Sunnudagur 5. janúar, 2025
-5.2 C
Reykjavik

,,Ég hef verið elskuð út af lífinu og hötuð til helvítis“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hefur staðið fremst í flokki #metoo byltingarinnar.

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir segir árið 2017 hafa verið lyginni líkast, bæði fyrir sig persónulega sem og fyrir málstaðinn sem stendur hjarta hennar næst. Hún hefur barist ötullega gegn áreitni og ofbeldi sem hún segir alheimsvanda en vill um leið afskrímslavæða umræðuna um ofbeldismenn.

,,Það var ólýsanlegt að stíga á stokk og segja heiminum sögu sem ég hélt á löngu tímabili að myndi sliga mig, söguna af kynferðisofbeldinu sem fyrsti kærasti minn beitti mig,“ segir Þórdís Elva. Fatnaður: Bolur frá Gallery Sautján. Samfestingur og leðurjakki frá AndreA.

Þórdís Elva fæddist sömu nótt og Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti lýðveldisins, fyrst kvenna í heimi. Báðar hafa rutt konum braut í margvíslegum skilningi en árið í ár markar tímamót í baráttumálum kvenna á alþjóðavísu. Byltingin er hafin og þögnin rofin. Sárar frásagnir kvenna hafa litið dagsins ljós en allar snúa þær að ofbeldi og áreitni af hendi karlmanna. Þórdís Elva er ein þeirra sem staðið hefur fremst í flokki #metoo byltingarinnar. Fyrr á árinu gaf hún út bók um erfiða reynslu og flutti í kjölfarið fyrirlestra um heim allan sem vakið hafa mikil viðbrögð.

,,Einu viðburðaríkasta æviári mínu er að ljúka, en 2017 var lyginni líkast. Það var ólýsanlegt að stíga á stokk og segja heiminum sögu sem ég hélt á löngu tímabili að myndi sliga mig, söguna af kynferðisofbeldinu sem fyrsti kærasti minn beitti mig. Ekki nóg með að ég hafi rofið þögnina á heimsvísu, heldur gerði ég það með hann mér við hlið á TED-fyrirlestrarsviðinu. Við hefðum aldrei náð þeim áfanga ef að baki okkar lægi ekki tólf ára langt ábyrgðarferli þar sem ég skilaði skömminni til hans og lýsti afleiðingunum sem verknaðurinn hafði á líf mitt og hann gekkst við honum. Eftir þessa lífsreynslu er okkur báðum mikið í mun að uppræta ofbeldi og undirstrika mikilvægi samþykkis í öllum nánum samskiptum. Við skrifuðum í sameiningu bók um reynslu okkar, Handan fyrirgefningar, sem kom út í Bretlandi, Bandaríkjunum, Póllandi, Svíþjóð, Íslandi, Ástralíu, Japan og Þýskalandi á þessu ári.

„Það var súrrealískt að sitja skyndilega fyrir svörum á BBC, CBS, Times, NPR, USA Today, Spiegel og Marie Claire svo dæmi séu nefnd, að ræða hluti sem ég hefði ekki einu sinni þorað að hvísla að sjálfri mér fyrir nokkrum árum síðan.”

Fjölmiðlaáhuginn var gífurlegur, enda er þetta í fyrsta sinn sem þolandi og gerandi taka höndum saman um að segja sögu sína í þeirri von að hún gagnist öðrum. Það var súrrealískt að sitja skyndilega fyrir svörum á BBC, CBS, Times, NPR, USA Today, Spiegel og Marie Claire svo dæmi séu nefnd, að ræða hluti sem ég hefði ekki einu sinni þorað að hvísla að sjálfri mér fyrir nokkrum árum síðan. Þótt meirihluti viðbragðanna hafi verið þakklæti og stuðningur létu einstaklingar, sem stóð mjög mikil ógn af þessu verkefni, líka í sér heyra. Ég hef verið elskuð út af lífinu og hötuð til helvítis af fólki um allan heim.

Mig óraði enn síður fyrir því að nokkrum mánuðum seinna myndi #metoo byltingin fanga heimsbyggðina og að milljónir annarra þolenda myndu einnig rjúfa þögnina. Ég hef aldrei orðið orðlaus jafnoft og á þessu ári. Það var sögulegt í alla staði, bæði fyrir mig persónulega og fyrir málstaðinn sem stendur hjarta mínu næst.“

Finnum styrkinn í fjöldanum

- Auglýsing -

Tildrög þess að Þórdís stofnaði Facebook-síðuna #metoo, konur í sviðslistum- og kvikmyndagerð, var vegna umfjöllunar innan netheima um kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein og framkomu hans gagnvart fjölda kvenna innan afþreyingariðnaðarins þar vestra. „Mér varð hugsað til afþreyingariðnaðarins á Íslandi og fannst hæpið að við værum laus við þann alheimsvanda sem áreitni og ofbeldi er. Sem menntuð leikkona, höfundur þriggja stuttmynda og níu leikrita þykir mér mjög vænt um íslenska bransann og vil að hann sé sem uppbyggilegastur fyrir alla. Í fyrstu varpaði ég spurningunni fram í lokuðum hópi kvenna í kvikmynda- og sjónvarpsbransanum á Íslandi. Viðbrögðin voru feimnisleg og leiddu flest á þann veg hvort við ættum nokkuð að vera velta okkur upp úr svoleiðis neikvæðni. Væri ekki best að halda fram veginn? Vissulega vil ég horfa fram á við en best væri að allir hefðu sama tækifæri til að vaxa og dafna í starfsumhverfi sínu. Ljóst er að ef konur þurfa að eyða ómældri orku í að leiða hjá sér áreitni, niðurlægjandi athugasemdir, káf, óviðeigandi framkomu eða jafnvel ofbeldi, þá njóta þær ekki sömu tækifæri til að blómstra og starfssystkini þeirra.”

Þórdís Elva er ein þeirra sem staðið hefur fremst í flokki #metoo byltingarinnar. Fyrr á árinu gaf hún út bók um erfiða reynslu og flutti í kjölfarið fyrirlestra um heim allan sem vakið hafa mikil viðbrögð. Fatnaður og skart frá Hildi Yeoman.

Örfáum dögum síðar stigu stjórnmálakonur fram og greindu frá upplifunum sínum af áreiti og yfirgangi sem þær hafa mátt þola. Innblásin af hugrekki þeirra stofnaði Þórdís Facebook-hópinn #metoo fyrir konur í sviðslistum og kvikmyndagerð. Sólarhring síðar voru fjögur hundruð konur komnar í hópinn og tveimur dögum eftir það höfðu þúsund konur skráð sig inn á síðuna. Frásagnirnar streymdu inn og Þórdís fann að hún var ekki ein um aðdáun yfir kjarki stjórnmálakvenna. Fljótlega var samin sú yfirlýsing að ástandið yrði að breytast til hins betra og eru undirskriftirnar nú tæplega sjö hundruð talsins.

„Þegar þögnin rofnaði og sárar frásagnir litu dagsins ljós fengu sumir algert áfall. Þetta er lítill bransi og margir líta á hann sem einskonar stórfjölskyldu sína. Það er alltaf sárt að komast að því að einhver sem manni þykir vænt um hafi beitt, eða verið beittur, ofbeldi. Eðlilega verða sumir líka reiðir og heimta nöfn gerenda. Hins vegar lýsir það takmörkuðum skilningi á lagaumhverfinu og gerir þá ósanngjörnu kröfu til þolenda að þeir berskjaldi sig fyrir ærumeiðingarkæru. Margir þeirra hafa engar sannanir í höndunum til að styrkja frásagnir sínar enda er langoftast um að ræða brot sem gerast í einrúmi án vitna. Það síðasta sem þolendur þurfa á að halda er að neyðast til að greiða gerendum sínum háar fjárhæðir og lenda á sakaskrá fyrir að segja sannleikann. Auk þess verður vandi af þessari stærðargráðu ekki leystur með því einu að týna burt rotnustu eplin og halda að málið sé leyst. Viðhorfið innan stéttarinnar í heild verður að breytast því við höfum öll með einum eða öðrum hætti tekið þátt í andrúmsloftinu og þögguninni sem ríkt hefur hingað til. Við höfum öll hlutverki að gegna í að breyta því.”

- Auglýsing -

Þórdís segir að með umræðunni hafi orðið vatnaskil meðal kvenna í sviðslistum og kvikmyndabransanum. „Við breyttum ekki Weinsteinunum á meðal okkar með því einu að svipta hulunni af ofbeldi og áreitni sem við höfum sætt. Hins vegar breyttum við okkur sjálfum. Við erum kjarkmeiri eftir þetta, því við vitum að við erum ekki einar lengur. Við vitum hvers við erum megnugar og við finnum styrkinn í fjöldanum.”

„Ljóst er að ef konur þurfa að eyða ómældri orku í að leiða hjá sér áreitni, niðurlægjandi athugasemdir, káf, óviðeigandi framkomu eða jafnvel ofbeldi, þá njóta þær ekki sömu tækifæri til að blómstra og starfssystkini þeirra.”

Svarið vefst ögn fyrir Þórdísi þegar hún þegar hún er spurð hvort sögurnar hafi verið fleiri eða verri en hún átti von á. „Ég vissi fyrir fram að ofbeldi er bæði útbreitt og falið. Það kom mér hins vegar á óvart hversu mikill vanmáttur birtist í sumum frásagnanna, því áreitnin var stundum á vitorði margra en enginn gerði neitt. Ég vona að í framtíðinni heyri slík meðvirkni sögunni til.

Ég varð líka slegin yfir frásögnum nemenda úr ýmsum menntastofnunum. Miðað við vitnisburð þeirra viðgengst ólíðandi hegðun, m.a. að kennarar misbeiti valdi sínu í kynferðislegum tilgangi. Sem betur fer hafa stjórnendur í bæði Listaháskóla Íslands og Kvikmyndaskólanum lýst yfir að nú verði farið í átak til að betrumbæta umhverfi nemenda og starfsfólks. Ég vona að því verði fylgt vel eftir, því betur má ef duga skal af frásögnunum að dæma.

Fæddist nóttina sem Vigdís varð forseti

Þórdís hefur nú verið búsett í Svíþjóð síðastliðin tvö ár en ástæða fyrir dvöl hennar er framhaldsnám sem maður hennar sótti í upplýsingaöryggi við Stokkhólmsháskóla. Eftir útskrift nú í sumar bauðst honum starf og segir Þórdís fjölskylduna líklega muni ílengjast í Stokkhólmi. „Svíar hafa tekið okkur afar vel. Sonur okkar blómstrar í skólanum og ég er svo heppin að geta sinnt starfi mínu nær hvar í heiminum sem er. Fyrr í vikunni var mér sem dæmi boðið að halda hátíðarræðu fyrir samtök sem Silvía drottning stofnaði gegn kynferðisofbeldi á börnum. Við drottningin áttum gott spjall um mikilvægi #metoo hreyfingarinnar sem hún álítur afskaplega mikilvæga. Þá þótti henni sniðugt að heyra að ég væri fædd sömu nótt og Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti lýðveldisins, fyrst kvenna í heimi. Hún bað fyrir bestu kveðjum til frú Vigdísar, sem mér var bæði ljúft og skylt að skila. Að lokum var tekin ljósmynd af okkur og fyrir tilviljun hékk myndlistarverk á veggnum fyrir aftan okkur sem sýnir krepptan hnefa á lofti en það hefur löngum verið tákn kvenréttindabaráttunnar. Mér fannst það skemmtilega táknrænt.”

Þórdís hefur nú gefið út tvær bækur um ofbeldi en segir þær gerólíkar, bæði hvað efnistök og úrvinnslu varðar. Hún segir bækurnar eins og ólík systkini sem búi yfir ólíkum þörfum og mismunandi karakterum.

Þórdís segir mikilvægt að eyða öllum ranghugmyndum í umræðunni um gerandann sem „skrímsli“, þ.e. brenglaða, vopnaða, grímuklædda sadistann í húsasundinu sem ræðst á grunlausar konur. ,,Staðreyndin er sú að þessar ranghugmyndir gagnast ofbeldismönnum sem passa ekki inn í þessa staðalmynd og dregur úr líkunum á að þolendum þeirra sé trúað. Tökum Brock Turner sem dæmi en hann er bandarískur íþróttamaður sem var sakfelldur fyrir kynferðisbrot. Þegar hann var sakfelldur upphófst kórsöngurinn um að hann væri nú svo góður sundmaður, þetta gæti ekki staðist. Um Bill Cosby var sagt að hann væri svo indæll karakter og góður leikari, þetta gæti ekki verið satt. Þannig vinnur hugmyndin um að gerendur hljóti að vera skrímsli gegn trúverðugleika þolenda, stuðlar að þöggun og er skaðleg málaflokknum í heild.

Margir bera jafnframt fyrir sig þau rök að kurteisi sé oft mistúlkuð sem viðreynsla en ef þú þekkir ekki muninn á því að reyna við fólk og áreita það kynferðislega eða beita ofbeldi, þá skaltu hætta að “reyna við” fólk hið snarasta. Ég hlustaði á sænskan útvarpsþátt um daginn þar sem þáttastjórnandinn ávarpaði karlkyns hlustendur. Hann benti á að konur upplifa stundum samskonar óöryggi og valdamisræmi gagnvart ókunnugum körlum og karlar upplifa gagnvart öðrum körlum sem eru stærri, sterkari eða ofar í virðingarstiganum en þeir sjálfir. Þáttastjórnandinn mælti með að karlar, sem skilja ekki hvernig konum líður í samskiptum við ókunnuga karlmenn, ímynduðu sér að þeir væru nýlentir í fangelsi. Ef ókunnugur samfangi myndi segja eitthvað kynferðislegt við þá eða káfa á þeim, þá yrðu þeir líklega skelkaðir og þætti það afar óþægilegt. Ef ókunnugi samfanginn sýndi þeim hins vegar vinsamlegan áhuga og spjallaði við þá kurteisislega þá væri það hins vegar hið besta mál. Mér fannst þetta merkileg samlíking og ég vona að hún gagnist þeim sem eiga erfitt með að setja sig í spor annarra.”

Forréttindum fylgir ábyrgð

Þórdís hefur nú gefið út tvær bækur um ofbeldi en segir þær gerólíkar, bæði hvað efnistök og úrvinnslu varðar. Hún segir bækurnar eins og ólík systkini sem búi yfir ólíkum þörfum og mismunandi karakterum. „Bækurnar mínar, Á mannamáli og Handan fyrirgefningar, eru eins og svart og hvítt. Á mannamáli heltók mig, en upprunalega kveikjan að þeirri bók var gríðarleg reiði sem ég upplifði í kjölfar sýknudóms í nauðgunarmáli sem átti sér stað á Hótel Sögu árið 2007. Ég ætlaði að skrifa harðort mótmælabréf í blöðin sem óx síðan og varð að þrjú hundruð blaðsíðna fræðibók um það sem betur má fara í kynferðisbrotamálum á Íslandi. Ég var hálfmanísk þegar ég skrifaði hana, sat sólarhringum saman og hamraði á tölvuna þangað til fjölskyldumeðlimir mínir skipuðu mér að fara út og fá mér ferskt loft. Hún er því einskonar frumöskur. Handan fyrirgefningar er allt öðruvísi verk, enda sjálfsævisaga

„Við breyttum ekki Weinsteinunum á meðal okkar með því einu að svipta hulunni af ofbeldi og áreitni sem við höfum sætt. Hins vegar breyttum við okkur sjálfum. Við erum kjarkmeiri eftir þetta, því við vitum að við erum ekki einar, lengur. Við vitum hvers við erum megnugar og við finnum styrkinn í fjöldanum.”

sem lýsir persónulegu ferðalagi mínu úr myrkri og vonleysi inn í dásamlega birtu og styrk. Hún var tuttugu ár í fæðingu er skrifuð af kærleik til allra sem hafa einhvern tíma þjáðst í einrúmi, sem hafa elskað einhvern sem særði þá djúpt, sem langar til að losna úr viðjum þagnarinnar og sigrast á eigin ótta. Þótt ég hefði háleitar hugsjónir vissi ég að bókinni yrði líklega misvel tekið og kveið viðbrögðunum. Ég gleymi aldrei fögnuðinum sem hríslaðist um mig þegar gagnrýnandi Sunday Times sagði að hún gæti breytt lífi fólks. Það er ólýsanleg tilfinning þegar fólk skilur markmiðið sem maður leggur upp með.”

Viðbrögð fólks við fyrirlestrum Þórdísar Elvu á TED samkomunni hafa verið gríðarleg og segir hún varla líða sá dagur sem henni berist ekki skilaboð frá fólki víðs vegar úr heiminum. „Fyrirlesturinn hefur fengið rúmlega fjórar milljónir í áhorf og viðbrögðin eftir því. Ég held að við, sem mannkyn, stöndum á tímamótum. Hingað til hafa ofbeldismál verið sveipuð myrkri og gerendur verið útmálaðir sem myrkraverur og skrímsli. Hins vegar sýna rannsóknir að yfirgnæfandi meirihluti gerenda eru ástvinir okkar, skólafélagar, fjölskyldumeðlimir, samstarfsfólk og makar. Að mínu mati verðum við að geta tekið á þessum málum án þess að stýrast af heift og fordæmingu, því slíkt skaðar í raun þolendur og

Þórdís segir mikilvægt að eyða öllum ranghugmyndum í umræðunni um gerandann sem „skrímsli“, þ.e. brenglaða, vopnaða, grímuklædda sadistann í húsasundinu sem ræðst á grunlausar konur. Fatnaður: Skart, kjóll og klútur frá Hildi Yeoman. Leðurjakki frá AndreA.

stuðlar að meiri þöggun. Mér verður alltaf minnisstæð stúlka sem sagði mér að hún hefði verið misnotuð af bróður sínum. Á meðan á því stóð hafði hún íhugað að segja frá og hugsaði dæmið til enda. Hún hefði alveg getað sætt sig við að hann færi í fangelsi í einhver ár fyrir það sem hann gerði henni en hún gat ekki lifað með tilhugsuninni um að hann yrði kallaður skrímsli restina af ævinni og hataður af öllum í smábænum sem þau bjuggu í. Af þeim sökum sagði hún sagði engum frá og það gerði honum kleift að misnota hana í fimm ár í viðbót. Þessi saga er lýsandi dæmi um hvernig skrímslavæðing og hatur bitnar á þeim sem síst skyldi og hversu mikilvægt það er að við hefjum okkur upp fyrir það, sama hversu freistandi það er að hata og útskúfa þeim sem beita ofbeldi.”

Það er óhætt að segja að með frásögnum sínum og fyrirlestrum hafi Þórdís Elva skapað sinn eigin starfsferil og segir hún að úr nægu sé að taka í náinni framtíð. „Ég á alltaf erfitt með að svara því við hvað ég vinni því ég hef fengist við svo ólíka hluti á lífsleiðinni. Ég hef gert kvikmyndir og leikrit, verið frétta- og blaðakona, skrifað bækur, leikstýrt og haldið fyrirlestra, svo dæmi séu nefnd. Þegar upp er staðið má kannski segja að ég hafi atvinnu af því að segja sögur. Stundum sannsögulegar, stundum skáldaðar og ég notast við ólíka miðla til að koma þeim á framfæri. Á komandi mánuðum mun leið mín liggja til Danmerkur, Frakklands, Ítalíu og Bandaríkjanna þar sem ég mun flytja fyrirlestra. Ég nýt gríðarlegra forréttinda að geta rætt opinskátt um reynslu mína og skoðanir, því víða er þolendum refsað, þeir neyddir í hjónaband eða jafnvel myrtir fyrir að segja sögu sína. En forréttindum fylgir líka ábyrgð og ég geri mitt besta til að standa undir henni.”

Texti: Íris Hauksdóttir
Myndir: Aldís Pálsdóttir
Myndband: Óskar Páll Sveinsson
Förðun: Hrafnhildur Björk Runólfsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -