Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festis fær 76 milljóna króna starfslokasamning eftir því sem greint er frá í skýrslu stjórnar með nýbirtu árshlutauppgjöri fyrirtækisins.
Mannlíf greindi fyrst fjölmiðla frá því í júní að Eggerti hefði verið rekinn og hafi ekki sjálfur óskað eftir starfslokum eins og fyrirtækið fullyrti í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Brottrekstur hans hefur verið rakinn til stuðnings hans við Vitalíu Lazereva sem ásakaði Þórð Má Jóhannesson, þáverandi stjórnarformann Festar, og Hreggvið Jónsson hluthafa í félaginu um kynferðislegt áreiti. Stjórn félagsins hefur ekki upplýst um raunverulega ástæðu brottrekstrarins.
Eggert hefur verið í hópi farsælustu forstjóra á íslenskum hlutabréfamarkaði og skilað hluthöfum Festis og forvera gríðarlegri ávöxtun undanfarin ár. Fyrirtækið tilkynnti uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung í gær og nam hagnaður Festis 1,3 milljörðum króna á tímabilinu. Auk þess var afkomuspá uppfærð og því ljóst að fyrirtækið mun áfram mala gull, þrátt fyrir hækkandi verðbólgu og yfirvofandi verkföll á íslenskum vinnumarkaði. Fullyrða má að rekstur Festis hafa aldrei verið eins sterkur og um þessar mundir.
Þrátt fyrir að Eggert hafi malað gull fyrir eigendur sínar árum saman, var hann rekinn. Nú liggur fyrir að starfslokasamningur hans var 76 milljónir króna. Eggert hefur verið í hópi launahæstu forstjóra landsins og ætla má að ákvæði í ráðningasamningi hans hafi kveðið á um 12 mánaða laun, auk orlofs ef miðað er við uppgefin laun forstjórans. Stjórn fyrirtækisins segir í skýrslu með uppgjörinu að Festi sé nú á krossgötum eftir farsælt tímabil undanfarinna ára. Nú blasi við nýjar áskoranir og leitað sé að nýjum forstjóra.