Á tímum kórónuveirufaraldursins nota margir grímur sér til varnar. Hér skal ekki tíundað um varnaðargildi þeirra eða ekki, en ein þeirra sem hefur útbúið sínar eigin er Mindy Vincent, sem búsett er í Utah í Bandaríkjunum.
Vincent póstaði mynd af sér með grímuna á samfélagsmiðla á föstudag og vakti færslan mikla athygli og fékk fjölda athugasemda og deilinga.
„Takið eftir! Grímurnar mínar eru mættar,“ segir Vincent. „Ég fór í Walmart og PetCo með hana í dag. Þegar einhver segir við mig að gríman sé með typpi, þá veit ég að viðkomandi er komin of nálægt mér. Vinsamlega bakkið í burtu.“
Þrátt fyrir að færslan hafi fengið fjölda deilinga segir Vincent í viðtali við Cafemom að fáir hafi nefnt það við hana í eigin persónu að gríman sé með typpi. „Ég veit ekki hvort að fólk var feimið við að segja eitthvað, eða hvort það heldur bara að ég hafi ekki hugmynd um þetta sjálf.“
Grímurnar eru til sölu fyrir 20 dollara stykkið, og ef að þú vilt ekki typpagrímuna, þá er einnig hægt að velja um píkur og brjóst. Allur ágóði rennur til styrktar samtökum Vincent sem hún stofnaði árið 2016, eftir að eldri systir hennar lést vegna ofneyslu fíkniefna. Sjálf hefur Vincent glímt við fíkniefnavanda, og vinnur hún og samt0k hennar að því að hjálpa fólki sem glímir við hann.
Grímurnar hafa slegið í gegn og slík er eftirspurnin að þær eru allar búnar í bili og gerir Vincent ráð fyrir að pantanir verði afgreiddar í lok maí.