„Ég rígheld í þá hugsun að þú sért núna á bleiku skýi í alsælu og lítir til með okkur um ókomin ár. Hvíl í friði, elsku Gísli þjóðargersemi,“ segir Edda Björgvinsdóttir, leikkona og fyrrum eiginkona Gísla Rúnars Jónssonar sem jarðsunginn verður í dag. Sjónvarpað verður frá útförinni þar sem aðeins nánustu ættingjar og vini munu mæta til kirkjunnar.
Ég veit ekki hvernig er hægt að lýsa manni sem var stórveldi í lífinu og listinni.
Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, fósturdóttir Gísla Rúnars, segir það ómetanlegt að hafa náð að segja föður sínum ást sína fyrir andlátið. Síðustu tvö ár fann hún fyrir breytingum hjá föður sínum vegna þess erfiða sjúkdóms sem hann glímdi við. Í æsku var hún oft spurð hvort ekki væri stanslaust stuð á heimilinu þar sem foreldrar hennar eru báðir þekktir grínleikarar. „Jú, mér fannst að minnsta kosti gaman en ég hef svo sem ekki mikinn samanburð. Það voru reglur og við látin taka til, borða hollt, fara snemma að sofa og allt það, en við vorum ekki vakin upp með skets úr áramótaskaupi og pabbi og mamma voru ekki með hárkollur og gervigóma yfir kvöldmatnum. En eitt er víst að við fengum kærleika, ást og stuðning – og það í öll mál, segir Eva Dögg.
Eva Dögg er því endalaust þakklát að hafa náð að kveðja föður sinn kvöldið fyrir andlátið. Hennar síðustu orð til Gísla Rúnars voru þau að hún elskaði hann og hún þakkaði honum fyrir að vera til. „Þetta var því miður í síðasta sinn sem ég hitti pabba. Pabba leið stundum illa en hann náði fram til síðasta dags að berjast gegn þeim sjúkdómi sem hrjáði hann, eða öllu heldur náði hann að lifa með honum í mörg ár og honum tókst það nokkuð vel. Síðustu tvö árin breyttist eitthvað, hann kom í veislur til mín og mat og var með gullkrullurnar mínar eins og áður og var alltaf hrókur alls fagnaðar, en ég fann samt að hann var að hverfa frá okkur. Ég get ekki útskýrt það, ég bara fann það.“
Edda segir það ekki aðeins hafa verið alþjóð heldur himnarnir sem grétu stanslaust í sextán daga eftir andlát Gísla Rúnars. „Gráir og blautir níðþungir dagar. Ég veit ekki hvernig er hægt að lýsa manni sem var stórveldi í lífinu og listinni. Lífsförunautur minn, besti vinur, ástin í lífi mínu, sálufélagi og margverðlaunaður fjölskyldufaðir. Við ólum upp 4 börn og eignuðumst hrúgu af barnabörnum, sem syrgja nú einstakan gleðigjafa og kærleiksbúnt. Mér er fyrirmunað að koma frá mér einhverju vitrænu um þennan einstaka mann, því þyngslin í hjartanu og þokan í höfðinu eru gjörsamlega lamandi,“ segir Edda.