Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

„Ég hef alltaf litið á þessi börn sem mín eigin“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Árið 2017 var æðislegt en líka afar skrýtið. Það var allavega mjög öðruvísi,“ segir leikarinn Jóel Sæmundsson.

Jóel frumsýndi einleikinn Hellisbúann í september á síðasta ári, landaði stóru hlutverki í bíómynd og létti sig um tíu kíló á sextíu dögum. Hann gerði þetta allt ásamt því að hugsa um börnin sín þrjú, en hann gekk tveimur af börnunum í föðurstað þegar hann kynntist fyrrverandi kærustu sinni. Við heyrðum í Jóel og fórum yfir þetta magnaða ár með honum.

Engin karlrembusýning

„Ég var búinn að lesa leikritið og var lengi búið að langa að leika Hellisbúann, þó ég hefði aldrei séð stykkið á sviði. Ég ákvað því að hafa samband við Theater Mogul, fyrirtækið sem á réttinn af verkinu, og þá vildi svo skemmtilega til að þau höfðu líka verið að leita leiða til að setja verkið aftur upp á Íslandi. Ég fór á tvo fundi með Óskari Eiríkssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, hann skoðaði efni með mér og síðan ákváðum við að kýla á þetta saman,“ segir Jóel um hvernig það atvikaðist að hann brá sér í hlutverk Hellisbúans.

Jóel sem hellisbúinn.

Margir muna eflaust eftir sýningunni Hellisbúinn með Bjarna Hauk fremstan í flokki, en einleikurinn vakti gríðarlega lukku á Íslandi á tíunda áratug síðustu aldar, og síðan aftur fyrir nokkrum árum með Jóhannes Hauk í aðalhlutverki. Verkið, sem skrifað er af Rob Becker, hefur einnig farið sigurför um heiminn allan og er til dæmis sá einleikur sem lengst hefur gengið á Broadway. Verkið var skrifað árið 1991 og segir Jóel að síðasta vor og sumar hafi farið í það að uppfæra handritið.

„Við í raun uppfærðum handritið í takt við gamla punkta sem höfundurinn hafði skrifað, sem voru farnir úr verkinu, en færðum það inn í nútímann. Í því ferli fékk ég dýpri skilning á verkinu. Aðalpunkturinn í því er að þó við séum ólík þurfum við að finna leið til að koma saman. Tveir mismunandi einstaklingar samankomnir eru sterkari en einn. Þannig að við fórum aðeins aftur til rótanna ef svo má segja í handritaferlinu,“ segir Jóel, sem þvertekur fyrir að þetta sé enn, eitt karlrembustykkið eins og hann hefur svo oft heyrt fleygt.

„Alls ekki. Að mínu mati hefur þetta stykki aldrei átt jafn vel við og akkúrat núna.“

- Auglýsing -

Enginn bjargar manni ef illa fer

Jóel lærði leiklist í Bretlandi og var með litla sem enga reynslu af einleikjum áður en hann tók að sér hlutverk hellisbúans, sem er tveggja klukkutíma sýning.

„Mér finnst þetta ofboðslega gaman. Það er auðvitað erfitt að enginn getur bjargað manni ef illa fer en sem betur fer hefur ekkert stórfenglegt komið uppá. Eitt sinn gleymdi ég þrjátíu mínútum af stykkinu en náði einhvern veginn að spóla aðeins til baka og klára verkið eins og á að klára það. Svo var reyndar mjög fyndið þegar ég flækti mig í bol sem ég átti að klæða mig úr á sviðinu. Það gerðist mjög hratt og ég held ég hafi ekkert geta sagt nema: Þetta hefur aldrei komið fyrir áður. Það var mjög spaugilegt,“ segir Jóel.

Jóel er fjölhæfur leikari.

Stærsti einleikur í heimi og aðalhlutverk í bíómynd

En draumurinn um hellisbúann var ekki sá eini sem rættist á síðasta ári. Þegar leikarinn var búinn að tryggja sér það hlutverk fékk hann tilboð úr annarri átt sem hann gat ekki hafnað.

- Auglýsing -

„Ég var fastur í Miami þegar ég fékk símtal um að sænskur leikstjóri vildi fá mig í prufu á Íslandi. Ég fékk prufunni frestað um einn dag, leigði mér bíl og keyrði frá Miami til Orlando þar sem ég fékk flug heim til Íslands. Ég fékk senuna sem ég átti að lesa senda í tölvupósti og æfði mig alla nóttina í fluginu. Þegar ég lenti á Íslandi brunaði ég síðan beint í prufuna. Þegar ég kom á staðinn kom í ljós að ég hafði æft vitlausan karakter en það reddaðist sem betur fer. Áður en ég fór spurði leikstjórinn mig hvort ég vildi lesa handritið og koma aftur á morgun. Ég þáði það boð og næsta dag var mér boðið burðarhlutverk í myndinni,“ segir Jóel.

Um er að ræða kvikmyndina Pity the Lovers í leikstjórn Maximilian Hult sem er öll á íslensku og tekin upp á Íslandi. Meðal annarra leikara í myndinni eru Björn Thors, Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Sigurður Karlsson.

„Það er ekki á hverjum degi sem maður leikur stærsta einleik í heimi og fær aðalhlutverk í kvikmynd,“ segir Jóel þegar hann rifjar þetta upp. Tökutímabil myndarinnar skaraðist á við æfingatímabil Hellisbúans þannig að í fjórar vikur vann Jóel 200% leikaravinnu og rúmlega það. Í ofanálagi undirbjó hann sig vel fyrir kvikmyndahlutverkið.

Tíu kíló á sextíu dögum

„Myndin er um tvo bræður, Óskar og Magga. Þeir eru báðir rólegir í tíðinni en eiga erfitt með náin sambönd. Ég leik Magga sem þráir að verða ástfanginn og eignast fjölskyldu og hús og fer því úr einu sambandi í annað. Til að undirbúa mig fyrir hluverkið létti ég mig um tíu kíló á sextíu dögum. Ég taldi kaloríur en fékk mér samt allt sem mig langaði í. Ef mig langaði í pítsu þá fórnaði ég öðru. Ég fór á Esjuna þrisvar sinnum í viku og æfði í rauninni í sextíu daga í röð. Ég var ekki beðinn um að koma mér í betra líkamlegt form en mér fannst týpan kalla á það. Ég vildi líka búa mig undir að vinna fullan tökudag, fullan æfingadag og hugsa um krakkana. Þannig að síðasta sumar gerði ég lítið annað en að æfa og undirbúa mig.“

Á góðri stundu með föður sínum.

Jóel hefur tekið að sér ýmis verkefni síðan hann útskrifaðist úr leiklistarskóla fyrir tæpum áratug. En hvað er það núna sem gerir það að verkum að verkefnin koma til hans?

„Ég hef alltaf unnið mjög mikið, verið að búa eitthvað til og aldrei setið á rassgatinu aðgerðarlaus. Ég hef alltaf haft stóra drauma og lifi fyrir að láta þá rætast. Ég hef í raun verið að taka lítil skref að stærra markmiði. Ég einbeiti mér að því að umkringja mig góðri orku en forðast neikvæða orku því hún hjálpar mér ekki. Ég held að ég geti með sanni sagt að ég sé búinn að vinna fyrir þessu. Ég hugsa leiklistina í raun eins og íþrótt. Ef ég fer ekki út að hlaupa, þá bæti ég mig ekki. Ég hleyp ekki hraðar ef ég sit í sófanum. Að sama skapi er enginn að fara að hringja í mig ef ég tek ekki upp símann,“ segir Jóel.

Metur fjölskyldustundirnar

Jóel og börnin þrjú.

Talið berst að einkalífinu, en fjölskyldan er mjög mikilvæg leikaranum. Hann og fyrrverandi kærasta hans, Arna Pétursdóttir, skildu fyrir rúmum tveimur árum en þau eiga þrjú börn saman, Elvar Snæ, tólf ára, Elísu Sif, níu ára og Ester Maddý, þriggja ára. Raunar er sú síðastnefnda eina barnið sem er blóðtengd Jóel en hann gekk hinum tveimur í föðurstað. Arna og Jóel skipta forræði og segir hann samband þeirra á milli mjög gott.

„Það er gott samband okkar á milli og við reynum að halda í viku/viku fyrirkomulag, þó oftast sé Arna aðeins meira með börnin vegna óreglulegs vinnutíma hjá mér. En ég hef alltaf litið á þessi börn sem mín eigin og voru þau mjög ung þegar ég kom inn í líf þeirra. Ég gæti ekki ímyndað mér lífið án þeirra og met ég stundirnar með þeim mjög mikið. Oft er ég til dæmis í fríi á morgnana og þá keyri ég Elvar í skólann, þó það sé ekki mín vika með honum. Þá eigum við yndislega gæðastund í bílnum á morgnana,“ segir Jóel.

Fagnar 35 ára afmæli uppi á sviði

Það er eiginlega ekki hægt að sleppa leikaranum eftir þessa hressilegu yfirferð á árinu 2017 án þess að spyrja hvað framtíðin beri í skauti sér?

„Það er eitthvað í pípunum,“ segir Jóel og hlær. „Það er tengt sviðinu en það verður að bíða betri tíma að tilkynna það. Ég er með fullt af hugmyndum sem mig langar að framkvæma og nóg af draumum sem ég vil uppfylla,“ segir leikarinn, en næstu helgi sýnir hann tvær sýningar af Hellisbúanum. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þetta er stór helgi hjá Jóel. Hann fagnar nefnilega 35 ára afmæli sínu.

„Ég hef aldrei haldið uppá afmælið mitt svona – að leika á sviði fyrir framan fullan sal af fólki. Ég hlakka mikið til, enda ómetanlegt að fá að vinna við það sem maður elskar. Svo skemmir ekki fyrir að ég fæ líka að fagna deginum í faðmi fjölskyldunnar þannig að ég fæ í raun það besta úr báðum heimum á afmælisdaginn.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -