Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

„Ég tel þjóðina þrá breytingar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mín mesta sorg var þegar faðir minn lést. Ég var svo ungur og það bar svo brátt að,“ segir Guðmundur Franklín Jónsson forsetaframbjóðandi um mestu sorgarstund ævinnar. Í barnaskóla stóð hann fyrir flöskutombólum og bauð vinum sínum reglulega upp á pylsu og kók fyrir ágóðann. Átta ára gamall byrjaði Guðmundur að vinna sér inn fyrir kaupi og hugurinn stefndi fljótt á verðbréfasölu á Wall Street. Lengi átti hann erfitt með að búa á Íslandi en með aldrinum hefur hann lært að meta það smáa. Guðmundur segir Guðna Th. ágætan en vill sjálfur verða betri forseti landsins með málskotsréttinn að vopni.

„Ég tel þjóðina þrá breytingar.“

Guðmundur Franklín athafnamaður segir spillingu ríkja á Íslandi og boðar breytingar verði hann forseti. Í viðtali við Mannlíf segir hann frá pöddusöfnun í æsku, skemmtilegum samskiptum við Björgólf Thor og erfiðu gjaldþroti. Hann viðurkennir að honum hætti til að taka „örlítið sterkt til orða“.

Guðmundur Franklín er einn sex systkina og ólst up í Langholtshverfinu í Reykjavík. Heimilishaldið var með hefðbundnu sniði. Faðir Guðmundar, Jón Bjarnason, vann hjá Kaupmannasamtökunum og móðir hans, Guðbjörg Lilja Maríusdóttir, var lengi vel húsmóðir. Þau voru bæði harðdugleg og segir Guðmundur að þau eigi hrós skilið fyrir að koma öllum systkinunum til manns. „Ég átti marga vini og var atorkusamur sem barn og ungmenni. Hafði alltaf eitthvað fyrir stafni og ef ég hafði það ekki þá fann ég mér eitthvað að gera. Ég safnaði öllum pöddum sem ég fann og geymdi í krukkum í útigeymslunni. Pabbi henti þeim iðulega þegar lyktin var orðin yfirþyrmandi. Ég veiddi marhnúta, safnaði marflóm og marglyttum. Það var svo mikið ævintýraland fyrir krakka að búa í Vogunum,“ segir Guðmundur.

Vinirnir fengu pylsu og kók

Guðmundur var átta ára gamall er hann fór að vinna fyrir sér í versluninni Víði þar sem hann braut saman pappakassa og hjálpaði eldri viðskiptavinum að bera innkaupapoka heim. Þegar á leið urðu störfin ábyrgðarmeiri og vann hann hverja lausa stund meðfram skóla í versluninni. Þar að auki hélt hann reglulega flöskutombólur í Vogahverfinu. „Ég á margar skemmtilegar minningar úr hverfinu því ég var alltaf að finna mér eitthvað til dundurs. Einn sérstaklega gróðavænlegan dag á tombólunni hafði ég fyllt kjallarann af flöskum Svo kom mamma heim og fór niður í kjallara og þá var kallað: „Gúndi! Hvað ertu búinn að gera, strákur?“

Þessi fjársjóður dugði fyrir pylsu og kók svo dögum skipti fyrir mig og vini mína. Þarna kynntist ég viðskiptalífinu að nokkru leyti og varð staðráðinn í því að starfa við verðbréfamiðlun í Bandaríkjunum,“ segir Guðmundur brosandi.

- Auglýsing -

Ævintýrið í New York

Spurður hvað hafi orðið til þess að hann fór til New York í verðbréfasölu segir Guðmundur þann heim hafa verið framandi og spennandi fyrir ungan mann. Verandi fylginn sér settist hann niður og skrifaði öllum helstu verðbréfafyrirtækjunum og sótti um starf. Hann fékk vinnu og fjölskyldan bjó lengst af nærri Dakota-byggingunni þar sem bítilinn John Lennon var skotinn. „Lífið í New York var yndislegt og ég sakna borgarinnar í hvert skipti sem ég sé henni bregða fyrir í bíómyndum eða þáttum. Ég bjó alltaf á Upper West Side við Central Park-garðinn og átti marga fræga nágranna. Það var svolítið sérstakt að búa nærri Dakota-byggingunni því þetta er hálfgerður minningarreitur,“ segir Guðmundur.

Fyrir utan að missa föður sinn ungur að árum missti Guðmundur góða vini í árásinni hrikalegu á tvíburaturnana í New York í september 2001.

Hrikaleg minning

- Auglýsing -

Fyrir utan að missa föður sinn ungur að árum missti Guðmundur góða vini í árásinni hrikalegu á tvíburaturnana í New York í september 2001. Hann á erfitt með að lýsa því með orðum hvernig það var að hafa verið staddur nærri turnunum þegar ósköpin dundu yfir. „Það síðasta sem þú heyrir áður en drunurnar í hrynjandi byggingunni bergmála á milli þröngra gatnanna eru öskrin í fólkinu sem reynir í örvæntinu að komast í burtu. Að horfa á háhýsi hrynja fyrir framan augun á þér þar sem fjöldi fólks lætur lífið og góðir félagar þínir þarna inni er í einu orði sagt skelfilegt. Ég myndi ekki óska versta óvini mínum þess að upplifa slíkar hörmungar,“ segir Guðmundur sem greinilega á erfitt með að rifja atburðina upp.

„Þetta eru nú orðnar örlítið of persónulegar spurningar. “

Þrjár gleðistundir

Lífið er bæði gleði og sorg, að mati forsetaframbjóðandans. Spurður hver sé sú stund sem hafi veitt honum mesta gleði er hann ekki lengi að hugsa sig um. „Ég get í raun ekki nefnt eina því ég verð að fá að nefna þrjár. Það er þegar börnin mín fæddust. Fyrst var það hann Árni minn. Svo Verónika og að lokum Vigdís,“ segir Guðmundur sem lengi var giftur Ásdísi Helgu Árnadóttur. Þau skildu árið 2013 og tók skilnaðurinn talsvert á Guðmund sem segist eiga erfitt með að ræða hann. „Þetta eru nú orðnar örlítið of persónulegar spurningar. Fyrrverandi konan mín er yndisleg manneskja sem mér þykir mjög vænt um. Við erum góðir vinir og eigum þrjú frábær börn saman.“

Nýlega rataði Guðmundur inn á lista fjölmiðla yfir heita piparsveina. Mannlíf spurði hann að því hvort hann stefni á að finna sér forsetafrú komist hann í embætti forseta Íslands. „Ég er ekkert að flýta mér í nýtt hjónaband enda stýrir maður því ekki þegar maður hittir einhvern sem maður fellur fyrir.“

Vandaðir menn

Þegar Guðmundur var ungur tók hann að sér að mála bílastæði og hjá honum starfaði þá Björgólfur Thor Björgólfsson, sem í dag er líklega ríkasti maður landsins. Aðspurður segir forsetaframbjóðandinn að Björgólfur Thor hafi verið góður undirmaður. „Sá Björgólfur Thor sem ég þekkti var frábær vinnukraftur og málaði stórkostlegar beinar línur. Sem unglingur átti hann framtíðina fyrir sér í bílastæðamálun en beygði eitthvað af beinu brautinni þegar fram liðu stundir,“ segir Guðmundur og brosir út í annað.

Síðar meir lágu leiðir Guðmundar og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra saman er sá síðarnefndi starfaði fyrir hann sem lögmaður. „Sá Bjarni sem ég kynntist var mjög vandaðurpiltur og það var gott að vinna með honum. Okkar samskipti voru ánægjuleg en hann er ekki fullkominn frekar en aðrir og hef ég orðið fyrir töluverðum vonbrigðum með sum störf hans.“

Meðmæli að taka áhættu

Eins og áður hefur komið fram var Guðmundur ungur er hann hallaðist að viðskiptum og hefur hann víða komið við, bæði hérlendis og erlendis. Sum verkefnin hafa endað með gjaldþrotum sem hann kennir engum öðrum um en sjálfum sér. Aðspurður hvort gjaldþrot sé gott veganesti í embætti forseta Íslands telur Guðmundur svo geta verið. „Persónulega finnst mér það vera meðmæli ef fólk hefur tekið einhverja áhættu í lífinu, jafnvel þó að sumt hafi mistekist. Sá sem gerir aldrei mistök hefur aldrei gert neitt sem máli skiptir. Ég hef tengst fjölda fyrirtækja á Íslandi og um allan heim sem blómstra og fjöldi manns vinnur hjá í dag,“ segir Guðmundur ákveðinn.

„Gjaldþrot koma því miður fyrir og stundum veðja menn á rangan hest og verða þá að taka því. Það er enginn sem lýsir yfir gjaldþroti sér til gamans. Við eigum ekki að úthrópa þá sem hafa orðið fyrir þessu heldur frekar styðja við bakið á þeim því þetta er alls ekki auðvelt. Gjaldþrot hefur skollið harkalega á mér og verið erfið lífreynsla fyrir mína fjölskyldu.“

Guðmundi finnst sorglegt að fylgjast með hvernig íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum gengið hart fram við að hafa reisnina af þjóðinni.

Stór orð stundum

Þegar Guðmundur er spurður út í kosti sína og galla segist hann ávallt hafa átt erfitt með að lýsa sjálfum sér. Í grunninn telur hann sig ósköp venjulegan mann, breyskan eins og flestir eru en að hann reyni alltaf að gera sitt besta. „Það sem hefur verið sagt um mig er að ég sé skemmtilegur, uppfinningasamur, duglegur og fylginn mér. Ég virðist hafa þann hæfileika að hugsa út fyrir rammann og hef oft á tíðum lag á að koma með hugmyndir sem öðrum hafa ef til vill ekki komið til hugar. Ég vil jafnframt meina að ég sé afkastamikill og jákvæður að eðlisfari og flestir tala um að það sé gott að umgangast mig,“ segir Guðmundur. „Minn helsti galli er að eiga það til að nota stærri orð en ég ætla mér þegar mér er heitt í hamsi. Ég er hins vegar að reyna að venja mig af þessu og hefur það gengið nokkuð vel.“

Góðhjartaður grallari

„Vinir mínir myndu lýsa mér sem grallara. Ég verð víst að samþykkja það enda á ég það til að vera svolítið stríðinn. Þeir myndu líka eflaust segja að ég sé góðhjartaður og gjafmildur. Ég verð seint þekktur fyrir að safna að mér fé eða láta vini mína greiða götu mína,“bætir Guðmundur við.

Eins og áður sagði telur Guðmundur sig ósköp venjulega manneskju sem reglulega lendi þó í hinum ýmsu óheppilegu uppákomum. Flestar þeirra tengjast sósum sem hann telur meðal sinna helstu óvina. „Það er orðið hálfgert grín í fjölskyldunni minni að ég geti ekki sett upp bindi því þá sulli ég á mig. Ég er hreinlega farinn að hallast að því að sinnep og tómatsósa hafi sagt mér stríð á hendur. Það var nú bara núna síðast við opnun kosningabaráttunnar sem ég sullaði ofan á mig heilum mjólkurlítra og til að kóróna vandræðin tókst mér að reka nýja bindið í nagla og draga til í því.“

Enginn braskari

Um Guðmund hefur það verið sagt að hann sé braskari í eðli sínu sem ávallt hafi haft þann draum að verða ríkur. Hann segir spillinguna á Íslandi hafa hamlað því hversu gott Íslendingar gætu haft það. „Ég er ósammála því að ég sé braskari því það er mikill misskilningur að verðbréfamiðlun snúist um brask. Það byrjar allt og endar með verðbréfaviðskiptum því án fjármögnunar er ekkert hægt að gera. Þau snúast fyrst og fremst um að byggja upp lönd, borgir, fyrirtæki og innviði og þess vegna höfum við það svona gott á Vesturlöndum. Við Íslendingar höfum því miður oft farið varhluta af þessu þar sem spillingin hefur séð til þess,“ segir Guðmundur alvarlegur.

„Mig hefur í sannleika sagt aldrei dreymt um að verða ríkur en mér finnst gott að hafa mikið að gera. Ég vinn hratt og vil vinna krefjandi störf. Það sem heillaði mest við að vinna á Wall Street var dýnamíkin.“

Ríkur í dag

Þrátt fyrir að segjast aldrei hafa átt þann draum að verða ríkur telur Guðmundur sig ákaflega ríkan í dag. Honum líður hvergir betur en í faðmi vina og fjölskyldunnar. „Ég á þrjú hamingjusöm og góð börn sem ætla að ferðast með mér um landið í kosningabaráttunni. Ég hef lifað ævintýralegu lífi eins og sumir kjósa að kalla líf manns sem hefur látið hendur standa fram úr ermum og verið hvergi hræddur við að takast á við nýjar áskoranir. Ég hef ferðast víða, kynnst mörgum menningarheimum og ég er heilsuhraustur. Ég myndi því segja að ég sé ríkur af hamingju og góðum minningum,“ segir Guðmundur.

Elítan sleppur

Þegar Guðmundur er spurður út í ýmis orð sín sem hann hefur látið flakka í gegnum tíðina vísar hann í galla sinn um að taka stundum of sterkt til orða. Þannig hefur hann til dæmis sagst ekki hika við að kenna fólki að svíkja undan skatti og segir Guðmundur það útilokað að hann muni beita sér fyrir slíku í embætti forseta. „Eins og ég sagði þá á ég það til að taka örlítið of sterkt til orða í hita leiksins. Ég hef aldrei brotið reglur um viðskipti. Það þarf að búa svo um hnútana í skattkerfinu í öllum löndum að ekki sé hægt að svíkja undan skatti því annars mun fólk nýta sér þær músarholur sem finnast. Ég vil að allir dragi vagninn en elítan komist ekki upp með að svindla á skattkerfinu á meðan hinn almenni borgari greiði upp í topp,“ segir Guðmundur.

Lærði að meta hið smáa

Guðmundur hefur líka látið hafa það eftir sér að hann þrífist illa á Íslandi og honum líði betur í stærri samfélögum. Aðspurður segir hann að upplifun hans á Íslandi hafi breyst með aldrinum og nú líði honum hvergi betur. „Já, það hefur breyst. Ég fór frá því að eiga heima í milljónaborgum yfir í að búa á Borgundarhólmi þar sem búa ekki nema rétt um 40 þúsund manns. Með aldrinum lærir maður að kunna að meta hið smáa aftur og í raun má segja að ég hafi verið kominn aftur í upprunann þar sem ég safnaði pöddum í útigeymslunni hjá pabba. Það var kominn tími til að flytja heim,“ segir Guðmundur.

Fjarlægist hægrið

Guðmundur sagði eitt sinn að heimurinn yrði betri án vinstrimanna en í dag segist hann orðið eiga minna sameiginlegt með hægrimönnum en áður var. Aðspurður segist hann því ætla að verða forseti bæði vinstri- og hægrifólks. „Landslagið í pólitíkinni er alltaf að breytast og það sem er til vinstri í dag er orðið til hægri á morgun. Ég er farinn að eiga minna sameiginlegt með þeim hluta hægrimanna sem vilja einkavæða orkuauðlindir þjóðarinnar en ég á með vinstri mönnum. Það er til ærlegt fólk í öllum flokkum og ég hefði trúlega ekki getað ímyndað mér fyrir nokkrum árum að ég yrði hlaupandi samsíða Hjörleifi Guttormssyni og Ögmundi Jónassyni líkt og með orkupakkann. Baráttan snýst um hag þjóðarinnar og þá gildir einu hvar flokkslínur liggja,“ segir Guðmundur.

Þjóðin svipt reisn

Forsetaframbjóðandanum finnst undraverður töggur í Íslendingum og að þeir séu stolt þjóð. Guðmundi finnst sorglegt að fylgjast með hvernig íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum gengið hart fram við að hafa reisnina af þjóðinni. „Við sjáum það best á háum lífaldri og óþreytandi baráttuvilja. Við stöndum okkur með ólíkindum vel í íþróttum og erum á heimsmælikvarða í fótbolta, handbolta, cross fit, bardagaíþróttum og svo mætti lengi telja. Þegar gengið er nærri okkur þá gerum við líkt og þegar Gísli Súrsson var kviðristur forðum daga, við mokum iðrunum inn aftur, reyrum fyrir og höldum áfram að berjast,“ segir Guðmundur af eldmóði.

„Það er reisn yfir mínu fólki en það er sorglegt að segja að eftir því sem árin líða þá finnst mér stjórnvöld ganga enn harðar fram við að reyna að hafa reisnina af okkur. Ég er farin að óttast að á endanum muni þeim takast það og þess vegna tel ég breytinga sárlega þörf í samfélaginu.“

Þegar Guðmundur er spurður út í ýmis orð sín sem hann hefur látið flakka í gegnum tíðina vísar hann í galla sinn um að taka stundum of sterkt til orða. Þannig hefur hann til dæmis sagst ekki hika við að kenna fólki að svíkja undan skatti og segir Guðmundur það útilokað að hann muni beita sér fyrir slíku í embætti forseta.

Bjartsýnn frambjóðandi

„Mér finnast íslensk stjórnmál vera of viðloðandi spillingu. Það hryggir mig að sjá hvern flokkinn á fætur öðrum svíkja sín kosningaloforð um leið og þjóðin er búin að kjósa þetta fólk inn á þing. Í dag er engin virðing borin fyrir grasrótinni og þingflokkurinn fer sínu fram sama hvað tautar og raular. Svikin eru þvert á línuna og þessu þarf að linna,“ bætir Guðmundur við um pólítíkina á Íslandi. Hann segist ekkert nema bjartsýnn fyrir komandi vikum í kosningabaráttunni.

„Auðvitað er ég bjartsýnn. Maður færi líklega ekki af stað ef maður væri ekki bjartsýnn. Bjartsýnin er reyndar frekar að aukast þessa dagana því mér er svo vel tekið alls staðar þar sem ég kem. Ég tel þjóðina þrá breytingar.“

Guðni er ágætur

Eftir að hafa séð að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, nýti sér ekki málsskotsrétt embættisins segist Guðmundur hafa ákveðið að bjóða sig fram. Hann segir það vera hápólitísk hjá sitjandi forseta að gera ekkert í stórum málum. „Guðni er ágætis maður sem þekkir greinilega sögu landsins ágætlega. Okkur greinir hins vegar á og þar fer beiting málskotsréttarins fremst í flokki. Ég tel hann algjört lykilatriði og lít svo á að þetta snúist í raun um hvort fólk vilji forseta sem kemur til með að nota málskotsréttinn eða forseta sem gerir það ekki. Það er oft sagt að ég sé pólitískur því ég hef skoðanir en við skulum ekki gleyma því að það er ekki síður pólitískt að gera ekkert en að gera eitthvað,“ segir Guðmundur.

„Sitjandi forseti hefur sannfært mig um að hann muni hvorki nota málskotsréttinn né beita krafti embættisins til að þrýsta á þingið að skoða málin betur þegar gjá hefur myndast á milli þings og þjóðar. Ég vil virkja málskotsréttinn og sýna þjóðinni virðingu með því að nýta embættið í þágu þjóðarinnar. Ég vil verða forseti fólksins.“

Lestu viðtal við verðbréfasalann sem vill verða forseti í Mannlífi.

Lesa Mannlíf

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -