Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

„Ég, sem barn, átti að njóta vafans, en það var hann sem naut vafans“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Persónulega finnst mér ég hafa fengið þá staðfestingu að ég hafi sagt og gert allt satt og rétt. Sú niðurstaða að það leiddi ekki til sakfellingar er bara fáránlegt,” segir Margrét Ásgerður Þorsteinsdóttir.

Margrét var fimmtán ára þegar brotið var á henni af lögreglumanni, að hennar sögn, í bænum sem hún bjó í úti á landi. Maðurinn var náinn vinur fjölskyldunnar. Málið fór fyrir héraðsdóm þar sem maðurinn var sýknaður. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar þar sem það var sent aftur í hérað því dómarar töldu að málið hefði ekki verið fyllilega rannsakað. Í héraðsdómi í annað sinn var maðurinn sakfelldur og dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Þegar málinu var síðan áfrýjað á ný til Hæstaréttar var hann sýknaður, þar sem hann neitaði alfarið sök, þó að tekið væri fram í dómsúrskurði að framburður Margrétar þætti trúverðugur. „Andspænis framburði A [innsk. blaðamanns: Margrétar], sem metinn hefur verið trúverðugur, stendur afdráttarlaus neitun ákærða,“ stendur orðrétt í dómnum.

Lögreglumanninum var vikið úr starfi meðan á málinu stóð en fékk aftur vinnuna eftir að hann var sýknaður. Hann starfar enn í lögreglunni.

„Þar káfaði hann á mér“

Margrét er búsett í Glasgow þar sem hún klárar mastersnám í heilbrigðisverkfræði.

Blaðamaður mælir sér mót við Margréti á Skype þar sem hún er búsett í Glasgow og klárar þar mastersnám í heilbrigðisverkfræði við Strathclyde-háskóla. Hún er nú í starfsþjálfun í London þar sem hún freistar þess að landa starfi hjá einum af stærstu fjárfestingabönkum í heimi. Tækifærið er stórt og pressan mikil, en Margrét tekur því með stóískri ró, enda trúir hún á að það þurfi að stökkva á öll tækifæri sem berast með opnum hug. Miklar líkur eru á að hún fái starfið, og kemur það foreldrum hennar, Hrefnu Aradóttur og Þorsteini K. Jónssyni, ekki á óvart. Þau eru viðstödd Skype-fundinn okkar, Margréti til halds og trausts og er tíðrætt um hve mikill afburðarnemandi hún hafi verið í skóla. Því til stuðnings nefna þau til dæmis að Margrét hafi tekið fyrsta árið í framhaldsskóla á meðan hún var að klára 10. bekk grunnskóla. Það ár dundi áfall yfir fjölskylduna sem hún hafði aldrei séð fyrir.

„Þetta var fyrsti föstudagurinn í maí árið 2010. Ég veit ekki af hverju ég man það en þetta var fyrsti föstudagurinn í maí,“ byrjar Margrét. „Ég hafði ákveðið að fara snemma út að hlaupa með strákunum og fara síðan á fótboltaæfingu. Við vorum nokkrar stelpur sem höfðum æft með strákunum miðvikudaginn áður og þennan föstudag var komið að annarri æfingu. Við ætluðum að hittast klukkan sex um morguninn. Ég flýtti mér á staðinn og var því mætt tiltölulega snemma,“ segir Margrét, en ákveðið var að hittast heima hjá lögreglumanni í smábænum, manni sem var náinn vinur fjölskyldu Margrétar.

„Þegar ég mætti stóð hann fyrir utan húsið með kaffibolla. Við fórum inn og vorum tvö ein í þvottahúsinu, eflaust bara í nokkrar mínútur. Þar káfaði hann á mér. Hann káfaði á píkunni á mér og rassi og sagði svo að ég væri mjög flott. Síðan stakk hann puttanum upp í sig. Svo fór hann inn í hús og kom til baka með bita af banana sem hann bauð mér. Ég hef varla borðað banana síðan þá. Það er mjög spes hlutur sem situr í mér. Í hvert einasta sinn sem ég sé banana fæ ég hroll. Svo komu hinir krakkarnir og við fórum út að hlaupa,“ segir Margrét þegar hún lítur til baka.

- Auglýsing -

„Við hlupum ábyggilega tvo til þrjá kílómetra. Við hlupum hring um bæinn. Það eina sem ég hugsaði allan tímann var hvort einhver væri á lögreglustöðinni ef ég hlypi þangað. Hann keyrði á eftir okkur á bíl og ég hugsaði líka að hann myndi eflaust ekki ná mér ef ég hlypi þar sem leiðin var þannig á lögreglustöðina. Við hlupum áfram og kláruðum æfinguna fyrir framan grunnskólann. Ég sá lögreglustöðina þaðan en það sem stoppaði mig var að hann var í löggunni. Var hann kannski á vakt? Yrði þá enginn inni á löggustöðinni ef ég færi þangað?“ útskýrir Margrét, en þar sem atvikið gerðist í smábæ úti á landi var í raun engin viðvera á lögreglustöðinni alla jafna heldur aðeins lögreglumaður á vakt.

Hélt að hún myndi deyja

Í framhaldinu tóku krakkarnir létta fótboltaæfingu áður en þau fóru heim til að taka sig til fyrir skólann, að sögn Margrétar.

„Þá sagði hann strákunum að hlaupa heim en að hann ætlaði að skutla okkur stelpunum. Mér fannst hann fara öfugan hring þannig að ég var seinust úr bílnum. Hann keyrði fyrst hinar stelpurnar og fór síðan til baka með mig.

Ég sat fyrir aftan bílstjórasætið og allt í einu var eins og eitthvað gerðist í hausnum á honum og hann sagðist þurfa að fá meira. Hann reyndi að grípa í mig aftur en náði ekki og ég fékk nánast hjartaáfall. Ég bara fraus.

- Auglýsing -

Á þessu augnabliki, verandi ein í bílnum með honum, hugsaði ég bara að annaðhvort yrði mér nauðgað eða ég væri að fara að deyja. Svo keyrði hann mig heim. Ég hugsaði hvort ég ætti að stökkva út úr bílnum en ég gat ekkert hlaupið. Hann keyrði mig alveg inn í innkeyrsluna heima, ég gekk inn, lokaði dyrunum og brotnaði algjörlega niður. Ég skreið upp í rúm og sagði mömmu hvað gerðist,“ segir Margrét. Móðir hennar segist hafa fengið mikið áfall þegar Margrét sagði henni allt af létta en þær mæðgur eru sammála um að það hafi verið það besta sem Margrét hefði getað gert – að segja frá strax.

Gátu hvorki leitað til lögreglunnar né skólans

Þrátt fyrir áfallið reyndu mæðgurnar að hugsa rökrétt um hvernig þær ættu að snúa sér í málinu. Þetta var snemma um morgun og því erfitt að ná í fagaðila til að spyrja ráða. Mæðgurnar voru nefnilega í erfiðri stöðu – maðurinn var, eins og áður segir, lögreglumaður í bænum þeirra. Ekki bætti það stöðuna að eiginkona hans var skólastýra í grunnskólanum sem var einnig vinnustaður Hrefnu, móður Margrétar. Þær gátu því hvorki leitað til lögreglu né skólans. Mæðgurnar ákváðu að fara í skólann eins og ekkert hefði ískorist og leita hjálpar síðar um daginn. Svo fór að málið fór fyrst til Barnaverndarstofu strax þennan föstudag. Í kjölfarið fékk Margrét viðtal hjá félagsmálafulltrúa mánudaginn eftir og tveimur dögum síðar fór hún með fulltrúanum til Reykjavíkur í skýrslutöku.

„Við vorum beðin um að segja ekki neitt um málið við aðra þar til það væri komið á það stig að búið væri að yfirheyra hann. Eina manneskjan sem ég fékk að segja frá þessu var besta vinkona mín sem var með okkur úti að hlaupa. Ég vildi segja henni og biðja hana um að fara ekki á næstu hlaupaæfingu,“ segir Margrét.

Margrét er á góðum stað í lífinu í dag og segir þessa hörmulegu lífsreynslu ekki skilgreina sig sem persónu.

Tvær vikur liðu frá brotinu þar til lögreglumaðurinn var yfirheyrður. Þann tíma þurftu Margrét og fjölskylda hennar að láta eins og ekkert væri, sem var erfitt í smábænum, eins og gefur að skilja.

„Við upplifðum það að hitta þau og þurftum að halda andlitinu og láta eins og ekkert væri. Í sannleika sagt man ég voðalega lítið eftir þessu. Ég hef oft hugsað út í þetta. Þetta var í byrjun maí og ég var í fjórum framhaldsskólaprófum og síðan að klára grunnskólaprófin. Samt man ég ekkert hvað ég gerði, hvort ég lærði fyrir prófin eða hvað,“ segir Margrét. Hún fékk þó samt verðlaun á útskriftinni úr grunnskóla fyrir framúrskarandi námsárangur, verðlaun sem hún þurfti að taka á móti uppi á sviði, við hlið eiginkonu lögreglumannsins. Sonur hans útskrifaðist með Margréti, en fjölskylda hennar fékk það í gegn að maðurinn yrði ekki viðstaddur útskriftina.

Svo fór að lögreglumanninum, sem þá var varðstjóri, var vikið úr starfi meðan á dómsmálinu stóð. Það fannst Margréti og fjölskyldu hennar mikill léttir, enda bærinn lítill og því yfirgnæfandi líkur á að sá hinn sami lögreglumaður yrði kallaður út ef fjölskyldan þyrfti á lögregluhjálp að halda. Þegar að hann var sýknaður fékk hann hins vegar starfið aftur í lögreglunni og starfar þar enn.

Sýknaður daginn fyrir 18 ára afmælið hennar

Málið fór fyrst fyrir héraðsdóm um miðjan mars árið 2011 þar sem maðurinn var sýknaður. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem vísaði málinu aftur í hérað til frekari rannsóknar. Maðurinn var svo sakfelldur í héraðsdómi og dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Loks var hann sýknaður í Hæstarétti þann 29. nóvember árið 2012.

„Þessi úrskurður Hæstaréttar var í raun mikið áfall, því það var sigur þegar málið var sent aftur í hérað þar sem við unnum málið. Það var búið að byggja upp von. Var þetta virkilega niðurstaðan? Við vorum búin að fara í gegnum allt þetta ferli sem var búið að taka tvö og hálft ár,” segir Margrét sem var á þessum tíma orðin au pair hjá þýsk/íslenskum hjónum í Þýskalandi. Lögreglumaðurinn var sýknaður daginn fyrir átján ára afmæli hennar.

„Ég fór bara að hágráta. Ég útskýrði allt fyrir hjónunum í Þýskalandi. Það besta sem þau gerðu var að minna mig á að við ætluðum að halda upp á afmælið mitt daginn eftir. Þau vildu ekki að ég myndi festast í fortíðinni og velta mér upp úr því sem væri búið og gert, heldur að ég myndi horfa fram á veginn.“

Skólastýran sakfelld

Meðal sönnunargagna sem lögð voru fram í málinu var dagbók hennar sem hún hafði haldið árið áður. Dagbókinni hafði hún trúað fulltrúa frá Maritafræðslunni, sjálfstætt starfandi forvarnarstarfi um skaðsemi fíkniefna, fyrir þegar fræðslan heimsótti grunnskóla hennar ári áður en brotin áttu sér stað.

„Ég tók sérstaklega fram að ég vildi ekki að neinn sæi bókina og ég vildi alls ekki blanda skólastjóranum mínum eða aðstoðarskólastjóranum í málið. Ég vildi bara fá óháðan aðila til að kíkja á bókina og vildi fá hjálp með mína vanlíðan,“ segir Margrét. Samkvæmt dómsskjölum var bókin skrifuð frá 15. maí 2009 til 19. janúar 2010, eða nokkrum mánuðum áður en meint brot áttu sér stað. Úr dómsskjölum má ráða að bókin hafi innihaldið eðlilegar hugrenningar unglings á mótunarskeiðinu um sitt tilfinningalíf og félagsleg tengsl.

Margrét sendi dagbókina rafrænt á fulltrúa Maritafræðslunnar, sem síðan áframsendi hana á skólastýruna án vitundar Margrétar. Seinna, þegar dómsmálið hófst, var dagbókin notuð í málinu. Í dómsskjölum kemur fram að skólastýran hafi afhent ákæruvaldinu dagbókina. Vitnað var í dagbókina fyrir dómi og var Margrét spurð út í það sem í henni stóð.

„Mér fannst það rosalega óþægilegt. Eina sem ég hugsaði var að þau væru að fara að segja að ég væri geðveik. Ég vissi nákvæmlega hver plönin voru á bak við að leggja þessa dagbók fram. En mér var sagt að það væri ekkert óeðlilegt í dagbókinni sem væri hægt að véfengja. Því var okkur sagt að samþykkja það að dagbókin yrði notuð í réttarhöldunum,“ segir Margrét.

Strax í kjölfar þess að lögreglumaðurinn var sýknaður fór Margrét í mál við skólastýruna vegna brots á friðhelgi einkalífs og brots gegn trúnaðarskyldu samkvæmt lögum um grunnskóla, í ljósi þess að hún hafði afhent ákæruvaldinu dagbókina, dagbók sem hún átti ekki að vera með í fórum sínum og voru trúnaðargögn. Skólastýran var sakfelld í héraðsdómi og áfrýjaði til Hæstaréttar þar sem hún var aftur sakfelld og þurfti að greiða Margréti hálfa milljón í bætur. Áður en fjölskyldan kærði skólastýruna sendi það erindi til bæjarfélagsins og krafðist þess að hún yrði áminnt í starfi fyrir verknaðinn. Bærinn áminnti hana ekki og starfar hún enn sem skólastýra grunnskólans.

„Gerandi virðist hafa þann rétt að mega ljúga“

Í dómsskjölum í máli Margrétar gegn lögreglumanninum er meðal annars stuðst við niðurstöðu sálfræðimats Önnu Kristínar Newton sálfræðings þar sem kemur fram að ekkert bendi til að frásögn Margrétar af brotunum sé ótrúverðug. Þá styrkti álit Þorbjargar Sveinsdóttur, sálfræðings hjá Barnahúsi, mál Margrétar, en hún sótti viðtöl hjá henni í þrettán skipti á árunum 2010 til 2011. Var það álit Þorbjargar að Margrét sýndi af sér fjölmörg einkenni sem þekkt eru meðal barna og unglinga er sætt hafi kynferðislegu ofbeldi. Margrét segir það miður að ofangreint, ásamt hennar framburði, hafi ekki verið nóg.

„Minn framburður var alltaf sami framburðurinn. Vitnisburðir um mig sem manneskju sýndu að ég væri ekki að ljúga. Það var engin ástæða fyrir mig að rífa í sundur tvær fjölskyldur sem höfðu verið mjög nánar allt sitt líf. Það var ekki rökrétt. Það véfengdi enginn orð mannsins eða konu hans. Það var alltaf verið að véfengja mín orð. Ég þurfti alltaf að standa á bak við orð mín á meðan þau gátu bara sagt nei.“

„Hann var sýknaður daginn áður en ég varð átján ára,“ segir Margrét, en á þeim tíma var hún au pair í Þýskalandi.

Margrét segir miður að þolandi þurfi að standa svo fast á sínum orðum á meðan orð geranda séu ekki véfengd nema yfirgnæfandi sannanir séu gegn honum.

„Gerandi virðist hafa þann rétt að mega ljúga. Hann er saklaus uns sekt er sönnuð en sem þolandi þarftu að frekjast í gegnum þetta til að orð þín séu tekin trúanleg. Ég, sem barn, átti að njóta vafans, en það var hann sem naut vafans.“
Hún segir það sárt að einhver svo nærkominn henni hafi getað brugðist trausti hennar. Þessar tvær fjölskyldur vörðu miklum tíma saman, fóru til útlanda saman og Margrét og sonur mannsins voru góðir vinir.

„Þetta var fólk í ábyrgðarstöðu sem ég átti að treysta, líka miðað við hve náin tengsl voru á milli fjölskyldnanna. Ég horfði aldrei á þetta út frá þeirri valdastöðu sem þau voru í. Það snerti mig miklu meira að þetta var fólk sem var náið mér og hvernig það reyndi síðan að koma illu orði á mig og mína fjölskyldu. Reyndi að láta eins og ég væri ekki traustsins verð.“

Bærinn skiptist í tvær fylkingar

Haustið eftir að brotið átti sér stað hóf Margrét nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð, eitthvað sem hún hafði löngu ákveðið að gera. Faðir hennar vann í Reykjavík en móðir hennar varð eftir í smábænum.

„Það er mjög skrýtið að segja það en þetta var mjög heppileg tímasetning fyrir mig að þetta gerðist, fyrst þetta þurfti að gerast. Ég var búin að sækja um í MH og var að fara suður, ekki norður í framhaldsskóla eins og allir hinir krakkarnir í bekknum. Þetta var alltaf planið, en það gerði það að verkum að ég komst út úr bænum og frá þessu öllu. Ég þurfti ekkert að pæla í þessu,“ segir Margrét. Móðir hennar skýtur inn í að henni hafi liðið eins og hún væri ein í heiminum þar sem fólk hafi hætt að koma í heimsókn og að bærinn hafi skipst í tvær fylkingar: með og á móti lögreglumanninum. Loks fór það þannig að móðir hennar flutti einnig suður. Margrét segir samt sem áður að stuðningur hafi komið úr óvæntustu áttum og fyrir það sé hún ávallt þakklát.

„Ég kann svo mikið að meta fólkið sem var til staðar. Það var fólk sem við þekktum áður en þetta gerðist sem kom í ljós að voru raunverulegir vinir okkar þegar þetta dundi yfir. Fólk sem ég bjóst hins vegar við að myndi standa með okkur var alls ekki til staðar. Við fórum aldrei í felur með þetta og stóðum með okkur sjálfum. Við gerðum allt rétt.“

Lætur atvikið ekki skilgreina sig

Móðir Margrétar segir að fjölskyldan sé sterkari eftir þessa lífsreynslu, þó að enginn eigi að þurfa að ganga í gegnum svona nokkuð. Hún segir fjölskylduna samheldnari og óhræddari – að þau geti tekist á við hvað sem heimurinn hendir í þau héðan í frá. Við förum aftur á byrjunarreit, til þess augnabliks sem Margrét sagði frá brotinu. Ég veit ekki af hverju við leitum þangað aftur, en við gerum það samt. Ég sé stolt færast yfir svip Hrefnu, móður Margrétar, þegar hún sér þetta andartak fyrir sér ljóslifandi á ný. Margrét er nefnilega ekki mikið fyrir að flagga tilfinningum sínum og tala um hlutina, að sögn foreldra hennar. Því er móðir hennar svo hreykin af henni, ánægð og jafnframt hissa að hún hafi sagt strax frá.

Margrét leyfir ekki draugum fortíðar að stjórna lífi sínu.

„Ég þarf ekki mikið að tala um hlutina eins og sumir aðrir. Ég flagga ekki hlutunum þannig að allur heimurinn og Facebook viti af því. Það þarf mjög mikið til að ég fari í alvörunni yfir brúna,“ segir Margrét, sem hefur fylgst með umfjöllun Mannlífs um mál kvennanna þriggja, Helgu Elínar, Kiönu Sifjar og Lovísu Sólar, sem sökuðu lögreglumann um kynferðisbrot. Hún segist stundum hafa velt því fyrir sér að segja sína sögu, en hafi viljað segja hana á yfirvegaðan hátt þegar hún væri búin að vinna úr þeirri reiði sem blossaði upp í kjölfar málsins.

„Ég hef oft hugsað hvort ég ætti að vera hluti af til dæmis #metoo-byltingunni. Það er svo lítill hluti af fólkinu í kringum mig sem veit hver ég er og að þetta kom fyrir mig. Ég lít ekki á þetta sem þöggun hjá mér, því ef þú spyrð mig um þetta þá svara ég hreint út. Mér finnst fínt að geta komið fram núna, það er lengra um liðið og ég get horft á hvar ég er eftir svona atburð. Ég er á góðum stað í lífinu. Ég á kærasta og hund, ég er að reyna að kaupa mér íbúð, ég er með vinnu, ég er að klára master. Mér finnst alltaf leiðinlegt að heyra af stelpum, konum, mönnum, strákum og hverjum sem er sem lenda í þeim vítahring að koma ekki strax fram þannig að þau þurfa að lifa með þessu lengi. Þetta nagar þau að innan og þau leiðast út á dimmar brautir í lífinu. Þau reyna að bæla niður eitthvað sem verður ekki bælt niður,“ segir Margrét.

Hún hefur varla sýnt nokkur svipbrigði í þann tíma við við höfum talað saman, en ég sé að það tekur á hana að rifja upp þetta tímabil í sínu lífi. Það er þó greinilegt að hún hefur fengið fullan stuðning frá fjölskyldu sinni og unnið vel úr sínum málum. Hún treystir lögreglunni og hún treystir kerfinu. Hún ber engan kala til neins lengur því hún ætlar ekki að leyfa draugum fortíðar að stjórna sínu lífi.

„Ég hef ekki við neinn að sakast. Ég hef ekkert við héraðsdóm, hæstarétt, lögfræðinga, yfirvöld, lögregluna að sakast. Þetta er ekki eitthvað sem skilgreinir mig. Þetta hefur ekki mótað líf mitt. Þetta er bara lífið sem ég er búin að lifa. Ég lifði þetta, en ég lifi ekki með þessu.“

Texti / Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Myndir / Íris Björk Reynisdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -