Ég er ofboðslega nýjungagjörn manneskja og þegar að annar hver maður, og amma þeirra, var farinn að fasta í lengri eða skemmri tíma þá bara varð ég að prófa.
Það eru auðvitað til alls kyns föstur og verður hver og einn að finna föstuna í lífi sínu. Það er hægt að fasta ákveðið marga tíma á sólarhring, það er hægt að fasta með því að borða ekki vissar fæðutegundir í ákveðinn tíma eða það er hægt að fasta þannig að maður borðar akkúrat ekki neitt og drekkur bara vökva. Ég ákvað að velja seinasta kostinn. Eftir að hafa vafrað endalaust á internetinu og lesið mér til um föstur ákvað ég að fasta tvo sólarhringa í hverri viku og drekka ekkert nema vatn, kaffi og stöku dós af Pepsi Max. Ég hefði líklegast átt að sleppa mínu yndislega Max-i líka en mér fannst það fullmikið af því góða!
Ég valdi að fasta á mánudögum og fimmtudögum að vel ígrunduðu máli. Mánudagar fannst mér fullkomnir því þá er maður búinn að gúffa í sig öllu sem maður kemst í yfir helgina og er með smá kolvetnamóral, eins fáránlegt og það hljómar. Svo valdi ég fimmtudaga því ég vildi alls ekki fasta um helgar, út af fyrrnefndu gúfferíi, en vildi samt að það liði smá tími á milli fasta. Þetta ákvað ég síðan að gera í þrjár vikur til að geta skrifað þennan pistil um mína reynslu.
Það var samt alveg dýpri ástæða á bak við það að ég vildi prófa að fasta. Mig langaði að ná aftur í sjálfsagann og viljastyrkinn sem mér fannst ég hafa tapað. Ég var sem sagt orðin drullulöt, svo ég segi það hreint út. Og eitthvað sagði mér að fasta væri alveg málið. Ef ég gæti neitað mér um mat í marga klukkutíma, gæti ég nú gert ansi margt.
Vika 1 – Kökubakstur á fastandi maga
Það var pínulítið skrýtið að vakna á mánudagsmorgun í fyrstu vikunni og eiga heilan dag og kvöld framundan þar sem ég myndi ekki svo mikið sem narta í eitt tekex. Ég var alveg búin að undirbúa mig andlega, og reyndar líkamlega líka (gúfferíið, þið munið), kvöldið áður og var mjög peppuð fyrir þessu. Og viti menn, þessi mánudagur leið hjá eins og ekkert væri. Ég var bara ekkert svöng. Fyrr en klukkan sló fjögur. Búmm! Þá kom svengdin sem aldrei fyrr og heltók heilann á mér. Ég sá mat alls staðar og hefði léttilega getað borðað tölvuna mína. En það magnaða var að eftir sirka klukkutíma var þessi yfirgengilega svengdartilfinning liðin hjá. Auðvitað kom nartlöngunin um kvöldið en ekkert sem ég réð ekki við.
Fimmtudagsfastan var erfiðari. Bæði þriðjudag og miðvikudag var ég búin að borða, algjörlega ósjálfrátt, miklu minna en vanalega. Ég var ekkert búin að narta eftir klukkan átta á kvöldin þannig að ég vaknaði hálfsvöng á fimmtudagsmorgun. Og allur dagurinn var eiginlega kvöl og pína. Mig langaði svo mikið til að borða. Bara eitthvað. Allan daginn var ég að finna ný og ný verkefni til að gleyma því að mig langaði til að borða. Og þá gerði ég einmitt stóru mistökin – ég bakaði köku! Bakaði afmælisköku fyrir móður mína. Ómótstæðilega köku með fullt af smjörkremi og fallegum nammiskreytingum. Var ég haldin sjálfspíningarhvöt? Eða var ég bara svona nautheimsk? Þegar klukkan sló tólf gat ég ekki annað en dýft mér ofan í kökuafskurð og smjörkrem. Ekki mín fallegasta stund, ég viðurkenni það fúslega.
Vika 2 – Meiri orka og meira vatn
Allt í einu fann ég fyrir orku sem ég hafði ekki haft í langan tíma. Ég var farin að stunda líkamsrækt nokkrum sinnum í viku, meira að segja á dögunum sem ég var að fasta. Þá daga tók ég reyndar ekkert svakalega mikið á því, þar sem ég var hreinilega hrædd um að það myndi líða yfir mig. Ég var farin að drekka miklu meira af vatni en áður og ég var farin að spá meira í því hvað ég væri að láta ofan í mig þá daga sem ég var ekki að fasta. Það var eins og líkaminn kallaði frekar á hollan mat heldur en sætindi og kökur, sem ég er ansi svag fyrir.
Hins vegar var sama uppá tengingnum þegar kom að fimmtudagsföstunni. Hún var svakalega erfið. Þúsund sinnum erfiðari en mánudagsfastan. Þannig að þegar klukkan sló tólf fór ég rakleiðis inní eldhús að næra mig. En í þetta sinn var það ekki kaka og krem sem varð fyrir valinu til að dúndra blóðsykrinum uppí tungl og til baka. Ó, nei. Í þetta sinn valdi skynsama ég hnetur og eitthvað Goji-berja hrástykki sem var búið að safna ryki uppí skáp. Jey fyrir mér!
Vika 3 – Fimm kílómetra hlaup og enginn svefn
Síðasta vikan var klárlega átakaminnst. Ég var farin að reyna aðeins meira á mig í ræktinni þá daga sem ég var að fasta og einn daginn hljóp ég meira að segja fimm kílómetra án þess að finna fyrir höfuðverk eða óþægindum (#humblebrag).
Það var þó eitt sem var pínulítið erfitt. Okkur fjölskyldunni var boðið í matarboð á mánudeginum þannig að ég ákvað að fasta frekar á þriðjudegi. Ég hefði ekki getað trúað því hvað það var erfitt að skipta um dag til að fasta. Það var eins og fösturnar mínar væru orðnar partur af líkamsklukkunni og það að skipta um daga var eins og ég myndi henda þessari blessuðu klukku í vegg og síðan traðka á henni í hermannaklossum með stáltá.
Ég var hætt að sofna yfir sjónvarpinu eins og ég gerði nánast hvert einasta kvöld fyrir föstutímabilið mitt og ég kunni vel við alla þessa orku sem ég hafði.
Eina sem skyggði á þessa síðustu viku var að yndislega, tveggja ára dóttir mín átti erfitt með svefn aðfaranótt föstudags og var ég með hana uppá arminum bróðurpart næturinnar. Þá er ég fyrst að viðurkenna að ég nartaði í kex og súkkulaði á milli þess sem hún vældi í eyrað á mér og klíndi hori í náttfötin mín. Mér fannst ég bara eiga það frekar mikið skilið.
Líkaminn hefur gott af gúffpásu
Þegar öllu er á botninn hvolft fannst mér mjög gaman að fasta. Það voru margir sem spurðu mig hvort ég hefði eitthvað grennst á þessu og ég held ekki. Ég allavega finn engan mun á fötunum mínum. En munurinn sem ég finn er sá að ég er ánægðari með mig. Ég er stolt af mér að hafa getað þetta og sú tilfinning finnst mér miklu yndislegri og mannbætandi en nokkur grömm til eða frá. Það kom mér líka á óvart hve mikla orku ég hefði þó ég væri ekki að borða mat. Nú gætuð þið haldið að ég hefði kannski drukkið tólf lítra af kaffi á dag og 250 dósir af Pepsi Max, en svo var ekki. Kaffibollarnir urðu yfirleitt ekki fleiri en fjórir á dag og dósirnar í mesta lagi þrjár.
Það erfiðasta við að fasta er samt ekki svengdartilfinningin. Það er nefnilega félagslegi parturinn. Það var ofboðslega erfitt að setjast niður með fjölskyldunni og horfa á þau borða. Maðurinn minn var reyndar mjög klókur að elda bara það sem mér finnst vont á þeim dögum sem ég var að fasta, eins og bjúgu og kálböggla, þannig að mig langaði ekkert sérstaklega í matinn. Það er bara svo stór partur af deginum að setjast niður, allir saman, borða, hlæja og tala um daginn og veginn. Þegar ég var ekki að borða þá fannst mér ég ekki vera að taka almennilega þátt í þessari heilögu stund.
En ætla ég að halda þessu áfram? Já, ég held það bara. Eftir þessar þrjár vikur er fasta komin í hálfgerðan vana. Þetta er orðið eðlilegt. Mér líður vel af þessu og mér finnst líkami minn hafa gott af því að fá smá gúffpásu.
Hvað segir næringarfræðingurinn?
„Það eru skiptar skoðanir um föstur hjá næringarfræðingum en ég er mjög hlynnt þessu. Það sem gerist þegar við föstum er að við erum að hvíla kerfið, hjálpa frumum að heila sig, jafna blóðsykurinn og endurstilla hormónastarfsemi. Ennfremur erum við að endurstilla hausinn okkar og verðum fyrir vikið meðvitaðri um það sem við látum ofan í okkur dags daglega,“ segir Elísabet Reynisdóttir, næringarfræðingur.
Hún segir það hafa góð áhrif á líkamann að fasta, hvort sem það er í einhverja klukkutíma á dag eða heilu sólarhringana, en mælir þó ekki með að fasta í viku, eða lengri tíma, án þess að vera undir eftirliti læknis.
„Hins vegar er hægt að taka létta föstu í viku eða hálfan mánuð á ári þar sem við hvílum líkamann á kaffi, unnum mat og kolvetnum og drekkum frekar vatn og grænmetisdrykki og borðum hreinan mat. Þannig hreinsum við líkamann þó við séum að borða mat.“
Elísabet hvetur fólk til að prófa að fasta ef það hefur áhuga á því.
„Ef að fólk finnur takt til betri heilsu og líður vel þá bara: “Go for it”. Það er engin ein ríkisleið til. Það er gott að hafa einhver viðmið og nýta heilbrigða skynsemi en svo finnur hver og einn þá leið sem hentar honum best.“
Texti / Lilja Katrín
[email protected]