Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

„Ég var óþekk, hortug og hvatvís“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Lífið er ekki alltaf dans á rósum, sem er auðvitað algjör mótsögn því það getur ekki verið þægilegt að dansa á rósum, en þetta er lífið og á því þroskumst við,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis, sem segist óttast harðan niðurskurð í haust í grunnþjónustu vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19 faraldursins og þá mest í heilbrigðiskerfinu. Helga Vala er vön að svara fyrir sig á þingi og segir að í æsku hafi hún þótt vera kotroskin, óþekk og hvatvís.

Alþingihúsið. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis, er nýkomin af fjarfundi velferðarnefndar vegna COVID-19. Gengið er upp á aðra hæð og sest inn í lítið fundarherbergi. Austurvöllur og styttan af Jóni Sigurðssyni blasir við út um gluggann. Á A4-blaði sem límt er fyrir utan fundarherbergið stendur stórum stöfum: Haldið fjarlægð. Það er við hæfi að hefja spjallið á COVID-19 ástandinu.

„Mér þótti vera mjög ábyrgðarlaust af ríkisstjórninni að tilkynna umheiminum fyrir rúmum tveimur vikum að við ætluðum að opna landið 15. júní án þess að vera búin að ákveða hvernig þau ætluðu að haga framkvæmd og án þess að ræða við helstu aðila sem þurfa að koma að málinu, eins og stjórnendur lykilstofnana í heilbrigðiskerfinu og ekki síður Íslenska erfðagreiningu sem hefur annast 80% sýnataka. Ég heyrði af fjölmörgum í innlendri ferðaþjónustu sem beinlínis hættu að bóka Íslendinga í ferðir og gistingu af ótta við tvíbókun og því hefur þetta, að því er virðist, haft skaðleg áhrif á þau fyrirtæki sem ég veit að var ekki tilgangurinn. Það var ekki búið að skipa þennan viðbragðshóp þegar tilkynnt var um opnun landsins en að mínu viti hefði hópurinn átt að vera að störfum frá því í byrjun mars. Umræðan síðastliðna daga hefur snúist um sýnatöku á Keflavíkurflugvelli en hvernig á að standa að sýnatökum á Seyðisfirði þar sem Norræna kemur í land? Á að fljúga eða aka með sýni þaðan? Hvar á það fólk að bíða niðurstöðu? Hvað ef einhver greinist smitaður um borð í vél eða skipi? Hvað gerum við þá við ferðafélaga, áhöfn eða hótelstarfsfólk ef ferðafólk er þegar farið af stað um landið? Hvar á að geyma það og hver borgar kostnaðinn við það?“

„Ég hef bara brett upp ermar og farið í alls konar verkefni en sem betur fer endað standandi úr þeim flestum og lært mjög mikið af því.“

Ofmat og kæruleysi

Það þurfti að bregðast hratt við þegar COVID-19 faraldurinn skall á og segir Helga Vala að sér hafi fundist aðgerðir ríkisstjórnarinnar vera fálmkenndar og ómarkvissar. „Í byrjun var auðvitað verið að draga upp úr hattinum aðgerðir sem farið var í eftir efnahagshrunið árið 2008 og enn þá, þremur mánuðum síðar, finnast mér viðbrögðin vera þar. Lítil greining á framtíðaráhrifum virðist vera á bak við aðgerðirnar. Stjórnvöld eru að dúndra út aðgerðum upp á hundruð milljarða króna og mér skilst að fyrst núna í fyrradag hafi borist einhver sviðsmyndagreining til Alþingis og álit til dæmis fjármálaráðs sem er óháður aðili. Mér finnst það bera vott um bæði mikið ofmat ráðherra á eigin getu í bland við kæruleysi ríkisstjórnar. Þetta eru svo miklir fjármunir sem er verið að skuldbinda landsmenn til framtíðar. Ekkert er svo minnst á tekjuhliðina,“ segir Helga Vala.

„Ég óttast blóðugan niðurskurð í haust í grunnþjónustu og sem formaður velferðarnefndar hef ég mestar áhyggjur af heilbrigðiskerfinu sem hefur verið vanfjármagnað árum og áratugum saman. Við verðum að finna út úr því hvernig við viljum afla tekna til þess að geta borgað niður þær milljarða króna skuldir sem við erum núna að setja okkur í og þá hljótum við að horfa fyrst á sameiginlegar auðlindir okkar sem og þá efnameiri; er eitthvað þar að finna? Ríkisstjórnin hefur ákveðið að halda sérstökum hlífiskildi yfir þeim sem nýta auðlindina í sjónum og það finnst mér vera pólitískt, efnahagslega og samfélagslega mjög óheilbrigt.“

- Auglýsing -

Helga Vala segir að hún sakni einhverrar framtíðarsýnar frá ríkisstjórninni. „Miðað við hvernig stjórnarþingmenn tala virðast þeir heldur ekki fá neinar upplýsingar svo það einskorðast ekki við okkur í stjórnarandstöðu.“

„Mér þótti vera mjög ábyrgðarlaust af ríkisstjórninni að tilkynna umheiminum fyrir rúmum tveimur vikum að við ætluðum að opna landið 15. júní án þess að vera búin að ákveða hvernig þau ætluðu að haga framkvæmd og án þess að ræða við helstu aðila sem þurfa að koma að málinu, eins og stjórnendur lykilstofnana í heilbrigðiskerfinu og ekki síður Íslenska erfðagreiningu sem hefur annast 80% sýnataka.“

Áhersla á sprotafyrirtæki

Samfylkingin hefur talað fyrir hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja og segir Helga Vala í þessu samhengi að eitt af stóru verkefnunum í dag sé að tryggja þau störf sem eru til staðar og leita allra leiða til að fjölga störfum. „Meginþorri fyrirtækja á Íslandi eru lítil fyrirtæki eða örfyrirtæki og við sjáum það á listanum sem kom frá Vinnumálastofnun yfir þau fyrirtæki sem nýta sér hlutabótaleiðina að þar eru rúm 80% fyrirtækja lítil fyrirtæki. Mér hefur fundist vera lítill skilningur hjá einstaka þingmönnum í stjórnarliðinu á rekstri fyrirtækja. Athygli þeirra er aðallega á stóru fyrirtækin og það hvernig þau bregðast við og aðgerðir miðaðar að þeim, sem henta ekki endilega þeim litlu. Sprotafyrirtæki eru á meðal lítilla fyrirtækja og þar er fólk sem getur auðveldlega farið með kröftugum hætti inn í hvers konar nýsköpun til að skapa ný og fjölbreytt störf um allt land og það er þar sem við eigum að vera með athygli okkar.“

- Auglýsing -

Helga Vala segir að sér finnist gamaldags hugsun í viðbrögðum einkenna ríkisstjórnina og að það hafi valdið sér vonbrigðum. „Það er verið að setja einhverja fjármuni í nýsköpun en mér finnst svo lítið gert til að virkja allan þennan kraft sem er í samfélaginu; að blása raunverulega lífi í sprota út um allt land. Það mætti til dæmis búa til úrræði á meðal þeirra sem nú eru á atvinnuleysisskrá, virkja þá krafta, skapa störf út um allt land og efla hvers kyns nýsköpun í öllum geirum. Ég tel að okkur muni ganga betur eftir því sem við getum horft meira á framtíðina og heildarmyndina af því að við búum í frábæru samfélagi með ótrúlega kraftmiklu fólki. Við erum að mörgu leyti mjög hugrökk þjóð. Mér finnast Íslendingar vera mjög skapandi og drífandi en að sama skapi eins og stjórnvöld séu á bremsunni hvað þetta varðar. Ég held að framtíðin byggist á því hvenær við ætlum að virkja alla þessa krafta; þessa geggjuðu krafta sem eru í íslensku samfélagi því þeir eru einstakir.“

Helga Vala er spurð hvort það sé einhver flokkur sem hún gæti ekki hugsað sér að starfa með í ríkisstjórn ef til þess kæmi „Ég sé ekki að Samfylkingin ætti að vinna með flokkum sem við erum ósammála í grundvallaratriðum. Íhaldssamt miðjumoð, eins og virðist vera lenskan hjá ríkisstjórninni, þar sem samstarfið gengur út á að viðhalda gömlum og úrsérgengnum kerfum er ekki það sem kjósendur Samfylkingarinnar kalla eftir.“

Námsmenn út undan

Helga Vala hefur bent á að námsmenn hafi orðið út undan í aðgerðum stjórnvalda. „Velferðarnefnd náði að breyta fyrra frumvarpi um hlutabætur þannig að námsmenn í að minnsta kosti hálfu starfi með námi ættu rétt á hlutabótum. Þegar kom svo að almennum atvinnuleysisbótarétti námsmanna voru stjórnarflokkar ekki tilbúnir til þess og felldu tillögu okkar í Samfylkingunni. Námsmenn eru mjög fjölbreyttur hópur. Lítill hópur býr hjá foreldrum sínum sem geta veitt þeim húsnæði, fæði og klæði. Aðrir eru komnir með fjölskyldu, börn sem þarf að framfleyta. Hvernig sjá stjórnvöld fyrir sér að námsmaður framfleyti sér og fjölskyldu sinni í allan þennan tíma án þess að fá nokkurn stuðning? Ég skil það ekki. Mér finnst vera mjög brútalt af ríkisstjórninni að hafa, ekki óvart heldur meðvitað, tekið ákvörðun um að skilja námsmenn eftir. Þau svöruðu spurningunni um vonda stöðu námsmanna með því að þau ætluðu að útvega 3000 störf. Í vikunni voru auglýst 1.500 störf. Það eru um 30.000 manns í framhalds- og háskólum á Íslandi. Þetta fólk þarf meðal annars að borga leigu, leikskólagjöld, fæði og klæði fyrir börn sín. Hvar fær það hjálp?“

Jöfnuður

Helga Vala segir að það að auka jöfnuð á Íslandi sé stærsta málið að sínu mati. „Aukinn jöfnuður drífur áfram hagsæld fyrir allt samfélagið. Þess vegna segi ég að það sé verið að auka ójöfnuð þegar stjórnarþingmenn neita að hækka grunnatvinnuleysisbætur sem og þegar þeir hafna því að hækka grunnlífeyri til öryrkja og eldri borgara. Ef atvinnuleysisbætur og lífeyrir myndu hækka þá færu þessar fjárhæðir beint út í hagkerfið en ekki í sparnað. Þannig að efnahagslega er það óskynsamlegt að hækka ekki lægstu launin og lægsta lífeyrinn. Það velur sér enginn að vera öryrki eða á atvinnuleysisbótum. Þetta er neyð og við getum aukið hér lífsgæði umtalsvert hjá þeim hópum sem búa við lægstu innkomu en við getum líka aukið hagsæld almennt með því að auka jöfnuð því fátækt er kostnaðarsöm fyrir samfélagið. Fyrir mér er þetta stærsta pólitíska málið á Íslandi og heiminum öllum.“

Helga Vala segir að samfélagsmál hafi verið ástæða þess að hún fór upphaflega út í pólitík og valdi hún Samfylkinguna vegna hinnar frjálslyndu taugar og jafnaðarmennskunnar sem hún segir að skipti sig máli.

„Ég held að ef maður nær að tækla vonbrigði einhvern veginn geri það mann sterkari og að betri manneskju. Lífsreynsla mín hefur bætt mig og gert mig víðsýnni.“

Helga Vala var formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík á árunum 2009-2010 og þá virk í grasrót flokksins. Hún var síðan kjörin á Alþingi fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi norður í alþingiskosningunum árið 2017. Þess má geta að í aðdraganda þeirra hafði hún meðal annars lagt áherslu á jafnrétti, málefni flóttamanna og hælisleitenda, umhverfismál og að Ísland fengi nýja stjórnarskrá.
„Grundvallarréttur skiptir mig miklu máli; að við reynum eins og við getum að vera almennileg og tryggja jafnan rétt fólks. Þá skiptir ekki máli kyn, félagsleg staða, trúarbrögð eða kynþáttur.“

Mannfjandsamlegt kerfi

Helga Vala starfaði um árabil sem lögmaður áður en hún settist á þing og bæði í þeim störfum og á þingi hefur hún fengist við málefni brotaþola í kynferðisbrotamálum og málefnum innflytejnda. Hún segir þessi málefni vera sér hugleikin.
„Ég var lögmaður á neyðarmóttöku og gekk þar vaktir í viku í senn á sex til sjö vikna fresti. Þetta eru erfið mál og þá skiptir öllu máli að réttargæslumaður sé vel vakandi og brenni fyrir málaflokkinn. Sama má segja varðandi fólk á flótta. Markmið mitt var fyrst og fremst að gera gagn til þess að líf skjólstæðinga minna yrði á einhvern hátt bærilegra, lina þjáningar þeirra og reyna að ná fram einhverju réttlæti.

Varðandi umsækjendur um alþjóðleg vernd þá vantar mannúð í kerfið og það þarf augljóslega að sníða lögin þannig að það sé ekki svona auðvelt að túlka þau umsækjendum í óhag. Ríkisstjórnin leggur ítrekað fram frumvörp sem sýna mannfjandsamlega stefnu hennar og það frumvarp sem er núna í meðferð þingsins varðandi breytingu á útlendingalögum gengur sýnu lengst og gefur lítið svigrúm til að stjórnvöld skoði mál einstaklinga í sérstaklega viðkvæmum aðstæðum.

Við búum í ríku samfélagi og mistökin sem við höfum gert er að egna saman hópum; að láta eins og umsækjendur um vernd séu að taka eitthvað af öryrkjum. Við getum alveg eins sagt að opinberir starfsmenn eða ríkisforstjórar séu að taka af öryrkjum.“

Það vakti athygli á hátíðarfundi Alþingis í júlí 2018, þegar Íslendingar fögnuðu 100 ára fullveldisafmælinu, að Helga Vala stóð upp þegar Pia Kjærsgaard, forseti danska þjóðþingsins, steig á svið. Helga Vala segist hafa gert það vegna þeirrar hörðu innflytjendastefnu sem Pia og flokkur hennar rekur.

„Ég valdi að senda skýr skilaboð um að mannfjandsamleg stefna hennar væri mér ekki að skapi en hún hefur grafið undan mannréttindum ákveðinna hópa í heimalandi sínu. Ég hafði enga rödd þarna til þess að mótmæla en ég gat gert það með því að yfirgefa svæðið undir ræðu hennar.“ Helga Vala hefur verið gagnrýnd fyrir að mæta til veislu um kvöldið þrátt fyrir þetta og segist fegin að fá að svara þeirri gagnrýni „Veislan var ekki afmæli Piu né á nokkurn hátt henni til heiðurs. Um var að ræða 100 ára afmæli fullveldis sem er stór viðburður í sögu okkar. Hún var aukaleikari og ég kaus að hlusta hvorki á hana að deginum né um kvöldið. En hún átti hvorki hátíðina á Þingvöllum né hófið og því sýndi ég því tilefni virðingu mína.“

Helga Vala segist ekki hafa tekið gagnrýni á sig vegna þessa nærri sér. „Mér fannst þetta ekkert mál. Þetta voru bara gusur sem ég tek venjulega lítið hátíðlega. Mér finnst erfiðara þegar fólk er beinlínis að ljúga upp á mig eða segja að ég sé til dæmis ómerkilegur iðjuleysingi sem mæti aldrei í vinnu því bæði ég og mínir nánustu vita að vinnudagarnir eru langir og helgarfríin fá. Í tengslum við umræðu um flóttafólk er því til dæmis haldið fram að ég reki enn lögmannsstofu og græði á flóttamönnum. Þetta er bara lygi. Ég hætti í lögmennsku eftir að ég fór á þing, hætti störfum sem talsmaður flóttafólks 2014 og þau verk sem ég tók að mér eftir 2014 voru í sjálfboðavinnu, skrifstofustjóra stofunnar til mikillar armæðu.“

Var mikill djammari

Helga Vala er dóttir leikaranna Helgu Bachmann og Helga Skúlasonar sem bæði eru látin. Hún á tvo eldri bræður, Skúla og Hallgrím, og eina eldri hálfsystur, Þórdísi, sem býr í Danmörku. Skúli, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og fyrrverandi alþingismaður, er sjö árum eldri en Helga Vala. „Hann þurfti að þola það að dröslast með mig í eftirdragi. Samband mitt við báða bræður mína er mjög gott og við erum mjög náin fjölskylda.“
Þess má geta að foreldrar þeirra voru flokksbundir í Sjálfstæðisflokknum. „Við systkinin höfum öll farið í áttina að jafnaðarmennskunni. Við erum vinstrisinnaðri.“
Það var ekki talað um pólitísk á heimilinu heldur leiklist. „Það var alltaf verið að tala um leiklist. Alla daga. Allan ársins hring í öllum boðum. Þetta var svolítið flókið fyrir þá sem komu nýir inn í fjölskylduna en þeir vöndust því fljótt að það var eiginlega bara talað um leiklist og aðrar listir.“

Helga Vala segir að uppeldið hafi verið frjálslegt og mikill sveigjanleiki einkenndi það sem hafi falist í passlegu kæruleysi og miklu sjálfstæði. „Það var lítið um ramma en mikið um hvatningu. Ég held að það að hvetja börn áfram sé besti heimanmundur sem þau geti fengið og kenna þeim að það sé í lagi að gera mistök svo fremi sem það sé ekki á kostnað annarra.“

Hún segir að þau skilaboð úr uppeldinu að hún gæti gert allt hafi gert það að verkum að það vanti kannski pínulítið í sig þetta „hikgen“. „Ég hef bara brett upp ermar og farið í alls konar verkefni en sem betur fer endað standandi úr þeim flestum og lært mjög mikið af því.“

„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að halda sérstökum hlífiskildi yfir þeim sem nýta auðlindina í sjónum og það finnst mér vera pólitískt, efnahagslega og samfélagslega mjög óheilbrigt.“

Helga Vala ólst upp í Vesturbænum og gekk í Melaskóla og Hagaskóla. „Mér gekk ágætlega í skóla en ég var ekkert fókuseruð á námið og skólann og eiginlega alls ekki og sérstaklega á unglingsárunum. Námið var neðarlega á forgangslistanum. Ég vildi bara skemmta mér með vinum mínum, ég var ekki í neyslu eða óreglu en Vesturbæjarkrakkarnir djömmuðu mikið á þessum tíma. Að minnsta kosti í mínum vinahópi.“

Helga Vala segist hafa farið fulloft til skólastjóranna í þessum skólum. „Ég var óþekk, hortug og hvatvís. Ég var líka uppátækja- og afskiptasöm, klifraði utan á húsbyggingum og gerði ýmsar tilraunir með misjöfnum árangri. Sumt hefur elst af mér, annað ekki.“

Lék peruna

Helga Vala ætlaði sem barn að vinna í sjoppu vegna sérstaks dálætis á sælgæti en síðar dreymdi hana um að verða afbrotafræðingur. Hún fór í MH og eignaðist sitt fyrsta barn, Snærós, 19 ára gömul. „Hún er líf mitt og yndi eins og önnur börn mín. Þetta var yndisleg lífsreynsla og ég var algerlega tilbúin þegar hún kom. Einhverjir vildu meina að ég væri of ung til þess að eignast barn en ég var og er enn ósammála. Það var engin röskun á lífi mínu að verða mamma. Þetta var bara dásamlegt og mikil gæfa enda er Snærós einstök.“
Helga Vala ákvað í lok menntaskóla að sækja um í Leiklistarskóla Íslands og komst inn í annarri tilraun. „Leiklistin er auðvitað dásamlega lokkandi. Mömmu fannst það mjög skemmtilegt að ég ætlaði að fara í leiklist en pabbi spurði mig hvort ég væri nú alveg viss, enda heimurinn harður, en þau studdu mig bæði.“

Helga Vala útskrifaðist árið 1998. Fyrsta hlutverk hennar var í Ávaxtakörfunni, þar sem hún lék Pöllu peru, og svo í Snuðru og Tuðru en hún leysti af í báðum sýningum. Hún hélt síðan norður og starfaði sem leikkona og leikstjóri hjá Leikfélagi Akureyrar árið 1999. Við komuna suður aftur bauðst henni að leika með bresku farandleikhúsi, New Perspective Theatre Company, og það gerði hún í hálft ár árið 2000. Við heimkomuna fann hún að hugurinn leitaði annað. Hún vann við fjölmiðla í nokkur ár og segir að í því starfi hafi hún komist að því að lögfræðin snerist ekki um menn í jakkafötum sem haldi á stresstösku heldur snúist lögfræðin um lífið allt og réttindi borgaranna, mannréttindi og grundvallarrétt. Hún hafði aldrei leitt hugann að því að fara í lögfræði og tilkynnti fjölskyldunni það einn daginn að hún ætlaði að læra lögfræði og það gerði hún í fimm ár og útskrifaðist með meistarapróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík 39 ára gömul árið 2011.

„Það að fara í þetta nám var skyndiákvörðun eins og flest í lífi mínu. Framboð til Alþingis árið 2017 var til dæmis skyndiákvörðun sem ég sé ekki eftir.“

Helga Vala segir að vinnudagarnir séu oft langir og það hafi komið henni á óvart hvað því fylgi mikil vinna að vera alþingismaður. „Þegar ég vaknaði daginn eftir kosningar og áttaði mig á að ég væri að fara að skipta um starf hafði ég mestar áhyggjur af því að ég mér myndi leiðast en það hefur svo sannarlega ekki orðið raunin.“

Lífið er alls konar

Eiginmaður Helgu Völu er Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Þau voru bæði í MH en kynntust þó ekki fyrr en 1999 af alvöru og giftu sig ári seinna. Hún er spurð hvað hafi heillað hana við Grím. Hún horfir út á Austurvöll. Segir svo brosandi: „Grímur er svo fallegur maður. Hann er bara svo spennandi karakter. Hann hefur gert mig að betri manneskju. Hann er að einhverju leyti víðsýnni en ég og hann hefur meiri reynslu úr öllum kimum samfélagsins. Svo er hann ótrúlega umburðarlyndur gagnvart hvatvísi konu sinnar sem á það til að fara í miklar aðgerðir innan og utan heimilis með engum fyrirvara, eins og að ákveða skyndilega 14 dögum fyrir jól að láta saga niður vegg og umturna eldhúsinu. Grímur er frábær pabbi og guðdómlegur afi og já, svo hefur hann kennt mér að meta körfubolta.“

Helga Vala segir að hún sé rómantískari heldur en Grímur. „Laugardagsmorgnar þegar við náum að fá okkur kaffi saman og spjalla eru gæðatímar okkar. Þetta þarf ekkert að vera flókið eða íburðarmikið.“ Hvað með lagið þeirra? „Það er „Harvest Moon“ með Neil Young. Við hlustum mikið á tónlist og ekki síst nýja, óþekkta listamenn. Hann hefur kynnt fyrir mér alls konar tónlist.“

Grímur átti fyrir soninn Emil sem er núna 25 ára en Snærós, dóttir Helgu Völu, er 28 ára. Þá eiga hjónin saman Ástu Júlíu sem er 19 ára og Arnald sem er 17 ára. Snærós á tvö börn og tvö stjúpbörn. „Þannig að það eru fjögur barnabörn. Þetta er lífið! Ítölsk stórfjölskylda! Ég vil helst að allir búi bara hérna rétt hjá mér og séu hér í kring en maður þarf að taka tillit til þarfa fólks; sumir elska endalausa afskiptasemi en aðrir hafa minna gaman af því.“
Helga Vala fer í líkamsrækt nokkrum sinnu í viku og mætir um klukkan sex á morgnana. Það er mikið að gera en hún er samt að spá í að fara í kvöldskóla í Tækniskólanum í haust og læra húsasmíðar af því að hún hefur smíðað ýmislegt en langar til þess að læra það. „Ég vona að ég geti þetta en þetta er enn þá á draumastiginu. Þetta kallar á hressandi skipulag.“

Helga Vala segist vera hamingjusöm og segir að lykilinn að lífshamingjunni sé að skilja ekki ágreiningsmálin eftir. „Það þarf að mæta þeim og klára þau. Lífið er ekki alltaf dans á rósum, sem er auðvitað algjör mótsögn því það getur ekki verið þægilegt að dansa á rósum, en þetta er lífið og á því þroskumst við. Við megum stundum vera sorgmædd og stundum verðum við fyrir vonbrigðum með okkur sjálf eða aðra. Stundum lendum við í ástarsorg og það er hluti af lífinu og við komum sterkari út úr svona reynslu. Ég held að ef maður nær að tækla vonbrigði einhvern veginn þá geri það mann sterkari og að betri manneskju. Lífsreynsla mín hefur bætt mig og gert mig víðsýnni. Hún hefur líka orðið mér til góðs í störfum mínum bæði í lögmennskunni og á Alþingi. Þannig breytir maður erfiðri reynslu í styrkleika.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -