa iðkað jóga í tvö ár áður en þeir geta hafið kennaranám. Sjálft námið tekur að jafnaði tvö ár – kennt er um helgar, annan hvern mánuð. Náminu lýkur með tveimur prófum; verklegu og skriflegu.

- Auglýsing -

Það eru gerðar miklar kröfur gerðar tantra-jógakennara. Nemendur þurfa að þreyta  inntökupróf og að því loknu tekur við nám í fjögur ár. Námið skiptist í átta lotur sem taka hver um sig 10 daga og er dreift yfir fjögur ár. Til þess að útskrifast verður nemandinn að standast verklegt og skriflegt próf og skila inn verkefni sem er valið sérstaklega fyrir viðkomandi.

Serafim hóf nám við skólann 1993 og fór að kenna þremur árum síðar samhliða framhaldsnámi í fræðunum. Serafim kláraði hvort tveggja og útskrifaðist úr jóganáminu 2006 og sem tantrakennari 2017. Eins og gefur að skilja hefur Serafim margt að segja okkur um mikilvægi kynlífs.

Skoða okkur sjálf án fordóma

- Auglýsing -
Natha Yogacenter Reykjavík. Paravinna

„Kynlíf er mikilvægur hluti þess að vera manneskja. Því miður hefur kynlíf verið bælt niður í manninum í árþúsundir. Þetta hefur haft hörmulegar afleiðingar á mannkynið, þar sem við erum að bæla nauðsynlegar þarfir manneskjunnar. Afleiðingarnar eru meðal annars stöðugar kynlífslanganir eða andstaða við þær, þ.e bæling. Hvort tveggja er skaðlegt fyrir þroska okkar og hamingju.“

„Tantrafræðin lýsa kynlífi sem einni af grunnþörfum mannsins. Þetta viðhorf er nauðsynlegt til að við getum skoðað okkur sjálf án fordóma eða hlutdrægni,“ segir Serafim.

Honum finnst vanta upp á samfélagskennslu innan þessara fræða. Hann segir ennfremur:

„Samfélagið býr ekki lengur yfir þekkingu því hvernig sé best að rækta heilbrigt kynlíf.“

„Það sem mér finnst best er að vera ekki lengur undir álögum kynhvatarinnar en geta samt notið kynlífs, þegar ég óska þess. Auðvitað spilar það líka inn í að tantra kennir karlmönnum að stjórna sáðláti sínu. Það gefur þeim möguleika á að upplifa raðfullnægingar til jafns við konur. Kynlíf og fullnægingar verða líka öflugri og samtengdari kærleika og nánd við makann.“

Margir hafa örugglega upplifað kynlíf sem er fullt af kærleika og nánd og kærleika, þar sem elskendur bráðna saman í eina verund og upplifa eitthvað sem er miklu stærra en venjulegt kynlíf. Tantra hjálpar til við að gera slíkar upplifanir reglubundnar og endalausar, þ.e. við hættum þegar við erum algjörlega fullnægð — ekki þegar sáðlátið hefur fjarlægt getu karlmannsinns til að halda áfram.

„Hægt og sígandi hættir sá sem iðkar jóga að vera leiksoppur ytri örlaga en tekur þess í stað í taumana á eigin lífi, mótar það og þroskar eftir eigin höfði. Í því ferli breytist það sem við sjáum og finnst vera mikilvægt.

Einfaldleikinn verðu augljós og flækjustig lífsins viðráðanlegt.“

 

Natha yogacenter Reykjavík. Jógaástundun

Kynlífsorkan þurfi ekki að vinna gegn okkur
Serafim og kona hans kenna hefðbundið Hatha-jóga, sem er fyrst og fremst þekkt fyrir líkamsstöður (asana). Þar fylgja þau þar hinum átta greinar jóga (ashtanga) eins og Patanjali lýsir þeim í bók sinni Yoga Sutras, en hann  hefur verið kallaður faðir Hatha-jóga.

Tantrafræðin ganga út frá því að kynlífsorkan þurfi ekki að vinna gegn okkur heldur getum við tamið þessa „villtu hesta” og látið þá draga „vagn” okkar þangað sem við viljum í stað þess að stjórnast af fíkn nautna af ýmsu tagi, þar með talið kynlífslöngun.

Serafim segir að til þess að temja hestana verðum við fyrst og fremst að þekkja þessa orku þegar hún sýnir sig og læra að stýra henni að vild. „Þetta krefst þess að við verðum meðvituð um það sem er að gerast innan í okkur í stað þess að ánetjast því, bæla það eða hafa það að engu. Þetta krefst sjálfskoðunnar, einlægni og vilja til að bæta sjálfan sig.“

Jógaiðkunin hefur umbreytt lífi Serafim og hann hefur séð hið sama gerast hjá þúsundum annarra með iðkun jóga og tantra í gegnum árin.

„Þegar við förum að horfa inn á við, skoða okkur sjálf og tengja það hugmyndafræðinni sem er kennd í skólanum þá komum við auga á allskonar flýtileiðir. Allt í einu skiljum við hvað þarf til þess að efla sjálfsálit okkar og viljastyrk, vekja kærleika okkar á okkur sjálfum og öðrum.

Það sem áður var þokukennt og óskiljanlegt verður kortlagt og leiðin verður skýr.“

Finna frið og tilgang
Áhrif jóga og tantra á sjálfsmynd og líðan Serafims sjálfs eru dæmi um þau jákvæðu umskipti sem verða á viðhorfi fólks til lífsins: „Ég fór frá því að finnast ég vera villtur í ókunnum og fjandsamlegum heimi, í það að finna frið og tilgang í heimi sem alltaf skaffar mér það sem mig vantar.“

Eðlisfræðin kennir okkur það að orku er ekki hægt að skapa úr engu. Hins vegar er hægt að breyta orku frá einu formi yfir í annað. Serafim sér tantra þeim augum,  að tantra geri ráð fyrir samskonar orkuskiptum innra með  manneskjunni.

„Lífsorka okkar getur tekur á sig margar myndir og er hluti af frumorku mannsins, orkunni  sem heldur í okkur lífi, byggir upp sjálfsbjargarviðleitni okkar og hvatir. Kynhvötin er sú orka sem heldur manninum á lífi. Eins og ég nefndi áðan þá gerir þessi orka okkur forvitin um umhverfi okkar og aðrar manneskjur. Við sækjumst eftir samneyti við aðra, við viljum tilheyra hópnum og finnum okkar sess í honum. Við erum líka á höttunum eftir því að finna sérstaka manneskju, manneskju sem við finnum löngun til að sameinast kynferðislega. Eins og við vitum getur kynorkan orðið ofboðslega öflug og gefið fólki kraft til að komast yfir hindranir.  En að sama skapi getur hún komið fólki í alvarleg vandræði.“

Knýja fram þroska og aukna meðvitund
Serafim bendir á  að í flestum trúarbrögðum og dulspekikerfum sé varðveisla þessarar frumorku ein af grunnskilyrðum þess að ná árangri í andlegri iðkun. Ástæðuna telur hann þá að maðurinn þarfnist þessarar orku til að knýja fram þroska og aukna meðvitund. „Sú leið sem er þekktust í langflestum andlegum þroskakerfum er skírlífi, þ.e. að viðkomandi haldi sig frá kynlífi til að koma í veg fyrir að tapa frá sér þessari frumorku. Það hefur svo valdið allskonar misskilningi og rangtúlkunum um að kynlíf sé syndugt, óhreint og skammarlegt. Þessar hugsanir eru eitthvað sem við öll líðum fyrir enn þann dag í dag.“

Tantra kennir okkur að til eru leiðir til að halda í þennan dýrmæta hluta af lífi okkar, kynlífið sjálft. Sé rétt að því staðið skapar það nánd og kærleika og kemur í veg fyrir orkuna sem tapast hjá karlmanninum við sáðlát. Það þýðir að karlmaðurinn lærir að skilja á milli  fullnægingar og sáðláts. Það þarf líka að nálgast kynlífið á réttan hátt. Það þarf að hvíla á gagnkvæmum kærleika og virðingu. „Kynlífið verður að helgri athöfn þar sem aðilarnir mætast í kærleika og bráðna saman í gegnum ástarleiki sem geta varað klukkutímum saman, sem er eitt af því sem hefur gert tantra frægt,“ segir Serafim og brosir góðlátlega.

Hann segir að allt gerist þetta í vakandi meðvitund elskendanna, þ.e. þeir hverfa aldrei algerlega í nautnina, heldur halda þeir jafnvægi á milli nautnar og meðvitundar; dálítið eins og þegar við höldum jafnvægi á reiðhjóli. Við „hverfum“ aldrei alveg, við getum ekki sofnað eða tekið athygli okkar alveg frá því að hjóla af því að þá myndum við detta af hjólinu. Samt engin áreynsla fólgin í að halda þessu jafnvægi, aðeins meðvitund og núvitund. Við erum vakandi hér og nú. Þannig lærum við að varðveita kynorku okkar til þess að nýta hana annars staðar í lífinu, sérstaklega til að breyta meðvitund okkar.

Sjónarhorn karlmanns
„Ég hef hérna lýst þessu frá sjónarhorni karlmanna,“ segir Serafim  „þar sem þeirra orkutap er svo augljóst í sáðlátinu sem bindur enda á þeirra kynæsing. Konur missa líka orku í gegnum sumar tegundir fullnæginga en fyrst og fremst í gegnum blæðingar.

Það krefst lengri lýsinga og útskýringa til að gera þessu ásættanleg skil.“

Serafim fer í gegnum ýmsa þætti þessara kenninga á námskeiðum sínum; sérstaklega Sacred Sexuality, námskeiði þar sem fjallað er sérstaklega um þann hluta tantra sem snýr að kynlífi og parsamböndum. Í stuttu viðtali er aðeins hægt að gægjast undir yfirborðið á þessum fræðum sem eru bæði djúp og viðamikil og varða alla þætti þess að vera manneskja.

Námskeið, vinnustofur og viðburðir
Natha Yogacenter á Íslandi var sett á stofn árið 2007 þegar Serafim og Magdalena, konan hans, fluttu til Íslands. Þau voru í fyrstu hjá Auði og Ástu í Jógasetrinu Lótus en eru núna í eigin húsnæði á Smiðjuvegi 4.

Natha og aðrir skólar innan ATMAN hafa alla tíð verið reknir af sjálfboðaliðum og sú er einnig raunin á Íslandi. Þar starfar teymi fimm kennara í jóga og tantra og kenna Sacred Sexuality, Tantra for Women ásamt því að standa fyrir smærri námskeiðum, vinnustofum og öðrum viðburðum. Allir nemendurnir hafa möguleika á að fara í kennaranám og sækja um að kenna í skólanum.

Fyrir Serafim er það mikilvægt að þekkingin sem skólinn býr yfir verði haldið við og að Íslendingar fái áfram að njóta þess að hafa aðgang að þessum ómetanlegu fræðum. Þau hjá Natha Yogacenter leggja áherslu á að fylgja hefðbundnum aðferðum sem reynst hafa vel. Þau líta ekki á jóga sem leikfimi heldur sem aðferð til að umbreyta meðvitundinni. Í þeirra augum er mikilvægt að nemendur skilji hvað það er sem fær jógastöðurnar til að virka eins og þær gera, hvaða grundvallarreglur eru þar að verki.

Námskeiðin eru bæði fræðileg og verkleg. Í byrjun er farið í að skoða hvernig staðan virkar, hvaða orku hún vekur og hvað það gerir fyrir  orkuflæðið í líkamanum þegar stöðunni er haldið í einhvern tíma. Hugmyndafræðin á bak við jóga og tantra er líka útskýrð til að sýna samhengið,  því annars gæti þetta allt saman litið út eins og eitthvað vúdú.

Hugmyndin er sú að þegar við höfum fengið reynslu af eigin orku, hvernig það sé hægt að hafa áhrif á streymi hennar og eðli, þá förum við að skilja fleiri hlut og öðlast dýpri skilning sem annars væri okkur hulinn.

Við erum nær alltaf upptekin í huga okkar
Allir sem hafa reynt að hugleiða vita að hugur okkar er fullur af hugsunum sem við erum ekki meðvituð um í dagsins önn. Við frekari eftirgrennslan sjáum við að við erum næstum alltaf ómeðvituð og að meðvitundin um okkur sjálf og umhverfi okkar varir aðeins stutt, fá og hverful augnablik sem koma og fara án þess að gera vart við sig. Við erum nær alltaf upptekin í huga okkar þar sem við tölum stanslaust við sjálf okkur, dæmum aðra, minnumst fortíðarinnar eða dreymir um framtíðina. Þetta verður til þess að við missum af því sem er að gerast hérna og núna.

Þetta er gömul þekking sem hefur verið kennd og iðkuð á marga mismunandi vegu. Fyrir stuttu komst núvitund í tísku en það er einmitt ein leið til að byrja að brjóta þessi álög sem skapa fjarveru frá eigin lífi. Fleiri aðferðir eru til en jóga er sú heildstæðasta og best skráða sem Serafim hefur kynnst.

Nemendur skólans
Nemendur Natha Yogacenter hafa í gegnum tíðina verið á aldrinum 25 til 50 ára. Stundum hafa þau fengið til sín yngra fólk, rétt komið af táningsaldri en einnig eldra fólk. „Eg held að elsti nemandi minn hafi verið 85 ára og sá yngsti 17 ára,“ segir Serafim eftir stutta umhugsun.

Jóga spyr hins vegar ekki að aldri. „Þó að við mælum ekki með að börn yngri en 13–14 ára stundi jóga að staðaldri þá er gott fyrir börn að leika sér með stöðurnar og jafnvel að kynnast hugmyndafræðinni að baki. Þau eru hins vegar enn að að vaxa og þroskast og það er nauðsynlegt fyrir þau að fá að taka út sinn vöxt fyrst.“

Natha Yogacenter leggur áherslu á að kenna jóga sem andlega þroskaleið. Þau vilja valda breytingum í lífi iðkandans, vekja innsæið og samkenndina með sjálfum okkur og öðrum. Þannig kemst meira jafnvæg á lífið. „Þau sem koma til að stunda leikfi fara fljótt eitthvert annað. En þau sem hafa áhuga á andlegum þroska finna hjá okkur þann fjársjóð sem ég fann fyrir mörgum árum síðan.“

Serafim hvetur fólk til að vera óhrætt við að byrja. Hann bendir á að nýir nemendur þurfi ekki að hafa neina þekkingu á jóga eða tantra til að koma á námskeið. „Það þarf ekkert sérstakt til að hefja nám hjá okkur; við byrjum öll þar sem við erum. Það eina sem við öll þurfum að koma með, er viljinn til að læra og takast á við eigin þroska.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -