Föstudagur 3. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

„Ég er eiginlega enn að meðtaka fréttirnar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sif Sigmarsdóttir hefur gengið frá samningum um útgáfu á skáldverki sínu, The Sharp Edge of a Snowflake, í Þýskalandi og Frakklandi. Bókin er önnur bók Sifjar á ensku og hefur verið að gera góða hluti frá því að hún kom út í Bretlandi í sumar. Í samtali við Mannlíf segist Sif vera hæstánægð með tíðindin en viðurkennir að hún eigi enn erfitt með að líta á sig sem „alþjóðlegan“ höfund.

Bókin The Sharp Edge of a Snowflake kemur út í Þýskalandi og Frakklandi næsta haust.

„Það má segja að þessar fréttir séu besta jólagjöfin sem rithöfundur getur fengið. Ég er eiginlega enn að meðtaka fréttirnar,“ segir Sif glöð, en umboðsmaður hennar í Bretlandi var að enda við að ganga frá útgáfu bókar Sifjar, The Sharp Edge of a Snowflake, bæði í Þýskalandi og Frakklandi.

Í Þýskalandi verður bókin gefin út af Loewe Verlag, 150 ára gömlu útgáfufélagi sem er risi á sviði barna- og unglingabóka, en það hefur meðal annars gefið út bækurnar um Max og Moritz sem margir Íslendingar kannast við. Í Frakklandi verður bókin gefin út af Casterman, útgefanda Tinnabókanna, en það er útgáfufélag sem hefur höfuðstöðvar sínar í Belgíu og hefur starfað í meira en 200 ár.

„Manni finnst maður ekkert vera rosalega alþjóðlegur þar sem maður situr heima hjá sér á náttfötunum, umkringdur hálftómum kaffibollum og óhreinu taui.“

Sif er að vonum himinlifandi. Hún segir að það sé algjör draumur að vita til þess að bók hennar komist nú í hendur enn fleiri lesenda. „Ég er búin að fagna þessu með kampavínsglasi. En svo tek ég þá meðvituðu ákvörðun að velta mér ekki upp úr því frekar. Ég á mér nefnilega þá reglu að fagna sigrum aðeins í einn dag, ekki lengur,“ flýtir hún sér að útskýra. „Það þýðir ekki að staldra of lengi við, maður verður að horfa fram á veginn, vera á tánum, með mörg járn í eldinum. Svo ég grípi til allra klisja í íslenskri tungu í einni málsgrein,“ segir hún og hlær.

Sótti innblástur í Facebook-hneyksli og MeToo

Að sögn Sifjar fjallar The Sharp Edge of a Snowflake um Hönnu, hálf-íslenska stelpu búsetta í London sem flyst til föður síns á Íslandi þegar móðir hennar fellur frá. Hún fær vinnu sem blaðamaður og er falið að taka létt viðtal við samfélagsmiðlastjörnu sem er á leiðinni til landsins. Þegar sú er handtekin fyrir morð einsetur Hanna sér að sanna sakleysi hennar. En ekki er allt sem sýnist og Hanna kemst á snoðir um illar áætlanir alþjóðlegs markaðsfyrirtækis sem misnotar persónuupplýsingar fólks um allan heim til að græða peninga – og þaðan af verra.

Nú í haust kom út íslensk þýðing á fyrstu bók Sifjar sem hún skrifaði á ensku, Ég er svikari.

Í Bretlandi, þar sem sagan kom út í sumar, hefur henni verið lýst sem samblandi af bókinni Karlar sem hata konur og sögunum um spæjarann Nancy Drew. Sjálf segir Sif að bókina megi flokka sem norræna glæpasögu fyrir unglinga. Það sem einkenni norrænar glæpasögur sé að þær fjalla um glæp, oftast morð, og oftar en ekki séu þær líka samfélagsádeila. „Ég er til dæmis að skoða hættur Netsins og þau áhrif sem það hefur á sjálfsímynd, samskipti fólks, viðskipti og samfélagið allt,“ segir hún og getur þess að tvær konur hafi veitt sér innblástur við skrifin; leikkonan Rose McGowan, sem er ein þeirra kvenna sem stuðlaði að falli Harvey Weinstein, og breski blaðamaðurinn Carole Cadwalladr, sem kom upp um Facebook-Cambridge Analytica-hneykslið.

- Auglýsing -

„Cambridge Analytica er gagnafyrirtæki sem notaði illa fengnar persónuupplýsingar af Facebook til að beina pólitísku efni að fólki og hafa þannig áhrif á lýðræðislegar kosningar. Það var ráðgjafi kosningaliðs Donalds Trump og vann líka fyrir samtök sem studdu úrgöngu Breta úr ESB fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2016. Eftir að upp komst um þetta hneyksli hefur ímynd Facebook beðið hnekki og við lítum öðrum augum á persónuupplýsingar okkar, erum meðvitaðri um fótsporin sem við skiljum eftir okkur á Netinu,“ segir Sif og bætir við að bækurnar hennar séu nánast alltaf innblásnar af því sem er að gerast í heiminum hverju sinni, enda sé hún algjör fréttafíkill.

Á erfitt með að líta á sig sem alþjóðlegan höfund

Talandi um skrifin, er Sif eitthvað byrjuð að huga að næstu bók? „Ja, eins og ég segi þá reyni ég að vera með mörg járn í eldinum. Svo er umboðsmaðurinn minn, Sophie Hicks, harður yfirmaður og bíður nú eftir nýrri bók. Það er gott að hafa einhvern sem rekur á eftir manni og minnir mann á að halda sig við efnið,“ segir hún kímin. „En svo er ég líka alltaf að skrifa á íslensku og vonast til að hafa tíma til að vinna að íslenskri skáldsögu á nýju ári. Það er skemmtileg heilaleikfimi að skrifa á tveimur tungumálum, stundum verður maður alveg kolruglaður.“

- Auglýsing -

Spurð hvernig tilfinning það sé annars að vera orðin „alþjóðlegur“ höfundur skellir hún upp úr og segist nú ekki beint geta sagt að hún líti á sig sem alþjóðlegan höfund. „Manni finnst maður ekkert vera rosalega alþjóðlegur þar sem maður situr heima hjá sér á náttfötunum, umkringdur hálftómum kaffibollum og óhreinu taui sem flæðir upp úr þvottakörfunni og skrifar bækur,“ segir hún og hlær.

„En auðvitað er alltaf jafnskemmtilegt og óraunverulegt þegar maður hittir fólk sem hefur lesið bækurnar manns, eða þegar maður rekst á þýdda útgáfu af verkum sínum úti í heimi. Þegar fyrsta bókin mín, Ég er ekki dramadrottning, kom út man ég hvað mér fannst skrítið að hugarburður minn væri kominn á náttborðið hjá unglingum út um allt land. Dramadrottningin var líka fyrsta bókin mín sem var þýdd á erlent tungumál og þegar hún kom út í Frakklandi gerðum við fjölskyldan okkur ferð til Parísar þar sem ég gekk inn í stærstu bókabúð landsins í hálfgerðu móki í leit að bókinni. Þar stóð hún á borði með ótrúlega flotta kápu og titil sem ég skildi ekki einu sinni. Það var skrítin og skemmtileg upplifun,“ segir hún hress.

„Nú hlakka ég bara til að hafa uppi á The Sharp Edge of a Snowflake bæði í Frakklandi og Þýskalandi þegar hún kemur þar út í haust á næsta ári.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -