Fimmtudagur 2. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

„Ég er algjör hrafn og elska allt sem glitrar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Daníel Örn Wirkner Jóhannesson gullsmiður ætlaði sér ekki í nám 25 ára gamall, en lét slag standa og komst inn í eftirsótt nám í gull- og silfursmíði. Honum finnst gaman að fara óhefðbundnar leiðir í list sinni og segist ekki sjá fyrir sér að vinna við annað en sköpun.

 

Árið 2009 ákvað Daníel að prófa silfursmíðinámskeið í Tækniskólanum, sem honum fannst góð hugmynd þar sem hann hefur alltaf haft gaman af málmsmíði og málmformum. Að því loknu mælti kennarinn hans með að hann sækti um nám í gull- og silfursmíði.

„Ég sagði við hann að það væri nú ekkert á planinu að fara í nám eldgamall,“ segir Daníel sem þá var 25 ára. En hann lét slag standa, sótti um og komst inn, einn af átta, en það ár sóttu 267 um námið. En af hverju valdi hann gullsmíðina?

„Afi átti gullmola sem hann fann úr Surtseyjargosinu, held ég, og hann var alltaf á náttborðinu hjá honum. Ég var alltaf að skoða molann, fannst hann svo flottur og bara allt sem glitrar. Ég er algjör hrafn og hef alltaf verið.“

Daníel er heillaður af víravirki þjóðbúninganna og vill viðhalda því handbragði, hann hefur hannað bæði fíngerða hringi og rokkaraskart með víravirkinu.

Hannar með óhefðbundnum hætti

- Auglýsing -

Daníel starfar hjá Dóru Jónsdóttur í Gullkistunni á Frakkastíg, en þar hefur hann verið í fimm ár. „Þetta er elsta gullsmíðaverkstæði á Íslandi og sérhæfir sig í íslenska víravirkinu. Axel vinur minn var á samningi þar, það vantaði aukastarfskraft fyrir jólin og ég var kallaður til. Síðan þegar hann kláraði sinn samning tók ég einfaldlega við af honum. Ég á hins vegar sveinsprófið eftir, af því ég er svo lélegur á bókina að ég er alltaf að fresta. Svo missti ég úr vegna aðgerða og veikinda, en ég á nokkra áfanga eftir til að klára,“ segir Daníel, sem bindur sig ekki við einn stíl heldur tekur að sér öll verkefni.

Daníel Wirkner
Mynd / Hallur Karlsson

Daníel er heillaður af víravirki þjóðbúninganna og vill viðhalda því handbragði, hann hefur hannað bæði fíngerða hringi og rokkaraskart með víravirkinu. Hann hefur fengið jákvæð viðbrögð við því að fara nýstárlegar leiðir með handbragðið og segir skartið eitthvað sem bera má daglega, en ekki skart sem einskorðast við hátíðisdaga.

- Auglýsing -

Aðdáendur hljómsveitarinnar DIMMU ættu að þekkja handbragð Daníels því meðlimir hennar eru skreyttir skarti frá honum og Inga í Sign. „Ég hannaði 15 cm armband handa Stefáni söngvara. Armbandið er Mývatn séð ofan frá en hann er þaðan. Armbandið sló í gegn hjá Stefáni og ég hef hannað fleira fyrir hann og félaga hans. Svo hef ég mikið unnið með gull eins og sést kannski á konunni minni.“

Honum finnst gaman að fara óhefðbundnar leiðir við gullsmíðina og fá sem mest út úr málminum, án þess að skartgripurinn þurfi að kosta hálfan handlegginn. „Mér finnst álagning á skartgripum fáránleg á Íslandi af því þetta þarf ekki að vera svona. Ég þarf ekki að taka 150% álagningu til að vera sáttur.“

Daníel Wirkner
Mynd / Hallur Karlsson

Daníel er kominn í samstarf við húðflúrsstofuna Reykjavík Ink, sem selur hringi og hálsmen sem hann hefur hannað og hefur skartið selst vel til erlendra ferðamanna. Einnig er samstarf við 24 Iceland á byrjunarstigi. „Við Valli erum æskuvinir, þekkjumst mjög vel og báðir með bullandi ADHD og búnir að tala um þetta samstarf i fjölda ára án þess að nokkuð hafi gerst. En núna erum við komnir með Íslandshring, sem vonandi fer að komast í sölu.“

Daníel segist aðspurður munu starfa við gullsmíðina til framtíðar. „Ég get einhvern veginn ekki séð mig í neinu öðru en að skapa. Það eru einnig breytingar fram undan hjá Gullkistunni, henni verður breytt að hluta í walk in-safn. Ég verð alfarið með mitt verkstæði þar og sé fyrir mér að ég og Axel munum taka við rekstrinum seinna meir. Við vinnum vel saman þrátt fyrir að vera með gjörólíkan stíl.“

Fylgjast má með verkum Daníels á Facebook og Instagram.

Sjá einnig: „Lífsbjörgin segir mér að ég á greinilega að gera meira í lífinu en að fá flog“

Sjá einnig: Daníel heldur styrktartónleika: „Ég vil launa lífgjöfina og láta gott af mér leiða”

Sjá einnig: Daníel safnar fyrir súrefnismettunarmælum: Slysavarnadeildir á Suðurnesjum og í Kópavogi gefa fyrstu sjö mælana

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -