Lili Reinhart og Camila Mendes, stjörnur úr þáttunum Riverdale, voru í viðtali við tímaritið Cosmopolitan í síðasta mánuði.
Cosmopolitan í Filippseyjum deildi nýverið myndum úr blaðinu á Instagram, en búið var að eiga við myndirnar með myndvinnsluforritinu Photoshop. Stöllurnar tóku eftir þessu, enda var búið að mjókka mitti þeirra talsvert, og ákváðu að svara fyrir sig á Instagram.
„Það er sorglegt að ykkur fannst að þyrfti að mjókka líkama okkar. En Camila og ég erum fjandi fallegar. Eins og við erum. Og þið getið ekki „lagað“ okkur,“ skrifar Lili til fylgjenda sinna í Instagram-sögu sinni.
Þá ber hún einnig saman fyrir og eftir myndir af sér og Camilu, þar sem sést greinilega að búið er að eiga við myndirnar.
Hún segir enn fremur að þær Camila hafi haft mikið fyrir því að byggja upp sjálfstraust sitt og að þessi verknaður sýni bara að baráttan sé ekki unnin.
„Þetta er barátta á hverjum degi. Og að sjá líkama okkar vera afskræmda í myndvinnsluferli er fullkomið dæmi um hindranir sem við eigum enn eftir að yfirstíga,“ skrifar hún.
Afskræmd náttúrulega fegurð
Camila deildi líka skilaboðum á Instagram-sögu sinni og sagði að myndirnar væru óvirðing við þær stöllur.
„Við viljum að lesendur þeirra viti að þessir líkamar eru ekki okkar. Það er búið að afskræma náttúrulega fegurð þeirra. Við kjósum að horfa á líkama okkar eins og þeir eru í raun og veru. Og ég hef engan áhuga á að vera með mjórra mitti. Ég er meira en ánægð með það mitti sem ég er með.“
Lili hvatti aðrar stjörnur að hætta að eiga við líkama sína í myndvinnsluforritum því það ýtti undir óraunverulega líkamsímynd.
„Við getum ekki hætt að berjast. Baráttan er nýhafin. Við erum helvíti kröftug, falleg og sterk. Við ætlum ekki að fela okkur á bak við Photoshop til að laga okkur að fegurðarstöðlum.“