Blaðakonan Aníta Estíva Harðardóttir hefur starfað við fjölmiðla í rúm tvö ár en hún hóf nýlega störf á Hringbraut.
Hér ljóstrar hún upp fimm staðreyndum um sjálfa sig.
- Ég var ekki nema 24 ára þegar ég gifti mig, þá búin að vera trúlofuð í eitt og hálft ár. Mörgum fannst það voða ungt en okkur fannst tíminn réttur. Sjö ár liðin og við aldrei verið hamingjusamari.
2. Ég þjáðist af króníska verkjasjúkdómnum endómetríósa eða legslímuflakki allt frá því ég var mjög ung. Átti ekki að geta eignast börn á náttúrulegan hátt en á í dag tvö kraftaverkabörn sem fæddust með fimmtán mánaða millibili.
3. Ég er með vandræðalega mikinn kvíða gagnvart því að vera of sein. Mér finnst ekkert verra en að mæta of seint. Ég hef í alvörunni mætt tæpum tveimur klukkutímum of snemma í atvinnuviðtal af því að ég vildi vera alveg viss um að verða ekki of sein.
4. Mér misheyrast allir lagatextar og syng þá af öllu hjarta kolvitlaust. Vinum mínum og fjölskyldu til mikillar gleði. Lady Gaga söng til að mynda ekkert um Poker Face. Heldur Booger Face (andlit með hori).
5. Ég er alveg svakaleg tilfinningavera, græt yfir öllu. Sama hvort það sé sorglegt eða fallegt. Ég hef rosalega samkennd með öllum og langar að bjarga öllum. Mögulega smávegis meðvirkni, ég veit.