Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson er með áhugaverðan pistil í Morgunblaðinu í dag.
„Ég man þá tíð þegar efni í fjölmiðlum var þannig að ef þú misstir af einhverju þá var það bara farið. Línuleg dagskrá var eina dagskráin. Ég man líka þegar það var bara ein útvarpsrás á Íslandi sem spilaði mest þunglamalega klassík nema mögulega í tvo klukkutíma á viku í óskalagaþáttum sjómanna, sjúklinga og unga fólksins. Ég man líka þegar þessi eina sjónvarpsrás sem við höfðum sendi ekki út á fimmtudögum og ekki í júlí,“ skrifar Logi og heldur áfram að rifja upp breytta tíma.
Ég man að lesblindu börnin þóttu bara vitlaus og voru sett í tossabekk. Ég man þegar mjólk var seld í sérstökum búðum, sem einmitt seldu bara mjólk. Voru þess vegna kallaðar mjólkurbúðir. Ég man líka þegar búðum var bannað að hafa opið lengur en til klukkan 18 á daginn og það mátti ekki hafa opið á sunnudögum. Ef þú áttir ekki mjólk á sunnudegi þá var það bara þannig. Ég man þegar það þótti eðlilegt að eyða heilum degi í að fá skoðun á bílinn sinn í Bifreiðaeftirliti ríkisins. Þá þurfti maður að vera búinn að fara á annan stað og fá sérstaka skoðun á ljósin í bílnum. Ég man þegar þriggja stafa verðbólga var daglegt brauð. Ég man eftir gulu miðunum þegar maður fór yfir á ávísanaheftinu. Ég man eftir hallærisplaninu þar sem unglingar komu allar helgar.
Þá rifjar Logi það upp þegar hann var sleginn utan undir af kennara og í þá dagana hafi það ekki þótt neitt tiltökumál. Hann segist einnig muna það þegar eðlilegt þótti að konur fengju lægri laun en karlar og mönnum fannst það fáránleg hugmynd að einstæð móðir yrði forseti.
„Ég man eftir bjórlíki. Ég man þegar samkynhneigð þótti óeðli og yfirleitt talað um homma sem kynvillinga. Brúðkaup voru ekki í boði fyrir þetta fólk. Ég man þegar það þótti ekkert athugavert við að áreita konur. Ég er 54 ára.“