Leikkonan, söngkonan og fyrrverandi Disney-stjarnan Alyson Stoner skrifar einlægan pistil á heimasíðu Teen Vogue um kynhneigð sína.
Alyson segist ekki vilja skilgreina kynhneigð sína, en að hún dragist jafnt að körlum, konum og fólki sem ekki skilgreinir kynhneigð sína. Í pistlinum skrifar hún einnig um fyrsta skiptið sem hún hreifst af konu. Alyson var boðið í dansvinnubúðir og varð strax mjög hrifin af kennaranum, sem var kona.
„Eftir að mig svimaði við að snúa mér kom hún til mín til að leiðrétta líkamsstöðu mína. Hjarta mitt sló ótt og títt og mér varð heitt. Var ég óstyrk að mistakast fyrir framan atvinnumanninn? Var ég móð því ég var ekki í formi? Brosið hennar var það rafmagnaðasta sem ég hafði nokkurn tímann séð,” skrifar Alyson. Hún bætir við að hún hafi fljótlega skilið að þessar tilfinningar væru ekki platónskar.
„Ég fattaði að mér hafði aldrei liðið svona um karlmann, né hafði mér liðið vel að deita stráka. Þegar ég spái í því þá horfði ég meira á líkama kvenna.”
Dæmi um sanna ást
Alyson byrjaði að eyða meiri tíma með kennaranum fyrrnefnda.
„Hún og ég byrjuðum að hanga saman og senda hvor annarri skilaboð á morgnana. Síðan elduðum við saman og horfðum á Orange is the New Black. Síðan pústuðum við og studdum hvor aðra. Svo kúrðum við. Síðan kysstumst við og kysstumst meira. Ókei, við vorum í sambandi. Ég varð ástfangin af konu,” skrifar hún.
Alyson skrifar í pistlinum að hún hafi reynt að afneita þessum tilfinningum, aðallega út af fordómum í garð hinsegin fólks. Hún skrifar jafnframt að henni hafi aldrei liðið jafn mikið sem sitt sanna sjálf eins og í sambandi með kennaranum.
„Hún styrkti mig og veitti mér innblástur og bjó til pláss fyrir mig að uppgötva sjálfa mig án þess að dæma. Við vorum dæmi um sanna ást,” skrifar Alyson, en pistilinn í heild sinni má lesa á vefsíðu Teen Vogue.