Aðalmeðferð í máli Hilmars Vilbergs Gylfasonar, fyrrum fjármálastjóra Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, gegn samtökunum fer fram í dag. Hilmar hefur nú stefnt SSF og krefst sjötíu og fimm milljóna króna í bætur frá SSF eftir að honum var vikið úr starfi eftir að hann kvartaði undan langvarandi einelti og ofbeldi af hendi yfirmanna sinna. Krefst hann 75 milljóna í bætur.
Sjá einnig: Hilmar hafnar því að SSF hafi boðið sátt: Krefst 75 milljóna í bætur vegna eineltis og ofbeldis
Mannlíf hefur undir höndum stefnu Hilmars en þar er að finna nákvæmar lýsingar á málsatvikum.
Eftirfarandi texti er atburðalýsing á því þegar Friðbert Traustason, formaður SSF kom inn á skrifstofu Hilmars og sýndi af sér ógnandi hegðun.
„Í kjölfarið, síðar þann dag réðist fyrirsvarsmaður stefnda inn á skrifstofu stefnanda í reiðikasti með ógnandi tilburðum og ásökunum í garð stefnanda þar sem hann tók ergju sína út á stefnanda. Varð stefnanda verulega brugðið eftir þessar ákúrur og algerlega miður sín. Lýsir stefnandi því sjálfur á þann veg í greinargerð sinni sem hann vann að beiðni sálfræðistofunar Hugarheim, sbr. dskj. nr. 121.“
Ég hef aldrei séð Friðbert jafn ógnandi og reiðan
Vitnisburð Hilmars má lesa hér að neðan.
„Þegar Friðbert réðist inn á skrifstofuna mína með ásökunum í minn garð um hvað ég hafi verið að kvarta yfir við Odd og aðra stjórnarmenn hélt ég að ég fengi taugaáfall. Ég lamaðist úr skelfingu og kom varla upp nokkru orði. Ég hef aldrei séð Friðbert jafn ógnandi og reiðan. Það tók mig langan tíma að jafna mig og að skrifa yfirvegaðan tölvupóst á Odd, Ara og Daniel. Eg var satt best að segja mjög hræddur við Friðbert á þessum tíma.“
Ekki náðist í Friðbert við vinnslu þessarar fréttar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.