Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

„Ég fékk þau skilaboð frá umhverfinu að þetta væri ógeðslegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðustu ár hafa margar kannanir verið gerðar í löndunum í kringum okkur um hvort konur skammist sín fyrir að vera á blæðingum. Nýleg könnun í Bretlandi sem framkvæmd var meðal fimmtán hundruð kvenna og fimm hundruð karla leiddi það í ljós að 58% kvenna höfðu skammast sín fyrir að vera á túr. Þá sögðust 73% hafa falið dömubindi eða túrtappa þegar þær fóru á salernið innan um fólk.

Við hjá Mannlífi ákváðum að framkvæma okkar eigin skoðanakönnun um þetta málefni. 608 konur svöruðu könnun okkar um blæðingaskömm og 42,6% þeirra sögðust hafa skammast sín fyrir að vera á blæðingum. Rúmlega 73,5% þeirra sem svöruðu sögðu að þeim fyndist ekki óþægilegt að tala um blæðingar við sína nánustu eða vinnufélaga en 75,66% kvennanna sögðust fela túrtappa, dömubindi eða aðrar hreinlætisvörur þegar þær færu á salernið í mannmergð, til dæmis í skóla eða á vinnustað.

Enn vandræðalegt umræðuefni

Þessar niðurstöður koma Sigríði Dögg Arnardóttur kynfræðingi lítið á óvart en hún heldur meðal annars kynfræðslufyrirlestra fyrir unglinga og foreldra og kennir áfangann Almenn kynfræði í Háskólanum í Reykjavík, þar sem hún kemur einmitt inn á tíðahring kvenna og egglos.

„Það þarf að ræða þetta miklu, miklu meira. Það er heila málið. Mér finnst fólk búið að ákveða að það sé nóg að ræða þetta í kynfræðslu í sjötta bekk og síðan aldrei meir. Eins og að þessi fyrrnefnda kynfræðsla hafi „koverað“ allt sem tengist blæðingum. Í dag, þegar ég tala um blæðingar við grunnskólanema, framhaldsskólanema og jafnvel nemendur á háskólastigi, finnst konum þetta enn rosalega vandræðalegt umræðuefni. Og margir vita lítið um tíðahring kvenna. Ungar konur eru mjög stressaðar og kvíðnar þegar kemur að því að tala um túr og hafa enn svo margar spurningar, eins og til dæmis: Hvenær byrja ég á túr? Hvernig lítur þetta út? Hvað er ég lengi á túr?“ segir Sigga Dögg.

Sigga Dögg vinnur til dæmis við að kenna kynfræðslu.

Trúarleg orðræða mjög fordæmandi

Ef við skoðum blæðingar í sögulegu samhengi kemur í ljós að þessi blæðingaskömm hefur viðhaldist í ýmsum trúarbrögðum. Í kristinni trú voru konur á blæðingum taldar beinlínis hættulegar. Ef marka má sögur kvenna í prestastétt sem voru opinberaðar fyrir stuttu í #metoo-byltingunni virðist þetta viðhorf enn lifa góðu lífi meðal einhverra.

„Ég minnist mannsins sem sagði að hann hefði farið inn á klósettið í kirkjunni eftir að ég var þar. Hann vildi vita hvernig prestur gæti blesssð söfnuðinn þegar hún væri á túr. Fyrstu mánuðina og árin eftir að þetta gerðist hugsaði ég um þetta í hvert skipti sem mér blæddi. Ég sá andlitið á honum fyrir mér og fannst ég skítug,“ hljóðar ein af sögunum sem birtar voru á heimasíðu Þjóðkirkjunnar.

Í íslam má ekki stunda kynlíf með konum á blæðingum og í hindúatrú mega blæðandi konur ekki fara inn í hof og biðja. Þá eru konur á túr taldar óhreinar í gyðingdómi. Það markaði einnig tímamót í Nepal á síðasta ári þegar lög voru samþykkt sem bönnuðu að konur og stelpur væru læstar inni í svokölluðum blæðingakofum, í algjörri einangrun, á þessum tíma mánaðarins, eitthvað sem kom frá fornri hefð úr hindúatrú sem heitir chhaupadi. Var þetta gert því konurnar voru taldar óhreinar. Í ágúst lést unglingsstúlka í einum af þessum kofum eftir að hafa verið bitin af snáki og því var gripið til þess ráðs að banna blæðingakofana. Þeir sem neyða konur inn í þessa kofa framvegis gætu átt yfir höfði sér þriggja mánaða fangelsisdóm og sekt upp á rúmlega þrjú þúsund krónur.

- Auglýsing -

Sigga Dögg telur þessa orðræðu í trúarbrögðum hafa mikið að segja um af hverju konur skammist sín fyrir það að fara á túr.

„Trúin hefur rosalega mikið að segja og hefur að þessu leyti valdið okkur miklum skaða. Orðræðan er mjög fordæmandi, talað um að konan sé skítug og hún sé að gjalda fyrir erfðasyndina og blæðingar séu í raun okkar refsing. Þetta hefur litað alla orðræðu og gerir út um allan heim – konur fá ekki að sitja til borðs með öðrum, mega ekki fara í skólann, mega jafnvel ekki að fara út úr húsi. Það þarf ekki að fara langt til að sjá að konur á blæðingum eru jaðarsettar,“ segir kynfræðingurinn og bætir við að konur á túr séu vissulega niðurlægðar á Íslandi, þótt þjóðin sem slík sé ekki heittrúuð.

„Þetta er talið svo mikið kvennamál sem er ótrúlega áhugavert. Stelpur fá enn að heyra: Ertu pirruð? Ertu á túr? Svona setningar eru notaðar til að niðurlægja og setja konur niður. Eins og maður eigi ekki rétt á þessum tilfinningum, vegna líffræðilegs ferlis sem við ráðum ekkert við. Strákar nota þessar setningar og stelpur þola það ekki. Þetta lifir því miður góðu lífi í dag.“

- Auglýsing -

Skömminni viðhaldið í skólum

Það er sláandi að sjá í könnun Mannlífs hve margar konur hafa átt í erfiðleikum með að tala um fyrstu blæðingarnar við foreldra sína, og jafnvel falið þær fyrir þeim svo árum skiptir. Sigga Dögg telur nauðsynlegt að foreldrar taki það að sér að fræða og undirbúa börnin sín þegar kemur að tíðahringnum, þá bæði drengi og stúlkur.

„Ef þú átt barn með píku fer það barn á blæðingar og umræðan um það þarf að byrja mjög snemma. Ég á tvo drengi og eina stúlku og á mínu heimili var umræðan um túr byrjuð um þriggja ára aldurinn. Ég fer á klósettið með opna hurð og þá er spurt: Hvað er þetta? Af hverju gerist þetta? Mun þetta gerast hjá mér? Þetta er mjög eðlilegur hluti af samræðum,“ segir Sigga Dögg og bætir við að kynfræðslu sé oft ábótavant í grunnskólum landsins.

„Þessi fræðsla er oft kynjaskipt þannig að strákar eru úti á þekju hvað varðar blæðingar. Það hefur stuðað margar stelpur, enda finnst þeim þetta ekki vera þeirra einkamál. Af hverju fá stelpur ekki að vita um stráka og strákar um stelpur? Þannig að þessari skömm er viðhaldið í skólum. Margir strákar vita ekkert um egglos og frjóvgunarlegu hliðina á konum, til dæmis hvenær hún getur orðið ólétt. Fræðslan er líka oft of fræðileg, í staðinn fyrir að útskýra blæðingar á mannamáli, af hverju blóðið er mismunandi á litinn, hvaðan það kemur og hve mikið kemur í einu. Við erum ekki að lesa IKEA-bækling, við erum að tala við fólk.“

Taka skal fram hér að nýverið var það tilkynnt að taka eigi upp kynfræðslu frá 1. og upp í 10. bekk í tveimur skólum í Reykjavík í tilraunaskyni.

Fullnæging getur stillt túrverki

Sigga Dögg segir að það sé ekkert rétt né rangt við samfarir á túr.

Talið berst að kynlífi á blæðingum, en ein af flökkusögunum um samfarir á túr er að kynlífið verði ógeðslegt, það frussist blóð úr leggöngum konunnar og að það gjósi upp vond túrlykt. Sigga Dögg er alvön að svara slíkum sögum.
„Þetta frussast ekki út,“ segir Sigga Dögg og hlær. „Ef þú ert að stunda kynlíf er til dæmis hægt að setja handklæði undir. Svo er líka hægt að stunda kynlíf í baði eða sturtu ef fólk vill hafa þetta hreinlegra.“

Sigga Dögg segir að það sé ekkert rétt né rangt við samfarir á túr, heldur þurfi hver kona að ákveða fyrir sig hvað veiti henni ánægju.

„Konur þurfa að spyrja sig, sem blæðandi verur: Finnst þér þetta ógeðslegt? Ef svarið er já og þér finnst erfitt að slaka á í kynlífi með annarri manneskju þá ættirðu frekar að sleppa því. Ég vil samt benda á að það er ein tilgáta um það að fullnæging sé verkjastillandi og geti því stillt túrverki. Þá getur fullnæging einnig stytt blæðingatímann því legið fær krampa við fullnægingu sem veldur því að það losar líkamann hraðar við túrblóðið. Margar konur upplifa sig einnig mjög kvenlegar á blæðingum og það er eitthvað til að fagna,“ segir Sigga Dögg.

Oft er skömmin í hausnum á okkur

En hvað geta konur gert til að skila blæðingaskömminni?

„Við þurfum að byrja á því að fræða opinskátt og eðlilega um blæðingar og ræða þær í nærumhverfinu sínu ef maður hefur þörf fyrir það. Við þurfum að leyfa okkur að taka upp dömubindi og túrtappa úr töskunni á almannafæri og ekki deyja yfir því. Samfélagið er hægt og rólega að breytast. Oft er þessi skömm í hausnum á okkur og fólk í kringum okkur er almennt ekkert að pæla í okkar klósettferðum.“

Unaður sem fylgir kynfærum

Ein af athugasemdunum sem sló undirritaða hvað mest í könnun Mannlífs lýsti því hvernig nafnlaus kona sagðist finna allt sem tengdist kynfærum sínum óþægilegt. Sigga Dögg segir að við eigum langt í land með að aflétta kynfæraskömm almennt.

„Það er rosalega feimni í kringum það að tala um kynfærin, skoða þau, upplifa þau, kanna þau og hafa gaman að þeim. Það er rosalega mikið tabú. Auðvitað sjáum við að umræðan þarf að byrja miklu fyrr, það er það sem er alltaf verið að impra á. Orðræðan um píkur er enn svo gildishlaðin. Hver er að tala um píkur fyrir framan börn? Einhver fullorðinn. Notkun þessa einstaklings á orðinu píka hefur áhrif. Það tekur margar kynslóðir að vinda ofan af þessu og breyta,“ segir Sigga Dögg, sem veit fátt betra en þegar opinskátt tal hennar um kynfæri, kynlíf og allt sem því fylgir ber árangur.

„Þess vegna er ég að gera það sem ég er að gera. Það er ótrúlega gefandi að stelpa komi upp að mér og segi mér frá því að hún hafi prófað að skoða píkuna á sér. En það er alltaf í hálfum hljóðum og aldrei yfir bekkinn. Við verðum að hætta að taka þetta svona alvarlega. Við kynfræðingar sem sinnum kynfræðslu erum á því að leiðin til að gera umræðuna opnari og létta skömm sé að fara í gegnum unaðinn sem fylgir kynfærum. Fara yfir jákvæðnina, hvernig við getum notið líkamans og upplifa að hann geti verið skemmtilegur og frábær. Það eru margar rannsóknir sem styðja þessa leið til sjálfseflingar og -styrkingar.“

Rétta orðið er píka

Tilfinning Siggu Daggar er samt sem áður sú að það sé orðið eðlilegra fyrir marga að nota orðið píka yfir kynfæri kvenna en það var fyrir nokkrum árum.

„Samtalið um píkuna fór af stað inni á mörgum leikskólum og í dag eru mjög margir leikskólakennarar og yngri foreldrar sem nota orðið píka. Mér finnst gott að brýna það fyrir börnunum mínum að rétta orðið sé píka, þó að við getum að sjálfsögðu notað einhver gælunöfn yfir hana. Hvernig við lítum á orðið kemur oft heiman frá okkur. Þeir sem hika við að nota orðið gera það því það þykir ljótt heima hjá þeim. Ég hitti enn stelpur, jafnvel í framhaldsskóla, sem geta ekki sagt orðið píka. Við notum þetta orð líka enn til að tala illa um aðrar konur, samanber „helvítis píkan“. Það þarf að breyta tungumálinu og það þarf að fara að fagna píkunni.“

Sigga Dögg vill opna umræðu um hvernig hægt sé að nota líkamann til unaðar og ánægju.

Ekki samasemmerki milli ummáls og heilsufars

Talið berst að líkamsvitund kvenna, en það er alþekkt að bæði konur sjálfar og samfélagið setja miklar kröfur um að þær eigi að líta út á ákveðinn hátt. Oft hefur orðinu útlitsdýrkun verið fleygt í þessu samhengi. Sigga Dögg fagnar samtökum og hreyfingum eins og Samtökum um líkamsvirðingu og segir verk sem þar er unnið skipta sköpum.

„Orðræðan hefur breyst. Ég tók til dæmis ekki eftir því að auglýsingar bentu mér á að ég þyrfti að komast í kjólinn fyrir jólin í aðdraganda síðustu jóla. En þessi orðræða er svo djúp. Hún smeygir sér inn í merginn inni í beininu. Ég til dæmis reyni að stoppa mig af áður en ég lendi í vítahring líkamsskammar en þetta er svo inngróið. Rannsóknir hafa sýnt að allt niður í þriggja ára börn sniðganga frekar feita krakka því þau vita hvað það er ljótt og hættulegt að vera feitur. Það er jú talað um fitufaraldurinn eins og hann sé einhver djöfull sem sé hér kominn til að éta þau. En það skiptir svo ótrúlega miklu máli að við áttum okkur á því að það er ekkert samasemmerki á milli líkamsummáls og heilsufars,“ segir Sigga Dögg og heldur áfram.

„Samfélagið er að segja okkur að við getum verið eitthvað sem við eigum ekki að reyna að vera. Ég kem til dæmis úr kvenfjölskyldu þar sem við erum með granna fótleggi en mjúkan maga. Ég hef alltaf þráð sléttan maga en það er bara ekki í minni genabyggingu. Ég myndi þyrfa að svelta mig í einhvern tíma ásamt því að æfa brjálæðislega mikið til að fá sléttan maga í korter. Líkaminn veit hvernig hann vill vera en við bara hlustum ekki. Við setjum okkur einhver markmið í ræktinni sem oftar en ekki eru sentímetra- eða kílóatengd og það er svo fráleitt. Þetta á ekki að vera svona.“

„Ef þú værir aðeins grennri værirðu aðeins betri“

Sigga Dögg telur að það sé ekki aðeins fjölskylda okkar og hvernig foreldrar tala við börnin sín sem skiptir máli þegar kemur að því að bæta líkamsvitund kvenna. Það þurfi meira til.

„Þetta er allt í kringum okkur – í fjölmiðlum, auglýsingum, bíómyndum, hvernig við tölum hvor við aðra. Þótt maður sé gagnrýninn er maður samt ekki ónæmur fyrir þessari umræðu. Ég sveiflast til dæmis í fitusöfnun og um leið og ég næ aðeins af mér heyri ég mikið af hrósi um hvað ég líti vel út. Þá líður mér eins og fólk sé oft að hugsa: Ef þú værir aðeins grennri værirðu aðeins betri. Þú værir meira fyrir augað,“ segir Sigga Dögg sem segir einnig stigsmun á hvernig talað er við konur og karla þegar kemur að útlitinu.

„Hópur karlmanna á miðjum aldri spurði mig um daginn hvort þeir mættu ekki hrósa konum í vinnunni lengur. Hvort það væri ljótt að hrósa. Sumir vilja hrós en flestar okkar nennum því ekki að karlmenn hafi skoðun á okkur. Okkur langar bara að fá að vera í vinnunni og vinna vinnuna okkar. Það er rosalega þreytandi að þurfa sífellt að taka ákvörðun um útlit sitt. Ef að ég er mygluð og mæti í víðum gallabuxum og hettupeysu í vinnuna er það einhvers konar yfirlýsing, en ósköp venjulegt ef karlmaður gerir það. Auðvitað tengja karlmenn ekki við þetta því þetta er ekki þeirra reynsluheimur. En konur fá svo mikið af athugasemdum frá samfélaginu og fólkinu í kringum sig um hvernig þær líta út. Okkur langar bara að vera,“ segir Sigga Dögg og rifjar í kjölfarið upp atvik þegar henni var neitað um fjölmiðlaviðtal því hún væri ekki máluð.

„Ég sagðist bara ætla að vera svona, en það var stungið upp á því að viðtalinu yrði frestað þar til ég væri „betur stemmd“. Eins og fólk yrði ofboðslega vandræðalegt fyrir mína hönd og færi að hafa áhyggjur af því að ég væri ekki undirbúin því ég væri ekki máluð. Fólk ákveður hvernig okkur konur líður út frá útlitinu. Það les í klæðaburðinn okkar, í staðinn fyrir að kafa dýpra í skelina. Bæði konur og karlar eru með mjög skerta sjálfsmynd og það hjálpar ekki að utanaðkomandi aðilar hafi sífellt skoðanir á því hvernig þú lítur út. Verum bara eins og við viljum. Hættum að troða hugmyndum upp á alla aðra um hvernig þeir eigi að vera. Hafðu bara skoðun á þínum eigin, fokkíng líkama.“

Berum virðingu fyrir fjölbreytileikanum

Það sem byrjaði sem spjall um blæðingar hefur farið á flug, enda af nægu að taka af öllu sem varðar skömm sem tengist líkama kvenna. Sigga Dögg segir þær herferðir og grasrótarsamtök sem hafa starfað á Íslandi hafa haft mikil og góð áhrif, og ber þar til dæmis að nefna Völvuna og Druslugönguna. Hún segir samfélagið í heild sinni einnig á góðri leið, þótt við tökum stundum tvö skref áfram og þrjú aftur á bak.

„Sem samfélag erum við alltaf að læra. Við erum alltaf að batna og sýnum hvert öðru meiri virðingu og skilning. Mér finnst einlægur vilji hjá mörgum að reyna að skilja aðrar manneskjur og bera virðingu fyrir því hvað við erum ólík. Bakslagið kemur helst frá gömlum röddum sem rifja upp gamla tíma og spyrja að því hvort ekkert megi í dag. En af hverju megum við ekki bara hlusta á fólk og virða það sem það hefur að segja? Ég er ekki eins og þú og það er hvorki hættulegt fyrir mig né þig.“

„Finnst allt óþægilegt sem tengist kynfærum mínum“

Eins og áður segir, ákváðum við hjá Mannlífi að framkvæma okkar eigin skoðanakönnun um blæðingaskömm. Við spurðum einnig af hverju konur skömmuðust sín fyrir að vera á túr. Meðal svara sem við fengum voru:

„Dömubindi þykja ekki smart, maður vill ekki láta fólk sjá að maður fari á klósettið með dömubindi í hendinni.“

„Finnst ég óhrein.“

„Það hefur blætt í gegn, til dæmis þegar ég hitti tengdaforeldrana í fyrsta sinn, mér fannst það vandræðalegt.“

„Ég var 14 ára og það kom í gegnum fötin mín þegar ég var með pabba og nýrri kærustu hans í Kringlunni. Það kom blettur í stólinn á Stjörnutorgi. Þá skammaðist ég mín. Enda 14 ára og ný í bransanum. En kærastinn minn er með óþolandi blæðingafóbíu og kemur helst ekki nálægt mér meðan á því stendur. Þorir varla inn á bað af ótta við að sjá einhver ummerki á eða í kringum klósettið. Og hann gæti aldrei tæmt ruslið inni á baði, þó að ekkert blæðingatengt væri í því. Ég skammast mín þó ekki þegar hann lætur illa, ég segi honum bara að hann sé fífl og ætti að þakka fyrir, ég væri allavega ekki ólétt.“

„Skammast mín fyrir að kvarta yfir verkjum.“

„Veit ekki alveg af hverju, einhver skömm sem hefur verið innbyggð.“

„Fundist vandræðalegt að vera með stór dömubindi, held að það sjáist/heyrist kannski, fyrir að geta ekki stundað kynlíf, fyrir að vilja kannski ekki fara í sund.“

„Það kemur oft mikil lykt og mikið blóð.“

„Finnst allt óþægilegt sem tengist kynfærum mínum.“

„Byrjaði 10 ára á túr og sagði engum frá í þrjú ár.“

Álfabikarinn er ein af þeim vörum sem konur geta notað á túr.

Flest svörin eiga það þó sameiginlegt að konurnar sem tóku þátt í könnun okkar finnst samfélagið dæma þær fyrir að vera á blæðingum og að það hafi skort fræðslu frá foreldrum þegar blæðingar byrjuðu, en algengast er að stúlkur byrji á blæðingum frá 10 ára aldri og upp í 15 ára.

„Samfélagið hefur kennt manni að það sé ógeðslegt og óhreint,“ skrifar ein kvennanna og önnur er sammála: „Því ég fékk þau skilaboð frá umhverfinu að þetta væri ógeðslegt.“

„Var alin upp þannig að þetta væri eitthvað sem enginn talar um, svo unglingurinn ég með ekkert sjálfstraust/sjálfsálit tók það svo nærri mér að ég fór alltaf að skammast mín þegar ég var á túr þangað til ég lærði að þetta á alls ekki að vera feimnismál og allar konur fara í gegnum þetta!“ skrifar önnur og margar hafa svipaða sögu að segja:

„Bara ógeðslegt og mikið talað neikvætt um þetta af fjölskyldunni minni.“

„Skammaðist mín sem unglingur þar sem þetta var aldrei umræðuefnið milli mín og mömmu, þar af leiðandi fannst mér þetta ekki eðlilegt „ástand“.“

„Ég byrjaði 11 ára og enginn hafði rætt það við mig svo ég faldi þetta og notaði klósettpappír og þvoði nærbuxurnar mínar sjálf í höndunum í klósettvaskinum.“

„Þegar ég byrjaði á blæðingum 13 ára gömul þorði ég ekki að segja nokkrum manni frá því. Sérstaklega ekki mömmu, ég var alveg viss um að hún yrði reið. Kona sem er aldrei reið, hehe!“

„Mamma var ekkert að kenna mér hvað blæðingar voru og lét mér eiginlega líða bara illa með það.“

Enn aðrar segja skömmina hafa komið vegna þess að þær byrjuðu ungar á blæðingum, jafnvel fyrstar af sínum vinkonum eða skólasystrum. „Fyrst þegar ég byrjaði var þetta rosaskömm að vera komin á blæðingar í grunnskóla,“ skrifar ein og önnur segist hafa falið blæðingar fyrir öllum í þrjú ár. „Byrjaði 10 ára og sagði engum frá fyrr en 13 ára.“

Þá eru nokkrar konur sem segjast hafa hætt við að fara í sund, líkamsrækt eða á mannamót vegna blæðinga, einhverjar sem telja að samfélagið líti á blæðingar sem veikleika og sumar konurnar telja að komið sé fram við þær öðruvísi, til dæmis af vinnuveitenda, þegar þær eru á túr. Þá hafði ein kona lent í vandræðum hjá vinnuveitenda fyrir að tala um blæðingar sínar:

„Fékk einu sinni skammir frá vinnuveitanda fyrir að útskýra að mér liði illa vegna þess að ég væri með túrverki. Var sagt að svona lagað ættu ungar stúlkur ekki að nefna upphátt.“

Hvernig væri heimurinn ef karlmenn færu á túr?

Anna Tara. Mynd / Kristín Péturs

Konur um allan heim eru farnar að opna umræðuna um blæðingar til að útrýma blæðingaskömm. Ein af þeim er tónlistarkonan og Reykjavíkurdóttirin Anna Tara Andrésdóttir. Hún olli miklu fjaðrafoki á samfélagsmiðlum í fyrra þegar hún frumsýndi myndbandið við lagið Pussypics. Píkan og blæðingar eru í aðalhlutverki í myndabandinu og þótti myndbandið of gróft til að vera sýnt á myndbandaveitum á borð við YouTube. Einnig var myndbandinu hent út af þekktum klámsíðum. Anna Tara mátti þola mikinn fúkyrðaflaum út af fyrrnefndu myndbandi en hún telur mjög mikilvægt að opna umræðuna um blæðingar.

„Við getum útrýmt þessari skömm með því að tala mjög mikið um blæðingar og sýna þær með margvíslegum hætti, hvort sem það er í daglegu lífi eða í listum, þangað til að þær „normalíserast“. Kiran Gandhi hljóp til dæmis London-maraþonið án þess að nota túrtappa eða dömubindi og lét sér blæða frjálst, sem vinnur þá bæði gegn því að þetta sé feimnismál og að þetta sé veikleikamerki,“ segir Anna Tara.

En af hverju telur hún að sumar konur skammist sín fyrir að vera á blæðingum?

„Stórt er spurt. Það eru svo ótrúlega margþætt en líklegast mjög mörg mismunandi skilaboð um að það sé ógeðslegt eða veikleikamerki,“ segir tónlistarkonan sem hefur velt blæðingum mikið fyrir sér.

„Eftir að ég byrjaði að velta túr mun meira fyrir mér og fylgifiskum hans, fór ég að taka eftir því hvað ég er hrifnæm á túr og reyni að gefa sjálfri mér rými til að slaka á og vera í tilfinningaúrvinnslu og þá hlakkar hluti af mér til þess. En mér finnst þreytandi að vera með túrverki, finnast ég útblásin og þurfa að pæla í túrtöppum og slíku. Sumir eru viðkvæmir fyrir því að það sé talað um túr en svo birtist skömmin kannski í mörgum öðrum hlutum, eins og ef þú ert með túrblett aftan á rassinum sem þú vissir ekki af. Ég hef heyrt stelpur vera miður sín yfir því að hafa gist hjá strák og það hafi óvart farið blóð í lakið. Svo næst blóðið illa úr lakinu í þvotti. Einn þurfti að fara með lakið í hreinsun. Ef karlmenn færu á túr, ætli það væru þá til þvottavélar sem næðu túrblóði úr lökum? Eða hvernig væri heimurinn ef karlmenn færu á túr?“ spyr Anna Tara.

Fyrrnefnt myndband Önnu Töru við lagið Pussy Pics má horfa á með því að smella hér. Við vörum viðkvæma við innihaldi myndbandsins.

Fleiri konur sem hafa opnað umræðuna

Norska tónlistarkonan Jenny Hval vakti athygli þegar hún gaf út plötuna Blood Bitch árið 2016 en eitt lagið á plötunni, Untamed Region, fjallar einmitt um þá skömm sem umlykur blæðingar kvenna.

Kanadíska listakonan Rupi Kaur komst í heimspressuna í mars árið 2015 þegar hún birti mynd úr myndaseríu sinni Period (Tíðir) á Intagram. Á myndinni sést kona liggjandi í rúmi og snýr baki í myndavélina. Blóðblettir eru á buxum hennar og í lakinu. Forsvarsmenn Instagram eyddu myndinni nánast samstundis út af samfélagsmiðlinum þannig að Rupi skrifaði um það á bæði Facebook og Tumblr. Málið vakti svo mikla athygli að Instagram leyfði myndina, en hana má sjá hér:

thank you @instagram for providing me with the exact response my work was created to critique. you deleted a photo of a woman who is fully covered and menstruating stating that it goes against community guidelines when your guidelines outline that it is nothing but acceptable. the girl is fully clothed. the photo is mine. it is not attacking a certain group. nor is it spam. and because it does not break those guidelines i will repost it again. i will not apologize for not feeding the ego and pride of misogynist society that will have my body in an underwear but not be okay with a small leak. when your pages are filled with countless photos/accounts where women (so many who are underage) are objectified. pornified. and treated less than human. thank you. ⠀⠀⠀⠀⠀⠀ ⠀ ⠀⠀⠀⠀ ⠀⠀⠀⠀ ⠀ ⠀⠀⠀ ⠀ this image is a part of my photoseries project for my visual rhetoric course. you can view the full series at rupikaur.com the photos were shot by myself and @prabhkaur1 (and no. the blood. is not real.) ⠀⠀⠀⠀⠀⠀ ⠀ ⠀⠀⠀⠀ ⠀⠀⠀⠀ ⠀ i bleed each month to help make humankind a possibility. my womb is home to the divine. a source of life for our species. whether i choose to create or not. but very few times it is seen that way. in older civilizations this blood was considered holy. in some it still is. but a majority of people. societies. and communities shun this natural process. some are more comfortable with the pornification of women. the sexualization of women. the violence and degradation of women than this. they cannot be bothered to express their disgust about all that. but will be angered and bothered by this. we menstruate and they see it as dirty. attention seeking. sick. a burden. as if this process is less natural than breathing. as if it is not a bridge between this universe and the last. as if this process is not love. labour. life. selfless and strikingly beautiful.

A post shared by rupi kaur (@rupikaur_) on

Svo er líka vert að nefna tónlistarkonuna og aðgerðarsinnann Kiran Gandhi sem hljóp London-maraþonið í ágúst árið 2015 á blæðingum. Hún notaði hvorki bindi né túrtappa og leyfði blóðinu að flæða frjálst úr sköpum sínum.

Fyrstu heimildir um blæðingaskömm

„Yfirbragð hennar mun deyfa birtu spegla, gera stálbrún bitlausa og afmá gljáa fílabeins. Býflugnahjörð myndi deyja samstundis ef hún myndi svo mikið sem líta á hana.“ Svona lýsir rómverski fræðimaðurinn Plinius eldri þeim áhrifum sem blæðingar kvenna hafa á aðra í ritinu Náttúrusaga (Naturalis Historia) í kringum árið 77 til 79.

Þetta eru fyrstu heimildir um það sem má kalla blæðingaskömm, sem á ensku heitir period shame eða menstrual taboo. Síðan þá hafa blæðingar verið lastaðar í gegnum tíðina og orðræða í kringum þetta náttúrulega og eðlilega fyrirbæri verið konum til minnkunar.

Kúgast yfir túrbletti

Það eru ekki aðeins trúarbrögð sem viðhalda þessari svokölluðu blæðingaskömm, heldur einnig ýmislegt í menningu okkar, til dæmis hvernig talað er um tíðir í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Þar má meðal annars nefna kvikmyndina Superbad þegar Seth, sem leikinn er af Jonah Hill, uppgötvar að hann er með túrblett á buxunum eftir heitan dans með fyrrverandi kærustu. Hann kúgast samstundis. Þegar leikarinn Seth Rogen, einn af handritshöfundum myndarinnar, rifjaði þetta atriði upp á Twitter í fyrra, til að fagna tíu ára afmæli myndarinnar, stóðu viðbrögðin ekki á sér og fjölmargir tístarar tjáðu sig um hve ógeðslegt þetta atriði hefði verið.

Í kvikmyndinni Blue Lagoon frá 1980 skammast Emmeline, túlkuð af Brooke Shields, sín niður í tær þegar hún byrjar á túr þegar hún er að baða sig í litlu lóni. Fyrst áttar hún sig ekki á því hvað er að gerast og kallar á frænda sinn að hjálpa sér. Þegar það síðan rennur upp fyrir henni að um blæðingar sé að ræða öskrar hún á hann að hypja sig, svo mikil er skömmin.

Einnig er vert að minnast á kvikmyndina Carrie frá árinu 1976 í þessu samhengi, þar sem aðalsöguhetjan Carrie White, leikin af Sissy Spacek, byrjar á blæðingum í skólanum. Trúuð móðir hennar sýndi henni engan stuðning og útskýrði tíðir ekki fyrir Carrie og verður hún fyrir miklu aðkasti frá skólafélögum sínum.

Þá vöktu ummæli Donalds Trump Bandaríkjaforseta, í garð fréttakonunnar Megyn Kelly heimsathygli í ágúst árið 2015. Megyn gekk hart að núverandi Bandaríkjaforseta í fyrstu kappræðum tilvonandi forsetaefna Repúblíkanaflokksins og yfirheyrði hann um niðrandi ummæli hans í garð kvenna. Eftir kappræðurnar ýjaði valdamesti maður heims að hún hefði verið svona ágeng því hún hafi verið á blæðingum.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Aldís Pálsdóttir / Kristín Pétursdóttir / Úr safni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -