Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Egypska fjölskyldan í felum – Vinir snúa baki við forsætisráðherra

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég bara veit það ekki. Ég er að reyna að komast að því,“ segir Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Ríkislögreglustjóra, aðspurður hvort egypska fjölskyldan sé farin úr landi. Sema Erla Serdar, vinur fjölskyldunnar, segist ekki hafa náð sambandi við fjölskylduna frá því í gær því slökkt sé á farsíma þeirra. Lögmaður fjölskyldunnar hefur sömu sögu að segja. Enginn hefur því getað staðfest það sem af er morgni hvort fjölskyldan sé farin af landi brott.

Snemma í morgun átti að sækja Kehdr-fjölskylduna á Ásbrú en það fæst ekki staðfest hjá Ríkislögreglustjóra hvort þau hafi verið sótt og þeim fylgt út á flugvöll. Flugvélin sem fjölskyldan átti að fara með til Amsterdam fór að minnsta kosti í loftið.

Í tilkynningu frá stoðdeild ríkislögreglustjóra segir: „Ekki var unnt að framkvæma frávísun egypskrar fjölskyldu frá landinu sem fara átti fram í morgun. Fólkið var ekki á fyrirfram ákveðnum stað þar stoðdeild hugðist fylgja þeim úr landi. Ekki er vitað um dvalarstað fólksins. Málið er áfram á borði stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Ekki er verða veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.“

Vinir snúa baki við Katrínu

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, segist sjá innilega eftir því að hafa lagt nafn sitt við að Katrín Jakobsdóttir yrði forsætisráðherra. Hann heimilaði notkun nafns síns í auglýsingu fyrir síðustu kosningar þar sem kallað var eftir því að Katrín fengi þá stöðu. Nokkur styrr hefur staðið um Katrínu vegna boðaðar brotvísunar fjögurra barna fjölskyldu frá Egyptalandi. Þau hafa dvalið á Íslandi í ríflega tvö ár.

Eiríkur segist miður sín yfir þessu. „Fyrir tæpum þremur árum heimilaði ég að nafn mitt væri sett undir heilsíðuauglýsingu í dagblöðum þar sem stóð: „Við teljum að Katrín Jakobsdóttir sé best til þess fallin að veita nýrri ríkisstjórn forystu.“ Þetta gerði ég þrátt fyrir að ég kysi ekki flokk hennar, en ég meinti þetta – ég hafði þekkt Katrínu í rúm 20 ár og veit að hún er ótrúlega klár, dugleg, skipuleg og skemmtileg. Og góð manneskja,“ skrifar Eiríkur á Facebook.

Eiríkur Rögnvaldsson ásamt Vigdísi Finnbogadóttur.

Hann ítrekar að hann hafi ekki kosið Vinstri græna. „Það olli mér miklum vonbrigðum að hún skyldi kjósa að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum en ég kaus ekki flokkinn hennar og kom svo sem ekkert við hvernig stjórn hún myndaði. Og þrátt fyrir að vera ósáttur við aðgerðir – og aðgerðaleysi – ríkisstjórnar hennar í ýmsum málum finnst mér hún á margan hátt hafa staðið sig vel sem forsætisráðherra,“ segir Eiríkur.

- Auglýsing -

Hann segir brottvísun fjölskyldunnar ekki það versta, heldur viðbrögðin. „Þangað til núna. Að hún skuli ekki stöðva brottvísun fólks EFTIR AÐ hafa sagt að það hafi verið ómannúðlegt hversu langan tíma málið hefur tekið, heldur beita orðhengilshætti í svörum við spurningum, er ófyrirgefanlegt. Því að auðvitað gat hún stöðvað þetta ef hún vildi, og ég trúði því einlæglega þangað til núna að hún myndi gera það. Vonbrigði mín eru ósegjanlega mikil.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -