Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

„Ég vissi ekki betur en ég væri bólusettur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eiríkur Brynjólfsson var í fríi á Filippseyjum þegar hann smitaðist af mislingum. Óafvitandi um smitið flaug hann heim, kom til landsins með vél Icelandair þann 14. febrúar og fór til Egilsstaða með Air Iceland Connect daginn eftir. Nokkrir af samfarþegum hans smituðust. Hann segist ekki geta áfellst sjálfan sig enda hafi hann talið sig bólusettan og veltir fyrir sér hvað hafi misfarist þegar hann átti með réttu að fá þessar sprautur.

„Ég var í fríi á Filippseyjum í tæpan mánuð, fór þangað til þess að hitta nýja fjölskyldu, dvaldi einkum í Manila en fór í þónokkrar ferðir út frá borginni,“ segir Eiríkur Brynjólfsson en hann veiktist af mislingum í ferðinni. Eins og fram kemur í inngangi ferðaðist Eiríkur heim til Egilsstaða með Icelandair og síðan Air Iceland Connect um miðjan síðasta mánuð og í kjölfarið smituðust fleiri einstaklingar af þessum stórvarasama sjúkdómi. Heilbrigðisyfirvöld hafa brugðist við meðal annars með því að auka til muna aðgengi að bólusetningum og hvetja fólk til þess að kanna hvort það sé bólusett eða ekki.

Máttlaus með blússandi hita

Eiríkur segir að hann hafi ekki kennt sér nokkurs meins þann tíma sem hann dvaldi á Filippseyjum og hann hafi því ótvírætt ekki smitast fyrr en rétt áður en hann fór heim.

„Það var ekki fyrr en ég var á leiðinni heim sem ég fór að finna fyrir slappleika, en það er mikilvægt fyrir fólk að hafa í huga að maður finnur ekki fyrir einkennum á meðan maður er smitberi, en þá byrjar þetta sem svona frekar meinleysislegir vindverkir. Það var reyndar svona öllu meira en maður á venjast, en ég fann að ég var ekkert voðalega hress, án þess þó að vera eitthvað óskaplega veikur. Daginn eftir að ég kom til Íslands var ég þó orðinn enn slappari en grunaði ekki annað en að ég hefði náð mér í einhverja smáflensu, enda hafði ég heyrt að það væri ein slík í umferð.“

Mér fannst ég satt best að segja vera alveg að drepast.

Eiríkur rifjar upp að það hafi svo ekki verið fyrr en daginn eftir að hann kom heim til Egilsstaða sem hafi farið að bera aðeins á útbrotum. „Ég tók fyrst eftir þessu á höndunum á mér, fann að ég var orðinn ansi veikur, enda treysti ég mér ekki lengur til þess að fara út úr húsi. Daginn eftir var ég svo orðinn enn veikari og útbrotin farin að færast í aukana og þá hætti mér nú aðeins að lítast á blikuna. Mér fannst ég satt best að segja vera alveg að drepast, var mjög slæmur í maganum og staulaðist á salernið, en lenti svo bölvuðu basli með að komast aftur til baka inn í rúm. Þannig að ég var orðinn mjög máttlaus og með blússandi hita enda mældist ég með fjörutíu og eins stigs hita sem er víst ansi mikið fyrir fullorðinn mann.“

Eiríkur var greindur með mislinga á sjúkrahúsinu á Norðfirði og var þá strax látinn fara suður í einangrun. Eftir að búið var að senda hann heim komu upp fylgikvillar og hann boðaður rakleiðis suður aftur.

Súrefnisgjöf og einangrun

- Auglýsing -

Eiríkur segir að hann hafi í þessu eymdarlega ástandi haft samband við sína fyrrverandi, enda séu þau góðir vinir, og beðið hana um að kaupa inn fyrir sig þar sem hann treysti sér ekki út úr húsi og allt tómt á heimilinu eftir langa fjarveru.

„Þegar hún kom vorum við svo sammála um að það væri best að ég færi til læknis sem ég og gerði. Læknirinn hlustaði mig og setti mig svo strax í súrefni, enda var ég farinn að anda asnalega, því súrefnisupptakan var lítil og ég farinn að líta út eins og lík. Læknirinn var fyrst viss um að ég væri með lungnabólgu og sendi mig með sjúkrabíl á sjúkrahúsið í Neskaupstað en greiningin var þá ekki komin á hreint. Þegar komið var í Neskaupstað voru læknarnir greinilega aðeins farnir að átta sig á stöðunni og þar var ég strax settur í einangrun.

Fljótlega vað þeim ljóst að þetta væru mögulega mislingar og þá var strax ákveðið að senda mig suður á sjúkrahús, því einangrunaraðstaðan er ekki nægilega góð fyrir austan. Þannig að mér var skutlað aftur út í sjúkrabíl sem brunaði með mig upp á Egilsstaði þar sem mér var komið í sjúkraflug suður. Þetta var bölvað vesen, maður var búinn að vera á þessu mikla ferðalagi og þurfti svo að halda áfram að ferðast og það alveg fárveikur,“ segir Eiríkur og hlær nú aðeins við tilhugsunina þar sem þetta er um garð gengið.

- Auglýsing -

Var ekki bólusettur

Eiríkur lá á sjúkrahúsi í Reykjavík í tæpa viku og hann segir að sjúkdómsgreiningin hafi óneitanlega komið honum á óvart.

„Ég bjóst satt best að segja við því að vera bólusettur fyrir þessu eins og flestir Íslendingar. En þegar ég kannaði þetta kom í ljós að ég var ekki bólusettur. Ástæðan er sú að þegar ég var lítill var pabbi í skóla í Noregi og ég flakkaði mikið á milli landa, var ýmist hjá honum í Noregi eða mömmu á Íslandi. Við það var eins og þetta hefði misfarist. En svo veit ég satt best að segja ekki hvort ég var bólusettur þegar ég var tólf ára eða ekki. Eitthvað virðist þetta í hið minnsta hafa verið aðeins laust í reipnunum á þessum tíma því sumir jafnaldrar mínir hafa verið bólusettir við tólf ára aldurinn en ekki allir.“

….þegar ég var lítill var pabbi í skóla í Noregi og ég flakkaði mikið á milli landa, var ýmist hjá honum í Noregi eða mömmu á Íslandi.

Aðspurður um hvernig hann horfi til þessara mála í dag segir Eiríkur að það græði enginn á því að reyna að finna einhvern sökudólg. „Það kemur engum að gagni. Það er enginn betur settur eftir það, heldur verðum við fyrst og fremst að reyna að gera betur.“

Eiríkur segir að sumir þeirra sem standa honum nærri hafi þurft að bregðast við og þá einkum þeir sem eiga ung börn. „Það voru nokkrir sem þurftu að fara í sjálfskipaða einangrun til þess að vera vissir um að vera ekki smitberar. En málið er líka að þetta er sjúkdómur sem fæst okkar þekkja í dag og því er fólki eðlilega brugðið þegar þetta kemur upp.“

Sá allt í móðu

Eins og Eiríkur bendir á þá er ekki til nein lækning við mislingum og bólusetningin því þeim mun mikilvægari. „Þar sem það er ekki til nein lækning þá fékk ég engin lyf á sjúkrahúsinu en ég var með vökva í æð vegna þess að líkaminn var gjörsamlega uppþornaður. Það voru alveg einhverjir lítrar sem þurfti að dæla í mig og svo þurfti ég reglulega að væta munninn því annars lá tungan þarna skrælnuð við góminn á mér. Þetta var mjög skrítin reynsla.“

Eftir að Eiríkur hafði dvalið á sjúkrahúsi í tæpa viku og var kominn aftur heim til Egilsstaða voru veikindi hans þó enn ekki öll að baki. „Málið er að það er fjöldi eftirkvilla sem getur fylgt því að fá mislinga og þeir geta verið alvarlegir. Mér var því sagt að ég yrði að hringja suður ef ég færi að finna fyrir ákveðnum einkennum. Þar er einkum verið að horfa til þess að það geta myndast slæmar bólgur í heilanum.

Það leynir sér ekki að Eiríkur er rólegur að eðlisfari og viðurkennir að hafa í raun lítið kippt sér upp við mislingasmitið. Mynd / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Þegar ég var kominn austur var ég enn hálfslappur eftir öll þessi veikindi en hélst þó þokkalegur fram á annan dag heima en þá fór ég að sjá allt í móðu. Ég er nærsýnn, þannig að alla jafna sé ég vel það sem er nálægt mér, en á þessum tímapunkti var hreinlega allt í móðu. Það var mjög skrítið að upplifa það.

Þannig að ég hringdi og var þá skipað að koma strax suður sem ég og gerði að sjálfsögðu. En sem betur fer reyndist þetta ekki alvarlegt heldur heldur einhvers konar skemmd sem getur komið á hornhimnuna í kjölfar mislinga. Þannig að ég var sendur aftur heim með augndropa og krem og þetta jafnaði sig á nokkrum dögum.“

Hættan er til staðar

Það leynir sér ekki að Eiríkur er rólegur að eðlisfari og viðurkennir að hafa í raun lítið kippt sér upp við þetta.

„Nei, ég var nú ósköp rólegur yfir þessu. Var heldur ekki að velta fyrir mér hvað fólk hefur verið að segja á samfélagsmiðlum, það er bara eins og það er. Það verður alltaf til fólk sem er tilbúið til þess að kenna öðrum um allt og ekkert og það er ekki til neins að vera að fara á hliðina yfir þannig umræðu. Mér finnst nær að reyna bara að vera frambærileg manneskja og gera sitt besta.“

Aðspurður segist hann ekki finna fyrir samviskubiti yfir því að hafa smitað aðra. „Það er auðvitað mjög leiðinlegt að heyra um smitaða einstaklinga, sérstaklega börn, en ég get ekki áfellst sjálfan mig fyrir það þar sem ég var viss um að ég væri bólusettur fyrir mislingum.“

Hann bendir á að hann hafi áður farið í ferðalög og þá fengið bólusetningar fyrir lifrarbólgu og fleiri sjúkdómum en minnist þess ekki að þetta hafi komið til umræðu. „Það getur vel verið að ég hafi verið spurður, sem ég minnist ekki, en þá hefði ég örugglega sagst vera bólusettur, því ég stóð í þeirri trú. En þegar maður býr í svona litlu landi og fámennu samfélagi þá kannski gerir maður ráð fyrir því að við séum öll á sama stað hvað þetta varðar og er ekkert að velta þessu fyrir sér. Lifir svona í smásjálfsblekkingu með þetta sem er auðvitað ekki gott.

En svo eru auðvitað fleiri sjúkdómar en mislingar sem við verðum að hafa í huga. Eins þurfum við að auka vitund um þessi mál út frá því að hingað sækja sífellt fleiri ferðamenn og það geta auðvitað borist með þeim sjúkdómar. Það segir sig sjálft að það hlýtur að auka hættuna.

En fyrst og fremst finnst mér þó mikilvægt að foreldrar sýni þá ábyrgð að láta bólusetja börnin sín.

Þessi veikindi mín eru vissulega góð áminning til minnar kynslóðar og einnig þeirra sem eldri eru um að fylgjast betur með okkur og vera viss um að hafa þessa hluti í lagi. Það eru auðvitað fleiri en ég sem lifa í þeirri trú að þeir séu bólusettir en eru það svo í raun ekki. En fyrst og fremst finnst mér þó mikilvægt að foreldrar sýni þá ábyrgð að láta bólusetja börnin sín því það er eina raunverulega leiðin til þess að stöðva útbreiðslu þessara sjúkdóma.“

Myndir / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -