Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

„Ég get ekki hatað bróður minn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heiða Þórðardóttir segir sorgina eftir að bróðir hennar, Gísli Þór Þórarinsson, var skotinn af bróður þeirra, Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, hafa verið þá þyngstu sem hún hefur upplifað. Hún trúir þó að þetta hafi verið óviljaverk og er afskaplega ósátt við rangfærslur í fréttaflutningi af málinu.

„Þetta hefur náttúrlega verið alveg svakalega erfiður tími,“ svarar Heiða aðspurð hvernig henni hafi liðið þessa mánuði síðan manndrápið átti sér stað. „Ég er að koma til en þetta hefur verið ansi töff, sér í lagi vegna þess að ég var í svo miklum samskiptum við Gísla alla hans ævi. Ég passaði hann alveg frá því að hann fæddist og við vorum mjög náin alla tíð. Hann trúði mér fyrir öllu í aðdraganda málsins og ég var eiginlega þátttakandi í þessu öllu með honum.“

Aðdragandi málsins var sá að Gísli og fyrrverandi kona Gunnars fóru að draga sig saman á meðan Gunnar og kona hans stóðu í skilnaðarferli. Heiða segir Gísla hafa heimsótt Gunnar nokkrum dögum áður en manndrápið átti sér stað til að segja honum að þau væru saman og myndu hugsanlega fara að búa saman í framtíðinni.

„Gunnar og konan hans skildu að borði og sæng fyrir tveimur árum og í ágúst á síðasta ári fór Gunnar í meðferð til að vinna sínum málum og koma lífi sínu á réttan kjöl. Hann stóð í þeirri meiningu að ef honum tækist það myndu þau hjónin taka saman aftur. Hann er faðir barnanna sem gjarnan eru kölluð stjúpbörn Gísla í fréttum af málinu sem er auðvitað algjör vitleysa. Gísli og fyrrverandi kona Gunnars bjuggu ekki saman og þessi börn voru ekkert á hans vegum. Gísli hringdi í mig 19. apríl, nokkrum dögum áður en þetta gerðist, og sagði mér að hann hefði farið til Gunnars fáeinum dögum fyrr og sagt honum að hann og fyrrverandi kona Gunnars væru að draga sig saman. Gunnar varð auðvitað alveg brjálaður því að hann hélt að þau hjónin væru að vinna að því að taka saman aftur. Þar fyrir utan voru Gísli og Gunnar alltaf góðir og nánir vinir þannig að Gunnar upplifði þetta sem svik frá bæði konunni sinni og besta vini. Í kjölfarið leitaði hann til sálfræðings vegna þess að hann var gjörsamlega niðurbrotinn og var hræddur um að hann myndi fyrirfara sér. Hann lét svo leggja sig inn á geðdeild þar sem hann réði ekkert við aðstæðurnar.“

„Þessa fjóra daga sem hann var á geðdeild, algjörlega niðurbrotinn, og ég var að reyna að tala hann til datt mér aldrei í hug að þetta myndi enda svona hræðilega.“

Í fréttum hefur komið fram að Gunnar hafi hótað því að drepa Gísla eftir að hann komst að sannleikanum en Heiða segist ekki hafa tekið neitt mark á því á þeim tíma, það hafi bara verið marklaus upphrópun eins og fólk láti gjarnan frá sér þegar það er í miklu uppnámi.

„Ég var í miklu sambandi við þá báða á þessum tíma,“ segir hún. „Við Gunnar vorum líka náin, nema auðvitað þegar hann var á kafi í einhverju rugli. Þannig að það má segja að við höfum öll þrjú verið nánir vinir og staðið saman í gegnum lífið enda þurftum við öll hvert á öðru að halda.“

Aðspurð hvort hún hafi átt von á því að Gunnar gæti látið verða af þeirri hótun sinni að drepa Gísla, miðað við langa ofbeldissögu hans, svarar Heiða að hún hafi aldrei trúað því. Mynd/Hallur Karlsson

Öll mörkuð af uppeldinu
Komið hefur fram í fréttum af málinu að þau systkinin hafi átt erfitt í æsku vegna alkóhólisma og geðrænna vandamála móður þeirra. Ólust þau öll upp hjá henni?

- Auglýsing -

„Nei, elskan mín góða,“ segir Heiða og hristir höfuðið. „Mamma átti sex börn með fjórum mönnum og pabbi átti fjögur börn með þremur konum og svo áttu allir hinir feður þessara barna fullt af börnum með fullt af konum. Þetta er alveg óskaplega flókið fjölskyldumunstur. En ég, Gísli og alsystir hans ólumst öll upp hjá mömmu. Gunnar ólst hins vegar upp hjá föður sínum, en kom mikið til okkar og sótti mikið í mömmu. Hann var óskaplega orkumikill og ég kallaði hann alltaf villinginn, en mér þótti samt afar vænt um hann og hann er alveg jafnmikill bróðir minn og Gísli var.“

Bræðurnir Gísli og Gunnar með móður sinni en komið hefur fram í fréttum að þau systkinin hafi átt erfitt í æsku vegna alkóhólisma og geðrænna vandamála móður þeirra.

Heiða segir óvíst hvort hafi komið á undan hjá móður þeirra, alkóhólisminn eða geðrænu vandamálin en auðvitað hafi ástand hennar haft mikil áhrif á þau systkinin.

„Mamma byrjaði að taka kvíðastillandi lyf þegar hún var sextán ára,“ útskýrir hún. „Þannig að mögulega var það upphafið. Hún lét viðgangast hluti sem eru algjörlega absúrd og þekkjast ekki á „eðlilegum“ heimilum. Það setti mark sitt á okkur öll systkinin, líka þau sem ólust ekki upp hjá henni. Þar fyrir utan áttum við fleiri fósturpabba en ég get talið á fingrum beggja handa og þeir voru náttúrlega misgóðir, eins og gengur.“

- Auglýsing -
Hver næstu skref verði til að ná aftur tökum á lífi sínu segir Heiða að það sé nú ýmislegt í bígerð. Mynd/Hallur Karlsson

Trúir ekki að þetta hafi verið viljaverk
Spurð hvort hún hafi átt von á því að Gunnar gæti látið verða af þeirri hótun sinni að drepa Gísla, miðað við langa ofbeldissögu hans, svarar Heiða að hún hafi aldrei trúað því og hún trúi því ekki enn að það hafi verið ætlun hans.

„Þessa fjóra daga sem hann var á geðdeild, algjörlega niðurbrotinn, og ég var að reyna að tala hann til, datt mér aldrei í hug að þetta myndi enda svona hræðilega,“ segir hún. „Hann sagðist myndu loka á samskipti við mig ef ég tæki afstöðu með Gísla en ég tók enga afstöðu, sagði honum bara að jafna sig, þessi kona væri ekki þess virði að splundra samstöðu okkar þriggja. Varðandi fyrri brot hans þá vil ég taka fram að þau áttu sér alltaf stað þegar hann var í harðri neyslu. Ekki að það sé afsökun, en það er skýring. Eftir að hann kom út af geðdeildinni féll hann og fór heim til Gísla með kunningja sínum og þeim bræðrunum lenti saman sem lauk með því að Gunnar skaut Gísla í lærið, skotið fór í slagæð og honum blæddi út. Sjúkraflutningamennirnir sem komu á vettvang voru með bundnar hendur vegna þess að þeir máttu ekki fara inn á undan lögreglunni og því fór sem fór.“

„Þótt ég syrgi auðvitað Gísla bróður minn óskaplega mikið þá er Gunnar líka bróðir minn og ég get ekki hatað hann fyrir þetta slys.“

Spurð hvort hún sé reið yfir því að Gísli hafi verið látinn liggja einn þar til honum blæddi út tekur Heiða sér örlítinn umhugsunartíma til að svara.

„Jú,“ segir hún svo. „Ég er reið, það hefði verið hægt að bjarga honum. En samt hef ég eiginlega ekki orðið reið í þessu sorgarferli, nema auðvitað við fólkið í kringum mig sem sýndi af sér virkilegan ótuktarskap gagnvart mér vegna þess að ég vildi ekki taka þá afstöðu að kalla Gunnar morðingja. Ég þekki hann ekki sem slíkan. Ég veit auðvitað að hann hefur gert hræðilega hluti, þótt ég hafi ekki lesið öll málsskjöl í þeim málum sem hann hefur verið dæmdur fyrir en mér finnst það ekki vera mitt að dæma hann. Ég get ekki einu sinni verið reið við hann í þessu tilfelli, hann þarf að lifa með því alla sína ævi að hafa drepið bróður sinn og besta vin. Þeir höfðu búið saman, unnið saman og áttu mjög vel saman þegar Gunnar var í toppstandi, sem hann var miklu oftar en í neyslu. Þótt ég syrgi auðvitað Gísla bróður minn óskaplega mikið þá er Gunnar líka bróðir minn og ég get ekki hatað hann fyrir þetta slys. Ég er bara svo ofboðslega sorgmædd. Ég er búin að missa alla þá sem hafa verið mér kærkomnastir, mömmu, pabba, vini og ömmur en þetta er mesta sorg sem ég hef upplifað. Þegar lögreglan kom til að segja mér frá þessu var mér boðin hjálp sem ég afþakkaði með þeim orðum að ég væri vön þessu en málið er að þetta er það svakalegasta högg sem ég hef fengið. Sorgin var svo mikil að ég fann líkamlegan sársauka. Ég svaf ekki, ég borðaði ekki og ég get svarið að ég man ekkert eftir fyrstu dögunum á eftir.“

Bræðurnir Gunnar og Gísli voru góðir vinir og unnu meðal annars saman við sjómennsku.

Atburðurinn hefur tvístrað fjölskyldunni
Þrátt fyrir þessa miklu sorg og vanlíðan segist Heiða ekki hafa leitað sér áfallahjálpar eða sálfræðiaðstoðar, hún hafi haldið að hún kæmist í gegnum þetta hjálparlaust. Það hafi sennilega verið ofmat á eigin getu.

„Það er engan stuðning að fá frá fjölskyldu minni,“ segir hún. „En hins vegar hef ég fengið ótrúlegustu hjálp frá alls konar fólki sem jafnvel þekkir mig ekki neitt. Ég er líka mikið í félagsstörfum, er í stjórn stjórnmálaflokks og þar að auki samfrímúrari og þaðan hef ég fengið mestu hjálpina. Þau komu færandi hendi með blóm og fallegar kveðjur og vilja allt fyrir mig gera. En að öðru leyti hef ég ekki fengið neina hjálp.“

Aðrir í fjölskyldunni hafa tekið harða afstöðu gegn Gunnari og fordæmt hann fyrir verknaðinn, að sögn Heiðu, og atburðurinn hefur tvístrað fjölskyldunni enn frekar.

„Þau fordæma hann og sumir hafa skrifað virkilega ógeðslega hluti um hann á Facebook, meira að segja fólk sem er óvirkir alkóhólistar og ætti að hafa skilning á því að fíkill undir áhrifum alls kyns efna fremur einhvern viðbjóð þegar hann er ekki með sjálfum sér. Mér hafa sárnað þessi ummæli óskaplega. Dómharkan var svo svaðalega mikil án þess að fólk vissi neitt um málið eða tildrög þess. Enginn reyndi að setja sig í spor Gunnars eða reyna að skilja hversu hræðilega illa honum leið eftir að hafa upplifað þessi svik frá konunni sem hann elskaði og bróðurnum sem hann leit á sem besta vin sinn. Mér finnst það ófyrirgefanlegt að dæma svona án þess að hafa neinar forsendur.“

Dómharkan var svo svaðalega mikil án þess að fólk vissi neitt um málið eða tildrög þess.

Lík Gísla var flutt heim, sem olli líka átökum innan fjölskyldunnar, og jarðarförin fór fram hér. Heiða segist hafa barist fyrir því að fá hann heim en ýmsir aðrir innan fjölskyldunnar hafi viljað láta brenna líkið í Noregi og flytja öskuna heim til að spara kostnað. Þegar til kom hafi Icelandair flutt hann ókeypis sem hún sé mjög þakklát fyrir, svo þetta hafi ekki snúist um kostnað þegar upp var staðið. Þessi átök hafi hins vegar kostað það að hún hafi ekki treyst sér til að vera við jarðarförina.

„Ég vildi fá hann heim í heilu lagi svo ástvinir hans gætu kvatt hann,“ útskýrir hún. „Ég hafði það í gegn og hann fékk þá jarðarför sem hann hafði óskað eftir, Liverpool-söngurinn You Never Walk Alone var spilaður og fleira. Síðan var hann brenndur að eigin ósk. Ég hins vegar gat alls ekki fengið mig til að fara í jarðarförina, ég hafði bara ekki heilsu í það, var ekkert búin að borða í marga daga, með svimaköst og stöðugt grátandi. Ég komst líka að því að maður sem tengist fjölskyldunni hafði verið að skrifa alls konar óhróður um mig í Facebook-grúppu sem margir vina minna voru í. Ég ætla ekki að gefa þeim orðum líf með því að endurtaka þau en ég gat bara ekki hugsað mér að láta þetta fólk sjá mig brotna saman. Ég kvaddi bróður minn bara ein með sjálfri mér.“

„Ég hef svo smám saman náð því með bænum og hugleiðslu að reyna að lifa samkvæmt sannleika Gísla. Hann var alveg ofboðslega góð manneskja,“ segir Heiða um bróður sinn. Mynd/Hallur Karlsson

„Hvað myndi Gísli gera?“
Aðspurð hvernig hægt sé að halda áfram að lifa sínu venjulega lífi eftir slíkt áfall svarar Heiða að hún sé ekki enn búin að finna út úr því.

„Ég bara veit það ekki,“ segir hún döpur. „Ég fór ekki út í margar vikur eftir að þetta gerðist, lét bara senda mér mat, kveikti á kertum og hugsaði. Ég hef svo smám saman náð því með bænum og hugleiðslu að reyna að lifa samkvæmt sannleika Gísla. Hann var alveg ofboðslega góð manneskja. Talaði aldrei illa um neinn, var afskaplega hlýr, traustur og tryggur og hjálpaði öllum sem hann gat. Hann var alveg ótrúlegur. Þeir segja að þeir sem deyja ungir fari til himna en mikið rosalega var þetta ósanngjarnt. Hann átti svo mikið eftir. Var tónlistarmaður með drauma og ofboðslega skemmtilegan húmor. Samt oft þungur, mjög mikill pælari og mjög gaman að tala við hann um alls kyns málefni. Hann verður aldrei gleymdur. Ég finn sterkt fyrir honum og sný upp á máltækið „Hvað myndi Jesús gera?“ með því að spyrja sjálfa mig: „Hvað myndi Gísli gera?“ þegar ég þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Ég er ekki trúuð í skilningi trúarbragðanna en ég trúi á eitthvað okkur æðra. Ef ég gerði það ekki þá myndi ég einfaldlega trúa því að ég sé guð almáttugur og það er ég svo sannarlega ekki,“ segir Heiða og kímir. „En ég reyni vissulega að vera betri með hverjum deginum og oft í gegnum þessar vikur hef ég hugsað með mér að ég verði að hringja í Gísla og spyrja hann um hitt og þetta, eins og ég gerði svo oft þegar ég var í einhverjum vafa. En nú get ég það ekki lengur, þannig að nú reyni ég bara að hugsa um hvernig hann myndi leysa málin. Hann var alltaf svo rólegur og yfirvegaður. Þannig að, já, það er stefnan að reyna að lifa í anda hans og borga illt með góðu, eða ef mér tekst það ekki að leiða það þá hjá mér og láta það ekki særa mig. Fyrstu vikurnar eftir að hann dó var ég það aum að ég tók allt vont sem fólk sagði inn á mig og lét alls konar hluti fjúka á móti, sem er mér ekki eðlislægt. Ég var bara gjörsamlega í sjokki, kannski í allt of langan tíma, ég veit það ekki, en ég bara þurfti þennan tíma til að vinna mig út úr þessu.“

Fyrstu vikurnar eftir að hann dó var ég það aum að ég tók allt vont sem fólk sagði inn á mig og lét alls konar hluti fjúka á móti, sem er mér ekki eðlislægt.

Hver næstu skref verði til að ná aftur tökum á lífi sínu segir Heiða að það sé nú ýmislegt í bígerð. „Næstu skref, já,“ segir hún hugsi. „Góð spurning. Nú er ég til dæmis í viðtali við þig, það er mjög stórt skref fyrir mig, og svo tek ég bara á þessu einn dag í einu. Ég hef verið með vefinn spegill.is síðan 2011 og er að skipta um hýsingaraðila þessa dagana til að efla hann. Svo ætla ég að skrifa og er að hugsa um að þýða bókina Allra síðasta eintakið, sem ég gaf út 2011, yfir á ensku og reyna að koma henni á framfæri erlendis. Bókin fjallar um kynferðislega misnotkun og fyrirgefninguna og er voða sæt, þrátt fyrir efniviðinn, hún kemur mér til að gráta og hlæja enn þá og er ekkert svakalegt drama. Þar fyrir utan hef ég verið að taka að mér alls kyns verkefni í skriftum, þýðingar og greinaskrif, en annars hef ég bara verið í slökun. Ég hef verið að reyna að koma mataræðinu í lag aftur því þegar ég er undir álagi þá borða ég ekki, þannig að ég er orðin svo grönn að ég gæti málað ljósastaura að innan, svo maður grínist nú aðeins.“

Heiða Þórðardóttir. Mynd/Hallur Karlsson

„Þá á ég ekkert systkini eftir“
Heiðu er reyndar ekki grín í huga, hún segist engan veginn vera búin að vinna úr þessu áfalli, það muni taka mun lengri tíma.

„Þetta ferli hefur verið alveg rosalegt. Kannski var ég bara að taka allt sem á undan er gengið og fara í gegnum það í sambandi við þennan atburð. Ég fylgdist með þessu öllu, færði fréttir á milli þeirra bræðranna og við Gísli vorum alveg komin á þá skoðun að þetta væri bara í kjaftinum á Gunnari, hann myndi ekki gera neitt. Svo hefur verið erfitt að fylgjast með öllum þessum rangfærslum í fréttaflutningi, eins og til dæmis þegar kona Gunnars sagði að hann hefði barið allt húsið að utan þegar ég vissi að hann var inni á geðdeild, ég var nýbúin að tala við hann í síma. Það var líka erfitt að lenda í átökum við fjölskylduna vegna heimflutnings líksins og að treysta mér ekki í jarðarförina og já, þetta hefur bara verið alveg óskaplega erfiður pakki.“

„Ég hef hringt nokkrum sinnum og skilið eftir skilaboð en hann hefur ekki svarað. Hann treystir sér væntanlega ekki til að tala við mig strax.“

Réttarhöldin í máli Gunnars munu hefjast 10. desember og Heiða segist vonast til að þar komi sannleikurinn í ljós. Hún ætli sér að minnsta kosti að trúa því að þetta hafi verið hræðilegt slys þangað til annað komi í ljós. Hefur hún verið í einhverju sambandi við bróður sinn á meðan hann hefur setið í gæsluvarðhaldi?

„Ég hef hringt nokkrum sinnum og skilið eftir skilaboð, en hann hefur ekki svarað,“ segir hún. „Hann treystir sér væntanlega ekki til að tala við mig strax. Ég hins vegar verð til staðar þegar hann er tilbúinn. Ég mun að sjálfsögðu ekki ljúga að honum og segja að mér finnist þetta í lagi, ég mun segja honum sannleikann og ef hann þolir það ekki þá á ég ekkert systkini eftir. Ég vona að til þess komi ekki.“

Myndir/Hallur Karlsson
Förðun/Hildur Emilsdóttir förðunarfræðingur Urban Decay á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -