MÓTSÖGNIN Þjóðkirkja Íslands hefur sætt harðri gagnrýni eftir að upp komst að prestur, sem viðurkenndi á fundi sem haldinn var hjá Biskupi Íslands fyrir þremur árum, að hafa brotið gegn konu þegar hún var á barnsaldri, hefur síðan þá tekið þátt í athöfnum kirkjunnar.
Umræddur prestur settist í helgan stein árið 2001 en predikaði t.d. í Breiðholtskirkju í maí á þessu ári. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem heit umræða skapast vegna kynferðisbrota presta Þjóðkirkjunnar og hefur málfutningur Biskups Íslands vegna þeirra oftar en ekki vakið athygli.
1 Þannig sagði biskup í viðtali við DV á dögunum: „Þetta verður þannig að við erum að glíma við siðferðislegar spurningar alla daga og gerum það alltaf frá þeim grunni sem við höfum, sem er kærleiksboðskapur Jesús Krists. Fyrir mína parta þá líð ég ekki neitt illt í kirkjunni og reyni að vinna með það ef það kemur upp, og tek það mjög nærri mér.“
2 Í sama viðtali spyr blaðamaður biskup hvort það sé ekki svolítið furðulegt að prestur, sem hefur viðurkennt brot gegn konu þegar hún var barn, skuli halda messu í Breiðholtskirkju og mæti í vígslu Skálholtsbiskups hjá biskupi. „Ég veit ekki hvort það sé neitt óeðlilegt við það í sjálfu sér,“ svarar hún þá.
3 Árið 2017 var annar prestur sendur í leyfi vegna meintrar áreitni. Biskup Íslands var ómyrk í máli vegna þessa í viðtali við Fréttablaðið þegar málið kom upp. „Ég sendi sr. Ólaf [Jóhannsson] í leyfi í sumar því ég líð ekki svona mál á minni vakt. Ég beitti þeim úrræðum sem lög og reglur segja til um, og eitt af því var að senda hann í leyfi. Ég veitti honum tiltal og sendi hann í meðferð hjá sálfræðingi.“
Athygli vekur hversu ólíka meðferð slík mál hafa fengið innan kirkjunnar. Þegar enn annar prestur, Helgi Hróbjartsson, viðurkenndi árið 2010 fyrir fagráði um kynferðisbrotamál innan kirkjunnar að hafa framið kynferðisbrot gegn þremur drengjum var hann útilokaður frá starfsemi kirkjunnur. Málsmeðferðin í máli prestins, sem er rætt um hér í upphafi, hefur hins vegar tekið mörg ár.
Mynd / Biskup.is