Bandaríkjamenn flykktust út af heimilum sínum í gær og margir nutu lífsins á ströndinni í tilefni af Memorial Day, lögboðnum frídegi í Bandaríkjunum.
Í öllum fylkjum Bandaríkjanna hefur verið slakað á takmörkunum sem settar voru á vegna útbreiðslu COVID-19 en áfram eru Bandaríkjamenn hvattir til að halda fjarlægð við hvorn annan á almannafæri, nota andlitsgrímur og passa áfram upp á sóttvarnir.
Læknirinn Deborah Birx, sem stýrir samhæfinganefnd Hvíta hússins vegna COVID-19, hefur beðið fólk um að halda áfram að gera allt sem í valdi þess stendur til að hindra frekari útbreiðslu kórónuveirunnar. Hún hefur hvatt fólk til að ganga um með andlitsgrímur.
Brix kvaðst í gær hafa áhyggjr vegna stórra hópa sem komu saman víða um Bandaríkin til að halda upp á Memorial Day.
Það var ekki að sjá að fólk sem naut lífsins á t.d. ströndinni í Newport í Kaliforníu væri með leiðbeiningar Brix við hugann.
„Ég sé margt fólk en ég sé engar grímu,“ segir einn viðmælandi BBC í myndbandi sem má sjá hér fyrir neðan. „Ströndin er full af sjálfselsku fólki,“ sagði annar.