Jacqueline Guðgeirsson eða Lína eins og hún er kölluð, er ein fjölmargra kvenna sem hafa þurft að bíða í von og óvon eftir niðurstöðum krabbameinsskimana í fjölda mánaða. Hún er meðlimur í Facebook hópnum Aðför að heilsu kvenna sem nú telur 18.200 meðlimi en þar koma saman konur og segja frá sinni reynslu af krabbameinsskimunum.
Lina, sem býr á Egilsstöðum, fékk að vita eftir sýnatöku að hún væri með svokallaða HPV veiru, sem gæti bent til krabbameins, og þurfti að bíða marga mánuði eftir því að fá lokaniðustöðu. Í næstum ár leið henni hræðilega í erfiðri og langri bið.
„Staðan er hræðileg og síðustu tíu mánuði leið mér ekki vel. Ég var reið og kvíðin og ráðlaus. Loksins er ég nú nýbúinn að fara í keiluskurð á Akureyri. Þetta er óþolandi ástand og við íslenskar konur eigum skilið betri þjónustu,“ segir Lína.
Í stuttu spjalli við Mannlíf sagðist Lína búast við niðurstöðu úr keiluskurðinum í næstu eða þarnæstu viku. Hún segir að læknirinn sé mjög bjartsýnn. Aðspurð segist Lina vera enn mjög ósátt varðandi biðina eftir niðurstöðum skimana og meðhöndlun á konum hér á landi hvað varðar heilsu þeirra.
Nýlega var tilkynnt að rannsóknir vegna leghálsskimana verði fluttar heim en Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins sagði í viðtali við RÚV í júní að það væri raunhæft að Landspítalinn taki að sér rannsóknirnar enda hafi landlæknir gefið út gott yfirlit yfir hvernig megi tryggja best gæði og öryggi við skimanir.