Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Guðjón bjargaði manni úr sjó árið 1984: „Komið með spotta, ég fer og sæki hann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðjón Hafsteinn Guðmundsson vann afrek þegar hann bjargaði manni úr sjó árið 1984. Um var að ræða ferjuflugmann en vélin varð bensínlaus með þeim afleiðingum að hún fór í sjóinn.

 

Guðjón Hafsteinn Guðmundsson byrjaði ungur að stunda sjómennsku. Aðeins 14 ára fór hann sinn fyrsta túr sem messagutti á Gullfossi og eftir það var hann á ýmsum skipum í tæp 40 ár.

„Það að vera á sjó eru viss forréttindi,“ segir Guðjón. „Ekkert áreiti, engin umferðarljós, ekki sími eða annar streituvaldur. Aðeins vinna, sofa og borða.“

Á þessu sjómennskutímabili var eitt atvik öðru fremur sem stóð upp úr. „Það var björgun ferjuflugmanns er flugvél hans lenti í sjónum stutt frá okkur.

Það var í mars árið 1984 að við vorum á heimleið eftir að hafa landað í Bremerhaven í Þýskalandi. Þegar við vorum að nálgast suðausturlandið þá var kallað í kallkerfið og var kallað: „Flugvél í sjóinn. Ræs, strákar, ræs, ræs.“ Þegar ég kom upp á dekk sá ég að það var flugvél í sjónum um 150 metra frá skipinu,“ segir Guðjón sem var þá háseti á Vigra RE.

- Auglýsing -

„Við sáum flugmanninn komast út úr vélinni og hann lenti í sjónum. Skipstjórinn tók þá ákvörðun að komast nær manninum. Þegar 30-40 metrar voru í hann þá treysti hann sér ekki nær vegna hættu á að maðurinn lenti undir skipinu.

Ég sagði þá við Jón yfirvélstjóra að flugmaðurinn væri að dreyja fyrir framan nefið á okkur.

Þá svaraði einn skipsfélagi okkar að við gætum ekkert gert þar sem við kæmumst ekki nær honum. Tekið skal fram að enginn léttabátur var um borð sem hægt hefði verið að nota við björgun. Það varð úr að ég sagði við Jón vélstjóra: „Komið með spotta, ég fer og sæki hann.“

- Auglýsing -

Það var suðvestan alda og sex vindstig. Krappur sjór. Einn skipsfélagi minn spurði mig hvort ég væri brjálaður..og að ég dræpi mig. Svaraði ég að það væri annaðhvort að hrökkva eða stökkva.

Svo var spottinn bundinn utan um mig og ég stakk mér í sjóinn í gallabuxum og bol. Og ég man það alltaf að þegar ég lenti í sjónum þá hugsaði ég: Þú hefur nú alltaf verið vitlaus, Gaui minn, en aldrei svona vitlaus.

Flugmaðurinn flaut á bakinu og var orðinn meðvitundarlaus. Ég komst undir hann og og gat sett hann framan á bringuna á mér. Þegar hér var komið við sögu fann ég að kuldinn var að heltaka mig. Ég náði að krækja löppunum utan um hann og halda honum og vorum við þá dregnir að skipshlið. Þá vandaðist málið… það að koma okkur báðum um borð.

Ég tók þá ákvörðun að stinga mér undir manninn og grípa í kaðalstiga sem lá út úr síðu skipsins og náði Jón vélstjóri þá að kippa flugmanninum um borð og mér á eftir.“

Guðjón Hafsteinn Guðmundsson
Mynd: Morgunblaðið / Friðþjófur.

Guðjón Hafsteinn segir að þetta hafi verið töff. Hann segist sjálfur hafa verið í sjónum í tæpar 10 mínútur og marðist hann töluvert mikið við atganginn. „Spottinn marði mig og var brjóstkassinn allur marinn. Til að gera langa sögu stutta þá var ég heppinn að lifa þetta af.  Það var engin hugsun á bak við þetta. Við hefðum báðir getað drepist. Sjórinn var að mig minnir í kringum þrjár gráður.“

Hann segist hafa fengið sjokk þegar hann kom um borð. „Ég grét og grét og réð ekkert við það. Ég sagði við sjálfan mig: „Þegiðu, auminginn þinn. Hættu þessu helvítis væli.“ En ég réði bara ekkert við þessi viðbrögð. Það var nú bara þannig á þessum tíma að maður sá um þetta sjálfur; það var engin áfallahjálp, sálfræðingar eða neitt. En ég jafnaði mig tiltölulega fljótt.“

Guðjón segir að það hlýi sér um hjartaræturnar að hafa getað bjargað manni. „Þetta er dýrmætt. Hann skrifaði mér svo bréf; en ég týndi því þegar ég var að flytja. Það þótti mér leitt. En hann er dáinn, þessi maður, en hann var á sjötugsaldri þegar þetta skeði.“

Guðjón Hafsteinn segir að maðurinn hafi verið ferjuflugmaður og að þeim sé skylt að fljúga í flotgalla en maðurinn var ekki í slíkum galla. Hann bætir við að oft sé um að ræða þotuflugmenn sem eigi góð og löng frí og að sumir þeirra noti þau stundum til að ferja flugvélar fyrir kaupendur þeirra; Guðjón  segir að maðurinn sem lenti í sjónum hafi sagt sér þetta. Í þessu tilfelli hafði ferjuflugmaðurinn millilent í Skotlandi til að taka eldsneyti en mótvindurinn var það mikill að eldsneytið kláraðist og flugvélin lendir í sjónum.

Hann segist eftir á að hyggja vera stoltur af þessu afreki. „Þetta er búið að vera í minningunni og oft er maður búinn að hugsa um þetta.“

Guðjón Hafsteinn var svo heiðraður fyrir þetta afrek á sjómannadaginn árið 2022.

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Mannlífs sem má lesa í heild sinni hér. 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -