Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

„Ég vil endilega hvetja karla til að prófa að prjóna“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Maður verður nefnilega svolítið háður því að prjóna,“ segir Pétur Oddbergur Heimisson. Hann hvetur karlmenn til að prófa að prjóna.

Pétur Oddbergur Heimisson byrjaði að prjóna af kappi fyrir um 10 árum þegar hann starfaði á Hótel Flatey á Breiðafirði. „Ég vann með nokkrum konum sem voru alltaf prjónandi og það vakti áhuga minn. Þær hjálpuðu mér að rifja upp grunnatriðin og svo gat maður alltaf leitað til þeirra þegar maður lenti í vandræðum,“ segir Pétur sem hefur ekki lagt frá sér prjónana og garnið síðan hann komst upp á lagið með að prjóna.

Aðspurður á hvaða tíma dags hann prjónar helst segir Pétur: „Ég er söngvari og er í námi, þannig að ég er ekki í hefðbundinni 9-5 vinnu. Þess vegna get ég gripið í prjónana oft á dag. Oftast prjóna ég nokkra hringi á morgnanna og svo líka á kvöldin. Maður verður nefnilega svolítið háður því að prjóna, um leið og maður lærir þetta. Svo er hægt prjóna hvar sem er.“

Mynd / Sebastian Ryborg Storgaard

Hann segir prjónaskap fína leið til að ná slökun. „Þetta er mjög góð leið til að slaka á, þegar búið er að læra réttu handtökin. Í upphafi getur þetta nefnilega verið erfitt og reynt verulega á þolinmæðina enda er þetta oft mikil nákvæmnisvinna.“

Pétur segir prjónaskap vera góða leið til að verja frítíma sínum. „Ég hef svolítið tekið Facebook sem dæmi því margir eyða alveg svakalegum tíma á Facebook, jafnvel nokkrum klukkustundum á dag. Þeim tímum væri klárlega betur varið í að prjóna, þar sem úr verður til dæmis peysa, sokkar eða húfa.“

Tugir klukkustunda fara í eina peysu

Peysan Gróa sem Pétur prjónaði á mömmu sína.

Pétur prjónar helst peysur. Spurður út í uppáhaldspeysu sem hann hefur prjónað segir hann: „Peysa sem ég gaf mömmu minni er í uppáhaldi. Ég hannaði munstrið á hana jafnóðum án þess að skrifa það niður og mér fannst það koma mjög vel út. Svo er peysan sem ég hannaði  og gerði fyrir Mottumars líka í uppáhaldi.“

- Auglýsing -

Peysurnar sem hann prjónar gefur hann þá ýmist í jóla- eða afmælisgjafir. Svo gengur hann auðvitað stundum sjálfur í peysu sem hann hefur prjónað og segir það einstaka tilfinningu. „Ég hef gefið flestar peysurnar og svo selt einhverjar. Það er samt svolítið skrítið að margt fólk er ekki tilbúið að borga sanngjarnt verð fyrir prjónaða peysu. Það er eins og margir geri sér ekki grein fyrir vinnunni sem fer í eina peysu, þetta geta verið tugir klukkustunda plús efniskostnaður,“ útskýrir Pétur. Hann leggur áherslu á að það sé svo sannarlega ekki hægt að bera verksmiðjuframleidda peysu við handprjónaða peysu.

Það er eins og margir geri sér ekki grein fyrir vinnunni sem fer í eina peysu.

Hvetur karla til að prófa að prjóna

Pétur segist oft fá jákvæð viðbrögð frá fólki sem sér hann prjóna. „Þegar ég er til dæmis að prjóna í lestinni í Hollandi, þar sem ég er búsettur, þá sé ég að ókunnugir eru svolítið að horfa til mín og brosa, þeim þykir þetta sniðugt. Það er nefnilega sjaldgæft að sjá karla prjóna, því miður. Það er líka þess vegna sem ég hef viljað tala opinskátt um prjónaskapinn og viljað halda prjónakvöld fyrir karla. Ég vil endilega hvetja karla til að prófa að prjóna. Það eru líka örugglega einhverjir ungir strákar þarna úti sem vilja prjóna en þora kannski ekki, þá er ágætt að þeir sjái aðra karlmenn prjóna.“

- Auglýsing -

Hann bætir við: „Ég fæ stundum mikla athygli fyrir að prjóna, eingöngu vegna þess að ég er karlmaður. Það er svolítið spes. Þetta er vegna þess að með tímanum hefur þetta þróast þannig að það eru aðallega konur sem prjóna. Þess vegna er fólk stundum forvitið og hissa að sjá karlmann prjóna. Umræðan er greinilega þörf og frábært að fá tækifæri til að hafa áhrif á hana. Vonandi verður alveg jafn eðlilegt að sjá karlmenn prjóna og konur í náinni framtíð,“ segir Pétur sem hefur velt mýtum í kringum prjónaskap mikið fyrir sér undanfarið.

Umræðan er greinilega þörf og frábært að fá tækifæri til að hafa áhrif á hana.

Pétur hefur prjónað af kappi í 10 ár. Mynd / Sebastian Ryborg Storgaard

Pétur hefur mikinn metnað fyrir prjónaskap og er staðráðinn í að bæta sig með tímanum. „Ég er ekki nærrum því jafn fær og margir í kringum mig. Ég er til dæmis í Facebook-hóp sem heitir Handaóðir prjónarar og þar birtir fólk myndir af alveg svakalegum listaverkum sem það hefur gert. Það veitir manni þvílíkan innblástur og maður vill gera meira.“

Meðfylgjandi eru góð ráð frá Pétri fyrir þá sem hafa áhuga á að byrja að prjóna:

  1. Fáið aðstoð frá vinum og vandamönnum. Flestir þekkja einhvern sem kann að prjóna og getur þá hjálpað við að rifja upp handtökin sem maður lærði í grunnskóla.
  2. Kíkið í handavinnubúðir og fáið aðstoð frá starfsfólki við að velja réttu prjónana og garnið í það stykki sem þið ætlið að prjóna.
  3. Skoðið kennslumyndbönd á YouTube. Þar kennir ýmissa grasa, bæði fyrir byrjendur og lengra komna.
  4. Farið á prjónakvöld sem eru haldin reglulega í hannyrðaverslunum víða um borgina. Þar er hægt að fá aðstoð og innblástur. Svo er auðvitað sniðugt að stofna eigin klúbb með vinum og kunningjum.

Myndir / Sebastian Ryborg Storgaard 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -