Tónlistarmaðurinn Birgir Sævarsson hefur kært konu til lögreglu fyrir að bera á sig rangar sakir og fyrir meiðyrði. Konan, Dagmar Rós Svövudóttir, kærði Birgi fyrir nauðgun. Hún steig fram í þættinum Eigin konur og sakaði Birgi um að hafa nauðgað sér þegar hún var gestur í brúðkaupi hans á Ítalíu 6. júlí 2019. Lögreglan felldi niður rannsókn og málinu var vísað frá.
Birgir sagði sögu sína í podcastinu Mannlífinu. Þar kom fram að hann missti vinnuna og hraktist úr landi vegna ásakana sem vísað var frá. Hann og eiginkona hans skildu og Birgir reyndi sjálfsvíg. Í dag býr hann í Noregi.
Sævar Þór Jónsson lögmaður fer með málið fyrir hönd Birgis. „Fyrir hönd Birgis Sævarssonar, sbr. fylgiskjal 1, er hér með lögð fram kæra á hendur Dagmar Rós Svövudóttur fyrir rangar sakargiftir og meiðyrði og þess krafist að málið fari í viðeigandi farveg hjá lögreglu,“ segir í kærunni sem Mannlíf hefur undir höndum.
Málið er reifað frá sjónarhóli Birgis í kærunni og samskipti hans og Dagmarar í brúðkaupinu á Ítalíu fyrir tæpum 5 árum rakin:
„Í stuttu máli eru atvik málsins þessi að kærandi og fyrrverandi eiginkona hans, Sylvía Dögg Ástþórsdóttir, héldu brúðkaup sitt í stórri lúxusvillu, Villa Teloni, í litlu þorpi á Ítalíu hinn 6. júlí 2019. Lúxusvillan er á þremur hæðum og hjónasvítan er staðsett á efstu hæð. Kærða var gestur í brúðkaupinu en hún var þar stödd ásamt unnusta sínumi, sem var vinur kæranda. Eftir miðnætti brúðkaupsnóttina, þegar klukkan var rétt að verða eitt, var kærandi staddur við sundlaug lúxusvillunnar og vinir hans hentu honum í laugina. Kærandi fór upp úr lauginni, gekk að dansgólfinu, tók upp hljóðnema, þakkaði gestum fyrir komuna og bauð þeim að fá sér pylsur á grillsvæði. Sagði kærandi eiginkonu sinni að hann ætlaði að skipta um föt og ná í peninga til að greiða þjónunum þjórfé. Kærða heyrði samtalið og spurði hvort hún mætti koma með kæranda en hann taldi kærðu ætla að fara á salernið. Þegar upp á herbergi var komið fékk kærða sér sæti á rúminu en kærandi þurrkaði sér, hafði fataskipti og tók saman þjórfé. Á meðan spjölluðu þau og kærandi varð fljótt áskynja að kærða var nokkuð ölvuð og endurtók sig mikið. Kærða sagði að hún og unnustinn ætluðu að gista í villunni þessa nótt en ekki á hótelinu sem þau voru á eins og til stóð. Kærandi sagði að þau gætu gist í auka rúmi í herbergi þeirra hjóna en þá hafi kærða svarað svo: „Nei, þetta er rúmið ykkar Sylvíu“. Í kjölfarið hafi þau knúsast í um það bil 10 sekúndur og hafi það verið eina snertingin milli þeirra og þau bæði verið fullklædd. Voru þau um 15-20 mínútur í herberginu og gengu saman út. Nokkru eftir að þau komu út aftur sá kærandi kærðu fyrir utan húsið og var hún að leita af unnusta sínum. Bað kærða kæranda, eiginkonu hans og fleiri brúðkaupsgesti að aðstoða sig við að finna unnustann og sýndi kærða kæranda skilaboð frá unnustanum, þar sem unnustinn krafði kærðu svara um hvað gefði gerst í herberginu nokkru áður. Kærandi fékk sér að borða og fór svo að sofa ásamt eiginkonu sinni. Fór svo að kærða ásamt unnusta dvöldu í lúxusvillunni yfir nóttina.
Leitað að sjúkrahúsi
Daginn eftir hittu kærandi og eiginkona hans hann unnusta Dagmarar, sem horfði illilega á hjónin en þau fengu ekki neinar skýringar á hvað var í gangi fyrr en síðar um daginn. Kærða hélt því fram að kærandi hafi nauðgað henni um nóttina. Á mánudeginum hafi kærandi ásamt eiginkonu ekið á milli sjúkrahúsa í því skyni að fá einhvers konar skoðun vegna ásakana kærðu en það hafi ekki gengið.
Eins og að framan greinir lagði kærða fram kæru á hendur kæranda og var málið fellt niður og vísast til afstöðu ríkissaksóknara til kæru á fylgiskjali 2.
Byggir kærandi á að kærða hafi með rangri kæru og röngum framburði við skýrslutökur hjá lögreglu leitast við að kærandi yrði sakaður um kynferðisbrot. Með kæru þessari kærir kærandi því kærðu til lögreglu vegna rangra sakargifta“.
Allt frá því að kærða ásakaði kæranda um nauðgun hefur líf hans umturnast enda var hann sakaður um alvarlega refsiverða háttsemi. Kærandi stendur í þeirri trú að kæra kærðu á sínum tíma hafi hrint af stað fleiri ásökunum á hendur honum, þ.e. að tvær vinkonur kærðu ákváðu að kæra kæranda fyrir kynferðisbrot en á fylgiskjali 3 má sjá þær allar saman á mynd áður en þær lögðu fram kærur á hendur kæranda.
Rekinn frá þorrablóti
Kærða hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum og tjáð sig um að kærandi hafi brotið á sér kynferðislega og jafnframt nafngreint kæranda og birt myndir af honum, sbr. fylgiskjöl 4-8. Auk þess hefur kærða jafnframt fylgst með því sem kærandi er að gera og reynt að hafa áhrif á líf hans, svo sem að hann fái verkefni við tónlist eða sem trúbador, nú síðast í tengslum við að kærandi var ráðinn sem trúbador á þorrablóti Íslendingafélagsins í Stavanger sem átti að fara fram hinn 17. febrúar sl. en var aflýst sökum þess að kærða sendi félaginu kvartanir vegna þessa, sbr. fylgiskjöl 9 og 10.
Fjölmiðlar hafa fjallað um málið, sbr. fylgiskjöl 11-13, sem hefur reynst kæranda erfitt. Jafnframt hefur aðgerðarhópurinn Öfgar sent frá sér yfirlýsingar og stuðning við kærðu, sbr. fylgiskjöl 14-18, ásamt því að nafngreina og birta myndir af kæranda. Þá hefur skapast umræða um kæranda opinberlega á samfélagsmiðlum, í lokuðum og opnum hópum, sbr. fylgiskjöl 19 og 20. Hefur kærði því stigið fram og veitti viðtal við Mannlíf í nóvember 2023 vegna málsins, sbr. fylgiskjöl 21-23.
Hjónaskilnaður
Hinn rangi framburður kærðu hefur haft umfangsmikil áhrif á kæranda. Í kjölfar þessa varð m.a. hjónaskilnaður en kærandi og fyrrum eiginkona eiga saman þrjú börn. Ásamt því hefur framangreint leitt til þess að kærandi missti störf sín en hann starfaði annars vegar sem tónmenntakennari í Foldaskóla og hins vegar sem tónlistarmaður og trúbador, sbr. fylgiskjöl 24-25. Aukin heldur hefur kærandi orðið fyrir miklu andlegu tjóni. Hann glímir við alvarlegt þunglyndi, kvíða og áfallastreituröskun. Hefur þetta leitt til þess að kærandi hefur upplifað hugsanir um dauðann og hefur hann í tvígang reynt sjálfsvíg, sem hefur ekki tekist en voru þess eðlis að hann þurfti innlögn á spítala eftir tilraunirnar. Þá hefur hann stundað komur til sálfræðings sl. fjögur ár. Haustið 2023 flutti kærandi til Noregs vegna andlegrar vanlíðunar þrátt fyrir að eiga nú fjögur börn á Íslandi.
Að teknu tilliti til atvika sem lýst er hér að framan og þeim gögnum sem lögð eru fram með kærunni er þess krafist að málið fari í viðeigandi farveg hjá lögreglu. Með kæru þessari vill kærandi leita réttar síns gagnvart kærðu. Kærandi telur framangreinda háttsemi kærða varða við XV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum ákvæði 148. gr. laganna og eftir atvikum XXV. kafla sömu laga. Jafnframt er óskað eftir að lögregla heimfæri brot þessi á viðeigandi lagaákvæði almennra hegningarlaga.
Í ljósi alls framangreinds er þess krafist að málið verði rannsakað og hin kærða látin sæta refsiábyrgð lögum samkvæmt. Þá áskilur kærandi sér allan rétt til þess að leggja fram bótakröfu á síðari stigum málsins eftir því sem tilefni gefur til“.