Síðast en ekki síst
Höfundur / Elísabet Ýr Atladóttir
Nú á dögunum var maður sýknaður af nauðgun því ekki þótti sannað að „ásetningur“ hans hefði verið að nauðga. Þetta virðist algeng ástæða til sýknunar – huglæg áhersla á ásetning geranda er sett framar en frásögn þolanda af því að hafa verið nauðgað. Það virðist mikilvægara að gefa meintum ásetningi geranda meira vægi en skýrslur um áverka og aðrar afleiðingar fyrir þolanda ofbeldisins. Mörk samþykkis virðast svo óskýr, því dómstólar gera ráð fyrir samþykki nema annað sé sannað. Sú sönnunarbyrði situr öll á brotaþola.
Hvernig sannar einhver að hún hafi sagt nei, þegar hennar orð er ekki bara hunsað af nauðgaranum, heldur líka réttarkerfinu? Af hverju teljast orð geranda um ásetning sannleikur en frásögn brotaþola af neitun sinni tvíræð? Skilaboðin til þolenda nauðgana er skýr: þegiðu, því orð þitt vegur minna en mannsins sem nauðgaði þér. Enn og aftur eru skilaboðin þau að það borgar sig ekki að kæra nauðgunina, því nei-ið heyrist ekki. Neitunin er virt að vettugi þegar nauðgunin á sér stað, líka þegar dómstólar vega og meta sönnunargögnin. Brotaþoli er enn og aftur raddlaus, valdalaus, vanmáttug fyrir ákvörðunarvaldi sem hún fær ekki að eiga neinn annan þátt í en sem viðfang og vitni.
Dómurum fannst ekki hægt að sakfella manninn vegna þess hvernig kynlífi hans og brotaþola hafði verið háttað áður fyrr. Dómstólar ákveða þar með ásetning mannsins út frá fortíð og áætla henni samþykki – því ef hún sagði já áður, þá hlýtur hún að segja já núna. Skilaboð réttarkerfisins til kvenna er að ef við höfum samþykkt áður, þá samþykkjum við alltaf. Það má einfaldlega gera ráð fyrir því. Þetta er okkar nauðgunarmenning sem við þurfum að berjast við af fullum krafti. Til konunnar sem þurfti að upplifa annað áfall yfir þessum nýja dómsúrskurði segi ég: Ég stend með þér. Alltaf.