Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Ég veit ekkert hvort ég myndi ganga í gegnum þetta aftur – eins og ég væri ógeðslega ómerkileg

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Að hafa svona mál hangandi yfir sér í sex ár er ekki auðveld reynsla fyrir unga konu. Sá hún einhvern tímann eftir því að hafa kært?

„Já, algerlega, á meðan á þessu stóð. Maður var bara að endurupplifa alltaf allt þegar einhver hreyfing var á málinu. Maður var alltaf að rifja upp, þannig að ég veit ekkert hvort ég myndi ganga í gegnum þetta allt aftur. Og veit ekki hvort ég myndi mæla með fyrir vinkonu, ef hún myndi lenda í svona, að kæra, miðað við það sem ég lenti í. Ég man bara að mér leið svona eins og ég væri…bara ógeðslega ómerkileg. Að þetta skipti ekki máli,“ segir Þórhalla Bjarnadóttir í viðtali Kveiks.

Mál Þórhöllu Bjarnadóttur er dæmi um flest það sem getur farið úrskeiðis. Hún kærði nauðgun hjá lögreglunni á Suðurnesjum í janúar árið 2015.

„Ef ákallinu um aukin réttindi brotaþola er ekki svarað með betri hætti en kveðið er á um í þessu frumvarpi er hætta á að réttarkerfið detti úr takti við réttarvitund almennings sem getur grafið undan trausti á réttarkerfinu.“

Þetta eru lokaorð Dr. Hildar Fjólu Antonsdóttur, réttarfélagsfræðings í umsögn við frumvarp um breytingu á lögum um meðferð sakamála, þ.e. til að bæta réttarstöðu brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda sem lagt var fyrir Alþingi síðasta vetur. Það var ekki afgreitt þá.

Samkvæmt dómsgögnum virðist sem rannsókn hafi verið lokið eða henni hætt í september sama ár. Málið var samt ekki sent héraðssaksóknara fyrr en ári síðar, í september 2016. Þar beið það í ár til viðbótar fram í október 2017, þegar það var sent aftur til lögreglu, því rannsókninni var ábótavant. Það hafði farist fyrir að taka skýrslu af vitnum Þórhöllu.

- Auglýsing -

 

Lögreglan lauk rannsókninni og sendi málið aftur til héraðssaksóknara í desember. Það var svo fellt niður í febrúar 2018.

 

- Auglýsing -

Þórhalla kærði niðurfellinguna til ríkissaksóknara, enda töldu hún og réttargæslumaður hennar að málið væri það sterkt að það ætti erindi fyrir dóm. Ríkissaksóknari var sammála því og það fór því fyrir héraðsdóm síðla árs 2018. Í febrúar 2019, rúmum fjórum árum eftir brotið, var sakborningur dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar og greiðslu miskabóta.

Málinu lauk þó ekki þar, því hann áfrýjaði til Landsréttar. Það tók tæp tvö ár til viðbótar. Í lok árs 2020, tæpum sex árum eftir að Þórhalla lagði fram kæru, staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms – nema refsingin var að fullu skilorðsbundin. Ástæðan: drátturinn sem varð á meðferð málsins. Ekki væri með neinum hætti hægt að kenna sakborningi um hann.

En hvað er það í réttarkerfinu sem er svona úr takti við réttarvitund almennings? Bæði sérfræðingar og brotaþolar sem hafa beina reynslu af því að fara í gegnum kerfið virðast nokkuð sammála um að það sé í meginatriðum tvennt sem sé einkar íþyngjandi.

Annars vegar er það sá langi tími sem tekur að fá niðurstöðu í mál.

Vissulega er mál Þórhöllu einstaklega slæmt, það er eins og allt hafi lagst á eitt við að draga það á langinn. En staðreyndin er sú að meðalmálsmeðferðartími hjá lögreglu í rannsókn nauðgunarbrota hefur lengst mikið undanfarin ár og var kominn upp í rúma fjórtán mánuði í fyrra. Hann var rúmt hálft ár á árunum 2012-2015 og þær tölur ná reyndar aðeins yfir þau mál sem fóru í ákærumeðferð. Tíminn var enn styttri fyrir þau mál sem ekki voru send áfram.

Hver er ástæða þess að málsmeðferðartíminn hefur lengst svo mjög? Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði segir tvær meginástæður fyrir því. Annars vegar hafi málunum fjölgað mikið en þau séu líka heldur flóknari í rannsókn:

„Það er þannig að flest mál sem við erum með til rannsóknar í kynferðisbrotadeildinni, þau krefjast þess að við séum að sækja rafræn gögn út úr símum eða tölvum og það lengir heldur málsmeðferðartímann  – en gerir það að vísu þannig að það eru oft betri gögn,“ segir Grímur.

Það blasi samt við að það þurfi meiri bjargir. Með því eigi hann ekki bara við að það þurfi fleiri rannsakendur. „Ég er vissulega að tala um þá sem rannsaka málin beint en ég er líka að tala um þá sem sækja hin rafrænu gögn, ég er að tala líka um þjónustusvið embættisins þar sem við fáum mjög mikla þjónustu. Þetta er allt bjargir sem við þurfum að efla og fá meira af,“ segir Grímur Grímsson.

Hitt stóra atriðið sem brotaþolum og sérfræðingum þykir mikilvægt að bæta úr lýtur beint að réttindum brotaþola í kerfinu.

Hildur Fjóla hefur rannsakað málefnið ítarlega og skrifaði greinargerð um leiðir til að styrkja réttarstöðu brotaþola með tillögum að lagabreytingum fyrir stýrihóp forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -