Sirrý Laxdal Jóhannesdóttir þekkir vel hversu mikil áhrif fíknisjúkdómar geta haft á dýnamík innan fjölskyldna. Sirrý er móðir Þóru Bjargar Sigríðardóttur sem margir kannast við úr heimildamyndinni Lof mér að lifa sem sýnd var á RÚV. Í henni fengu áhorfendur innsýn í heim fíknarinnar.
Sjá einnig: Aðstandendur geta orðið líkamlega veikir vegna streitunnar
Þegar Sirrý er beðin um að lýsa reynslu sinni segir hún: „Þessi reynsla er ofboðslega sorgleg. Þetta er 16 ára saga og henni hafa fylgt stórir sigrar og líka gríðarleg vonbrigði og hlutir sem er erfitt að sætta sig við.“
Það sem hefur reynst Sirrý hvað erfiðast er þegar Þóra fellur aftur eftir að hafa verið edrú í ákveðinn tíma.
„Það sem hefur verið svo sorglegt er að til dæmis þegar Þóra var edrú í fjögur og hálft ár á sínum tíma þá fór hún í skóla og henni gekk vel. Allir sem hún umgekkst báru henni vel söguna og hún stóð sig svo vel. Þannig að vonbrigðin voru mikil þegar það gekk ekki upp þó að ég vissi alltaf að það væri möguleiki á að hún félli aftur,“ útskýrir Sirrý.
„Þegar vel gengur hjá Þóru þá er maður svo glaður en ég hef lært að tipla á tánum og minna mig á þó að hún verði edrú þýði það ekki að þetta sé endilega komið.“
Erfitt fyrir alla fjölskylduna
Spurð út hvaða áhrif fíknisjúkdómur Þóru hafi haft á ástandið innan fjölskyldunnar og hennar eigin líðan segir Sirrý sjúkdóminn oft hafa sett stórt strik fjölskyldulífið. „Fjölskyldan getur orðið heltekin af þessu og sjúk. Á tímabili, alltaf þegar ég talaði við mömmu mína, þá snerist allt um Þóru. Mamma spurði alltaf fyrst út í hvernig Þóra hefði það og fátt annað komst að. Þannig er þetta oft. En auðvitað er gott að finna að fólk hugsar til hennar og vilji vita hvernig hún hafi það. Svo eru auðvitað margir sem spyrja aldrei um hana, kannski þora ekki allir að tala um þetta við mig. Þannig að jú, vissulega þykir mér vænt um það þegar fólk spyr.
„Fjölskyldan getur orðið heltekin af þessu og sjúk.“
En þetta hefur verið erfitt fyrir alla í fjölskyldunni, líka mömmu og pabba sem hafa verið með mér í þessu. Maðurinn minn er mjög raunsær og hefur náð að halda mér á jörðinni á meðan ég fagna þegar Þóra Björg klárar heila meðferð, sem gerist ekki alltaf. Á sama tíma hefur hann verið minn klettur og stutt mig, t.d. með því að samþykkja að taka hana inn á heimili okkar í september eftir að hún kom úr meðferð. Fyrir mig samþykkti hann að hún kæmi hingað. Þetta var það eina sem ég átti eftir að prófa og hann skildi að ég þurfti að prófa það,“ útskýrir Sirrý.
„En á þeim tímapunkti sem mér tókst að læra að það væri ekkert sem ég gæti gert til að breyta ástandinu, gat ég búið mér til smápláss. Ég var mörg ár að átta mig á þessu og þegar það gerðist þá fylgdi því frelsistilfinning en líka mikil sorg. Það að átta mig á að þetta var ekki í mínum höndum heldur í hennar höndum, að verða edrú og halda sér edrú, var erfitt.
„…mér tókst að læra að það væri ekkert sem ég gæti gert til að breyta ástandinu.“
Þegar ég náði að sætta mig við að geta ekki breytt ástandinu fór mér að líða betur. Auðvitað er þetta alltaf erfitt og ég hugsa um Þóru á hverjum einasta degi. En ég náði að einbeita mér meira að mínu lífi þegar ég áttaði mig á að ég hef ekki stjórn á hennar hegðun og líðan. Auðvitað koma sveiflur. Það er sárt að geta ekki verið í eðlilegum samskitpum við viðkomandi og geta t.d. ekki varið jólunum með dóttur sinni. Við ætluðum til að mynda að vera saman á jólunum núna síðast en það gekk ekki upp,“ útskýrir Sirrý.
Með því að setja ákveðin mörk hefur Sirrý tekist að búa sér til rými til að sinna sjálfri sér en ekki síst öðrum fjölskyldumeðlimum.
„Það er ekki á mínu valdi að breyta þessu. Og ég á aðra dóttur, Ellen Sif, sem hefur stundum gleymst í þessu ferli því það komu tímar sem ég náði ekki að sinna henni nógu vel þegar hún var yngri. Ég var kannski ekki alltaf til staðar fyrir hana þegar hún þurfti á mér að halda. Þetta hefur verið mikið álag á heimilið. En í dag reyni ég að vera alltaf til staðar ef það er eitthvað sem ég get aðstoðað hana og fjölskyldu hennar með,“ segir Sirrý sem eignaðist dótturson í desember árið 2017.
„Ég vil verja sem mestum tíma með honum og aðstoðað þau á allan þann hátt sem ég get. Ellen Sif á það inni hjá mér.“
Spurð nánar út í mörkin sem hún hefur sett eldri dóttur sinni segir Sirrý að það sé svo erfitt að horfa upp á hana í mikilli neyslu og því rugli sem fylgir neyslunni þannig að til að gera lífið bærilegra hafa þær Þóra gert þegjandi samkomulag. „Þegar hún er í miklu rugli eru samskipti okkar í lágmarki. Hún lætur samt reglulega vita af sér, þannig að ég viti að hún sé lifandi.“
Komst fjótt yfir skömmina
Aðspurð hvort að hún hafi einhvern tímann fundið fyrir skömm vegna ástandsins hugsar Sirrý sig um og segir svo: „Sko, það er auðvitað svo langt síðan þessi saga hófst, um 16 ár, þannig að Þóra hefur verið í þessu verkefni sínu meira en helming ævi sinnar. Og hér áður fyrr hélt ég alltaf að börn og unglingar í neyslu kæmu frá heimilum þar sem ríkti óregla. En ég varð að éta þetta ofan í mig vegna þess að ég var bara venjuleg kona sem átti venjulegt heimili. Þannig að já, í upphafi upplifði ég skömm. En ég setti mig samt sjálf í samband við Barnaverndarstofu og óskaði eftir aðstoð á sínum tíma, þegar ég komst að því í hvaða far Þóra Björg var komin, ég vissi ekki hvernig ég átti að tækla þetta.“
Sirrý segir barnavernd hafa reynst sér vel í gegnum tíðina. „Oftast er talað um barnavernd sem eitthvað fyrirbæri sem þú vilt ekki hafa á bakinu. En á þessum tíma vildi ég hafa hana á bakinu, ef svo má að orði komast. Ég var svo vanmáttug. Þar kynntumst við yndislegri manneskju sem hefur fylgst með okkur Þóru, líka eftir að Þóra varð 18 ára,“ segir Sirrý sem er þakklát þeim fulltrúum Barnaverndarstofu sem veittu henni aðstoð á sínum tíma. „Sérstaklega er ég þakklát þessari konu sem er enn til staðar með ráðleggingar, löngu eftir að Þóra varð 18 ára.
„Það er engin skömm að því að vera með sjúkdóm eða vera aðstandandi sjúklings.“
En hvað skömmina varðar komst ég fljótt yfir hana og fór að tala opinskátt um hlutina. Það er eitthvað sem sumu fólki hefur eflaust þótt óþægilegt því þetta er auðvitað sorglegt. En það hefur hjálpað mér er að vera ekkert að fela ástandið. Það er auðvitað ekkert til að skammast sín fyrir. Það er engin skömm að því að vera með sjúkdóm eða vera aðstandandi sjúklings.“
„Hvert á hún þá að fara og hvað á hún að gera?“
Eins og áður sagði hafa komið góðir tímar hvað baráttu Þóru varðar. En eitt stórt vandamál, að mati Sirrýjar, er úrræðaleysi. Hún bendir á að það vanti úrræði fyrir það fólk sem hefur tekist að koma sér í gegnum meðferð við fíknisjúkdómum.
„Það er lítið verið að gera fyrir fólk sem hefur áhuga á að sigrast á fíkninni og koma sér aftur út í lífið. Fólk fer í meðferð og hvað svo? Það vantar eitthvað meira en meðferð. Einhvern undirbúning fyrir fólk til að skapa sér venjulegt líf. Ef við tökum til dæmis einstakling sem hefur verið langt leiddur í mörg ár, sá einstaklingur á ekkert. Ég er til dæmis með „allt“ dótið hennar Þóru inni í geymslu. En ef hún klárar meðferð, hvert á hún þá að fara og hvað á hún að gera? Það er svo erfitt fyrir þetta fólk að komast inn í rútínu aftur. Og það eru ekkert allir aðstandendur sem treysta sér til að taka fólkið sitt inn á heimilið eftir að það hefur klárað meðferð. Til dæmis er það fullreynt í okkar tilfelli. Það er mikið álag á heimilið að taka við eintaklingi með fíknisjúkdóm, hvað þá manneskju sem er orðin fullorðin eins og Þóra Björg er. Ég legg það ekki á mig eða aðra fjölskyldumeðlimi aftur.“
Sirrý hefur búið á Austfjörðum og á Norðurlandi undanfarin 10 ár og Þóra hefur verið í Reykjavík en Sirrý hefur verið reiðubúin til að hjálpa Þóru þegar hún hefur klárað meðferðir. „Hún flutti til dæmis til mín eftir að myndin [Lof mér að lifa] var tekin upp og var edrú í smátíma en það gekk ekki upp og vonbrigðin voru mikil – yfir því að hún hafi ekki nýtt tækifærið. Það kom mér langt niður,“ útskýrir Sirrý.
„Eftir að þættirnir voru svo sýndir, og Þóra Björg flutti til okkar í kjölfarið eftir að hafa klárað meðferð sem gekk ekki upp, hrundi ég algjörlega. Ég fór til læknis, alveg buguð. Ég hékk bara í vinnunni, bara umbúðirnar utan af mér. Ég man ekkert frá þessum tímabili og staulaðist bara einhvern veginn áfram. Ég óskaði eftir launalausu leyfi frá vinnu. Læknirinn sem ég hitti úrskýrði fyrir mér á mannamáli að sem aðstandandi hefur maður nefnilega verið í sorgarferli í svo mörg ár. Það er það sem ég upplifi.“
„Ég man ekkert frá þessum tímabili og staulaðist bara einhvern veginn áfram.“
Þrátt fyrir þetta stóra bakslag síðastliðið haust líður Sirrý ágætlega þessa stundina, að eigin sögn. „Ég hef lært að lifa með þessu. Ég næ að lifa eðlilegu lífi en það er alltaf svolítil sorg í manni. Það eru ákveðnir hlutir sem þú sættir þig aldrei við. Þó að ég hafi stundum á tilfinningunni að þetta verði bara lífsstíllinn sem hún muni lifa þá er ég klárlega alltaf að bíða eftir að hún rífi sig upp og komi sér á fætur,“ útskýrir hún.
Sirrý viðurkennir að þrátt fyrir að hún hafi fundið ákveðinn frið fái hún hnút í magann reglulega. „Til dæmis hellist yfir mig ótti þegar síminn hringir og ég þekki ekki númerið. Líka um daginn þegar lögreglumaður kom á vinnustað minn, hann var bara að sækja þjónustu eins og hver annar viðskiptavinur, en þá var ég svo viss um að það væri verið að koma með slæmar fréttir til mín.“