Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

„Ef við getum lært rasisma þá er líka hægt að læra að vera ekki rasisti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Baráttukonan Sema Erla Serdar, stofnandi hjálparsamtakanna Solaris, sem eru hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, hefur eins og svo margir aðrir fylgst með þróun mótmælanna sem hafa brotist út í Bandaríkjunum og víðar í kjölfar andláts George Floyd.

„Þetta er ekkert nýtt vandamál þó að þetta sé að brjótast út núna með þessum hætti,“ segir Sema í samtali við Mannlíf um mótmælin sem hafa brotist út víða um Bandaríkin í kjölfar andláts Floyd sem lést í haldi lögreglu þann 25. maí síðastliðinn. Floyd lést þegar lögreglumaðurinn Derek Chauvin lét þunga sinn hvíla á hálsi hans í níu mínútur við handtöku. Atvikið náðist á myndband.

Sema bendir á að lögregluofbeldi gagnvart þeldökkum Bandaríkjamönnum sé daglegt brauð og að Floyd sé ekki fyrsti þeldökki maðurinn sem sé myrtur á hrottalegan hátt af lögreglumanni.

„Þetta er eins átakanlegt og það gerist.“

„Rasismi og ofbeldi sem þetta hefur loðað við bandarískt samfélag í aldir en hérna í þessu myndbandi þá sjáum við mann bókstaflega deyja. Mann sem hefur ekkert gert til að verðskulda þetta ofbeldi. Þarna er ekki hægt að afneita því sem gerðist. Í myndbandinu má heyra hann segjast ekki geta andað. Þetta er eins átakanlegt og það gerist.“

Mótmæli hafa bortist út víða í Bandaríkjunum í kjölfar andláts George Floyd. Mynd / EPA

Sema segir fólk orðið „þreytt, reitt og sárt“. Hún segir fólk hafa beitt ýmsum aðferðum til að knýja fram breytingar og tekur sem dæmi þegar NFL-leikmaðurinn Colin Kaepernick kraup niður árið 2016 þegar bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður til að mótmæla lögregluofbeldi.

„Þá fór allt á hliðina. Þetta voru táknræn og friðsæl mótmæli en samt varð allt vitlaust. Það er búið að reyna að fara ýmsar leiðir en baráttan er alltaf þögguð niður. Núna dugar ekkert minna, fólk þráir að ná fram breytingum og reynir að sporna gegn þessum kerfislæga rasisma,“ útskýrir Sema.

- Auglýsing -

Alltaf einhver sem móðgast

Mótmælin hafa vakið mikla athygli og umræðu á samfélagsmiðlum eins og við var að búast og aðferðir mótmælenda hafa verið gagnrýndar.

„Þetta gerist alltaf í allri réttindabaráttu. Það er alltaf einhver sem móðgast. En það er nákvæmlega þessi hópur, sem móðgast og reynir að segja öðrum hverning þeir eiga að berjast fyrir réttindum sínum, sem veldur því að minnihlutahópar og jaðarsettir hópar eru kúgaðir. En fyrsta reglan í því að iðka and-rasisma er að styðja þá sem eru að berjast fyrir réttindum sínum en ekki segja fólki hvernig það á að berjast fyrir þeim. Ef þú hefur ekki upplifað það sem þessi hópur þarf að upplifa á hverjum degi, hvernig í ósköpunum áttu þá að vita hvernig er best fyrir þennan hóp að berjast fyrir réttindum sínum? Sá sem talar niður réttindabaráttu minnihlutahópa hlýtur að vera sá sem skilur ekki hvernig ástandið er. En þó að þú hafir ekki upplifað þessa fordóma og mismunun á eigin skinni þá þýðir það ekki að vandamálið sé ekki til staðar. Það þýðir að þú búir við forréttindi.“

- Auglýsing -

Hún bætir við að það sé löngu kominn tími til að horfast í augu við vandamálið sem rasismi er. „Nú þurfa allir að taka höndum saman. Rasismi er samfélagslegt og kerfislægt vandamál, rasismi finnst alls staðar en er missýnilegur. Rasismi er kerfi sem felur í sér að skipta fólki niður í æðri og óæðri hópa og felur meðal annars í sér kerfisbundna valdabaráttu, kúgun, fyrirlitningu, jaðarsetningu, mismunun og aðskilnaðarstefnu. Ef fólk ætlar að iðka and-rasisma þá þarf það að horfa inn á við og spyrja sjálft sig hvað það geti gert til að aðstoða í vinnunni gegn rasisma í sínu daglega lífi. Það er ekki nóg að segjast ekki vera rasisti.“

„Hlustaðu. Lærðu.“

Aðspurð hvað fólk geti gert í baráttunni gegn rasisma og fordómum segir Sema: „Hlustaðu. Lærðu. Skoðaðu fræðin og vísindin. Fyrsta skrefið er að skilja það sem við erum að tala um. Lestu bækur og horfðu á kvikmyndir um þessi málefni. Ekki styðja flokka og stjórnmálafólk eða fara í viðtöl hjá fjölmiðlum sem ala á fordómum og rasisma. Ef þú gerir það ertu hluti af vandamálinu. Ef þú gerir það ekki ertu að iðka and-rasisma. Mættu á mótmælasamkomur. Taktu þátt með þeim hætti sem hinir kúguðu óska eftir að þú takir þátt. Fáðu fræðslu fyrir þig og hópinn þinn, hvort sem það er vinnustaðurinn, skólinn, íþróttafélagið eða saumaklúbburinn. Þetta snýst allt um hvað við sem einstaklingar getum gert. Styddu við einstaklinga og samtök sem berjast gegn rasisma. Þetta eru nokkur dæmi,“ segir Sema.

„Ekki reyna að skýra rasisma þannig að allir rasistar séu bara geðveikir einstaklingar. Þannig ertu að gera lítið úr vandamálinu sem kerfislægur rasismi er, þjáningum þolenda og baráttu þeirra sem berjast gegn fordómum og rasisma Það er ekki hægt að loka augunum lengur.“

Rasismi lærð hegðun

Sema hefur lengi verið baráttukona gagnvart rasisma og fordómum almennt. Sjálf hefur hún fundið á eigin skinni hvernig er að verða fyrir fordómum. „Ég hef upplifað fordóma alla mína tíð og menningarlegan rasisma sem felur í sér að uppruni, þjóðerni og menningarlegir þættir er notaðir til að aðgreina fólk í æðri og óæðri hópa í stað kynþáttar. Þegar þú þekkir þetta af eigin raun og talar við fólk sem hefur upplifað sömu og oft miklu verri hluti en þú þá er ekki hægt að líta undan. Þetta snýst um réttlæti og samkennd og hvernig við getum  búið til betri heim fyrir komandi kynslóðir.“

Sema bætir við að rasismi sé lærð hegðun. „Það sem er svo merkilegt er að það fæðist enginn rasisti. En ef við getum lært rasisma þá er líka hægt að læra að vera ekki rasisti og kenna öðrum að vera ekki rasistar“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -