Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

„Ég missti öll tengsl við raunveruleikann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Snemma árs 1996 bankaði ókunnur maður að dyrum hjá Sigursteini Mássyni sem þá var ungur fréttamaður á Stöð 2. Hann kynnti sig sem Sævar Ciesielski og hafði undir höndum gögn um umfangsmesta sakamál Íslandssögunnar, Guðmundar- og Geirfinnsmálið, og fór fram á að hann skoðaði það ofan í kjölinn. Sigursteinn var tregur í fyrstu en ákvað að sökkva sér ofan í málið. Það reyndist afdrifarík ákvörðun. Ekki bara áttu sjónvarpsþættir Sigursteins stóran þátt í því að opna augu þjóðarinnar fyrir því réttarfarshneyksli sem málið var heldur átti líf Sigursteins eftir að taka stakkaskiptum og marka upphafið að baráttu hans við geðhvörf.

Sögulegar málalyktir urðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu á dögunum þegar Hæstiréttur sýknaði þá Kristján Viðar Júlí­us­son, Sæv­ar Marinó Ciesi­elski, Tryggva Rún­ar Leifs­son, Al­bert Kla­hn Skafta­son og Guðjón Skarp­héðins­son af því að hafa orðið þeim Guðmundi og Geirfinni að bana, eftir að endurupptökunefnd féllst á að taka málið upp að hluta. Má segja að dómurinn ljúki því ferli sem Sigursteinn hóf fyrir 22 árum þegar vinna við sjónvarpsþættina Aðför að lögum hófst. Þeir þættir opnuðu augu almennings fyrir því hversu meingölluð rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómstólum var og gjörbreyttu almenningsálitinu sem fram að því hafði ekki verið hliðhollt sakborningunum. Sigursteinn lítur hins vegar ekki svo á að málinu sé lokið enda hafi nafn sakborninga í málinu ekki verið hreinsað að fullu. Eftir stendur að þau eru enn sek fyrir rangar sakargiftir. „Þetta er í rauninni hálfleikur. Þessi niðurstaða Hæstaréttar og í raun með hvaða hætti endurupptökunefndin og saksóknarinn settu þetta upp er hneisa, að mínu mati. Þau höfðu tækifæri til að laga málið allt saman og hreinsa allt málið en þau fóru bara hálfa leið. Að halda eftir röngum sakargiftum er fullkomlega út í hött, algjörlega ábyrgðarlaust, óskammfeilið og virðist gert til þess að vernda kerfið, að vernda þá aðila sem raunverulega bera ábyrgð á því hvernig þetta fór allt saman. Þetta er einfaldlega gert til að koma í veg fyrir að kerfið standi allt saman berháttað í málinu eins og það í raun ætti að vera.“

Sáum strax að málið var meingallað

Sigursteinn var barn að aldri þegar Guðmundar- og Geirfinnsmálið stóð sem hæst og hafði hann aðeins óljósa minningu um málið þegar Sævar Ciesielski bókstaflega færði það upp í hendurnar á honum. „Ég man þetta eins og það hafi gerst í gær. Ég bjó á Kaplaskjólsveginum á annarri hæð í lítilli tveggja herbergja íbúð. Eitt kvöldið, frekar seint, var bankað að dyrum hjá mér og á ganginum stóð þessi lágvaxni granni maður með tvö þykk hefti í höndunum og hann kom sér beint að efninu sem var hans stíll: „Sæll, Sigursteinn. Ég heiti Sævar Ciesielski. Mér var sagt að tala við þig og ég vil spyrja þig hvort þú sért tilbúinn til að skoða Guðmundar- og Geirfinnsmálin“.“

Þá voru liðin 16 ár frá því Sævar var dæmdur í 17 ára fangelsi í Hæstarétti. Sigursteinn, þá 29 ára og þegar orðinn einn af þekktari fréttamönnum landsins, tók við gögnunum en tjáði Sævari um leið að hann væri ekki viss hvort hann gæti nokkuð gert við þau. Fyrst og fremst spáði Sigursteinn í það hvernig Sævar hefði komist inn í stigaganginn án þess að hringja dyrasímanum í anddyrinu. Nokkrum dögum síðar bankaði Sævar aftur upp á, og aftur án þess að hringja dyrasímanum, og afhenti Sigursteini öll gögnin sem lágu fyrir í málinu.

Eftir stutta yfirferð varð honum ljóst að eitthvað verulega hafði farið úrskeiðis við rannsókn málsins. „Þarna um sumarið 1996 opinberaðist fyrir mér ljótleiki málsins og ég áttaði mig fljótlega á því að þetta væri meingallað mál.“ Sigursteinn ákvað fljótlega að gera heimildamynd í tveimur þáttum um málið og fékk til liðs við sig þá Einar Magnús Magnússon og Kristján Guy Burgess. „Þá hófst þessi vinna fyrir alvöru og maður sá strax að það vantaði rosalega mikið í gögnin. Til að mynda ótal margar yfirheyrslur sem voru ekki til staðar. Þetta sást til að mynda glögglega þegar við komumst í dagbækur Síðumálafangelsis sem var ævintýralegt. Þá sáum við að það höfðu farið fram yfirheyrslur sem tóku marga klukkutíma en ekkert var til um.“

„Þarna um sumarið 1996 opinberaðist fyrir mér ljótleiki málsins og ég áttaði mig fljótlega á því að þetta væri meingallað mál.“

Gagnaöflun gekk þokkalega þótt þeir hafi víða mætt tregðu í kerfinu við að veita upplýsingar. „Við létum ekkert vita af þessari vinnu okkar opinberlega fyrr en í september þegar hún hafði staðið yfir í einhverja níu mánuði. Þá, einhvern veginn, fór ýmislegt að breytast.“

- Auglýsing -

Sigursteinn nefnir að þeir hafi verið í samstarfi við þýskan blaðamann sem hafði það verkefni að hafa uppi á Karli Schütz, þýskum rannsóknarforingja á eftirlaunum sem fenginn var til að aðstoða við rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Margt var á huldu um Schütz, bæði hvað varðar fortíð hans sem og hvers vegna hann var fenginn til að koma að rannsókn mannshvarfsmáls á Íslandi. „Þetta var ekki venjulegur lögreglumaður. Þetta var maður sem hafði verið innsti koppur í búri varðandi pólitíska þróun Vestur-Þýskalands eftir stríð. Við komumst að því að hann var foringi í SS-sveitum nasista en ekki nákvæmlega hvar hann var og hvað hann gerði. Þessi blaðamaður hafði samband við okkur eftir að við gerðum þetta opinbert og sagði að skyndilega hafi allt lokast honum. Hann tilkynnti okkur að hann gæti ekki haldið áfram að vinna fyrir okkur því allar dyr höfðu lokast í Þýskalandi.“

Missti öll raunveruleikatengsl

Um sama leyti fór Sigursteinn að fá á tilfinninguna að honum væri veitt eftirför. „Ég hafði tekið eftir bíl, brúnum Ford, sem dúkkaði alltaf upp og fylgdi mér þegar ég var að fara til Kristjáns Guy sem bjó í Þingholtunum eða Einars Magnúsar sem bjó á Ránargötunni.“ Sigursteinn rifjar upp atvik þar sem umræddur bíll ók á eftir bíl hans upp Melhaga eitt kvöldið. „Ég stoppaði bílinn og þeir komu alveg aftan að mér, það nálægt mínum bíl að ég sá ekki númeraplötuna á bílnum þeirra. Ég horfði í baksýnisspegilinn til að reyna að átta mig á hverjir þetta væru en þeir sátu báðir með hendurnar fyrir andlitinu og ég sá að þeir voru að ræða sín á milli. Ég hef oft hugsað um það eftir á hvað hefði gerst ef ég hefði farið út úr bílnum og gengið á þá þarna á staðnum. En ég mat það á þessum örfáu sekúndum, þótt þetta hafi liðið eins og heil eilífð fyrir mér, að það væri best að bruna í burtu. Ég spændi því upp Melhagann á Renault-bílnum mínum. Þeir urðu eftir og færðu sig ekki.“

„Ég var algjörlega sannfærður um að skruðningarnir sem ég heyrði í heimasímanum dagana á undan væru merki um að það væri verið að hlera mig“

- Auglýsing -

Það var á þessum tíma sem Sigursteinn byrjaði að „missa fótanna“ og upplifa fyrstu einkenni geðhvarfa. Dagana á eftir fór hann í felur, úr einu húsi í annað. „Ég gisti hjá vinum mínum, í sumarbústað úti á landi og svo framvegis. Ég var algjörlega sannfærður um að skruðningarnir sem ég heyrði í heimasímanum dagana á undan væru merki um að það væri verið að hlera mig. Ég var orðinn svo ofsóknaróður að þetta endaði á því að ég gat hvorki sofið né borðað. Ég varð að vera fullviss um hvaðan maturinn væri og ég vantreysti öllum. Ég var sannfærður um að það væri setið um mig og það að væri markmið ákveðinna afla, valdamikilla aðila, að koma í veg fyrir dagskrárgerðina. Ég missti öll raunveruleikatengsl.“

Gerði Davíð Oddssyni tilboð

Úr varð að Sigursteinn var nauðungarvistaður á geðdeild Landspítalans í fyrsta skipti. „Ég fór og hitti lækni inni á geðdeild ásamt móður minni. Þar í rauninni lagði ég árar í bát. Þá voru hugsanir mínar orðnar mjög óskýrar, mjög fantasíukenndar. Þarna hélt ég til dæmis að ég væri að fara að hitta ríkisstjórnina. Áður hafði ég farið til Davíðs Oddssonar og sagt við hann: „Ég skal hætta þessari dagskrárgerð ef þú bara borgar fyrir mig far úr landi og uppihald.““

Hvernig brást Davíð við?

„Hann spurði hvort ég hefði talað við lækni.“

Sigursteinn telur þó að eftir á að hyggja hafi falist ákveðin blessun í því að hafa veikst á þessum tímapunkti. „Af því að ég held að þá hafi ég verið afskrifaður af mörgum. Þar með fengum við kannski tækifæri til að klára þetta í meiri friði en annars hefði verið. Mín geðhvörf urðu til þarna við þessar aðstæður og spurning hvort ég hefði yfirhöfuð fengið geðhvörf ef ég hefði ekki tekið að mér þetta verkefni. Ég sé hins vegar ekkert eftir því.“

Á þessum tíma var Sigursteinn rekinn frá Stöð 2. Skýringin sem forsvarsmenn Íslenska útvarpsfélagsins sem þá rak Stöð 2 var sú að Sigursteinn gæti ekki sinnt starfinu samhliða þáttagerðinni. Sigursteinn segir málið hins vegar hafa snúist um söluna á sýningarrétti á þáttunum. Bæði RÚV og Íslenska útvarpsfélagið vildu kaupa þættina og var það síðarnefnda tilbúið að borga meira fyrir þá. „En þeir voru ekki tilbúnir til að tryggja sýningu þáttanna á Stöð 2. Þeir ætluðu að sýna þá á Sýn sem á þeim tíma hafði bara takmarkaða útbreiðslu á höfuðborgarsvæðinu, þættirnir hefðu ekki einu sinni sést í Keflavík. Ég gat ekki sætt mig við það. Ég upplifði þetta þannig að það ætti að kaupa þættina, jafnvel dýru verði, en sópa þeim undir teppið. Það var partur af því sem klárlega veikti mig á þeim tíma, hvernig viðskilnaðurinn við Stöð 2 var. Það var ekki til að bæta stöðuna og ekki til að minnka samsæriskenningar mínar í þessu öllu saman.“

Eftir sex vikur á geðdeild Landspítalans og tvær vikur í endurhæfingu í Hveragerði flaug Sigursteinn til Texas í Bandaríkjunum þar sem þáverandi sambýlismaður hans starfaði og notaði hann tímann til að safna orku áður en hann sneri til baka til að ljúka gerð þáttanna. Óhætt er að segja að þættirnir hafi vakið upp sterk viðbrögð og skömmu eftir að þættirnir voru sýndir var gerð skoðanakönnun í Mannlífi sem sýndi að 90 prósent landsmanna taldi að dómarnir í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hafi verið rangir. En í raun gerðist ekkert í málinu sjálfu og haustið 1997 var beiðni Sævars um endurupptöku í málinu hafnað.

„Ég man alltaf eftir samtali sem ég átti við Guðjón Skarphéðinsson [einn sakborninga í málinu, innsk. blaðam.] sem var þá orðinn prestur á Snæfellsnesi. Hann sagði: „Sigursteinn, þú ert að gera þetta 20 árum of snemma. Þú verður að bíða í 20 ár, það eru allir á sínum stað.“ Það þurfti að bíða eftir því að þessir menn létu af störfum. En það var ákveðið áfall fyrir marga að fara í gegnum þessa þætti því núna, 21 ári síðar, hefur ekki eitt einasta atriði í þeim verið hrakið.“

Hélt þau myndu stúta mér í Kaupmannahöfn

Þótt þessum hluta Guðmundar- og Geirfinnsmálsins væri lokið var baráttan við geðröskunina rétt að hefjast. Næsta orrusta fór fram í Kaupmannahöfn vorið 1998. Sigursteinn var þá nýkominn frá Balkanskaga þar sem hann vann að heimildamynd um flóttafólk í Serbíu. „Við heyrðum þegar við vorum í Belgrad að það væru hafnar þjóðernishreinsanir í Kosovo og við vorum með fyrstu tökuliðum á staðinn. Það hafði mjög mikil áhrif á mig og ég var á þessum tíma orðinn mjög ör. Á leiðinni heim stoppaði ég í Kaupmannahöfn og lenti þá í því að Serbar voru með útifund á Ráðhústorginu til stuðnings Slobodan Milosevic. Ég var ekki alveg í stuði fyrir þetta og var í raun og veru heppinn að lenda ekki í meiriháttar vandræðum því ég ætlaði að fara upp á svið og halda ræðu. Eitt leiddi af öðru þar, ég var svefnlaus og upptekinn af því að það væru leyniþjónustur á eftir mér, að hótelið væri njósnagreni og svo framvegis. Ég var kominn vel yfir strikið, búinn að gera allt vitlaust á hótelinu og það var ekkert annað að í stöðunni en að hringja á lögregluna og hún, ásamt móður minni, fylgdu mér á sjúkrahúsið í Hvidovre. Það var ekki um annað að ræða því ég vildi alls ekki fara til Íslands. Það var tengt Geirfinnsmálinu.“

„Eitt leiddi af öðru þar, ég var svefnlaus og upptekinn af því að það væru leyniþjónustur á eftir mér, að hótelið væri njósnagreni og svo framvegis. Ég var kominn vel yfir strikið, búinn að gera allt vitlaust á hótelinu og það var ekkert annað að í stöðunni en að hringja á lögregluna.“

Þótt Kaupmannahöfn sé ekki framandi staður í augum Íslendinga, segir Sigursteinn að það séu mjög framandi aðstæður að vera vistaður á geðsjúkrahúsi í Danmörku. Aðferðirnar þar séu töluvert frábrugðnar því sem gerist á Íslandi. Þar tíðkast til að mynda enn að óla niður þá sjúklinga sem eru órólegir. „Það að vera bundinn svoleiðis niður og vakna svo múlbundinn, þvingunin og ofbeldið, að vera mataður, fá ekki að fara á klósett, öll þessi niðurlæging sem fylgir þessu, þetta er rosalega vond tilfinning. Ég var alveg sannfærður um það fyrstu dagana í Kaupmannahöfn að þetta væri ekki spurning um hvort heldur hvenær og hvernig þau myndu stúta mér. Þetta var ekki auðveldur tími en hann var mjög áhugaverður.“

Taldi mig kominn á lygnan sjó

Eftir þetta kom Sigursteinn heim og sneri sér aftur að þáttagerð. Hann gerði úttekt á vændi og fíkniefnaneyslu í Reykjavík svo og eftirminnilega seríu, Sönn íslensk sakamál. Sjúkdómurinn hélt þó áfram að láta á sér kræla. „Árið 1999 fór ég í væga maníu en samt nægilega hressilega að talin væri ástæða til að vista mig. Eftir það hélt ég að ég væri alveg kominn á lygnan sjó. Það liðu 11 ár og ég var allt í einu kominn í dýraverndunarmál og var að vinna með þá stöðu sem kom upp í Eyjafjallajökulsgosinu. Ég var þar dag eftir dag að vinna undir Eyjafjöllum, með mér var Bandaríkjamaður sem mjög erfitt var að eiga við. Í þessum aðstæðum veiktist ég aftur.“

Þar sem geðröskunin hefur fylgt Sigursteini undanfarið 21 ár er hann farinn að þekkja vel inn á einkenni sjúkdómsins. „Það sem gerist í öllum þessum tilvikum sem ég hef veikst er að ég er í streituumhverfi, ég missi svefn og hætti að borða. Það er ákveðin rútína sem ég þarf að hafa og ef hún er í lagi, get ég farið í gegnum alls konar álag án þess að veikjast. Þá hef ég fulla stjórn á geðhvörfunum. En þegar þetta fer úrskeðis er voðinn vís.“

Í öll þau skipti sem Sigursteinn hefur veikst hefur hann verið fljótur að jafna sig og snúið aftur til vinnu enda sé nauðsynlegt að hafa eitthvað fyrir stafni þegar bataferlið hefst. „Eitt af því versta sem gerist hjá fólki þegar það veikist og er tekið úr leik úr samfélaginu, að það sé mánuðum eða árum saman án verkefna – án hlutverks og tilgangs. Það er alveg glatað.“

„Það er ákveðin rútína sem ég þarf að hafa og ef hún er í lagi, get ég farið í gegnum alls konar álag án þess að veikjast. Þá hef ég fulla stjórn á geðhvörfunum. En þegar þetta fer úrskeðis er voðinn vís.“

Guðs lifandi feginn geðhvörfunum

Sigursteinn hefur nýlokið við að skrifa bók um geðhvörfin sem hann lýsir sem persónulegu uppgjöri við sjálfan sig. Segir hann að bókin sem ber titilinn Geðveikt með köflum, hafi upphaflega verið skrifuð sem sjálfshjálparbók fyrir hann sjálfan. Þegar líða tók á verkefnið hafi hann kynnt hugmyndina fyrir Páli Valssyni útgefanda sem ákvað að slá til og gefa bókina út. „Ég sveiflaðist til og frá með þetta því ég efaðist um að svona persónulegar sögur ættu erindi við almenning. En þegar ég fór að skoða þetta fannst mér mjög áhugavert að sjá í hvaða umhverfi ég var þegar ég veikist, hvers konar aðdragandi var að veikindunum, hvernig þau lýstu sér og hvernig ég vann eða vann ekki úr þeim á mismunandi tímum. Að hafa geðröskun er ekki veikleiki, þetta er styrkleiki. Þetta er veikleiki ef þú ert á valdi geðsjúkdómsins. Ef þú ert með geðsjúkdóm sem þú hefur tök á, er þetta styrkleiki þinn. Þar með er ég ekki að óska fólki þess að fá geðsjúkdóma en ef það er þannig, þá gefur þetta þér innsæi – þetta gefur þér reynslu sem er ekki hægt að fá með öðrum hætti. Þannig að ég er guðs lifandi feginn geðhvörfunum og vildi ekki án þeirra vera.“

„Að hafa geðröskun er ekki veikleiki, þetta er styrkleiki. Þetta er veikleiki ef þú ert á valdi geðsjúkdómsins.“

Sigursteinn segist oft vera spurður að því hvort hann muni eftir þeim tíma þegar hann hefur verið hvað veikastur. „Ég man þetta mjög vel. Ég man mjög vel ótrúlega ruglingslega kafla í lífi mínu, inni á geðdeildum, í einhverjum aðstæðum sem eru að hluta súrrealískar. Ég man þetta allt saman og ég lýsi því í bókinni. En það er eins og sumir telji að minni okkar og reynslu sem höfum gengið í gegnum þetta, sé ekki treystandi. En þetta eru auðvitað jafnmikil sannindi og staðreyndir eins og upplifanir annarra af okkur.“

Er gott að muna þetta?

„Það hefði stundum verið gagnlegt að gleyma meiru. En núna, þegar ég er í þessu uppgjöri, er mjög gott að muna. En það er ofsalega gott líka að skrifa sig frá þessum erfiðu köflum.“

Sævar hefði aldrei sætt sig við niðurstöðuna

Einn af þessum erfiðu köflum er vinnan að þáttunum um Guðmundar- og Geirfinnsmálið sem Sigursteinn segir að hafi tekið mikinn toll. Við gerð þáttanna kynnist Sigursteinn Sævari Ciesielski vel og segir hann að Sævar heitinn hefði aldrei sætt sig við þessi málalok. „Af því að hann er saklaus af því að hafa orðið manni að bana en hann er áfram sekur um að hafa verið að búa til sögur. Ef það var eitthvað sem hann lfiði fyrir var það að nafn hans yrði hreinsað algerlega af þessu. Ekki bara að afsanna eða lýsa yfir sýknu varðandi þessi mannshvörf heldur að sannleikurinn kæmi í ljós. Ég held að það muni gerast. Ég býst við að þetta muni taka eitt eða tvö ár í viðbót en vonandi ekki svo lengi. Þegar málið verður skoðað getur þetta ekki staðið eftir.“

Mynd / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -