Þjóðþekktir Íslendingar lágu ekki á skoðunum sínum í vikunni. Mannlíf tók saman nokkur eftirminnileg ummæli sem féllu.
„Stefnan í stjórnkerfinu og hjá bönkunum er að hreinsa út þá sem stóðu illa fyrir og voru í reynd komnir að fótum fram af margvíslegum ástæðum þegar kórónuveiruósköpin dundu yfir. Þetta er kallað nauðsynleg leiðrétting.“
Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, fer mikinn í skoðanapistli á síðunni.
„Það er nákvæmlega svona sem Sjálfstæðisflokkurinn starfar. Ef þú ert ekki með þeim í liði þá ertu of pólitískur. Þetta gerir það að verkum að meginþorri lögmanna, hagfræðinga og annarra sérfræðinga um ýmislegt er varðað getur stjórnarhætti veigra sér við að tjá sig.“
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook. Tilefni ummælanna eru þau tíðindi að Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, hafi ekki fengið starf ritstjóra norræna fræðiritsins Nordic Economic Policy Review, vegna afskipta fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þorvaldur bauðst starfið og krefst nú bóta.
„Dæmið af ofsóknum Sjálfstæðismanna á hendur Þorvaldi Gylfasyni (Þorvaldur Gylfason) sýnir í hnotskurn þann vanda sem við er að etja í opinberri umræðu hér á landi, jafnt í fjölmiðlum sem í akademíu. Þorvaldi er refsað fyrir að tjá sig skilmerkilega og óttalaust um þjóðmál í ræðu og riti.“
Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og þingmaður Samfylkingarinnar.
„Ég var mjög lélegur pabbi.“
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, opnar sig um föðurhlutverkið.
„Sem betur fer ert þú smá ruglaður og við öll sem erum passionate um lífið. Þú ert bestur pabbinn minn.“
Sólveig Káradóttir, í ummælum á Facebook-vegg föður síns.
„Það var hann sem sagði um Panama-skjölin: Einhvers staðar verða peningarnir að vera. Þau hjá Netflix vita það kannski ekki.“
Þorvaldur Gylfason hagfræðingur um þau tíðindi að Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra hafi fengið Netflix til að skipta út mynd af sér fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson í kvikmyndinni Laundromat. Í myndinni er fjallað um tengsl Sigmundar við Panamaskjölin og afsögn hans og mynd birt af Sigurði Inga.
„Nú er svo komið að við erum tveir á þinginu með sítt að aftan, sem hægt er að gera grín að. Ég ætla, vegna mótþróaþrjóskuröskunar, að bæta í og safna yfirvaraskeggi og fá mér gullkeðju um hálsinn og úlnlið og breyta nafninu mínu í Jürgen eða Günther.“
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki hafa farið til hárskera síðan fyrir COVID-19. Hann líti því út eins og bítill, eins og það hafi kallast á unglingsárum sínum.