Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
9.5 C
Reykjavik

„Ég er ekki hér til að taka þátt. Ég er hér til að vinna“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rapparinn Herra Hnetusmjör hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn á Íslandi. Hann er 21 árs gamall og stjórnar nú fjöllistahópnum KBE, eða Kóp Bois Entertainment, sem hann stofnaði og ætlar að gera að stórveldi. Hópurinn telur meðal annars tónlistarmennina Hugin og Birni, og er hugmyndafræðin á bak við KBE að gefa ungum og efnilegum tónlistarmönnum tækifæri til að láta ljós sitt skína. Herra Hnetusmjör hugsar í peningum, selur sig dýrt og trúir því að hann sé besti rappari á Íslandi.

„Ég held að þú getir ekki verið bestur í neinu ef þú trúir því ekki að þú getir verið bestur. Ég er ekki hér til að taka þátt. Ég er hér til að vinna,“ segir Herra Hnetusmjör. Hann er mjög öruggur í fasi, eiginlega það öruggur að mann grunar að það sé bara uppgerð. Gríma til að fela óöryggið innra.

„Já, ég er rosalega hrokafullur,“ segir rapparinn hispurslaust og heldur áfram. „Það er minn brestur. Ég get verið algjör hrokabolti og það er mikill galli en líka kostur. Hrokinn fer misvel í fólk og sumir einfaldlega þola mig ekki. Halda að ég sé pínulítill inni í mér og að hrokinn sé bara frontur. En ég virkilega trúi á sjálfan mig. Það gerist mjög sjaldan að ég efist um sjálfan mig. Ég trúi og treysti að það fari allt eins og það eigi að fara.“

Herra Hnetusmjör er vel flúraður og er til dæmis með Kóp Boi flúrað yfir magann sinn, sem er vísan í Thug Life sem Tupac var með flúrað yfir maga sinn.

Andleg vakning yfir Akon

Rapparinn segir hann hafa verið með sjálfstraustið í botni síðan hann var ungur snáði að alast upp í Hveragerði.

„Mamma hefur alltaf sagt að ég sé bestur,“ segir hann og hlær. „Ég er rosalega mikill mömmustrákur,“ bætir hann við. Hann er yngstur af fimm systkinum og eru sextán ár á milli hans og elsta bróður hans. Foreldrar hans eru Árni Magnússon, fyrrverandi ráðherra, og Edda Björg Björgvinsdóttir, fyrrverandi verslunarkona, en þau eru ekki saman í dag. Herra Hnetusmjör segist vera afar náinn foreldrum sínum og systkinum, þó að hann muni lítið eftir þeim þremur elstu á æskuheimilinu sem var að Lyngheiði 12 í Hveragerði.

„Ég á eina systur sem er tveimur árum eldri en ég og ég man mest eftir henni á heimilinu. Hin voru orðnir unglingar og ég man lítið eftir þeim heima. Tíminn í Hveragerði var mjög næs. Mamma og pabbi eru upprunalega úr Kópavogi en ég held að þau hafi flutt austur því þar var gott að vera og ódýrt húsnæði. Það var líka mjög gott að ala þar upp börn. Ég var alltaf úti að hjóla og allir þekktust þar sem þetta var lítið samfélag,“ segir Herra Hnetusmjör. Fjölskyldan flutti á Bifröst í hálft ár þegar rapparinn byrjaði í 4. bekk og hann kláraði bekkinn svo í Hveragerði. Síðan flutti fjölskyldan búferlum í Grafarvog í eitt ár og svo kallaði 203 Kópavogur.

- Auglýsing -

„Ég kenni mig mikið við Kópavoginn. Ég var bara barn í Hveragerði og ekki byrjaður að mótast þar sem persóna,“ segir rapparinn en þeir sem hlusta á hann finna sterkt fyrir tengingunni við Kópavog. Til dæmis er auðvelt að þekkja lög Herrans á því að hann byrjar þau á sínum einkennisorðum, eða taggi, Kóp Bois. Það var nú samt í Hveragerði sem rappáhuginn kviknaði og hefur ekki slokknað síðan.

Rapparinn segist vera meiri tónlistarmaður en bisnessmaður, en hann er klókur í viðskiptum og ætlar sér að græða mikla peninga.

„Ég kynntist rappi í gegnum besta vin minn, hann Bjössa,“ segir Herra Hnetusmjör en myndin sem prýðir fyrsta plötuumslag rapparans, Flottur skrákur, sem kom út árið 2015, er einmitt af þeim Bjössa þegar þeir voru litlir snáðar. „Bróðir hans, Sammi, var með 50 Cent-plaköt uppi á vegg í herberginu sínu og við stálumst oft þangað inn til að máta föt af honum. Við hlustuðum mikið á diskana hans en fyrsta lagið sem kveikti áhugann hjá mér var Go To Church með Ice Cube, Snoop Dogg og Lil Jon. Ég hugsaði bara: Vó, hvað þetta er fokking klikkað. Fyrsta platan sem ég keypti mér var síðan Trouble með Akon, þegar við bjuggum á Bifröst. Þá var ég að horfa á Popptíví, sá myndbandið við Lonely og fékk andlega vakningu. Þannig að ég gerði mér ferð í bæinn í Skífuna, keypti plötuna og hlustaði á hana í vasadiskóinu mínu. Ég var gríðarlegur Akon-aðdáandi og er það enn í dag,“ segir rapparinn.

Ekki kominn í mútur að rappa um peninga

Þegar hann flutti í Kópavoginn magnaðist rappáhuginn. Hann gekk í Vatnsendaskóla sem þá var tiltölulega nýr og kynntist fljótt strák, Sindra, með svipuð áhugamál.

- Auglýsing -

„Þegar ég var í frímínútum í 6. bekk sá ég strák með durag, sem er klútur sem svart fólk notar til að móta afróið sitt, en 50 Cent var alltaf með svona. Þetta var tískan árið 2004 í rappinu. Ég gekk upp að honum og sagði: „Blessaður. Ertu með durag? Ég á líka durag.“ Síðan kynntum við okkur og urðum bestu vinir út frá duraginu,“ segir Herrann. Fljótlega byrjuðu þeir Sindri að fikra sig áfram í tónlist.

„Við stálum kameru frá pabba og byrjuðum að búa til myndbönd. Svo keyptu mamma og pabbi Apple-tölvu, sem í minningunni var eins og geimskip, og allt í einu var hægt að klippa myndbönd og búa til lög. Við vorum mikið í því, ég og Sindri. Við byrjuðum að fikta ógeðslega mikið og í 7. bekk fórum við að rappa. Við erum báðir miklir aðdáendur bandarísks rapps og mér fannst íslenska rappsenan mjög asnaleg. Þannig að við byrjuðum að rappa í djóki,“ segir hann en þá fyrst fæddist nafnið Herra Hnetusmjör.

„Ég pikkaði upp nafnið Herra Hnetusmjör og Sindri flakkaði á milli nafna en varð loks Sir Sulta. Saman mynduðum við tvíeykið Nautalundir. Við vorum alltaf að prakkarast, spreia á veggi og reyna að fullorðnast. Í 10. bekk keypti ég síðan míkrófón á Netinu,“ segir Herra Hnetusmjör og bendir á umtalaðan hljóðnema sem er enn í dag í góðu gildi í stúdíóinu hans. „Við tengdum míkrófóninn við Makkann hans pabba, byrjuðum að stela töktum á YouTube og gera lög sem Nautalundir. Ég á þetta einhvers staðar í gömlu tölvunni hans pabba. Lög þar sem við erum ekki komnir í mútur og erum að rappa um peninga,“ segir hann og hlær.

Uppreisnarseggur í skóla

Eftir 10. bekkinn lá leið Sindra í Fjölbrautaskólann í Breiðholti en Herra Hnetusmjör fór í Menntaskólann í Kópavogi.

„Ég ætlaði að elta Sindra í FB en komst ekki inn,“ segir hann.
„Varstu svona afleitur námsmaður?“ spyr blaðamaður.

„Tja, ég féll í dönsku og stærðfræði. Ég er þannig gerður að ég geri ekki það sem ég vil ekki gera. Ég fór í mótþróa gegn dönsku. Ég prófaði að læra hana fyrst um sinn en síðan fannst mér hún svo leiðinleg að ég ákvað að ég ætlaði ekki að læra hana. Ég var mjög erfiður í tímum og mótmælti mikið. Með stærðfræðina, þá sá ég engan tilgang að læra hana. Það eru allir með iPhone og þú þarft ekkert að kunna stærðfræði nema þegar þú þarft að hjálpa börnunum þínum með heimalærdóminn. Það eru einu tilvikin þar sem þú þarft á stærðfræði að halda. Ég var smávandræðabarn en samt rosalega góður strákur. En ég var uppreisnarseggur þegar kom að því sem ég vildi ekki gera – þá var ekki séns að fá mig til að gera það. Ég vil bara gera það sem mér finnst skemmtilegt. Mér fannst skemmtilegt í sögu og íslensku en hafði lítinn metnað fyrir því sem mér fannst ekki skemmtilegt.“

Herra Hnetusmjör er edrú í dag eftir erfiða tíma árið 2016.

Partí í kjallaranum hjá Elíasi

Í Menntaskólanum í Kópavogi byrjaði Herra Hnetusmjör að umgangast krakka af Kársnesinu í Kópavogi. Þá fór hann að einbeita sér enn frekar að rappinu.

„Við byrjuðum að drekka og unglingast eitthvað og ég sýndi þeim þessi gömlu rapplög. Þá datt þeim í hug að við ættum að gera lag saman. Þannig að í einhverju bríaríi sendi ég skilaboð til Erps á Facebook,“ segir Herra Hnetusmjör og vísar þar í rapparann Erp Eyvindarson. „Ég sagði honum að við værum krakkar úr Kópavogi, værum að gera lag og spurði hvort hann vildi taka þátt í því. Ég sendi honum textann en síðan datt þetta lag upp fyrir. En ég hélt áfram að taka upp eitthvert fokkerí og sendi á hann. Við byrjuðum að spjalla og þá fyrst tók ég ákvörðun að verða rappari. Ég ákvað að halda áfram undir nafninu Herra Hnetusmjör og Erpur fór að draga mig, sextán ára guttann, með sér á gigg. Ég man eftir mér að spila á börum úti á landi með Erpi og það var ógeðslega gaman. Mikið ævintýri,“ segir hann. Árið 2014 gaf hann síðan út sitt fyrsta lag, Elías, sem vakti mikla athygli.

„Það varð að einhverri költ-klassík meðal unglinga. Í laginu rappa ég um Kársneskrakkana og að við höfum alltaf verið að drekka og halda partí í kjallaranum hjá strák sem heitir Elías. Algjört unglingadót.“

5000 kall fyrir fyrsta giggið

Í framhaldinu gaf Herra Hnetusmjör út fleiri lög og sumarið 2014 var hann farinn að troða upp hér og þar.

„Fyrsta giggið sem ég fékk borgað fyrir var í Hörðuvallaskóla, á balli fyrir 8. til 10. bekk. Ég átti heima rétt hjá þannig að ég rölti bara yfir og tók giggið. Ég fékk 5000 kall borgaðan og mér fannst það geðveikt,“ segir rapparinn en Erpur var búinn að kenna honum margt á stuttum tíma. „Hann var minn lærifaðir og setti mér alls konar siðareglur sem ég fór eftir, til dæmis að drekka aldrei fyrir grunnskóla- eða menntaskólagigg.“

„Ég ólst upp á hip hop-i og rappi og rappið sem ég hlustaði á snerist um að maður yrði að vera bestur. Menn röppuðu um milljón dollara bílana sína, að þeir væru bestir og allir aðrir ömurlegir. Ég mótaðist af þessu. Ég rappa um að ég sé bestur.“

Eftir þetta sumar eyddi Herra Hnetusmjör miklum tíma með Erpi, en meðleigjandi hans á þeim tíma var maður að nafni Arnór Gíslason. Einn daginn hringdi téður Arnór í Herra Hnetusmjör og vildi gerast umboðsmaðurinn hans.

„Hann pikkaði mig upp í MK og við fórum á Taco Bell að ræða málin. Mér fannst þetta kúl. Það var mikið statement að vera með umboðsmann og hann fílaði greinilega tónlistina mína. Við byrjuðum okkar samstarf í október árið 2014. Í framhaldinu fór ég að tala við strák sem kallaði sig Joe Frazier og við sameinuðum krafta okkar. Við gerðum fyrst lag sem var ekkert sérstakt en síðan fórum við í stúdíó og gerðum lagið Hvítur bolur gullkeðja sem var „breakout“ fyrir mig. Upp frá því vorum við alltaf uppi í stúdíói og bjuggum til fyrstu hittarana mína, eins og Selfie,“ segir rapparinn.

Fyrsta plata rapparans, Flottur skrákur, kom út á afmælisdegi Herra Hnetusmjörs, þann 31. ágúst árið 2015. Stuttu síðar gáfu þeir Joe Frazier út svokallað mix tape sem heitir Bomber Bois. Þá er KBE, eða Kóp Bois Entertainment, byrjað að taka á sig mynd og síðar gekk plötusnúðurinn DJ Spegill í hópinn. Þá var kjarninn kominn – Herra Hnetusmjör rappaði, Joe Frazier bjó til takta, DJ Spegill þeytti skífum og Arnór Gíslason var í hlutverki umboðsmannsins. Rétt er að taka fram að Joe Frazier hætti í KBE fyrir stuttu vegna gruns um stolinn takt í laginu Labbilabb á plötunni Kópboi. Í hópnum í dag er einnig pródúserinn Þormóður.

Mikill léttir að fara í meðferð á Vogi

Á þessum tíma var Herra Hnetusmjör hættur í MK, en árið 2016 átti eftir að reynast honum erfitt.

„Ég var með fullt af lögum í spilun í útvarpi og var til dæmis bókaður á stórt svið á Secret Solstice. En ég missti mig. Ég fór út af brautinni og hætti að gera tónlist. Ég var bara að djamma og spila,“ segir Herra Hnetusmjör og heldur áfram. „Ég var farinn að missa tökin meira og meira og sumarið 2016 missti ég þau endanlega. Þá var ég í max rugli og á öllu sem hægt er að hugsa sér. Ég týndist bara í sósunni. Sumarið 2016 var mjög dimmur tími.“ Þetta ár gaf Herra Hnetusmjör bara út eitt lag sem hann segir mjög lýsandi fyrir þetta tímabil í sínu lífi.

„Ég gerði tvö lög árið 2016 og gaf annað af þeim út – 203 stjórinn. Þegar ég horfi á ferilinn minn eru tímamótin, tónlistarlega séð, þegar ég gaf út fyrsta lagið mitt Elías, Hvítur bolur gullkeðja, fyrsta lagið sem ég vann 100% með Joe Frazier sem var miklu meira professional, og síðan 203 stjórinn. Þá var ég kominn með sólgleraugu og byrjaður að öskra Kóp Bois. Herra Hnetusmjör í dag er mjög mótaður af 203 stjórinn. Ég tók meðvitaða ákvörðun að ég ætlaði alltaf að vera með sólgleraugu og nota Kóp Bois sem tagg í öllum lögum. Það var max neysla í gangi þegar ég gaf út 203 stjórinn og myndbandið er heimildarmynd um síðasta djammið mitt. Ein af fyrstu línunum í laginu er: Sólgleraugu inni því ég er dópaður á’því,“ segir Herra Hnetusmjör, en lagið kom út þegar hann var kominn inn á Vog í meðferð.

„Ég bjó hjá foreldrum mínum og fór leynt með þetta. En ég þurfti að taka þessa ákvörðun sjálfur að fara inn á Vog og ég gat ekki tekið þessa ákvörðun fyrr en mér leið nógu illa. Það var mikill léttir að koma inn á Vog. Eins og þetta væri allt búið. Ég er alkóhólisti og sama hvað ég var með skýr markmið á öllum sviðum og vissi nákvæmlega hvað ég vildi gera þá tók alkóhólistinn alltaf yfir. Það komst ekkert að því ég var alltaf að fá mér. Eftir Vog fór ég í mánuð í eftirmeðferð á Staðarfelli og þá kom 203 Stjórinn út á Spotify. Ég fór mjög leynt með hvar ég væri og það vissi það í raun enginn,“ segir rapparinn. Áður en hann varð edrú bauðst honum að semja lagið Þetta má með Emmsjé Gauta, sem var stórt tækifæri fyrir hann, og lagið átti eftir að slá í gegn. Hann samdi textann við lagið áður en hann fór í meðferð og tók upp myndbandið þegar henni var lokið.

„Textinn í laginu mín megin er bara neysla. Ég segi mikið í hraða partinum sem fólk kannski heyrir ekki, en ég vitna til dæmis í seríur 3 til 7 af Friends þegar Matthew Perry, sem lék Chandler, var í hvað mesta rugli. Lagið kom út í byrjun árs 2017 og það var að skríða yfir milljón spilanir á Spotify. við tók aðeins heilbrigðara líferni. Allt varð mun þægilegra þegar ég hætti í rugli.“

Kúplaði sig út úr djamminu

Herra Hnetusmjör segist hafa fundið sína leið til að halda sér á beinu brautinni, þó að suma daga sé það ekki auðvelt.

„Ég þarf að vinna fyrir því að vera edrú og ég legg inn mikla vinnu. Ég spái ekki í það að fá mér allan daginn, en ég tók leiðsögn og fór leið sem hjálpar mér að vera edrú. Ég þarf ekki að fá mér svo lengi sem ég held mér á þessari leið. Ég kúplaði mig út úr þeim hliðum bransans sem ég þarf ekki að vera í – partíunum og djamminu. Ég mæti bara þegar ég á að spila og er farinn í uppklappinu. Ég hangi ekki niðri í bæ. Ég vakna og vinn í stúdíóinu. Síðan fer ég heim til kærustunnar minnar og horfi á Netflix og tjilla. Ég er ekkert að tónlistast heima. Ég þvæ þvott, horfi á Netflix og segi kærustunni minni að ég elski hana. Svo á ég kannski gigg um miðja nótt þannig að ég keyri á staðinn, tek giggið og fer svo aftur heim. Auðvitað er erfitt að halda rútínu í þessum bransa en ég reyni eins og ég get. Ég er mjög stoltur af því að vera edrú,“ segir hann.

Sú eina rétta

Herra Hnetusmjör gaf út plötuna Kópboi í fyrra, en nokkrum mánuðum áður en hún kom út hætti hann að vinna vinnu sem tengdist ekki tónlist og lifir nú algjörlega af músíkinni. Það var fleira sem gerðist árið 2017 en þá kynntist hann líka kærustu sinni, Söru, og búa þau skötuhjúin saman í dag.

„Hún er edrú líka. Ég er mjög þakklátur að ég kynntist henni ekki þegar ég var í neyslu. Við kynntumst í gegnum sameiginlega vinkonu og hún er sú eina rétta. Það er enginn vafi,“ segir rapparinn. En fílar kærastan rapp?

„Hún fílar mig,“ segir hann og hlær. En hvað með að stofna til fjölskyldu, er það eitthvað í kortunum hjá tónlistarmanninum?

„Ég myndi ekkert fríka út ef ég myndi verða pabbi í dag. Ég er á svo allt öðrum stað en ég var á fyrir tveimur árum. Í dag bý ég með kærustunni minni og rek mitt eigið fyrirtæki. Ég held að ég myndi ekki fríka út þótt það sé ekkert á dagskrá. Það gerist bara það sem gerist.“

Herra Hnetusmjör gengur ávallt með sólgleraugu.

„Mig langar í mikið af peningum“

Herra Hnetusmjör segist vera meiri tónlistarmaður en bisnessmaður, þótt viðskiptalega hliðin á tónlistarheiminum sé honum mjög hugleikin. Í heimi áhrifavalda segist hann ekki vilja leggja nafn sitt við vörur sem eru honum ekki að skapi, en þegar ónefnd fyrirtæki voru farin að nota nafnið hans til að selja varning varð honum nóg um og fékk sér einkaleyfi á bæði nafnið Herra Hnetusmjör og KBE í mörgum flokkum hjá Einkaleyfastofu.

„Það hefur komið fyrir að menn hafa notað nafnið mitt til að selja vörur sem ég er ekkert tengdur. Ónefnd ísbúð notaði til dæmis nafnið mitt og svo var líka drykkur sem var kallaður eftir mér á Reykjavík Cocktail Weekend. Ég var alls ekki sáttur við það. Nú er þetta á pappírum og ef þú ætlar að nota nafnið mitt án leyfis þá mætir lögfræðingur á skrifstofuna þína. Það er ekki næs þegar einhver er að græða peninga sem ég sé ekkert af,“ segir Herra Hnetusmjör. Honum er einmitt tíðrætt um peninga og eins og kom fram hér á undan fjallaði fyrsta rapplagið hans, sem samið var í gríni af ungum snáða, um peninga.

„Mig hefur alltaf langað í peninga. Mig langar í mikið af peningum. Bandaríski rapparinn 21 Savage sagði einu sinni í viðtali að honum væri drullusama hver besti rapparinn væri. Hann vildi ekkert vera með í þeim samanburði. Hann var að reyna að vera ríkasti rapparinn. Ég tengi við það, þó að ég sé mjög stoltur af rappinu. Ég trúi því að ég sé langbesti rapparinn á Íslandi en ég vil líka græða,“ segir hann. En er hann orðinn ríkur af rappinu?

„Ég hef það fínt,“ segir hann og glottir.

Gucci og Louis með gulltennur og seðlabúnt

Hann hlýtur að hafa það ansi fínt ef marka má lífsstílinn. Hann keyrir um á skjannahvítri eðalkerru með drapplituðu leðuráklæði, á fleiri Gucci-sólgleraugu en góðu hófi gegnir og gengur um með rándýra Louis Vuitton-handtösku. Burberry er líka áberandi í fataskápnum, en hann á heilt fataherbergi sem er stútfullt af merkjavöru. Svo má ekki gleyma sérsmíðaða gómnum sem hann smellir upp í sig við sérstök tilefni, en gómurinn er úr fjórtán karata gulli. Hann segir að klæðaburðinn hafi mótast af bandarísku hetjunum í rappheiminum.

Takið eftir Gucci gleraugunum.

„Ég ólst upp við að horfa á myndbönd hjá Rick Ross og þessum gaurum. Þeir keyrðu um á Bentleyum, voru með gulltennur og risastórar keðjur um hálsinn. Þeir voru fyrirmyndirnar mínar. Ég fylgdist ekkert með fótbolta – ég horfði á rappmyndbönd. Mig langaði að vera svona – Gucci og Louis, með gulltennur og seðlabúnt,“ segir Herra Hnetusmjör. Hann var bara tíu ára gamall þegar hann keypti sér fyrstu rappflíkurnar í fataskápinn.

„Ég fór til Flórída með fjölskyldunni minni og fór inn í verslun sem heitir Echo Unlimited. Ég gekk þarna inn og það var verið að blasta rapptónlist og gullkeðjur með spinner-felgum út um allt. Ég keypti mér til dæmis jakka í XXL sem náði niður fyrir hné. Ég á jakkann enn og hann passar á mig í dag. Svo keypti ég gallastuttbuxur sem pössuðu á mig sem síðbuxur. Ég keypti líka gullkeðjur með spinner-felgum og speglasólgleraugu. Ég hafði aldrei séð neitt svona á Íslandi og ég varð að fá þetta,“ segir hann. En hver er dýrasta flíkin sem hann á?

„Það er örugglega Gucci-úlpan mín. Hún kostaði 240 þúsund kall. Ég á líka Gucci-íþróttagalla sem kostaði 200.000 kall. Flíkurnar mínar kosta ekki allar svona mikið en þegar þær eru settar saman er þetta mikill peningur. Ég fæ að leyfa mér þetta rugl því ég eyði ekki lengur peningum í fíkniefni.“

Skattrannsókn og kaldur sviti

Mér leikur forvitni á að vita meira um KBE ehf., fyrirtækið sem Herra Hnetusmjör rekur og virðist vera í miklum blóma.

„Umboðsmaðurinn minn sé mikið um bisnesshliðina þótt ég komi líka að henni. Hann er tíu árum eldri en ég og var með sitt fyrirtæki áður. Ég gæti ekki gert þetta einn. Hann sér mikið um virðisaukaskattskil og símtöl við endurskoðandann og þess háttar, á meðan ég kem með hugmyndir, framkvæmi og geri tónlist,“ segir rapparinn. Það vakti einmitt athygli á dögunum þegar leikkonan Steiney Skúladóttir lýsti áhyggjum sínum á Twitter yfir því hve mikið Herra Hnetusmjör rappar um að vinna svart, til dæmis í laginu Labbilabb af Kópboi.

„Já, Skatturinn er alveg búinn að koma,“ segir rapparinn og brosir. „En við erum með allt okkar á hreinu. Við borgum í lífeyrissjóð og skilum skattaframtölum eins og öll önnur fyrirtæki. Ég viðurkenni samt alveg að ég fékk kaldan svita þegar Arnór, umboðsmaðurinn minn, hringdi og sagðist hafa fengið bréf frá Skattinum. En þetta blessaðist allt. Við höfum ekkert að fela.“

Vondi karlinn i Disney-mynd

Undir merkjum KBE ehf. gefur Herra Hnetusmjör út sína eigin tónlist og annarra, stendur fyrir tónleikum og ýmislegt fleira. Nýjasta verkefnið er hnetusmjörið Herra Hnetusmjör sem framleitt er af H-Berg og er komið í verslanir.

„Það eru engin geimvísindi að Herra Hnetusmjör búi til Herra Hnetusmjör. Ég er mjög stoltur af þessari vöru. Þetta er besta hnetusmjörið sem til er,“ segir hann og stefnir greinilega að frekari landvinningum í viðskiptum.

„Ef mér dettur eitthvað skemmtilegt í hug þá geri ég það. Rick Ross er til dæmis með sinn eigin vængjastað í Bandaríkjunum. Mig langar að fara út í það. Mig langar að stækka við mig og gera alls konar kjaftæði. Mig langar til að fara í sjónvarp. Ég væri til í að leika handrukkara eða glæpamann. Mig langar að tala inn á auglýsingar og teiknimyndir – vera vondi karlinn í Disney-teiknimynd.“ segi rapparinn og líkir einmitt hrokaboltanum sjálfum sér við fyrrnefnd illmenni.

Stór fiskur í lítilli tjörn

Sumarið er fljótt á enda og hefur Herra Hnetusmjör verið uppbókaður á hinum ýmsu bæjarhátíðum. Núna um helgina treður hann síðan upp á einum stærstu tónleikum ársins, tónleikum Rásar 2 á Menningarnótt sem sýndir eru í beinni útsendingu á RÚV og útvarpað beint á Rás 2. Hann er samt sem áður pollrólegur yfir þessu öllu saman.

„Ég er ekkert stressaður. Ég verð voðalega sjaldan stressaður fyrir gigg. Ég hef tvisvar verið stressaður og í bæði skiptin hef ég verið að syngja, ekki rappa, í beinni útsendingu. Ég er ekki vanur því. Það er út fyrir minn þægindaramma. Yfirleitt dett ég í gír fyrir beina útsendingu, fer upp á svið með hrokann á milljón og er með snáðalæti,“ segir rapparinn. Snáði er einmitt orð sem hann notar mikið til að lýsa prakkaraskap, en stúdíóið sem hann leigir nálægt miðborg Reykjavíkur með vonarstjörnunum JóaPé og Króla er einmitt kallað Snáðastúdíó. Hann segist vera vinnualki en nú semur hann mikið um lífsstílinn sinn og vinnuna.

https://www.youtube.com/watch?v=ZdG5dGEvsEU

„Ég get ekki rappað um dóp og ég get ekki rappað um stelpur þannig að ég verð að rappa um eitthvað annað,“ segir hann. en hann fagnar um þessar mundir nýjum tímamótum í tónlistinni.

„Nýjasta lagið mitt, Upp Til Hópa, pródúserað af Inga Bauer, er vinsælasta lagið á landinu á Spotify og búið að vera það í rúmar þrjár vikur, eða síðan það kom út.“

Aðspurður hvort Ísland sé of lítið fyrir hann stendur ekki á svörunum.

„Mér finnst gaman að vera stór fiskur í lítilli tjörn. Það væri líka gaman að vera stór fiskur í stærri tjörn og það er alveg pæling að fara út fyrir landsteinana. Ég ætla samt bara að leyfa því að gerast. Ég vil ekki rappa á ensku og ég myndi ekki gera það til að stækka aðdáendahópinn minn.“

„Þetta er bara ég á móti öllum hinum“

Áður en ég kveð Herra Hnetusmjör verð ég að spyrja, fyrst hann er besti rapparinn Íslands að eigin sögn, hver sé þá næstbestur?

„Þetta snýst ekki um það. Ég er ekki að hugsa hver er í öðru, þriðja eða fjórða sæti. Þetta er bara ég á móti öllum hinum.“

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -