Föstudagur 27. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Ég er köttur í eðli mínu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarkonan Ragnheiður Gröndal sendi nýverið frá sér plötuna Töfrabörn. Mikil vinna fór í gerð plötunnar og ekki síst plötuumslagið.

„Platan var tvö ár í vinnslu en fimm ár í sköpun. Ég held að hún sé mjög flott þó ég ætli ekki að vera að gorta mig neitt,“ segir Ragnheiður ánægð með útkomuna. Plata hennar Töfrabörn er komin út á Spotify og hægt að kaupa hana í gegnum heimasíðu Ragnheiðar. Einnig er hægt að kaupa diskinn í Eymundsson bráðlega. „Fyrir þá sem vilja vera meðvitaðir kaupendur þá fæ ég meira út úr því fjárhagslega ef fólk kaupir af mér disk. Diskurinn er líka eins og hálfgerð ljóðabók, hvert ljóð fær mikið pláss,“ útskýrir Ragnheiður, en maður hennar, Guðmundur Pétursson, tók flestar ljósmyndirnar sem prýða bæklinginn með disknum. „Hann er fallegur og eigulegur gripur,“ segir hún og bætir við að sig langi líka að koma Töfrabörnum út á vínyl sem verði vonandi síðar á þessu ári.

Söngurinn alltaf verið ástríða

Móðir Ragnheiðar segir að söngur hafi verið ástríða hennar frá því hún var eins og hálfs árs gömul. „Ég man ekki eftir því en mamma segir að ég hafi lifað mig svo mikið inn í lagið Frost er úti fuglinn minn, sungið það og grátið mikið því ég vorkenndi fuglinum svo að fá ekkert að borða. Þannig að ég hef alltaf elskað að tjá mig í gegnum söng og segja sögur á þann hátt.“ Síðar fór Ragnheiður í kór og kveðst hafa átt erfitt með að fá ekki að syngja einsöng. „Eftir þá reynslu hef ég aldrei enst neitt sérstaklega í of miklum hópaverkefnum. Ég er köttur í eðli mínu og hef aldrei getað hlustað á ráðleggingar annarra. Það er afar sterkt eðli í mér sem hefur mjög oft komið mér í koll og unnið gegn mér en líka verið minn helsti styrkur í tónlistinni þegar upp er staðið.“

Hverskonar tónlist hefur heillað Ragnheiði í gegnum tíðina og hvaðan sækir hún sinn innblástur? „Djasstónlist, þjóðlagatónlist, gæða popp, Joni Mitchell, Sögumenn, Egill Ólafsson og ótrúlega margir íslenskir tónlistarmenn og konur sem og sterkar fígúrur eins og saxófónleikarinn Wayne Shorter sem ég lít á sem mikinn meistara,“ segir hún. „Björn Jörundur er eitt okkar flottasta ljóðskáld. Einnig Megas og fólk sem hefur eitthvað að segja með tónlistinni sinni. Bergþóra Árnadóttir sem var frumkvöðull. Ravel, Debussy, Svavar Knútur, djasssöngkonur og svokallaðir „vocalists.“ Það orð er ekki til á íslensku, en það er einhver sem hefur mikið vald á röddinni sinni – eiginlega raddlistmaður eða kona, t.d. eins og Eivör, Mari Boine, fado-söngkonur, Theo Bleckmann og Meredith Monk. Ég gæti haldið endalaust áfram. Ég held að ég sæki innblástur alls staðar. Í mínu tilfelli er tónlistarsköpun úrvinnsla á upplifunum og sýn minni á veruleikann sem ég er stödd í.“

Mikið andlegt álag að koma plötu frá sér

Spurð út í hvort tónlistarsköpun hennar hafi breyst í gegnum árin, svarar Ragnheiður að hún hafi breyst heilan helling. „Tónlist fyrir mér hefur alltaf verið flókið og heilagt fyrirbæri sem ég þrái að komast til botns í. Þar af leiðandi hef ég breyst alveg svakalega mikið frá því ég byrjaði að iðka tónlist og hef aðra hugmyndafræði og hugmyndir í dag heldur en ég hafði kannski fyrir 5 árum, 10 árum eða guð veit hvað. Hugmyndir manns og sköpun breyt ast stöðugt, jafnvel frá degi til dags,“ útskýrir hún.

- Auglýsing -

„Það getur verið mikið andlegt álag að koma plötu frá sér og koma fram á tónleikum,“ svarar hún þegar hún er spurð að því hvernig það sé að spila á tónleikum og semja tónlist. „Hluti af mér reynir að forðast það eins og heitan eldinn því heilsan er það dýrmætasta sem maður á og oft finn ég fyrir mikilli innri togstreitu því ég er ekki athyglissjúk að eðlisfari, eða ef ég er það, þá allavega skammast ég mín fyrir það eða eitthvað og þess vegna finnst mér erfitt að taka þátt í þeim leik sem tónlistarbransinn er og hefur alltaf verið,“ segir hún. „Ég elska að fá að vera í friði heima hjá mér og spila á píanóið fyrir sjálfa mig. En jafnframt finnst mér eitthvað rétt við það þegar ég stilli mér upp fyrir framan fólk og syng og spila fyrir það. Ég virðist hafa einhverja innri þörf til að vera farvegur fyrir tónlist og það knýr mig áfram til að feta þessa mjög svo þyrnum stráðu braut. Og ég held að mörgum tónlistarmönnum líði nákvæmlega svona. Við erum orkídeur.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Heiða Helgadóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -