Ég vinn á 21. hæð, í opnu rými í 23 hæða byggingu. Þegar ég geng inn í bygginguna fer ég alltaf að vinstri lyftunni, en það eru tvær lyftur í byggingunni.
Á hverjum morgni stend ég fyrir framan lyftuna og bíð eftir einhverjum sem er á leiðinni upp, því einhverra hluta vegna finnst mér óþægilegt að fara inn í lyftuna ein. Ég bíð þá bara þolinmóð eftir næstu lyftu. Um leið og dyrnar opnast fer ég inn og kem mér fyrir, aftast í lyftunni þó svo að flestir reyni það líka. Aftast í lyftunni get ég nefnilega fylgst með öllum. Ég passa mig alltaf á því að ýta aldrei á hæð 21 heldur bíð ég eftir því að einhver annar geri það. Ef enginn fer út á 21. hæð þá er ég í lyftunni þar til að einhver ýtir á hæðina mína. Þessi þráhyggja er að fara með mig, en ég eyði óþarfa miklum tíma í að flakka á milli hæða þangað til einhver fer út á sömu hæð. Allir snúa sér í átt að dyrunum. Það gengur inn og muldrar lágt; góðan daginn, og tekur svo upp farsímann.
Það veitir mér enginn athygli en ég þekki þau öll. Ég fylgist með hnakkanum, hálsinum og þá sérstaklega farsímaskjánum þeirra. Ég hef verið að leika mér með að flokka fólkið sem kemur í lyftuna niður í þrjá flokka: óáhugavert fólk, áhugavert fólk og svo eru það herramennirnir. Þeir eru nokkrir herramennirnir sem taka lyftuna og þeir sem gera það, eru eins og rokkstjörnur turnsins. Ég veit að þessar hugsanir eru ekki réttar, en ég kemst ekki hjá því að fylgjast með fólkinu. Forvitnin er að fara með mig. Kári á 6. hæð er t.d. nýbúinn að skipta um ilmvatn. Rúnar á 2. hæð er að ganga í gegnum skilnað. Matti á 13. hæð er í megrun, en uppáhaldið mitt er hann Lárus. Lárus er meðalhár, svolítið fölur á að líta, en með ljósbrúnt hrokkið hár og sérstaklega fallega nærveru. Hann er þögull og ilmar svo vel. Það er auðvelt að finna ilminn þegar maður er í svona litlu lokuðu rými. Lárus vinnur á 21. hæð eins og ég, en að sjálfsögðu hefur hann aldrei tekið eftir mér.
Það rignir mikið þennan mánudag og gólfið í lyftunni er orðið blautt. Ég er komin á 8. hæð og er orðin frekar óþreyjufull að finna einhvern sem er að fara á mína hæð. Í þetta sinn, er ég að gefast upp þegar ég kem auga á hönd sem heldur í hurðina. Það er hann Lárus.
– Ég er orðinn svo seinn útaf rigningunni. Hvaða hæð? spyr Lárus?
– Tuttugusta og fyrsta.
Ég hef fylgst með honum í margar vikur en hann hefur aldrei tekið eftir mér. Hann hallar sér að hliðarveggnum og eins og allir aðrir fer hann beint í símann sinn. Ég nota tækifærið til að fylgjast með því hvað hann er skoða í símanum sínum. Hann lítur virkilega vel út. Hann er með ferskt yfirbragð og falleg brún augu. Lyftan fer af stað hljóðlátlega eins og venjulega, en skyndilega fellur lyftan og ég missi jafnvægið og dett á blautt gólfið. Ég sé að Lárus hefur líka dottið, en við stöndum bæði upp hálfdösuð.
Lyftan heldur svo fljótlega áfram sinn sama gang, en ég tek skyndilega eftir auknum hávaða. Hún stoppar stuttlega á 20. hæð, en heldur svo áfram á 21., 22., 23., þangað til að hún festist loksins 23. hæð. Eftir örlitla stund er eins og lyftan sé að fara enn hærra, hvernig getur það verið. Lárus horfir á mig:
– Það lítur út fyrir að lyftan sé algjörlega orðin stjórnlaus.
– Ég er hrædd um það. Ég heiti annars Viktoría.
– Gaman að hitta þig, ég heiti Lárus.
– Inn um hurðargatið er örlítil ljóstýra. Reynum að opna hurðina.
Lárus og ég tökum hvort í sína hurð lyftunnar. Þú verður að toga fast til að opna nægilega mikið. Úti er hábjartur dagur, en við erum föst hér í ljóslausri lyftu.
Lyftan rís svo allt í einu á ógnarhraða og ljósið verður ákafara og tilfinningin er eins og að falla ofan í mjúk skýin. Skyndilega erum við komin inn í rými fullt af ljósi. Sólin skín og himinninn er blár. Við Lárus sitjum við dyrnar og geislar stjarnanna veita okkur blíða hlýju og fyrir neðan okkur er hafsjór af hvítum skýjum. Ég tek í höndina á Lárusi og hann brosir til mín.
– Viktoría, heldurðu að við séum á leiðinni upp í geim?
– Blár himinninn er að verða dekkri, þangað til að hann verður næstum svartur.
– Í fjarska, sjáum við jörðina.
– Á þessum tímapunkti sjáum við greinilega stjörnurnar.
Skyndilega hægir lyftan á sér og gamla góða þyngdaraflið bregst okkur ekki. Við svífum lárrétt og horfum á hvort annað augliti til auglits. Við höldum í hendurnar á hvort öðru. Hann hlær og ég hlæ. Þvílík tilfinning, þvílík hamingja. Við stöndum upprétt eins og tveir sæhestar í krukku. Ég nálgast Lárus og við skiptumst á löngum, mjög löngum, kossi, augu hans glitra og hjarta mitt slær.
Ánægjan er þó skammvinn því þyngdaraflið dregur okkur niður á jörðina. Lyftan er á leiðinni niður. Við erum þegar farin inn í skýin og skyndilega eykur lyftan hraðann. Við erum að fara frá skærhvítu ljósi yfir í allt grátt. Það dimmir snögglega og það byrjar að rigna inn um dyrnar. Við sjáum jörðina og byggingarnar í fjarska. Við Lárus sitjum kúruð saman. Það er kalt úti.
Það er niðamyrkur. Lyftan vegur eitt tonn og stöðvast mjög, mjög harkalega á jörðinni. Ég loka augunum og þá, án fyrirvara, er alger þögn …
– Halló halló, er allt í lagi …
Ég opna augun.