Föstudagur 22. nóvember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

„Ég veit að bróðir minn hefði gert það sama fyrir mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta eru langir dagar og maður er óneitanlega örþreyttur. Ég er búinn að vera hérna í tvær vikur en líður stundum eins og það séu tveir mánuðir,“ segir Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar Jónssonar sem hvarf sporlaust í Dublin að morgni dags þann 9. febrúar síðastliðinn.

Þegar blaðamaður nær í Davíð Karl að kvöldi þriðjudagsins 26. febrúar er hann að undirbúa að skreppa heim í nokkra daga en það verður þó væntanlega ekki lengi. „Ég þarf að fara aðeins heim og hitta börnin mín og ganga frá málum varðandi vinnuna þar sem maður er búinn að ýta öllu til hliðar. En þetta er staðan, það er ekkert sem skiptir máli í stóra samhenginu, maður gerir bara það sem þarf að gera.“

Tók tíma að átta sig

Davíð Karl segir fjölskyldan sé stór og samhent og að slíkt skipti miklu máli á stundum sem þessum. „Við höfum verið mörg hérna saman að vinna að því að finna Jón og ég get ekki ímyndað mér hvernig það væri ef við værum ekki svona mörg og samheldin. Það væri alveg hræðilegt því þetta er nú nógu erfitt eins og er.“

Aðspurður um hvernig aðkoma hans að hvarfi bróður síns hafi verið frá upphafi segir Davíð Karl að hann hafi fyrst heyrt í Jönu (Kristjönu Guðjónsdóttur, kærustu Jóns) um hádegi sunnudaginn 10. febrúar.

„Ég heyrði frá Jönu þegar hún hringdi í mig og lét mig vita að Jón hefði ekki skilað sér upp á hótel í um sólarhring. Þá var hún búin að hafa samband við lögreglu og láta vita um stöðuna en fyrst þegar maður fær svona fréttir nær maður í raun ekki almennilega utan um þær. Ég var einn heima með börnunum mínum þegar þetta gerðist og í raun var ég fyrst alveg viss um að hann mundi bara skila sér. En svo fór að líða á daginn og kvöldið og maður fór að ókyrrast eftir því sem á leið og ég neita því ekki að þá fór ákveðin hræðsla að grípa um sig. Eftir svefnlitla nótt var ég svo farinn að átta mig á því að þetta væri alvarlegt.“

Ég var einn heima með börnunum mínum þegar þetta gerðist og í raun var ég fyrst alveg viss um að hann mundi bara skila sér.

Davíð Karl segir að í framhaldinu hafi fjölskyldan farið að huga að því að komast til Dublin og fyrsta flug sem þau hafi náð hafi verið næsta þriðjudagsmorgun. „Þá fórum við, ég og Katrín konan mín, ásamt Daníel bróður mínum og unnustu hans en Þórunn systir okkar kom svo daginn eftir beint frá Spáni. Mamma, Kristinn bróðir og Anna systir okkar og fleira gott fólk var svo að tínast út eftir því sem leið á vikuna.“

- Auglýsing -

Heldur að þetta tengist ekki tapinu

Davíð Karl segir að lögreglan hafi beðið eftir þeim ásamt Jönu á hótelinu til þess að setja þau inn í stöðuna og fara yfir næstu skref. „Á þessum tíma var aðallega verið að safna saman upptökum úr eftirlitsmyndavélum og reyna að átta sig á ferðum Jóns. Næsti dagur fór líka mikið til í að hitta lögreglumennina og reyna að veita þeim allar þær upplýsingar sem þeir óskuðu eftir. Þeir vildu vita sem mest um Jón, hugarástand hans og persónuleika og það fór talsverður tími í þetta. En þegar fór að líða á miðvikudaginn og okkur fannst lítið þokast í leitinni fórum við fjölskyldan að leggja grunn að einhverjum róttækum aðgerðum. Í framhaldinu settum við upp leitarkort og byrjuðum sjálf að leita.“

Jón tók þátt í pókermóti en fór aldrei út af hótelinu. Hann hafði ekki áður komið til Dublin, þekkti engan hér svo vitað sé og hafði engin tengsl við nokkurn mann í borginni

Eitt af því sem horft hefur verið til við leitina að Jóni er að átta sig á öllum hans ferðum í aðdraganda þess að hann hvarf og þar á meðal kvöldið áður, þegar Jana unnusta hans var enn ekki komin til borgarinnar. Davíð Karl segir að bróðir hans hafi aldrei farið út af hótelinu áður en hann hvarf. „Líklega lagði hann sig um daginn, og um kvöldið fór hann niður á pókerstaðinn í kjallara hótelsins og var þar að spila eitthvað fram eftir nóttu. Jón tók þátt í pókermóti en fór aldrei út af hótelinu. Hann hafði ekki áður komið til Dublin, þekkti engan hér svo vitað sé og hafði engin tengsl við nokkurn mann í borginni.“

- Auglýsing -

Nú hefur komið fram í fjölmiðlum að Jón hafi tapað talsverðum fjármunum þarna um nóttina en Davíð Karl segir að það sé ekkert sem hefði slegið Jón út af laginu. „Jón býr heima á Íslandi og hefur atvinnu af því að keyra leigubíl sem gengur vel en hans áhugamál er að spila póker. Jón er þannig gerður að hann lætur fátt, ef nokkuð, slá sig út af laginu, hann er jákvæður og lausnamiðaður.

Jón veit fyrir víst að þegar eitthvað bjátar á eða kemur upp á þá stöndum við saman.

Vissulega gerðist það að hann tapaði einhverjum peningum en það var ekki slík upphæð að það hefði komið honum alvarlega úr jafnvægi. Við fjölskyldan erum líka náin og samheldin og Jón veit fyrir víst að þegar eitthvað bjátar á eða kemur upp á þá stöndum við saman. Ef þetta er eitthvað sem hefði komið illa við hann þá veit ég að hann hefði haft samband og því hefði verið bjargað. Ég held því að tapið þarna um nóttina tengist ekki þessu máli.“

Hann sé einfaldlega ekki þannig

Þegar Jón Þröstur fór af hótelinu að morgni laugardagsins var hann með á sér bæði peninga og kort en skildi eftir síma og vegabréf.

„Við vitum að síminn var ekki í lagi því Jón fékk að hringja í Jönu úr síma starfsmanns á hótelinu þarna um nóttina. Það er heldur ekkert óeðlilegt við að skilja vegabréfið eftir og eins skildi hann veskið eftir en var að öllum líkindum með einhvern pening á sér ásamt debetkorti en hann er hins vegar ekki skráður fyrir kreditkorti. Peningarnir sem hann var mögulega með á sér, sem er ekki staðfest, voru í mesta lagi þúsund evrur en að öllum líkindum mun minna. Þannig að þetta var ekkert til að framfleyta sér á í lengri tíma hér í Dublin því þetta er ekki ódýr borg.“

Aðspurður um hvað hafi farið á milli Jóns Þrastar og Jönu unnustu hans um morguninn þegar hún kom á hótelið segist Davíð Karl ekki vita til þess að það hafi verið annað en allt í góðu. „Jana vakti hann þegar hún kom á hótelið og það voru einhver orðaskipti á milli þeirra en ég veit ekki til þess að það hafi verið nein læti. Það var að minnsta kosti ekkert sem hefði slegið Jón út af laginu. En síðan fór Jana í sturtu og svo niður í kaffi og þegar hún kom til baka var Jón horfinn.

Fjölskylda Jóns Þrastar Jónssonar sem hvarf sporlaust í Dublin að morgni 9. febrúar síðastliðinn unnir sér ekki hvíldar í leitinni. Mynd / Hallur Karlsson

Hvort hann hefur ætlað að skreppa í göngutúr eða ná sér morgunmat eða hvað, það einfaldlega vitum við ekki og það er erfitt að ná utan um þetta. Þau komu bæði hingað til þess að spila póker og það var allt uppi á borðinu þannig að ég get ekki ímyndað mér að það hafi orðið til þess að hann fór og hvað þá að hann gerði eitthvað heimskulegt. Hann er einfaldlega ekki þannig.“

Davíð Karl leggur áherslu á að bróðir hans sé ábyrgur einstaklingur sem sinni sínu fólki vel og hafi alltaf gert. „Hann er tveggja barna faðir og Jana unnusta hans á tvö börn sem hann sinnir eins og þau væru hans eigin. Þetta er ábyrgur maður sem sinnir sinni vinnu og þegar hann er að keyra fram eftir lætur hann alltaf vita ef honum seinkar. Við Jón erum í sambandi daglega vegna vinnu og traustari maður er vandfundinn.“

„Mitt markmið að finna bróður minn“

Aðspurður hvort fjölskylda Jóns Þrastar hafi í gegnum tíðina haft áhyggjur af þeim möguleika að bróðir hans glími við spilafíkn segist Davíð Karl ekki vera sérfræðingur í þeim efnum. „Sjálfur spila ég ekki póker og þekki ekki mikið til þessa heims. En ég veit fyrir víst að Jón spilar ekki önnur fjárhættuspil og að hann hefur alla tíð verið opinskár um þetta. Hann segir fólki alveg frá því að hann spili og þetta hefur alltaf verið fyrst og fremst áhugamál. Kannski lítur hann einfaldlega á þetta sem íþrótt eins og margir gera.

Þetta með spilafíknina er því matsatriði og eflaust færðu mismunandi svör eftir því hvern þú spyrð.

En það er erfitt fyrir mig að vera að dæma um þetta. Ég veit bara að hann var ekki í einhverjum peningavandræðum út af þessu. Þetta með spilafíknina er því matsatriði og eflaust færðu mismunandi svör eftir því hvern þú spyrð. Það eina sem ég get sagt fyrir víst er að skuldastaðan var ekki til vandræða og andlegt atgervi Jóns eins og best verður á kosið.“

Aðspurður hvort hann viti til þess að Jóni hafi verið einhvern tímann verið hótað vegna spilaskulda segist Davíð Karl ekki vita til þess. Eins bendir hann á að það sem Jón kann að hafa tapað kvöldið áður hafi ekki verið annað en hluti af eðlilegum sveiflum hjá pókerspilara. „Ég vísa líka til þess að þegar Jana kom á hótelið var hann sofandi og fólk sem er í miklu uppnámi liggur nú tæpast og sefur í friði og ró. Fyrir mér er það afar ólíklegur aðdragandi að því að hlaupa svo út og vinna sér mögulega mein eða vera með einhverja ógn yfir sér og auk þess er maðurinn ekki fundinn enn. Ég er ekki það barnalegur að gera mér ekki grein fyrir því að það getur ýmislegt hafa gerst. En ég er hér með mitt markmið sem er fyrst og fremst að finna bróður minn.“

Ætla að halda áfram sjálf

Þegar talið berst að störfum lögreglunnar í Dublin og hvernig þar hefur verið haldið á málinu segir Davíð Karl að heilt yfir sé fjölskyldan sátt við hennar störf. „Þeir eru í góðu sambandi við okkur, alltaf til taks þegar við leitum til þeirra og hafa reglulega samband til þess að greina frá framvindu málsins. Það eina sem við höfum haft út á að setja er að þar sem gagnaöflun er mjög tímafrek hafa þeir ekki viljað senda út sérþjálfaða björgunarsveit til þess að leita að Jóni.

Eitthvað sem yrði gert strax heima á Íslandi. Í staðinn er verið að afla gagna skref fyrir skref og vinna úr þeim og það tekur mikinn tíma. Okkur finnst því óneitanlega frústrerandi að ekki skuli vera farið af stað með dróna og hunda og sérþjálfaða leitarmenn eins og við erum vön heima en þar sem það er ekki boði höfum við tekið það á okkur. Mér finnst það djöfullegt, ef ég á að segja eins og er, en ég veit samt ekki hversu mikið eða hvort ég get gagnrýnt lögregluna því ég er líka að mörgu leyti ánægður með störf hennar.“

Okkur finnst því óneitanlega frústrerandi að ekki skuli vera farið af stað með dróna og hunda og sérþjálfaða leitarmenn eins og við erum vön heima en þar sem það er ekki boði höfum við tekið það á okkur.

Aðspurður um næstu skref segir Davíð Karl að lögreglan sé núna að vinna úr þeim gögnum sem hefur verið aflað að undanförnu. „Við upphaf leitarinnar hafði samband við okkur reyndur björgunarsveitarmaður sem hjálpaði til við að setja upp kort út frá því hvar Jón sást, persónuleikagreiningu og fleiri atriði. Þetta er gríðarlega stórt kort og út frá því byrjuðum við að leita skipulega og hengja upp um 5000 veggspjöld um alla borg.

Auk þess hafði samband við okkur írsk fjölskylda og bauð fram aðstoð og þau hafa reynst okkur ákaflega vel. Eins erum við mjög þakklát öllum þeim fjölda sjálfboðaliða sem leituðu með okkur síðastliðinn laugardag, en það voru um 85 Írar auk Íslendinganna. Og staðan núna er að það er verið að vinna úr þeim gögnum og ábendingum sem þessi leit og sjónvarpsþátturinn sem við fórum í síðastliðinn föstudag skiluðu til lögreglunnar. Við ætlum núna að gefa þessu miðvikudaginn og aðeins að kasta mæðinni og sjá hvað lögreglan hefur að segja í framhaldinu.

En ef þessar ábendingar skila engu ætlum við að skipuleggja aðra leit og halda áfram að leita sjálf. Það er mikill hugur í sjálfboðaliðum hér að hjálpa okkur áfram og ef kemur til þess að við þurfum að fara aftur af stað og leita þá á ég jafnvel von á enn fleira fólki.“

Verður að hreinsa hausinn

Davíð Karl segir að við leitina að Jóni hafi þau lagt mikla áherslu á að vera eins sýnileg og þau mögulega gætu. „Við höfum talað við ótrúlegan fjölda fólks, erum klædd í boli með myndum af Jóni, búin að hengja upp öll þessi veggspjöld og koma mikið fram í fjölmiðlum.

„Það er vart sá maður hér í Dublin sem veit ekki hver við erum en okkur hefur verið gríðarlega vel tekið af heimamönnum. Við erum mjög þakklát fyrir alla þá hjálp sem við höfum fengið og þann hlýhug sem okkur hefur verið sýndur. Þetta gefur okkur mikinn kraft og mikla von. Þetta fólk er komið til okkar klukkan átta á morgnana og rífur okkur af stað og hjálpar okkur í gegnum hvern daginn á fætur öðrum.

Það er vart sá maður hér í Dublin sem veit ekki hver við erum en okkur hefur verið gríðarlega vel tekið af heimamönnum.

Það hefur í raun verið lífsbreytandi reynsla að kynnast öllu þessu góða fólki, velvild þess, dugnaði og kærleika. Við eigum því mikið að þakka í öllu þessu ferli. Þetta yndislega fólk er með sama markmið og við fjölskyldan og það er að finna Jón og klára þetta mál.“

Aðspurður um hvort vonin lifi enn í honum og hans fólki segir Davíð Karl að vissulega geri hún það. „Maður er á fullu frá morgni til kvölds alla daga og gefur sér vart tíma til þess að anda, í þeim gír getur maður aðeins gleymt stöðunni eins og hún er í raun og veru. En ef maður staldrar við þá hellist yfir mann sorgin og hræðslan um hvað hefur orðið um Jón. En þar sem maður veit ekki hver staðan er þá verður maður bara að hreinsa hausinn og halda áfram þangað til hann er fundinn. Þegar það gerist þá tekst maður á við það hvernig sem það fer. Ég veit að bróðir minn hefði gert það sama fyrir mig.“r

Sjá einnig nýtt viðtal við barnsmóður Jóns Þrastar: „Vináttan er okkur mikils virði“

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -