Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

„Ég hefði aldrei trúað því að þetta gæti haft svona rosaleg áhrif á allt í lífinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta er búið að vera hrikalega erfitt. Maður getur ekki hitt fólk, ég fer ekki neitt því ég er alltaf svo þreytt. Mér finnst til dæmis mjög leiðinlegt að geta ekki verið með barnabörnin, ég bara hef ekki neitt í það.“

Elísabet Guðrún Nönnudóttir greindist með covid þann 3. október á síðasta ári. Þegar Elísabet hélt hún væri að ná sér, fékk hún í tvígang lungnabólgu og er óhætt að segja að líf hennar hafi ekki verið samt síðan. Hefur hún glímt við mikil eftirköst eftir veikindin og var sett í forgang til að komast inn á Reykjalund. Í byrjun sumars fékk svo Elísabet boð um að hefja endurhæfingu á Reykjalundi.

„Ég bý í sumarbústað með manninum mínum, við erum bara tvö og hann hugsar mjög vel um mig. En ég var búin að vera meira og minna veik þangað til ég kom hér inn. Ég man ekki hvaða mánaðardag það, ég er svo gleymin,“ segir Elísabet og dæsir.

„Ég var gleymin fyrir covid, en ennþá verri eftir covid. Ég man ekkert stundinni lengur.“

Aðspurð hvort hún viti hvar hún hafi smitast segist hún gera það.

„Það var þannig að dóttir mín var með afmæli og var búin að fresta því lengi vegna samkomutakmarkanna. Þetta var bara við fjölskyldan.“

Segir hún son sinn hafa verið í afmælinu, en hann reki fyrirtæki og þurfti hann að ræða við
einn starfsmann sinn fyrir afmælið.

- Auglýsing -

„Um kvöldið eftir afmælið hringir starfsmaðurinn í hann og segir: „Þú verður að fara í test ég er með covid.“ Við fórum öll í sóttkví. Svo vorum við kölluð í sýnatöku og við vorum öll með covid; ég, maðurinn minn, börnin mín, tengdabörn og tvö barnabörn.“

Segir Elísabet hópinn hafa verið mis veikan, en þau hjónin hafi verið veikust en barnabörnin varla orðið neitt veik.

Hver voru einkennin?

- Auglýsing -

„Úff öll einkenni sem þú getur bara ímyndað þér; hausverkur, uppgangur, niðurgangur, beinverkir, ofboðsleg þreyta, ég var bara alveg örmagna.“ Segir hún það hafa verið erfitt að fara í sturtu, hún hafi þurft hvíld eftir hana til að hafa orku til að klæða sig.

„Ég bara skreið fram úr rúminu, í stól, úr stól í sófa og svona gekk þetta daginn út og daginn inn. Svo fór ég inn í herbergi að leggja mig. Og þessi þreyta ætlaði aldrei að brá af mér. Ég er búin að ná talsvert miklum árangri síðan ég kom hingað inn,“ segir Elísabet og á þá við inn á Reykjalund.

„Þetta er mikil vinna, en alveg þess virði. Þegar ég kom hér, var ég mjög slæm og ég fékk ný lyf sem hjálpuðu mér líka.“

Segir hún þó sum einkenni enn gera vart við sig. „Minnið er alveg bara, það bara fór í frí sko,“ segir hún og skellir upp úr. „Ég man ekki neitt stundinni lengur, þegar ég er að tala við fólk þá finn ég oft ekki orðin sem ég ætla að segja.
Maðurinn minn var líka mikið veikur, svo bara kláraði hann þetta og hann finnur ekki fyrir neinu. Hann er ekki með nein eftirköst, það finnst mér mjög skrítið.“

Elísabet er með lungnasjúkdóm og gigtarsjúkdóm, sem hún segir geta útskýrt að einhverju leyti hve veik hún varð. „Covid herjar náttúrlega á mann þar sem maður er veikastur fyrir.“

Varðstu hrædd þegar þú greindist með covid?

„Ég hef aldrei verið hrædd við að veikjast. Ég var meira hrædd um manninn minn, mér fannst hann miklu veikari en ég. Hann fékk svo ofboðslega mikinn hita, ekki ég.

Ég skil eiginlega ekki hvernig við fórum í gegnum þetta. Bara að fá okkur að borða og svona. Ég man ekki einu sinni hvernig þetta var þegar ég hugsa til baka.“ Segir hún systur sína hafa verslað fyrir þau hjónin og skilið eftir fyrir utan. „Ég er rosalega þakklát fyrir það.“

Hvernig hefur líf þitt breyst eftir að hafa fengið covid?

„Þetta er búið að vera hrikalega erfitt. Maður getur ekki hitt fólk, ég fer ekki neitt því ég er alltaf svo þreytt. Mér finnst til dæmis mjög leiðinlegt að geta ekki verið með barnabörnin, ég bara hef ekki neitt í það. Ég á eina litla sem er bara níu mánaða, ég get ekki einu sinni haldið á henni.“

Elísabet segist orka það að setja í þvottavél heima hjá sér og hún geti hengt upp þvottinn, þó með pásum. „Þetta er svo ofboðslega ólíkt mér, ég er vön að þrífa húsið og þvottinn og allt saman á einum degi. Ekki séns að ég geti það núna, þetta lendir alveg á manninum mínum.“

Þetta hlýtur að hafa áhrif á andlegu hliðina?

„Já, maður verður rosa dapur. Þegar þú getur ekkert gert allan liðlangan daginn, en ert vanur því.  Allt í einu ertu bara algjörlega óvirk í öllu, þá verður maður rosa þungur.“

Þá segist hún ekki einu sinni geta horft á sjónvarpið. „Ég dett bara út af. Ég gerði margar tilraunir til að horfa á þættina Alla leið, ég náði því aldrei, sofnaði alltaf. Ég þurfti orðið að leggja mig til að geta horft á eitthvað,“ segir Elísabet og skellir upp úr.

„Þetta er rosa skrítið. Ég hefði aldrei trúað því að þetta gæti haft svona rosaleg áhrif á allt í lífinu.“

En er hún orðin varkárari eftir veikindin?

„Já algjörlega. Ég er alltaf á varðbergi. Hver segir að ég geti ekki smitast aftur? Það veit enginn neitt almennilega um þetta og ég býð ekki í það ef ég myndi smitast aftur. Ég fer helst ekkert í búð, ef ég mögulega kemst hjá því. Ég hef heldur ekki orkuna í það. Maðurinn minn gerir þetta allt, hann er svo hraustur.“

Léttir í því að heyra um aðra sem gengið hafa í gegnum það sama og hún

„Þegar ég heyri aðra sem hafa fengið covid tala um það sem ég er búin að glíma við þá verður mér létt, ég er ekki ein um þetta það eru fleiri. Því þú færð engar upplýsingar hvað covid gerir þér. Og þú veist ekki einu sinni um allt sem veiran getur haft áhrif á, fyrr en þú heyrir aðra tala um nákvæmlega sama og þú ert að glíma við. Og það er léttir að því í sjálfu sér að maður er ekki einn að glíma við eitthvað sem maður veit bara ekkert hvað er.

Hárlos getur til dæmis verið einn af fylgikvillum covid. Ég skildi ekkert í þessu, ég missti svo rosalega mikið af hári, ég var alltaf öll í hárum og bara slóðin á eftir mér. Þegar ég er komin hingað þá spyr mig kona sem fékk covid: „Þú ert með svo mikið hár lentir þú ekkert í því að missa hár í veikindunum?“ Þá kveikti ég, það er þess vegna. Þá var ég farin að taka inn kollagen, því ég var orðin hrædd um að fá skallabletti, þetta var orðið svo mikið. Ég þorði varla að greiða mér. En það er eiginlega alveg hætt núna.“

„Ég fann um leið og ég kom hingað inn hvað andinn er ofboðslega góður hér.“

Elísabet segir tímann á Reykjalundi hafa verið dásamlegan, „fólkið hérna er svo einstaklega gott. Það er sama hvort það sé stelpan á símanum, læknar, fólkið í mötuneytinu, hjúkrunarfræðingar, það er alveg sama hvern þú hittir hérna, það eru allir svo ofboðslega jákvæðir, góðir og hugulsamir. Ég fann það um leið og ég kom hingað inn hvað andinn er ofboðslega góður hér.“

Á Reykjalundi segist Elísabet fá þá hjálp sem hún þurfi á að halda. „Þér er sagt hvað og hvernig þú átt að gera hlutina. Svo bara vinnur þú þína vinnu og það er svo mikilvægt, því þegar maður er kominn á þann stað sem ég var, ekkert að gera og bara dottin í, má eiginlega næstum segja þunglyndi, þá þarf maður hjálp til að komast aftur í gang. Og hana fær maður hérna.“

Segir hún alveg sama við hvern er rætt sem hefur reynslu af Reykjalundi, allir séu sammála um að það sé einstaklega flott stofnun.

„Starfsfólki hér á alveg þvílíkt hrós skilið.“

Göngur eru hluti af endurhæfingu Elísabetar og segir hún þær léttar og lifandi. „Það er labbað og stoppað og sögð saga af þessu og hinu hérna í nágrenninu. Heilmikil vitneskja. Þó það gleymist alveg eins og skot hjá mér reyndar,“ segir hún og hlær, „en kannski kemur það einhvern tímann til baka.“

Segir hún sama hvert verkefnið sé, alltaf sé gleðin í fyrirrúmi. „Það er alltaf gaman. Þó það sé erfitt þá er gaman.“

Elísabet hefur trú á því að hún nái sér að fullu, en það kosti þolinmæði. „Það bara tekur tíma og maður bara tekur því. Ég er allavega komin á lappir, fer í göngur og ég ætla halda áfram að virkja mig eins og er búið að kenna mér.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -