Eftir tíðindi dagsins í kjaramálunum hefur stjórn Eflingar lýst yfir vantrausti á ríkissáttasemjara.
Kemur þetta fram í tilkynningu sem birtist á vefsíðu félagsins í kvöld.
Í tilkynningunni segir stjórn félagsins að ríkissáttasemjari hafi sýnt vanrækslu á því að hafa röksemdir samninganefndar Eflingar til hliðsjónar er hann lagði fram miðlunartillögu sína í dag.
Segir að með miðlunartillögunni skuli „þröngva kjarasamningi Starfsgreinasambandsins og SA upp á félagsfólk Eflingar, þrátt fyrir að samninganefnd Eflingar hafi ítrekað komið því með málefnalegum hætti á framfæri að sá samningur mætir ekki þörfum félagsfólks og tekur ekki tillit til aðstæðna þeirra.“
Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, hefur líka dregið lögmæti miðlunartillögu ríkissáttasemjara í efa.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefur þegar vísað þeim fullyrðingum á bug í tilkynningu er hann sendi frá sér í dag; hann segir hann að miðlunartillaga sé eitt þeirra úrræða sem ríkissáttasemjara standa til boða til að freista þess að tryggja frið á vinnumarkaði.