Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

„Ég rek ekki mína pólitísku stefnu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, heldur mörgum boltum á lofti. Auk þess að vera í krefjandi og tímafreku starfi hefur hún nýlokið MBA-gráðu við Háskólann í Reykjavík eftir tveggja ára nám sem hún stundaði samhliða starfinu og rekstri stórs heimilis.

„Ég er að vinna fyrir fólk sem er í pólitík og það vill svo heppilega til að ég deili einhverjum grundvallargildum með fólkinu sem ég vinn fyrir, en ég hef aldrei litið þannig á það að ég sjálf sé í pólitík. Ég rek ekki mína pólitísku stefnu.“

„Ég er bara vel gift,“ segir Svanhildur, spurð að því hver sé lykillinn að því að láta þetta allt saman ganga upp og vísar þar til eiginmanns síns, Loga Bergmann Eiðssonar fjölmiðlamanns. Svanhildur átti sjálf glæstan feril í fjölmiðlum áður en hún söðlaði um árið 2009 og gerðist framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins og síðar aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Hvað kom til að hún tók þá ákvörðun að breyta algjörlega um starfsvettvang?

„Ég hætti á Stöð 2 veturinn 2008-2009 og fór þá í leyfi til að ljúka námi í lögfræði. Þegar því var lokið áttaði ég mig á því að mig langaði ekki að fara aftur í fjölmiðlaumhverfið. Það var ekki mjög spennandi á þeim tíma, rétt eftir hrun, þegar andrúmsloftið var þannig að ef maður var ekki að lemja fólk með naglaspýtu í beinni þá var maður ekki að vinna vinnuna sína.“

Svanhildur dregur við sig svarið þegar hún er spurð hvort hún hafi alltaf verið pólitísk.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þjóðmálum,“ segir hún. „Ég man eftir því að hafa verið í fyrsta bekk í menntaskóla að hnakkrífast við bekkjarfélaga minn sem var mikill framsóknarmaður af Norð-Vesturlandi. Við vorum alls ekki sammála um landbúnaðarstefnuna á þeim tíma og mig minnir að við höfum verið að rífast um einhverja fríverslunarsamninga. En ég tók ekki þátt í neinu flokksstarfi fyrr en ég var að ljúka menntaskólanum. Svo kemur lífið fyrir mann og ég áttaði mig á því að ég hafði meiri áhuga á því að vinna á fjölmiðlum og vera þeim megin við borðið, heldur en að vera í pólitíkinni.“

„Ég hef alveg skoðanir og ég reyni að hafa áhrif, eins og fólk gerir yfirleitt. Ég segi það sem mér finnst um hlutina en á endanum er ég að vinna fyrir einhvern sem er sjálfur kjörinn fulltrúi og ber á ábyrgð á þeim verkum sem hann ákveður að koma í framkvæmd.“

Lífsgildin hægra megin
Svanhildur segist alltaf hafa verið sjálfstæðiskona. „Já, mín lífsgildi eru bara þar,“ segir hún ákveðin. „Þau eru hægra megin í lífinu, þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé reyndar merkileg blanda af þessari markaðsdrifnu hugsun og mjög mikilli velferðarstefnu. Fólki finnst það örugglega hljóma ofsalega furðulega, en ég veit ekki um aðra flokka sem teljast til hægri flokka sem eru jafnmikið í því að tala fyrir og framkvæma í ríkisstyrktum velferðarmálum.“

Spurð hvort pólitík hafi verið mikið rædd á heimili hennar þegar hún var að alast upp segir Svanhildur að  hún hafi ekki upplifað það sem pólitíska umræðu á þeim tíma en allir hlutir sem skipta máli hafi alltaf verið mikið ræddir á heimili foreldra hennar.
„Mamma og pabbi hafa áhuga á öllu mögulegu og það þótti bara eðlilegt ég læsi öll dagblöð alveg frá því að ég lærði að lesa, fimm ára gömul. Ég er alin upp í sveit og las allt sem ég náði í, þar á meðal dagblöðin og Familie Journal og Andrés Önd á dönsku. Maður las bara allt lesefni sem maður fann og mamma og pabbi voru mjög dugleg að ræða hlutina við mann. Það er mjög fínt veganesti og það er ennþá þannig að mér líður stundum eins og ég sé í viðtali þegar mamma og pabbi koma í bæinn og fara að spyrja mig út í hlutina. Það eru allir hlutir ræddir og ég held að það sé bara mjög normalt á hverju heimili.“

„Ég hef takmarkað þol fyrir netrifrildum, forðast fjölmenni ef ég get og mannamót vaxa mér oft í augum. Ég á ekki í neinum vandræðum með að tala fyrir framan fólk og svoleiðis, en ég er hræðilega léleg í „smalltalki“,“ segir Svanhildur.

Ástæða fyrir að fólk er pirrað
En þið Logi, eruð þið alltaf sammála um pólitíkina? „Ég ætla nú ekki að fara að tala fyrir Loga,“ svarar Svanhildur og hlær. „Við erum oft sammála þótt við séum ekkert alltaf nákvæmlega á sama máli, en það veldur engum vandkvæðum í sambandinu. Við erum bara mjög heppin með það að geta rætt alls konar hluti, hvort sem þeir snerta pólitík eða fjölmiðla eða hvað sem er. Þetta eru okkar ær og kýr, þjóðmál og fjölmiðlar eru það sem við höfum lifað og hrærst í eiginlega síðan við fórum út á vinnumarkaðinn.“

- Auglýsing -

Svanhildur og Logi eru bæði þjóðþekktir einstaklingar og oft milli tannanna á fólki, hvernig gengur að takast á við það?
„Veistu það að ég finn bara ekkert fyrir því,“ segir Svanhildur. „Ég skil aldrei þessar spurningar um það að vera á milli tannanna á fólki því ég einfaldlega spái ekkert í það og er ekkert mikið að leggja mig eftir því. Mér finnst líka fólk almennt vera frekar kurteist í samskiptum og ef það bregst þýðir það yfirleitt bara að fólk hefur farið eitthvað öfugt fram úr rúminu þann daginn. Það er yfirleitt hægt að tala við alla og mér finnst þetta ekki vera neitt sérstakt vandamál. Fólk getur alveg haft mjög eindregnar skoðanir á alls konar hlutum en þá getur maður líka svarað því. Stundum vantar fólk einfaldlega upplýsingar eða það er búið að vera að rekast með einhver mál í kerfinu í of langan tíma og þarf bara smávegis hjálp. Það er oft innistæða fyrir því að fólk er pirrað.“

Rek ekki mína pólitísku stefnu

Svanhildur hefur starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn í níu ár og hefur í umræðunni oft verið orðuð við framboð fyrir flokkinn, er hún eitthvað farin að velta fyrir sér eigin pólitískum ferli?
„Nei, mér finnst ekki fara saman að vera aðstoðarmaður ráðherra og vera með eigið pólitískt agenda,“ segir hún. „Ég er allavega ekki farin í framboð ennþá þótt það sé búið að vera nóg af kosningum síðustu ár.
Ég vinn fyrir fólk sem er í pólitík og það vill svo heppilega til að ég deili einhverjum grundvallargildum með fólkinu sem ég vinn fyrir, en ég hef aldrei litið þannig á það að ég sjálf sé í pólitík. Ég rek ekki mína pólitísku stefnu. Ég hef alveg skoðanir og ég reyni að hafa áhrif, eins og fólk gerir yfirleitt. Ég segi það sem mér finnst um hlutina en á endanum er ég að vinna fyrir einhvern sem er sjálfur kjörinn fulltrúi og ber á ábyrgð á þeim verkum sem hann ákveður að koma í framkvæmd.“

- Auglýsing -

Lokar sig inni á klósetti

Nú er Svanhildur farin að tala eins og stjórnmálamaður í stað þess að svara spurningunni, langar hana til að leggja stjórnmál fyrir sig sem atvinnu í framtíðinni?
„Þegar ég var sextán ára að rífast við þennan framsóknarmann, vin minn, þá fannst mér alveg frábær hugmynd að verða til dæmis forsætisráðherra. Með aldrinum hef ég kannski orðið minna spennt fyrir því. Ég lít þannig á að það að fara í framboð sé mjög stór ákvörðun og mér finnst að mann megi eiginlega ekki langa meira til neins í heiminum en að bjóða sig fram ef maður gerir það. Þetta er ekki bara starf, þetta er lífsstíll og yfirtekur allt, alla dagskrá og fjölskyldulíf og samskipti við vinahópa. Það eru svo margir í kringum mig sem eru í pólitík eða hafa verið í pólitík og hafa jafnvel hætt í pólitík þannig að ég er búin að sjá allar hliðar á þessu og þetta er ekkert venjulegt starf. Þegar maður sér fram á það að fá innantökur ef maður er ekki í framboði er held ég kominn rétti tíminn til að gera það, en þangað til maður er nánast tilbúinn til þess að henda öllu frá sér þá á maður ekki að fara í þetta starf. Þetta er svona „sjáðu mig, sjáðu mig!“-umhverfi og fólk þarf helst að vera eins og gangandi auglýsingaskrifstofa, með stöðuga virkni á samfélagsmiðlum og alltaf tilbúið í allt. Ég hef takmarkað þol fyrir netrifrildum, forðast fjölmenni ef ég get og mannamót vaxa mér oft í augum. Ég á ekki í neinum vandræðum með að tala fyrir framan fólk og svoleiðis, en ég er hræðilega léleg í „smalltalki“. Ég er meira innhverf en úthverf og sæki þess vegna orku í einveru. Þegar mest var að gera á síðustu árum, í vinnunni, skólanum og á heimilinu áttaði ég mig á því að ég var stundum farin að loka mig inni á klósetti, bara til að fá smá frið. Ég á mjög góðar vinkonur sem ég deili flestu með og þegar ég sagði þeim frá þessu komst ég að því að þetta var eitthvað sem þær könnuðust margar við. Bara að ná nokkrum mínútum með sjálfri sér, hvort sem er heima eða utan heimilis.“

„Ég skil aldrei þessar spurningar um það að vera á milli tannanna á fólki því ég einfaldlega spái ekkert í það og er ekkert mikið að leggja mig eftir því.“

Samtalið beinist að þeirri umræðu að það sé miklu erfiðara fyrir konur að komast áfram í pólitík, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins, er það upplifun Svanhildar?
„Ég ætla ekkert að fara að dæma aðra flokka,“ segir hún. „En mér hefur ekki sýnst það eitthvað sérstaklega erfitt að vera kona í Sjálfstæðisflokknum. Við erum til dæmis með tvær frábærar konur í forystu. Stundum hefur niðurstaða prófkjöra verið allavega en það hefur að mínu áliti verið rætt kerfisbundið um það innan flokksins og reynt að taka á því og mér finnst það ekki hafa verið sama vandamálið núna og stundum áður í kosningum. Ég held að starfsumhverfið sé ekkert endilega erfiðara fyrir konur, en það er hins vegar þannig að fólk sem ekki er tilbúið til að vera á vaktinni meira og minna allan sólarhringinn og láta starfið alltaf ganga fyrir á erfitt með það. Stjórnmálastarf þvælist dálítið fyrir fólki sem er ekki tilbúið að giftast vinnunni sinni. Ég held að núorðið gildi það nokkuð jafnt um konur og karla.“

Ýmislegt verið mjög óviðeigandi

Svanhildur er orðin hundleið á þessum spurningum mínum um pólitík, lái henni hver sem vill, og við snúum talinu að kvennabyltingunum margumtöluðu og hvaða áhrif hún telur að þær muni hafa til frambúðar.
„Ég held að þær muni hafa varanleg áhrif,“ segir hún. „Þegar þú ferð að sjá heildarmyndina af því hvernig framkoman hefur verið ertu miklu fljótari að koma auga á það þegar hlutir eru ekki eins og þeir eiga að vera. Þol fólks fyrir einhverri fáránlegri framkomu er miklu minna og það er alveg frábært. Ég held að á síðustu árum hafi orðið talsvert mikil hugarfarsbreyting, bæði í því hvernig fólk talar um hluti og hvers konar framkomu það þolir. Ég held að nánast allir geri sér grein fyrir því að það eru ákveðin mörk sem þú verður að virða. Ég hef hlustað talsvert á karla tala saman um þessa hluti og mér finnst það mjög áhugavert. Þeir eru líka að átta sig á því að það hefur ýmislegt verið í gangi sem er algjörlega óviðeigandi. Það var að mjög mörgu leyti meiriháttar upplifun að verða vitni að þessu.“

Eins og fram kom í upphafi er Svanhildur að ljúka MBA-gráðu, þýðir það að hún sé að hugsa um að skipta um starfsvettvang? „Ég veit það ekki. Ég verð náttúrlega ekki aðstoðarmaður að eilífu,“ segir hún sposk. „Ég ákvað bara að klára þetta og reyna svo að ná örlitlu jafnvægi í heimilislíf og vinnu. En auðvitað fer maður í nám af því að maður er tilbúinn að víkka sjóndeildarhringinn og prófa eitthvað nýtt.“

Fjölmiðlabakterían ólæknandi

„Ég hef alltaf sótt í vinnu sem er svolítið flæðandi og ég held ég sé komin að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa verið þrjátíu ár á vinnumarkaði, að ég sé ekki mikil níu til fimm týpa. Mér finnst gaman að vera í álagsverkefnum sem reyna mikið á mann og þurfa öðru hvoru að gera hið ómögulega.“

Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?
„Það er frábær spurning sem ég hef velt fyrir mér af og til í dálítið mörg ár. Ég hef alltaf sótt í vinnu sem er svolítið flæðandi og ég held ég sé komin að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa verið þrjátíu ár á vinnumarkaði, að ég sé ekki mikil níu til fimm týpa. Mér finnst gaman að vera í álagsverkefnum sem reyna mikið á mann og þurfa öðru hvoru að gera hið ómögulega.“

Saknarðu fjölmiðlanna?
„Ef ég hefði ekki Loga sem ákveðinn glugga inn í fjölmiðlaheiminn þá kannski myndi ég sakna þeirra meira. Ef manni finnst gaman að kynna sér hluti og hefur áhuga á öllu mögulegu er fjölmiðlavinnan besta starf í heimi. Mér fannst fyndið þegar ég var að byrja að vinna á fjölmiðlum að heyra talað um fjölmiðlabakteríuna en svo uppgötvar maður smám saman að eiginlega allir sem einhvern tímann hafa unnið á fjölmiðli virðast sýkjast af þessari bakteríu og aldrei læknast fullkomlega. Ég finn það alveg á sjálfri mér.“

„Ég hef alveg skoðanir og ég reyni að hafa áhrif, eins og fólk gerir yfirleitt. Ég segi það sem mér finnst um hlutina en á endanum er ég að vinna fyrir einhvern sem er sjálfur kjörinn fulltrúi og ber á ábyrgð á þeim verkum sem hann ákveður að koma í framkvæmd.“

Fyrr í spjalli okkar Svanhildar hafði komið fram að hún ætti mun auðveldara með að tjá sig í skrifuðu máli en að tala um hlutina, er það eitthvað sem hún vildi þróa frekar? Er kannski skáldsaga í skúffunni?
„Nei, ég er ekki með skáldsögu í skúffunni,“ segir hún og hlær. „Logi er aftur á móti með eina svoleiðis sem hann klárar kannski núna. Mér finnst mjög gaman að skrifa. Ég fæ bara eitthvað út úr góðum texta, bæði að lesa hann og skrifa. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað ég myndi skrifa ef ég færi út í það. Ég veit það bara ekki. Ég veit ekki hvort ég á skáldsögu í mér.“

Raðlækari og íþróttanörd

Annað áhugamál Svanhildar er fornleifafræði, kom aldrei til greina að leggja þá grein fyrir sig?
„Ég hef mikinn áhuga á fornleifafræði og ég held að allir fornleifafræðingar á Twitter haldi að ég sé einhver ruglaður eltihrellir. Ég fylgi mörgum fornleifafræðingum á Twitter og fornleifastofnun og er eiginlega raðlækari á allt sem snertir fornleifar. Hrafnhildur dóttir mín virðist hafa erft þennan áhuga á fortíðinni og gömlum hlutum og þegar við ætlum að eiga góðan tíma saman þá förum við og röltum um kirkjugarða og hún biður mig að útskýra fyrir sér hvernig hlutirnir voru í gamla daga og hvers vegna það dóu svona mörg börn þá.“

Talandi um börn í „gamla daga“, hvernig barn var Svanhildur sjálf?
„Ég var íþróttanörd,“ segir hún og skellir upp úr. „Ég æfði frjálsar íþróttir, var mjög góð í kúluvarpi, en spilaði líka blak, handbolta og körfubolta og bara allt sem ég komst í.“

Svanhildur er ekki lengur í neinum hópíþróttum lengur en hefur lyft í nokkur ár.
„Mér hefur alltaf fundist mjög gaman að lyfta og ákvað að prófa að æfa lyftingar. Það féll eins og flís við rass, þetta hentaði mér frá fyrsta degi. Ég fer á fætur fyrir sex á morgnana, er búin með æfinguna fyrir klukkan átta og kem þá heim og kem stelpunum í skólann. Ég er ein að lyfta og það er tími sem ég á alveg sjálf. Ég fer ekki í jóga, stunda ekki hugleiðslu en lyftingarnar eru mín hugleiðsla. Maður gerir kannski ekkert nema hnébeygjur í klukkutíma, með stöng á öxlunum og tónlist í eyrunum og hugsar ekki neitt. Fyrir mig er þetta andleg hvíld og líkamlega góð áreynsla.“

Ekki mikið atvinnuöryggi

Þessi klukkutíma á morgnana er væntanlega eini tíminn sem Svanhildur á ein með sjálfri sér yfir daginn, eða hvað? Er ekki álagið á aðstoðarmann ráðherra mikið?
„Það auðvitað venst eins og annað. Það sem er verst við það er að það getur verið erfitt að setja mörk um það hvenær ég er í vinnunni og hvenær ég er ekki í vinnunni. Þegar ég var að klára síðasta kúrsinn í MBA-náminu fór ég í frí og setti „out of office։-skilaboð á tölvupóstinn minn, sem ég geri nánast aldrei, og áttaði mig á það væri kannski svolítið ruglað að reyna að vera ínáanlegur öllum stundum. Maður er líka að vinna verkefni á furðulegustu tímum og eitt það furðulegasta sem ég hef gert var þegar ég settist niður þegar allt var búið á gamlárskvöld og allir farnir að sofa til að skrifa ræðu fyrir nýársdag. En það eru nú alls konar störf sem eru þannig að fólk er í þeim bæði vakið og sofið.“

En þú ert ekkert á leiðinni eitthvert annað?
„Ég hef reglulega síðustu ár búist við því að ég væri alveg að verða atvinnulaus, eða gæti orðið það. Atvinnuöryggið í pólitísku starfi er ekki mikið, allra síst undanfarin ár hér á Íslandi. Þannig að ég geri auðvitað alltaf ráð fyrir því að þurfa að finna mér vinnu einhvern tímann, en á meðan starfið er að meðaltali meira skemmtilegt en leiðinlegt þá heldur maður áfram. Plúsinn við mitt starf er að maður upplifir reglulega einhverja sögulega viðburði og er í hringiðunni þegar eitthvað merkilegt gerist. Maður verður bara að passa sig á að verða ekki svo samdauna umhverfinu að maður átti sig ekki á því.“

„Ég neita því ekki að í undirmeðvitundinni blundar hugsunin að þótt mig langi ekki að vera að lemja einhvern með naglaspýtu í beinni þá er fjölmiðlaumhverfið alltaf það sem ég dregst að í einhverri mynd,“ segir Svanhildur.

Ekki röflandi besserwisser

Svanhildur ætlar greinilega ekki að svara ákveðið af eða á hvort hún sé að hugsa sér til hreyfings úr fjármálaráðuneytinu svo ég breyti um taktík og spyr: Hvar sérðu þig fyrir þér þegar þú verður sextíu og fimm ára?
„Ja, ég vona allavega að ég verði ekki svona leiðinlegur röflandi besserwisser sem er alltaf að segja yngra fólki hvað það sé vitlaust,“ svarar Svanhildur. „Fyrst og fremst ætla ég að vona það að ég verði ekki að horfa á heiminn í gegnum einhver mjög skrýtin gleraugu og geti náð að taka inn breytingar og nýjar upplýsingar og nýjar skoðanir og svo framvegis. Án þess að vera alltaf með fingurinn á lofti. Mér finnst það sjúklega leiðinlegt. Mér finnst gott að hafa fólk sem getur sagt manni að það sé búið að prófa einhverja hluti. Mér finnst vanta fleira fólk með gott stofnanaminni sem getur vísað í söguna, en að segja að hlutir verði að vera einhvern veginn af því einu sinni voru þeir þannig er bara fullkomlega óþolandi.“

Heldurðu að þú verðir ekki bara orðin forseti þá?
„Ég hef nú ekki endilega hugsað það þannig. Það er svo lítill aldursmunur á mér og Guðna að miðað við hefðir Íslendinga í forsetamálum er ég ekkert viss um að embættið verði laust þegar ég verð sextíu og fimm ára.

Að öllu gamni slepptu þá hugsar maður auðvitað stundum um það hvar maður verði staddur þá. Að vera rúmlega sextugur er ekki lengur neitt rosalega langt fram í framtíðinni hjá mér. Og ég spyr mig stundum hvað mig langi til að vera að gera eftir tuttugu ár. Ég bara veit það ekki ennþá. Þau störf sem ég hef tekið að mér hafa verið skemmtileg en ég hef ekki sótt um vinnu síðan 1999 þegar ég sótti um vinnu á Morgunblaðinu og Ríkisútvarpinu og endaði á því að vinna fyrir svæðisútvarpið á Akureyri. Síðan hef ég meira svona lent í vinnu og það er ekkert víst að maður hafi neitt rosalega gott af því. Það hefur eiginlega verið lúxusvandamál að þurfa ekki að hugsa neitt mikið um það hvað gerist á næsta ári eða þarnæsta.

Ég neita því ekki að í undirmeðvitundinni blundar hugsunin að þótt mig langi ekki að vera að lemja einhvern með naglaspýtu í beinni þá er fjölmiðlaumhverfið alltaf það sem ég dregst að í einhverri mynd.
Maður auðvitað vonar að maður sjálfur og fólkið í kringum mann haldi heilsu. Þegar ég verð sextíu og fimm ára verður Logi sjötíu og þriggja og örugglega búinn að fara í hnjáliðaskipti á báðum hnjám, en það sem maður vill helst af öllu er að maður verði hamingjusamur og það er það sem ég vil fyrir mig og fjölskylduna. Helst af öll vill maður ná einhverju jafnvægi sem gerir það að verkum að fólk sé bara sæmilega sátt við lífið og í sínu eigin skinni. Allt annað er eiginlega aukaatriði.“

________________________________________________________________

Logi um Svanhildi: Tinnabókaprófessor með athyglisbrest

Svanhildur fullyrðir að Logi Bergmann Eiðsson eigi skilið fálkaorðu fyrir að endast til að búa með henni svo mér lék forvitni á að vita hvernig sambúðin liti út frá hans sjónarhóli. Hann segir það ýkjur að hann ætti orðu skilda, en viðurkennir þó að sambúðin geti stundum tekið á. „Það er stundum pínu áskorun að vera giftur Svanhildi,“ segir Logi. „Hún er svolítið utan við sig og intróvert og svona, en þetta venst mjög vel. Við skynjum hvort annað vel og finnum hvað hitt þarf og hvernig við höfum það, þannig að þetta gengur nú alltaf býsna vel.“

Spurður hvað taki mest á í sambúðinni segir Logi nokkrar sögur.
„Við keyptum okkur nýjan þurrkara og eftir tvo mánuði hringdi hún í mig og spurði hvernig ætti að kveikja á honum, sem segir allt um það hver sér um þvottinn á þessu heimili. Hún hefur líka til að bera stórkostlega óþolinmæði gagnvart hlutum sem virka ekki, en annars er hún alveg fáránlega geðgóð.“

Logi tiltekur dæmi um þessa óþolinmæði:
„Einu sinni var hún brjáluð yfir því að bíllinn væri bilaður, svissinn virkaði ekki, en það kom í ljós að hún var með lyklana að hinum bílnum okkar. Svo er líka algengt að hún rjúki út á morgnana, orðin of sein, en finni ekki bílinn af því hún gleymdi honum einhvers staðar daginn áður. Þetta er svona mildur fullorðinsathyglisbrestur í bland við Tinnabókaprófessor.“

Eftir þessi tvö ár sem Svanhildur hefur verið í náminu segist Logi draga mörkin við legnám í framtíðinni. Annað nám komi ekki til greina. Þetta sé orðið gott. Hann er hins vegar sannfærður um að Svanhildur muni aldrei fara út í pólitík.
„Hún mun aldrei bjóða sig fram og ég þakka guði fyrir það,“ fullyrðir hann. „Það þyrfti eitthvað mikið að gerast til að hún léti tilleiðast. Það eina sem gæti fengið hana til þess er hvað hún hefur gríðarlega sterka réttlætiskennd. Svo er hún líka bara allt of bóngóð. Hún er alltaf að bjarga einhverju fyrir einhvern og á meðan sit ég bara bitur eiginmaður einn heima. Nei, ég er að grínast, það er einn af hennar bestu kostum hvað hún er hjálpsöm.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -