Landrisið heldur áfram í Svartsengi á Reykjanesinu og talsverðar líkur eru á að gossprunga muni opnast innan Grindavíkur.
Kemur fram á RÚV að skjálftavirkni á svæðinu hefur færst mikið í aukana á undanförnum vikum.
Var hættumat uppfært á þriðjudag – þar sem hætta fyrir svæði fjögur – þar sem Grindavík er, er metin talsvert mikil vegna gosopnunar; hraunflæðis og gasmengunar; áður var hún metin nokkuð mikil.
Sagði Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands að gögn sýni fram á að síðustu eldgos hafi verið að færast sunnar; því bendi þróunin til þess að gosop geti allt eins opnast innan Grindavíkur:
„Það er áframhaldandi kvikusöfnun í kvikuhólfið undir Svartsengi og það er áætlað að það séu rúmir 13 milljón rúmmetrar sem hafi bæst við síðan í síðasta gosi, sem er yfir okkar þröskuldum. Það hafa komið gos við þau mörk en ef þetta hegðar sér svipað og Kröflueldar þarf ívið meiri kviku fyrir hvert kvikuhlaup. Við erum að gera ráð fyrir að 13 til 19 milljón rúmmetrar þurfi að safnast fyrir, en síðasta gos hófst við um 20 milljón rúmmetra af kviku. Ef þetta heldur áfram á svipuðum hraða gerum við ráð fyrir gosi á næstu þremur til fjórum vikum.“