Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Egill hefur ekki náð öllum markmiðum sínum: „Og ég geri mér ljóst að tíminn er óðum að styttast“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einn fremsti listamaður okkar Íslendinga, Egill Ólafsson, var undir Stækkunargleri Mannlífs í vikunni. Hann þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, þjóðin hefur fengið að njóta sköpunargáfu og tónlistarhæfileika hans frá árinu 1975. En það var þá sem Egill gerði garðinn frægan ásamt hljómsveitum sínum Spilverki þjóðanna og Stuðmönnum, síðar einnig í Hinum íslenzka Þursaflokki.

Það var á svipuðum tíma sem Egill steig sín fyrstu skref innan leikhússins, en ófá leikritin hefur hann prýtt síðan, sem og kvikmyndir, erlendar og innlendar, þætti, áramótaskaup og fleira.

En Egill leikur ekki bara og syngur, heldur hefur hann einnig samið urmul tónlistarverka fyrir bæði leikhús, kvikmyndir og þær hljómsveitir sem hann hefur verið í.
Mannlíf komst að því að Egill telur sig hafa færri kosti en lesti, hann segir engin endimörk vera á vandræðagangi sínum og mottó hans er; ekki búast við neinu, þannig verða aldrei nein vonbrigði.

Egill Ólafsson

Fjölskylduhagir? Bý með Tinnu Gunnlaugsdóttur, leikara, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóra, þýðingafræðingi og doktorsnema. Við eigum þrjú börn, Ólaf, leikara, leikstjóra og handritshöfundur, Gunnlaug, fyrrverandi dansari hjá konunglega ballettinum í Svíþjóð, nýútskrifaður verkfræðingur í þrívídd (3D) og Ellen Erla, snyrtifræðingur og húsmóðir.

Svo eru það tengdabörnin þrjú; Esther Talia Casey, Gunnur von Matérn og Anton Kristinn – og svo rúsínurnar sex, barnabörnin; Ragnheiði Eyju, Egil, Thor, Tinnu Vigdísi, Amý Herdísi, Anton Egil – sem eru ávísun á eilífðar merki – allt saman frábærir einstaklingar sem erfa löndin.

Menntun/atvinna? Stundaði nám í Tónlistarskóla á árunum 1970 – 76, hef tekið þátt í fjölda “Master-classes“ eftir það og námskeiða, bæði í söng og tónsmíðum. Ég hef starfað við músík og leikhús, kvikmyndir frá 1976 – 2020, en er hættur – eða svo gott sem. 

- Auglýsing -

Leikari? Rúrik Haraldsson – en af þeim sem lifa vil ég nefna Michael Gambon.

Rithöfundur? Hugo, Brecht (sem ljóðskáld), Pessoa, Shakespear (sem ljóðskáld, ástarsonnetturnar allar með tölu).

Bók eða bíó? Lifandilífslækur, eftir Bergsvein Birgisson og  The Book Of Disquiet F. Pessoa – hin margverðlaunaða danska mynd Dryk eftir Thomas Vinterberg og svo er það og verður ætíð Amarcord eftir Fellini.

- Auglýsing -

Besti matur? Allur matur sem Tinna eða strákarnir mínir útbúa, hún hvatti þá til dáða og þeir launa það með því að vera móðurbetrungar í matargerð – allt er einnig gott hjá mömmu, Margréti Erlu og hún er ennþá flínk í matargerðinni að verða 90 ára.
Dóttir mín Ellen Erla, hefur líka þessa gáfu að kunna að matbúa, alveg upp úr sér eins og stundum er sagt svo ósmekklega þegar matargerð á í hlut.

Kók eða Pepsí? HVORUGT – ég hef aldrei verið hrifinn að gosi, ja, nema ef vera skyldi Póló – drykkurinn með gervikjörnunum frá Sanitas. PÓLÓ (fæst hann enn?) – Póló-tímabilið var stutt frá 8-12 ára. Þetta var eini drykkurinn sem fékkst í Framheimilinu í gamla daga.

Fallegasti staðurinn? Dyrafjörður í hauststillu eða Dýrafjörður.

Hvað er skemmtilegt? Þegar það er gaman – þá er gjarnan skemmtilegt, en án leiðinda getur aldrei neitt orðið skemmtilegt.

Hvað er leiðinlegt? Rétt áður en allt verður skemmtilegt – þarf að hafa gengið á með leiðindum, annars verður aldrei gaman, hvað þá skemmtilegt.
Þetta eru gömul og ný sannindi, eiginlega hálfgert SANN-YNDI!

Hvaða flokkur? Kata er fín og eins þykir mér Svandís Svavars fín, en þær eru ekki í réttum flokki – ég held líka upp á Þorgerði Katrínu Gunnars og hennar flokk, Viðreisn.
Ég hef trú á konum – þær eiga að stjórna, þeim fer valdið betur.
Við eigum að ganga í bandalag fleiri þjóða og taka upp gjaldmiðil sem tilheyrir stærra hagkerfi en okkar, þannig náum við afli.

Stórefla samstarf okkar í tækni, vísindum, menningu og öðru þarflegu við aðrar þjóðir – ganga til liðs í stað þess að halda að allt sé best og mest hjá okkur, sem elur á einangrunarstefnu, sjálfbirgingshætti og minnimáttarkennd – þannig verðum við utanveltu í hagsæld og eðlilegri framvindu samfélaga.
Landamæri eru forneskja og að þykjast eiga tiltekið land, við höfum aðgengi að  þessari jarðarkúlu, sameiginlegt aðgengi og ættum að sameinast um að gera hana að betri stað á hverjum degi  –  þaö er það þýðingarmesta að gera í stöðunni dag, loftlagsvá, pestir og fátækt til að vinna bug á þessu þurfum við að sameinast öll sem eitt.

Hvaða skemmtistaður? Heimilið – það sem flýtur og eins hitt sem stendur á bjarginu.

Kostir? Færri en lestirnir, e.t.v. þeir að ég er enn að reyna að vinna á göllunum

Lestir? Fleiri en kostirnir, menn eru ótrúlega fastheldnir á gamla siði/lesti. Og þegar við eldumst er mikilvægt að vera í það minnsta meðvitaður um þá (sem ég er að reyna að vera).

Hver er fyndinn? Sá sem segir ómengaðan sannleika – og dregur ekkert undan. Í reynd er maðurinn í öllu sínu innsta eðli, sprenghlægilegur.

Hver er leiðinlegur? Sá sem er laus við að skilja eigið innsta eðli – sér þess vegna ekki sjálfan sig – ja, nema e.t.v. í rósrauðum bjarma sjálfslyginnar.

Trúir þú á drauga?  Já, drauginn í sjálfum mér – sem er fólskulegt fyrirbæri – en flesta daga vikunnar er ég gegnum góður (ég er auðvitað einn um þá skoðun).

Stærsta augnablikið? Fæðing hvers og eins.  Þá hef ég þá trú að eftir langt og farsælt líf hljóti dauðinn að teljast hástig lífsins. Næst stærsta augnablikið, að verða ástfanginn, sem væri sjálfsagt ekki á dagskrá okkar mannanna ef við værum ódauðleg – þarf ég að segja meira?

Mestu vonbrigðin? Mitt mottó er; ekki búast við neinu, þannig verða aldrei nein vonbrigði – ég hef þar á ofan haft lánið og lukkuna mín megin – þó ólánið eltist við mennina sínkt og heilagt, þá leikur lánið einnig við okkur, það þykir flestum sjálfsagt og hafa það síður á orði en lánleysið –  lánið ættum við að þakka fyrir á hverjum degi.

Hver er draumurinn? Margir hafa ræst – draumurinn er að fá að sjá öll barnabörnin mannast, komast til vits og ára – eða m.ö.o. að ég fái fáein ár til, ekki allt of mörg þó.

Mesta afrek sem þú hefur unnið á þessu ári? Að horfast í augu við þann sem ég held að ég sé og reyna að ná sáttum við þann náunga.

Ertu búinn að ná öllum þínum markmiðum? Nei, það er langur vegur frá og ég geri mér ljóst að tíminn er óðum að styttast – ég tel mig vinna markvisst í þeim efnum þessa dagana, það er aldrei of seint.

Manstu eftir einhverjum brandara?  Sá sem verður ástfanginn er fyrst og fremst skotinn í hugmyndinni um „sjálfan sig verðandi ástfanginn“. Þetta þykir mér fyndið, það er í það minnsta heilmikið til í þessu – maðurinn er sjálfhverfasta dýrið.

Vandræðalegasta augnablikið? Það eru engin endimörk á mínum vandræðagangi – en með tímanum hefur mér tekist að fela það – þar sannast hið fornkveðna, sá einn þekkir sjálfan sig sem kann að forðast að vera hann sjálfur.

Sorglegasta stundin? Að horfa upp á dóttur mína tapa áttum – og á móti sá óendanlegi fögnuður þegar hún náði að fóta sig á ný og breyta um lífsstíl – fyrir það þakka ég á hverjum degi– þar telur einn dagur í senn.

Mesta gleðin? Að sjá börnin mín fullorðnast og takast á við lífið, sem hefur tekist hjá þeim öllum, býsna vel – þökk sé forsjóninni.

Mikilvægast í lífinu? Sættu sjálfan þig við sjálfan þig – það er erfið sáttaumleitun, en þegar og ef það tekst, er ég sannfærður um að viðkomandi hvíli fullkomlega í öllu því sem hann vill vera og ekki síður því sem hann vill forðast að vera – sem getur verið, eins og fyrr er sagt; „að vera betri útgáfan af því sjálfi sem þú vilt vera”  Það er einfalt að segja það og skrifa – en hitt er mun flóknara að lifa það – en hver sagði að lífið væri létt og leikandi?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -